Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 17:37:57 (2652)

1996-12-20 17:37:57# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[17:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru tvær fyrirspurnir. Í fyrsta lagi vil ég segja að um hækkun á bótum almannatrygginga og öðrum bótum að ég get það eitt sagt á þessari stundu, að verði launahækkanir almennt hærri en nemur verðlagshækkunum, og reyndar má gera ráð fyrir að svo verði, þá er tilefni til þess að endurskoða greiðslur almannatryggingabótanna. Ég held að hv. þm. hljóti að skilja að það er erfitt fyrir mig á þessari stundu þegar ekkert er vitað um kjarasamninga að svara þessu öðruvísi en svo að það sé ástæða til þess að skoða málin þegar samningar liggja fyrir.

Það sem gerir okkur erfitt fyrir er að hugsanlega verða þeir sem standa að samningum frá launamannahlið ekki samferða í næstu samningum eins og svo oft hefur verið á undanförnum árum.

Í öðru lagi varðandi skatttekjur, þá hygg ég að það sé út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. að það hefði verið bókhaldslega a.m.k. áferðarfallegra að sýna brúttótölur og síðan draga frá og finna nettótölur á tekjuhlið eins og hann bendir á. Ég get auðvitað ekki svarað til um það hér hvort það fari í bága við lög. Mér hefur ekki verið bent á það og mér fannst lestur hv. þm. ekki staðfesta að hér væri um lögbrot að ræða, enda veit hv. þm. sem er mjög vel að sér í bókhaldi ríkisins og í ríkisreikningi að margoft gerist það við fjárlagaafgreiðslu að tekið er tillit til áætlaðra breytinga á lögum og reglum. Meira að segja hefur það margoft gerst að fjárlög hafa verið afgreidd áður en lög, sem eru beinlínis lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum og tilheyra í raun og veru fjárlögunum, hafa verið afgreidd og stundum auðvitað með slæmum árangri. Þetta veit hv. þm. og það er hægt að rifja upp fjölmörg dæmi.

Aðalatriði málsins er að það komi mjög skýrt fram í forsendum talnanna á hverju þær byggjast. Þær byggjast auðvitað á gildandi lögum og áætluðum breytingum á lögum og reglugerðum sem snerta þessar áætluðu tekjutölur. Ég minni á að þetta gerist líka gjaldamegin. Eitt dæmi hefur hv. þm. verið að nefna í ræðum sínum og það er áætlaður útgjaldaauki Lánasjóðs ísl. námsmanna sem ekki er séð á þessari stundu hvort muni byggjast á lagabreytingu eða reglugerðarbreytingu. Það er gjaldamegin. Í raun og veru er ómögulegt að sýna það með góðu móti því að eins og hann var rétt að segja hér áðan, þá liggur ekki fyrir, a.m.k. ekki fyrir þinginu, nákvæmlega hvernig það verður gert.

Ég held, virðulegi forseti, að hér sé ekki um lögbrot að ræða. Það sem skiptir máli er að tölurnar bæði gjaldamegin og tekjumegin í þessu frv. byggjast á gildandi lögum, á forsendum sem er skýrðar og á hugmyndum um breytingar á reglugerð og lögum sem verða á næsta ári. Og ég tel að það sé rétt aðferð. Aðalatriðið er þó að gera sér grein fyrir því að áætlanir bæði gjalda- og tekjumegin eru áætlanir og byggja á forsendum sem þekktar eru. Því miður er ekki hægt í stuttu andsvari að fara nánar út í þessa sálma, en það er vissulega ærið tilefni, sem ég veit að hv. þm. skilur og við erum sammála um, að ræða þessi mál þegar fjárreiðufrv. kemur því að það er kominn tími til að breyta framsetningu og uppsetningu fjárlaga.