Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 17:46:32 (2655)

1996-12-20 17:46:32# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[17:46]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hæstv. fjmrh. er að vitna til kemur þessu máli ekki við. Af hverju? Af því að menn hafa verið m.a. undir hans forustu á undanförnum árum að bæta vinnubrögð við fjárlagagerð. Menn eru að reyna að loka fjárlagadæminu með lagasetningu m.a. fyrir jól, svo að segja 100% þannig að hlutirnir liggi skýrir fyrir. Og það er meira að segja notað sem rök með frv. um raforkuvirki að afgreiða þurfi það af því að þar séu 7 millj. handa ríkissjóði á næsta ári. Svo nákvæmir upp á millimetra vilja menn vera nema með þessar 1.000 milljónir sem hann ætlar að fela. (Fjmrh.: 800.) 800 eða 1.000 millj. Það liggur öðruvísi og ég er alveg sannfærður um að ef hæstv. ráðherra skoðar þessi mál af sanngirni og í rólegheitum, þá kemst hann að þeirri niðurstöðu að það er rangt hjá honum að færa þetta svona. Það er hættulegt fordæmi vegna þess að óvandaðri menn en hann gætu komist að hlutunum og er ég þó ekki að saka hann um að hann gangi með óvönduðum hætti um sín verk.