Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 17:35:41 (2650)

1996-12-20 17:35:41# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[17:35]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna var í sjálfu sér ekkert á svörum hæstv. ráðherra að græða. Ég hygg að vandinn sé sá að menn verði að una því að ríkisstjórnin bíði með það mál fram yfir áramót. Það er bersýnilega ekki búið að leysa þá deilu sem er á milli stjórnarflokkanna í þeim efnum og það er greinilegt að menn ætla að taka sér einhvern tíma í viðbót að reyna að leysa hana. Það sýnist allt stefna í að breytingarnar á reglum um lánasjóðinn taki ekki gildi fyrr en frá og með haustinu 1997. Það sýnist einnig vera þannig að ef farin verður sú leið sem hæstv. menntmrh. leggur mikla áherslu á, a.m.k. líka, að breyta endurgreiðslunum, þá verði að breyta endurgreiðslunum aftur í tímann. Það verði að breyta endurgreiðslunum í lánasjóðinn alveg aftur til ársins 1992, vegna þess að það er ekki hægt að hugsa sér það, það er bersýnilega ósanngjarnt, að þeir námsmenn sem hafa fengið lán 1992--1997 búi við miklu verri kjör en þeir sem fengu lán á undan eða þeir sem fengu lán á eftir.

Varðandi hins vegar Kennaraháskólann þá þakka ég hæstv. menntmrh. fyrir svörin og spyr hann hvort hann geri ráð fyrir því að þetta frv. um uppeldisháskóla komi fyrir þingið í vetur.