Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 17:52:05 (2659)

1996-12-20 17:52:05# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[17:52]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að flytja langa ræðu við 3. umr. fjárlaga. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir er fulltrúi okkar kvennalistakvenna í fjárln. og hefur komið sjónarmiðum okkar kvennalistakvenna á framfæri við þessa umræðu, svo og hinar fyrri um fjárlög næsta árs.

Markmið mitt að sinni er fyrst og fremst að gera grein fyrir fjórum nýjum brtt. sem við kvennalistakonur leggjum fram við 3. umr. á þskj. 470--473. Allar þessar tillögur eru á sviði menntamála og hafa það markmið að efla kennaramenntun og skólastarf með sérstakri áherslu á nýjungar, þróunarstarf og námsefnisgerð í stærðfræði og raungreinum.

Í kjölfar alþjóðlegu TIMSS-rannsóknarinnar um árangur grunnskólabarna í raungreinum og stærðfræði hafa komið fram sterk viðbrögð meðal þjóðarinnar sem vill greinilega bregðast við af mikilli festu.

Þær fjórar brtt. sem við kvennalistakonur leggjum fram hafa það markmið að bregðast þegar við með markvissum aðgerðum. Ég vil í stuttu máli, herra forseti, gera grein fyrir brtt.

Á þskj. 470 er tillaga þar sem lagt er til að framlag til Kennaraháskóla Íslands, kennslu, verði aukið um 3 millj. Í grg. með tillögunni segir svo:

,,Lagt er til að Kennaraháskóla Íslands verði gert kleift að lengja kennaranám til BEd-prófs við skólann frá og með næsta hausti úr þremur árum í fjögur ár. Gert er ráð fyrir að aðalkostnaðurinn verði eftir þrjú ár við kennslu eins viðbótarárgangs með 130 nemendum. Kennslukostnaður er áætlaður 55 millj. kr. og kostnaður við kennsluhúsnæði 130 millj. kr. Þær 3 millj. kr. sem hér er gerð tillaga um eru til skipulagningar námsins á fyrsta ári en hún þarf að fara fram fyrir næsta haust. Gert er ráð fyrir að fjórða námsárið verði 15 einingar í valgrein og 15 einingar í kjarnagreinum grunnskólans, eins og ætlunin var þegar þessu fjórða ári var frestað með lögum. Í kjölfar TIMSS-rannsóknarinnar um árangur skólabarna í raungreinum og stærðfræði hafa bæði Kennarasamtökin og nemar í KHÍ hvatt til lengingar BEd-námsins í fjögur ár.``

Þessar upplýsingar og tölur sem koma fram í grg. eru fengnar beint frá rektor Kennaraháskóla Íslands og það er ljóst að hann mundi hvetja mjög til að kennaranámið yrði lengt í fjögur ár.

Næsta tillaga sem við leggjum til er um tengt efni, en ég ætla að gera næst grein fyrir tillögu sem er á þskj. 473. Þar er lagt til að aukið verði fé aftur til Kennaraháskóla Íslands, til endurmenntunar og féð verði aukið um 6,1 millj., úr 18,9 millj. og upphæðin fari í 25 millj. Í grg. segir:

,,Í kjölfar TIMSS-rannsóknarinnar um árangur skólabarna í raungreinum og stærðfræði er lagt til að átak verði gert í endurmenntun starfandi grunnskólakennara á þessum sviðum. Átakið hefjist þegar á næsta ári en standi í nokkur ár.``

Hér er verið að leggja áherslu á að gera þarf átak í að mennta og endurmennta og styrkja menntun starfandi kennara auk þess sem tekið er á grunnmenntun og í þeim tilgangi er þessi tillaga lögð fram.

Næst er það brtt. á þskj. 471 en þar leggjum við til að auknar verði fjárveitingar til framhaldsskólanna almennt undir liðnum 116 Nýjungar í skólastarfi. Sú upphæð verði aukin úr 13,3 millj. í 25 eða um 11,7 millj. kr. Í grg. segir:

,,Í kjölfar TIMSS-rannsóknarinnar um árangur skólabarna í raungreinum og stærðfræði er lagt til að átak verði gert í framhaldsskólum á sviði raungreina. Hér er lögð til aukning á fjárframlagi til liðarins Nýjungar í skólastarfi, m.a. til Þróunarsjóðs framhaldsskólans, sbr. 45. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Æskilegt er að þessi viðbót, 11,7 millj. kr., verði notuð til átaks á sviði raungreina, m.a. með styrkveitingum úr Þróunarsjóði framhaldsskólans.``

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið úr menntmrn. mun Þróunarsjóði framhaldsskólans, sem mér er reyndar ekki kunnugt um að sé tekinn til starfa, vera ætlað fjármagn undir þessum fjárlagalið og það er þess vegna sem ég tengi þróunarsjóðinn og nýjungar í skólastarfi saman undir þeim lið. Ég tel að mjög myndarleg ráðstefna sem nýlega var haldin hjá kennurum í raungreinum sýni að mikill áhugi og kraftur er hjá raungreinakennurum að taka sig á og það var alveg upplagt að hefja feril þróunarsjóðsins með því að gera þetta svið að sérstöku átaksverkefni fyrstu árin. En hér er lögð til aukning til þessa liðar með þá hugsun að baki að a.m.k hluti þessa fjármagns fari til raungreinastarfs, nýjunga á því sviði. Þar getur auðvitað margt komið til m.a. að fá hingað til lands erlenda sérfræðinga til að halda námskeið eða til að hvetja til nýjunga í einstökum þróunarskólum eða hvernig sem það yrði útfært.

Á þskj. 472 er fjórða tillagan, aftur til liðarins Framhaldsskólar almennt, liðar 118, Námsefnisgerð. Við leggjum til að sá liður verði hækkaður um 11,5 millj. eða úr 13,5 millj. í 25. Í grg. segir segir:

[18:00]

,,Í kjölfar TIMSS-rannsóknarinnar um árangur skólabarna í raungreinum og stærðfræði er lagt til að sérstakt átak verði gert til að bæta námsefni á sviði stærðfræði og raungreina í grunn- og framhaldsskólum. Lagt er til að Námsgagnastofnun fái framlag til átaksins í grunnskólum ``--- samanber tillögu okkar sem lögð var fram við 2. umr. og hefur þegar verið gerð grein fyrir, en hún er á þskj. 445 ---`` en hér er gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið fái sérstakt framlag til átaksins í framhaldsskólum. Til greina kemur að veita styrki til þýðinga eða frumsamningar námsefnis eftir því sem menntamálaráðuneyti og fagfólki á þessu sviði þykir þurfa.``

Þetta er, herra forseti, kjarninn í þessum breytingartillögum sem hér eru lagðar til. Ég vil vegna umræðunnar fyrr í dag benda á að það þykir kannski óábyrgt við 3. umr. að koma með viðbótartillögu til útgjalda án þess að benda á hvar eigi að taka féð. En því er til að svara að þó við kvennalistakonur séum vissulega sammála því meginmarkmiði að skila beri hallalausum fjárlögum þá er alveg ljóst að það markmið mun nást jafnvel þó að forsendur meiri hlutans séu viðurkenndar. Eins og fram kom í máli minni hluta fjárln. þá er mjög líklegt talið að tekjuhlið ríkissjóðs sé verulega vanáætluð fyrir næsta ár þannig að tekjurnar geti orðið yfir milljarð hærri. Það er því með góðri samvisku sem þessar fjórar tillögur eru lagðar fram þar sem farið er fram á alls 32,4 milljónir kr. til að gera átak í raungreinakennslu og stærðfræðikennslu á næsta ári og til að efla menntun grunnskólakennara. Sumar þjóðir og ýmsir hagfræðingar hafa reyndar lagt á það áherslu og haft þá stefnu að fjárfesting í menntun sé svo mikilvæg að hún geti skilað meiri árangri til framtíðar en hallalaus fjárlög. Því legg ég þunga áherslu á að a.m.k. hluti þessara tillagna hljóti náð fyrir hæstv. Alþingi. Og fyrst hæstv. menntmrh. er í salnum þá vona ég að hann sé sammála því að þessar tillögur séu sanngjarnar og ekki síst tillagan um að það mun einungis kosta 3 milljónir á næsta ári að geta komið á laggirnar fjögurra ára námsbraut, þ.e. að taka ákvörðun varðandi þá námsbraut strax næsta haust. Á þskj. 469 er önnur tillaga um sama efni frá hv. þm. Svavari Gestssyni þar sem gert er ráð fyrir 20 millj. kr. hækkun í þessu skyni. Við kvennalistakonur munum að sjálfsögðu styðja þá tillögu því ekki veitir af meira fé til að efla kennaramenntunina, ekki síst endurmenntunina, en samkvæmt upplýsingum frá rektor Kennaraháskólans þá munu 3 milljónir duga á næsta ári til þess að lengja BEd-námið í fjögur ár frá og með haustinu 1997. Og ég vil benda á að það er mjög brýnt að þessi ákvörðun sé tekin því jafnvel þó við hefjum þetta lengda fjögurra ára BEd-nám á næsta hausti þá er það ekki fyrr en vorið 2001 sem fyrstu kennararnir með fjögurra ára BEd-próf mundu útskrifast.

Á það skal minnst að lokum að í TIMSS-könnuninni, sem margoft hefur verið vitnað í, kemur mjög skýrt fram að velflest lönd eru með fjögurra ára kennaramenntun og að slíkt var lögbundið hér árið 1988 en framkvæmdum var frestað af sparnaðarástæðum. Sá sparnaður er allt of dýrkeyptur að okkar mati og ég fullyrði að þær 3 milljónir sem þessi tillaga ein og sér hljóðar upp á, auðvitað með meðfylgjandi pólitískri ákvörðun um að lengja BEd-námið í fjögur ár með tilheyrandi kostnaði í framtíðinni, mun skila sér margfalt til baka.

Að lokum, herra forseti, vil ég vekja athygli á því að þó að hér sé lagt til átak til námsefnisgerðar og þróunarstarfs á sviði raungreina á framhaldsskólastigi þá geri ég ekki tillögu um átak í menntun og endurmenntun framhaldsskólakennara á sviði raungreina og stærðfræði að sinni. Ástæðan er ekki sú að ég telji ekki þörf á slíku átaki í kennaramenntun framhaldsskólakennara heldur fyrst og fremst að ekki liggur fyrir skýr stefnumörkun um það hvernig að slíku átaki skuli staðið af hálfu háskólans og viðkomandi fagfélaga. Því vil ég að lokum hvetja til frekari umræðu og stefnumörkunar á því sviði í framhaldi af áðurnefndri ráðstefnu Félags raungreinakennara um TIMSS-skýrsluna sem sýndi vel að hugur er í framhaldsskólakennurum að þessu leyti. Ég tel að eðlilegast sé að menntmrn. eigi frumkvæði að slíku átaki. TIMSS-rannsóknin náði einnig til nemenda framhaldsskólanna en þær niðurstöður verða ekki tilbúnar fyrr en á næstu árum. Óháð þeirri útkomu þá tel ég að flestum sé ljóst að margt má betur fara í raungreinakennslu í framhaldsskólum og því er löngu tímabært að taka markvisst á því máli.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þessum fjórum tillögum okkar kvennalistakvenna um að gera átak á sviði raungreina í menntakerfinu. Þetta mál hefur greinilega mjög mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar og vonandi er svo einnig á hv. Alþingi. Þó að þessar tillögur séu gerðar nú er auðvitað mun fleira á sviði menntamála svo og á sviði þjóðmála almennt sem þyrfti að bæta, en rétt þykir að þessi mál hafi forgang að sinni.