Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 19:02:17 (2669)

1996-12-20 19:02:17# 121. lþ. 53.11 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[19:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Í tilefni þeirra orða sem féllu af forsetastóli fyrir örfáum sekúndum, þá vil ég þakka fyrir þá yfirlýsingu hæstv. forseta að ég sé gagnorður og stuttorður og auðvitað vil ég reyna að hafa sem best samstarf við þann ágæta forseta sem nú ræður í þingsölum. En hitt er auðvitað það að umræðan hefur, herra forseti, staðið mjög lengi dags og margt fróðlegt komið fram, ekki hvað síst í þeim síðustu ræðum sem hafa verið haldnar, þannig að ég held að á þessum tímapunkti dags sé engu hægt að lofa um að hér verði haldnar stuttar ræður þó að menn reyni að sönnu að vera gagnorðir.

Herra forseti. Nauðsynlegt er að taka hér ýmis mál og brjóta þau kyrfilega til mergjar. Ég held að sú umræða sem spannst áðan milli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hv. formanns fjárln. kalli á það að menn spyrji rækilega út í tiltekna hluti. Ég er í sjálfu sér ekki mikill áhugamaður um þær fangabúðir sem Framsfl. hyggst einkavæða á næstunni en tek undir það með hv. þm. að það var allt annar skilningur sem menn lögðu í kjörorð Framsfl. --- fólk í fyrirrúmi. Mér sýnist á þessu að þá eigi fangarnir að vera í fyrirrúmi og ætli hv. þm. Jón Kristjánsson endi ekki á því að fara fyrir þeim sem vilja helst bara opna fangelsin. Það er út af fyrir sig ágæt skoðun. Ég minni á að hv. þm. tilheyrir þeim flokki sem líka ól af sér einn skeleggasta fangelsismálaráðherra þessarar aldar, hv. fyrrv. kollega, Jónas frá Hriflu.

Það er ýmislegt sem þessu tengist sem ég vildi gjarnan fá að ræða við hv. formann fjárln. sem hér er til andsvara af hálfu stjórnarliðsins. Ég get auðvitað ekki annað en tekið undir þau varnaðarorð sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lætur sér um munn fara þegar hann er að rekja efni 6. gr. frv. sem hér er undir. Mig rekur sjálfan í rogastans að sjá ákveðin tiltekin ákvæði. Ég hef ekki verið að tefja þingstörf með því að halda langar ræður um fjárlög. Þetta er fyrsta ræðan sem ég held. En ég verð að segja að með engu móti er hægt að fella sig við það að hér renni umyrða- og umræðulítið í gegn ákvæði á borð við þetta sem er á bls. 227 í frv. til fjárlaga og hljóðar svo, með góðu leyfi hæstv. forseta:

,,5.5. Að fella niður eða fresta greiðslum úr ríkissjóði á árinu 1997, m.a. með því að leggja niður tímabundið eða til lengri tíma starfsemi ríkisstofnana, að fengnu samþykki ríkisstjórnar og fjárln. Alþingis.``

Ja, sér er nú hver lýðræðisástin. Er það virkilega þannig að í hverju málinu á fætur öðru ætli hæstv. ríkisstjórn að koma sér hjá að ræða við kjörna fulltrúa fólksins í landinu um afdrifaríkar ákvarðanir. Ég vísa til þess að í gær stóð mikil og hörð umræða um heilbrigðismál. Hvað ræddu menn þar? Stjórnarandstaðan átaldi harðlega valdaframsal sem gert var ráð fyrir að hæstv. heilbrrh. stæði fyrir. Það var ekki bara stjórnarandstaðan sem gagnrýndi þetta heldur eini stjórnarliðinn úr hv. heilbr.- og trn. sem tók til máls. Hann tók enn harðar undir en flestir þeir sem töluðu úr liði stjórnarandstöðunnar í þeirri gagnrýni á ákvæðið. Og hér blasir það líka við að leyfa á ríkisstjórninni að taka við ríkisstjórnarborðið ákvarðanir um að leggja niður starfsemi ríkisstofnana. Hvað felst í þessu, herra forseti? Hvaða skýringu getur hv. þm., formaður fjárln., Jón Kristjánsson, gefið mér á þessu? Felur þetta í sér að hægt sé með einni ákvörðun í ríkisstjórninni að leggja niður starfsemi heilla ríkisstofnana? Ég vek eftirtekt á því að samkvæmt þessari tillögu á ekki að ræða þetta við Alþingi Íslendinga. Það á einungis að fara með þetta inn í fjárln. Alþingis.

Ég hjó hins vegar eftir því að sá mæti maður sem stýrir störfum hv. fjárln., hv. þm. Jón Kristjánsson, orðaði það svo, að hann teldi að ef til slíkra ákvarðana kæmi yrðu þær bornar undir þingið. Það var hv. þm. Jón Kristjánsson sem orðaði það svo: ,,Það er minn skilningur að ef slíkar ákvarðanir koma til umræðu í fjárlaganefnd Alþingis, þá eru þær líka teknar til umræðu í þinginu.``

Ég get ekki túlkað þessi orð öðruvísi en svo, að sá sem fer fyrir stjórnarliðinu í þessari umræðu sé að lýsa því yfir að engar slíkar ákvarðanir verði teknar nema að undangenginni umræðu. Og ef þetta er rangur skilningur hjá mér þá vænti ég þess að hv. þm., formaður fjárln., komi hér upp og geri skýra grein fyrir því. Ef hann gerir það ekki verð ég að líta svo á að í þessu felist að slíkar ákvarðanir sem ríkisstjórnin tekur við sitt borð verði ekki framkvæmdar, verði ekki fullnustaðar fyrr en Alþingi hefur fengið tóm til að ræða þær. Í trausti þess að það sé skilningur hv. formanns fjárl. þá ætla ég ekki að ræða þetta tiltekna atriði lengur þó að það sé sannarlega efni til langrar umræðu.

Herra forseti. Eitt af því sem hefur vakið athygli í umræðunni, eitt af því sem er sérstakt við hana, eitt af því sem er öðruvísi en í fyrri fjárlagaumræðum síðustu ára eru þær atlögur sem tilteknir þingmenn í liði stjórnarinnar hafa gert að þeim meiri hluta sem fer með völd í Reykjavík. Hér hefur aftur og aftur á síðustu dögum og síðustu vikum úr þessum stóli verið farið mjög gagnrýnum orðum um störf meiri hlutans í Reykjavíkurborg. Og látið er að því liggja að þau störf kunni að eiga sök á mikilli þenslu í þjóðfélaginu. Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að fara nokkrum orðum um þetta. Ég er hér að ræða um þau orð sem hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur aftur og aftur haft uppi í þingsölum. Hann hefur haldið því fram að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem nú er til umræðu í borginni, muni leiða til þess að hér verði þensla og verðbólga í samfélaginu. Ég get ekki annað en gagnrýnt þetta harðlega. Ég verð líka að benda á það að þegar stjórnarliðið vill koma svona athugasemdum á framfæri við sveitarfélögin þá er sérstakur samráðsvettvangur milli ríkisins og þeirra, sem er beinlínis gerður til að koma slíkum hugmyndum og slíkum aðfinnslum á framfæri.

Spádómar Þjóðhagsstofnunar um mikla þenslu á næstu árum kunna að vera á rökum reistir. Við skulum vona að það verði af þeim álversframkvæmdum á Grundartanga og þeim virkjunarframkvæmdum sem þeim tengjast, sem menn hafa verið að ræða um á síðustu missirum. En þó að góðar vonir liggi til þess þá hafa engar ákvarðanir um það verið teknar enn þá. Þess vegna er ekki hægt að tala um að sérstök þenslan sé hafin á Reykjavíkursvæðinu. Hvar mundi hún koma fram? Hún mundi koma fram á markaðnum sjálfum. Hún mundi t.d. koma fram á útboðsmarkaði í Reykjavík. Það vill svo til að hv. þm. Sturla Böðvarsson, sem ég hef hrósað í ræðum mínum fyrr í dag, ef til vill umfram það sem hann verðskuldar, ég skal ekkert um það segja, en hann er mjög vel heima í öllu því sem tengist rekstri sveitarfélaga. Hann veit t.d. að ef það væri þannig að þensla væri hafin að einhverju marki, ef það væri kominn vísir að henni mundi það koma fram í þeim útboðum sem borgin hefur staðið fyrir á allra síðustu mánuðum. En það hefur ekki komið fram í þeim, það er alveg klárt.

Ég vil líka, svo allrar sanngirni sé gætt á öllum hliðum þessa máls, láta það koma fram að í bréfi, sem borgarstjóri og fyrrv. kollegi okkar úr þessum sölum, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, skrifaði þingmönnum Reykjavíkur kemur fram að ef ber á því að framkvæmdir borgarinnar séu líklegar til að auka þenslu á svæðinu, þá muni Reykjavíkurborg endurskoða framkvæmdaáætlun sína. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Komi hið gagnstæða í ljós þegar líða tekur á næsta ár er sjálfgefið að Reykjavíkurborg mun endurskoða framkvæmdaáætlanir sínar.``

Þetta held ég að sé nauðsynlegt að hv. þm. Sturla Böðvarsson geri sér skýra grein fyrir og ég vænti þess, jafnskynugur og sá ágæti þingmaður er, að þetta verði til þess að hann muni hugsa sig um tvisvar næst þegar hann ætlar að leggja í þann ágæta meiri hluta sem stýrir Reykjavíkurborg, vegna þess að ég veit að þó að hann tilheyri stjórnarliðinu er hann í eðli sínu sanngjarn maður eins og hann á kyn til.

En ég hlýt líka að gagnrýna það að þó að hv. þm. og varaformaður fjárln. hafi ekki beinlínis notað þessi orð sín og umvandanir við meiri hlutann í Reykjavík til að réttlæta niðurskurð á Reykjavíkursvæðinu, þá hefur það eigi að síður verið gert af hálfu stjórnarliðsins. Og ekki er hægt annað en gagnrýna mjög harðlega hvernig fjárln. og stjórnarliðið hyggst standa að samdrætti til að mynda í vegaframkvæmdum. Það er alveg ljóst að þeir hafa nú ákveðið að draga saman og skera niður vegaframkvæmdir sem nema 240 millj. kr. og langstærsti hluti þess er á Reykjavíkursvæðinu. Auðvitað var það svo að undanfari þessa mikla niðurskurðar á Reykjavíkursvæðinu var það plógfar sem hv. þm. Sturla Böðvarsson dró í hinum pólitíska jarðvegi. Hann var að undirbyggja þann niðurskurð með því að halda því fram að framkvæmdir Reykjavíkurborgar væru að skapa einhverja sérstaka þenslu á Reykjavíkursvæðinu og þess vegna gæti stjórnarliðið dregið miklu meira úr vegaframkvæmdum á suðvesturhorninu en annars staðar. Ég viðurkenni að þetta er pólitísk hugsun. Þetta kunna að vera klókindi en þetta er bara ekki rétt. Það ber ekkert á þenslu á suðvesturhorninu. Ef svo væri, herra forseti, mundum við ekki sjá þess stað til að mynda í atvinnuleysistölum? Ég hygg það. Sjáum við þess stað í atvinnuleysistölum? Nei, því miður. Atvinnuleysi er ekkert að minnka hér. Getum við ekki orðið sammála um að ef það væri að minnka, þá mundi draga úr atvinnuleysinu? Og eigum við ekki að spara okkur stóru orðin þangað til það kemur í ljós? Ég vek sérstaka eftirtekt á því að ég hef vandað hér um við hv. þm. Sturlu Böðvarsson. Ég hef ekki sagt að hann hafi verið með árásir en ég hef sagt að hann hafi verið með umvandanir sem stappa nærri tilhæfulitlum atlögum að ég hygg.

Það sem er auðvitað enn verra að því er mér finnst er hvernig þeim sparnaði í vegaframkvæmdum í Reykjavík er varið. Það er verið að fresta framkvæmdum sem eru afskaplega mikilvægar í Ártúnsbrekku, sem hv. varaformaður fjárln. notar í hvert einasta skipti eða flest skipti sem hann ekur bifreið sinni til og frá sínu kjördæmi og hingað að borginni. Það er verið að fresta sérstaklega hér um 108 millj. kr., í Mosfellsbæ um 69 millj. kr. Þetta er langstærsti hluti niðurskurðarins. Hvað á að gera við þetta, herra forseti? Því er ekki skynsamlega varið tel ég. Og ég held að það sé ekki réttsýni sem ræður þessu. Ég get ekki fallist á það. Þessum peningum er varið í að lækka skuldir flóabáta. Mér finnst þetta röng aðferð og mér finnst ekki hægt að nauðsynlegum framkvæmdum á suðvesturhorninu, í höfuðborginni sé frestað til að lækka skuldir flóabáta. Úr því vandamáli verður hv. fjárln. að ráða með öðru móti.

Það er ýmislegt gott að finna í fjárlagafrv. og margt ber að lofa þar. Ég tek undir með þeim sem segja að merkilegt sé miðað við umræður seinni ára um menningarmál að enginn skuli a.m.k. taka fram að lofsvert sé hjá fjárln. og hjá hæstv. ríkisstjórn að hafa hækkað framlög til þjóðþrifastarfsemi á borð við Kvikmyndasjóð. Framlögin eru hækkuð um 25 millj. og það ber að lofa. Ég er þakklátur fyrir það. Mér finnst það líka vera gott hjá stjórnarliðinu að hækka framlög til Þjóðarbókhlöðunnar. Þau hækka um 27 millj. á þessu ári, 15 millj. er varið til aukins rekstrar, 12 millj. er varið til að hækka þann lið sem fer til ritkaupa. Þetta er allt saman mjög gott. En við megum ekki gleyma því samt sem áður að þarna er að finna arfleifðina og við höfum meiri skyldur gagnvart henni en flestu öðru í þjóðfélaginu. Það er ekki nóg að reisa falleg og vel byggð hús í kringum arfleifðina ef arfleifðin sjálf grotnar niður innan veggjanna. Það er nákvæmlega það sem liggur fyrir núna. Það hefur komið fram hjá þeim mönnum sem helst þekkja þetta mál að menningararfleifð Íslendinga liggur undir skemmdum, sér í lagi sá hluti hennar sem er varðveittur í Þjóðarbókhlöðunni, í handritadeild Landsbókasafns -- Háskólabókasafns. Þar er að finna pappírshandrit frá síðari öldum sem eru vegna breytinga á tækni miður gerð en eldri pappírshandrit. Það er daufara blek og endingarminni pappír. Þessi skjöl liggja undir skemmdum. Hæstv. menntmrh. hlustaði á ræður um þetta í gær, lét sér að vísu ekki fátt um finnast. Hann tók fram að hann hefði áhyggjur af málinu. En hvað er gert í málinu? Það er ekkert gert. Eigi að síður held ég að það væri gríðarlega góð fjárfesting sem að vísu væri erfitt að mæla í krónum og aurum ef fjármagn væri sett í það að manna þá fullbúnu viðgerðarstofu sem er að finna í þessari stofnun. Það liggur fyrir að þar er fullbúin stofa með tækjum. Tækniþekkingin er væntanlega fyrir hendi en það vantar mannaflann og ég gagnrýni þetta. En ég geri það af góðum huga og vænti þess að þeir sem fara með völdin í þessu þingi sjái að sér a.m.k. þegar líður fram á næsta ár. Þessi pappírshandrit hafa legið í misgóðum geymslum öldum saman og ég ætla ekki að þau grotni niður á þessu eina ári þó að þarna hafi skynugum hv. þm. fjárln. úr stjórnarliðinu skjöplast talsvert.

Herra forseti. Mér finnst ýmislegt í frv. orka tvímælis og það er eitt sem ég vil sérstaklega ræða vegna forsögu minnar og ýmissa hv. þingmanna stjórnarliðsins í því máli. Það er Sementsverksmiðjan á Akranesi. Ég stýrði því máli í gegnum þingið, ég held 1992, sem þáv. formaður hv. iðnn. þegar Sementsverksmiðjan var gerð að hlutafélagi. Ég lýsti því þá yfir úr þessum stóli að ég mundi ekki taka þátt í að selja þau hlutabréf. Það voru ýmsir sem gerðu það aðrir úr stjórnarliðinu. Ég man ekki betur en ágætur félagi hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, hv. þm. Guðjón Guðmundsson, hafi lýst því nákvæmlega sama yfir. Auðvitað er alltaf hægt að endurskoða ákvarðanir. Það geta alltaf komið nýjar forsendur sem gera það að verkum að það sé í lagi og réttlætanlegt. Hverjar eru nýju forsendurnar þarna? Þær eru þær, að einhverjir strákar úti í bæ, sem eru í nefnd, sem hefur verið starfandi árum saman og heitir einkavæðingarnefnd, eru þeirrar skoðunar að mjög nauðsynlegt sé að einkavæða sem flesta hluti. Og ég tek undir þau orð sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði í umræðunni um Sementsverksmiðjauna. Ríkisvaldið þarf að hafa farveg, opnar leiðir til að geta einkavætt ef þess þarf.

Hvaða nauður rekur okkur til að selja fjórðungshlut í Sementsverksmiðjunni hf.? Það hafa engin svör komið við því. Það væri t.d. hægt að hugsa sér að þingmenn á borð við mig og hv. þm. Guðjón Guðmundsson gætu freistast til að breyta fyrri ákvörðun sinni ef nauðsynlegt væri talið fyrir líf verksmiðjunnar eða væri talið treysta undirstöðu verksmiðjunnar. En er það svo í þessu tilviki? Nei. Það er ekki þannig til að mynda að einhver fjárfestir, t.d. fyrirtæki með tækniþekkingu og hugvit, með annan markaðsaðgang, með öðruvísi vöruþróunarþekkingu sem bíður við múrvegginn eftir því að fá að kaupa hlut til að ávaxta sitt fé þar. Nei, það er enginn slíkur. Það er alls ekki verið að reyna að afla nýrrar þekkingar eða nýs fjármagns inn í fyrirtækið. Fjármagnið sem á að fást fyrir þessa sölu á að renna til að uppfylla einhvern lið í fjárlagafrv. sem varð til með skrifborðsvinnu einhverra drengja uppi í fjmrn. Það var ekkert sérstakt sem lá þarna að baki. Það hefur meira að segja verið sagt að bjóða eigi starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar að kaupa þennan fjórðugshlut, menn sem eru með árstekjur á bilinu frá milljón upp í 1,5 millj. eða eitthvað svoleiðis. Hverjum dettur í hug að þessir menn í fyrsta lagi hafi fjárhagslegt bolmagn til að kaupa hlutinn og hvers vegna ættu þeir að gera það? Hvað er það sem ætti að vaka fyrir þeim? Er það arðsvonin? Ég dreg það í efa, herra forseti.

[19:15]

Ég er líka þeirrar skoðunar að það eigi að vera prinsipp varðandi einkavæðingu, að menn eigi ekki að einkavæða fyrirtæki sem búa við einokun. Nú má auðvitað halda því fram að þetta tiltekna fyrirtæki búi ekki við einokun vegna þess að það er frelsi í þessum geira atvinnulífsins. En við héldum því a.m.k. fram þá, 1992, að fjarlægðarverndin skapaði einokunarstöðu fyrir þessa verksmiðju og nú hygg ég að allir hv. þm. séu svo vel að sér í landrekskenningunni að þeir viti að sú fjarlægð hefur ekkert breyst síðan 1992, ekki nema um einn sentimetra á ári ef jarðfræðin segir rétt frá.

Ég vil gagnrýna þessa aðferð. Ég er ekkert á móti einkavæðingu en mér finnst að þetta sé plataðferð og það sé ekkert sérstakt markmið þarna. Það er bara verið að einkavæða einkavæðingarinnar vegna. Ég er á móti því.

Það sem ég vildi auðvitað ræða hér, herra forseti, í nokkuð ítarlegu en ekki mjög löngu máli, eru heilbrigðismálin. Hér hafa harðastar umræður spunnist um heilbrigðismál þegar ríkisfjármálin hafa verið annars vegar. Við erum nýbúin að setja lög um bandorm ríkisstjórnarinnar þar sem fjölmargar ráðstafanir voru samþykktar til þess að ríkisstjórnin næði þeim markmiðum sem hún hafði sett sér við fjárlagagerðina. Það er hið besta mál. Ríkisstjórn hverju sinni á að ná fram slíkum markmiðum. Í því tilviki sem ég er að ræða hér, heilbrigðismálin, voru markmiðin ljós en aðferðirnar voru mjög óljósar. Og þær aðferðir sem við samþykktum hér í gær voru mjög skrýtnar og það var ekki hægt eftir langa umræðu að draga fram rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að það þyrfti nákvæmlega að fara í þessar aðgerðir til þess að ná fram þeim sparnaði sem hafi verið áætlaður. Einn hv. stjórnarliði gagnrýndi t.d. málsmeðferðina mjög harkalega.

En eitt er þó alveg ljóst. 19. gr. þess frv. sem við samþykktum í gær laut að mjög víðtæku framsali á valdi til hæstv. heilbrrh. til að hún geti sameinað til að mynda sjúkrastofnanir í eigu ríkisins. Það kom fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. að þetta væri nauðsynlegt til þess að ná fram þeim 160 millj. kr. sparnaði sem frv., sem við erum að ræða hér, gerði ráð fyrir að næðist í sjúkrahúsum í dreifbýlinu. Þetta var gagnrýnt harkalegast af stjórnarandstöðunni. Hvers vegna? Vegna þess að enginn dauðlegur maður gat upplýst hvernig ætti að ná þessum sparnaði, enginn. Þess vegna gerðist það auðvitað að þegar fjárln. fór yfir málið og þeir ágætu verkmenn sem þar sitja og stýra vinnu, þá komust þeir að því að það væri ekki hægt að ná þessum 160 millj. kr. sparnaði. Það var skýrt í talsvert ítarlegu máli sem ég hlýddi á hér í dag af hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og hv. þm. Hjálmar Jónsson drap á það líka. Þess vegna fóru menn þá leið að dreifa þessum sparnaði yfir á þrjú ár. Á komandi fjárlagaári á að ná fram 60 millj. kr. sparnaði. Hvernig? Hv. þm. Jón Kristjánsson getur e.t.v. komið hér á eftir og skýrt það fyrir mér.

Hv. þm. Sturla Böðvarsson var hissa á því, eða ég skildi hann þannig eftir andsvör okkar í dag, hann var hissa á því að heilbr.- og trn. hefði ekki gengið fastar eftir því að fá upplýsingar um hvernig átti að ná fram þessum sparnaði. Ég get fullvissað hv. þm. um að það er sennilega fátt sem nefndin lagði jafnmikla vinnu í og einmitt það verk að reyna að draga fram þessar upplýsingar. Þær fengust ekki. Við urðum fyrir nákvæmlega sömu reynslu og hv. fjárln. sem fékk þær ekki heldur. Það var þess vegna sem hún tók þá skynsamlegu ákvörðun að gera ekki ráð fyrir því að þessi sparnaður næðist.

Ég spurði hv. þm. Sturlu Böðvarsson að því hvernig eigi að ná þessum 60 millj. kr. sparnaði. Hann gat ekki svarað því. Hann ræddi að vísu nokkuð um að hann teldi að það væri hægt að ná sparnaði og hagræðingu með því að sameina heilsugæslustöðvar og sameina þær við spítala. Ég er ekki sannfærður um það. Það getur vel verið. Ég er ekki alveg viss um að það sé mjög mikill sparnaður sem þar næst.

Við megum heldur ekki gleyma því að flest þessara sjúkrahúsa draga á eftir sér dálítinn skuldaslóða, bara talsverðan á þeirra mælikvarða og ég held þess vegna að þetta verði mjög erfitt mál. Ég heyrði á máli hv. þm. Hjálmars Jónssonar að hann var með svolítið aðrar pælingar en hv. þm. Sturla Böðvarsson. Hv. þm. Hjálmar Jónsson sagði að það væri nauðsynlegt að sérhæfa þessi landsbyggðarsjúkrahús. Hvað þýðir það? Ætlum við þá að koma upp sérhæfðum sjúkrahúsum vítt og breitt um landsbyggðina? Það getur vel verið að það sé skynsamlegt og eftir því sem hann sagði, þá væri hægt að ráðast á biðlistana og minnka þá. Það er líka skynsamleg hugsun. Þá þýðir það væntanlega að á landsbyggðinni á að setja upp sjúkrahús með fullbúnum skurðstofum sem eiga að ráðast í tilteknar skurðaðgerðir, bæklunaraðgerðir. Hefur þetta verið skoðað í fjárln.? Ég spyr vegna þess að ég fékk ekki þessar upplýsingar hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni þegar ég gekk eftir því hvernig hann teldi að þessum sparnaði mundi náð. Af því að hann er ærlegur maður, þá svaraði hann því líka til að þetta hefði aldrei verið kynnt fyrir fjárln., heldur bara fyrir meiri hlutanum. Og ég spyr hv. þm. Jón Kristjánsson, hann stýrir þessu verki og hefur hlotið hér nokkurt lof af mínum vörum: Eru það boðleg vinnubrögð í jafnumdeildu máli sem hefur rist hvað dýpst í átökum stjórnar og stjórnarandstöðu á þessum síðustu dögum að minni hlutanum séu ekki kynntar slíkar hugmyndir? Eru það boðleg viðbrögð, hv. formaður fjárln., að formaður heilbrn. þurfi að standa hérna dag eftir og dag og rífa sig niður í rass til þess að fá þær upplýsingar sem hann hefur lögboðinn rétt til þess að fá? Er það rétt? Hefði það ekki verið miklu æskilegra að menn hefðu getað lagt þetta fyrir fagnefndina vegna þess að hv. þm. Sturla Böðvarsson sagði með fullum rétti: Hvar eru hugmyndir heilbr.- og trn. sem er fagnefndin? Hvar eru þær? Við höfðum að sjálfsögðu engan fund til þess að ræða málið vegna þess að við fengum engar upplýsingar. Einu upplýsingarnar sem við fengum voru þær að það hefði ekki einu sinni verið haft lögbundið samráð við Landssamband sjúkrahúsa. Og nú skal ég segja ykkur það, ágætu herramenn, að í lögum um heilbrigðisþjónustu segir að ákvarðanir sem teknar eru um starfsumhverfi sjúkrahúsanna megi ekki taka nema eftir þetta samráð. Þetta stendur í lögunum. Það er að vísu búið að breyta þessum lögum, það var gert í gær. En fram að því bar stjórnarliðinu skylda til þess að gera það, en gerði það ekki. Hvers vegna? Vegna þess að vinnubrögðin í þessu tiltekna máli eru afkáraleg og þau eru afleit.

Ég ætla ekki að inna hv. stjórnarliða í fjárln. eftir skoðun þeirra á þessum vinnubrögðum vegna þess að ég veit að þeir geta ekki komið hér upp eðli máls samkvæmt og lýst þeim, en þeir hafa gert það í verkum sínum vegna þess að þeir drógu úr þessum sparnaði. Og þeir hafa sagt það hér í umræðunum í dag að þeir vita ekki hvernig á að ná fram þessum sparnaði.

Ég dreg þetta fram hér, hæstv. forseti, vegna þess að ég er búinn að gagnrýna vinnubrögðin varðandi þetta tiltekna atriði fjárlaganna aftur og aftur í umræðum hér í þinginu. Þetta er lokapunkturinn í þeim umræðum og mér þykir vænt um það að hjá stjórnarliðunum í fjárln. hefur það í rauninni komið fram að þeir eru mér sammála. Ég veit að þeir munu ekki koma hér upp og staðfesta það hér á eftir en þeir höfðu þó manndóm í sér til þess að segja það hreint út: Það er ekki hægt að ná þessum 160 millj. kr. sparnaði. Hafi þeir þökk fyrir þá hreinskilni sem þeir sýndu a.m.k. í orði þó að þeir munu nú líklega ekki viðurkenna það.

Þannig er það að hv. þm. Egill Jónsson sem situr hér úti í sal, forviða væntanlega á þessum vinnubrögðum gagnvart þessum tiltekna lið, er hraustur maður, búinn að ala allan sinn aldur á kartöflum og feitu lambaketi og ætti að vera vel í stakk búinn til þess að takast á við það erfiða líf sem stjórnarliða hlýtur að bíða. Það gæti samt komið fyrir hann að veikjast eins og gæti komið fyrir alla dauðlega menn, að hann þyrfti að leggjast inn á sjúkrahús. Eru þau sjúkrahús nægilega í stakk búin til þess að taka á móti sjúklingum á borð við hv. þm. Egil Jónsson eða mig sem hér stend? Vonandi. En ég verð samt sem áður að segja að ég er undrandi á því að ekki skuli vera rösklegar tekið á þeim fjárhagsvanda sem sjúkrahúsin hafa átt í á undanförnum árum.

[19:30]

Ég veit að vísu að það er komið nokkuð til móts við þann vanda og það er búið að skipa málum í ákveðinn farveg þannig að það getur vel verið að með því samstarfi sem á að auka með sjúkrastofnunum og stóru spítölunum hér á höfuðborgarsvæðinu muni nást verulegur sparnaður. Ég vona það en ég er ekki viss um það. En vegna þess að við áttum hér orðastað í dag, ég og hv. varaformaður fjárln., um dreifbýlissjúkrahúsin og það var aðeins drepið á sjúkrahúsin í Reykjavík líka þá sagði ég: Munurinn annars vegar á afkomunni gagnvart dreifbýlissjúkrahúsunum þar sem vinnubrögðin, eins og ég hef lýst, voru afskaplega slæm og hins vegar sjúkrahúsunum hér í Reykjavík. Hver var svo munurinn? Vandamál stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík var m.a. reynt að leysa með aðkomu meiri hlutans í Reykjavík. Með aðkomu borgarstjóra. Það var sérstök starfsstjórn þriggja vitringa þar sem sérstakur fulltrúi borgarstjórans í Reykjavík átti sæti. Út úr þeirri vinnu sem þar fór fram kom þó þessi niðurstaða sem hér liggur fyrir. Hún er í sjálfu sér þakkarverð. Hún er þannig að það má heita að spítalarnir í Reykjavík fái fast að 300 millj. kr. þegar upp er staðið. Dugar það? Ég er auðvitað sammála þeim sem vilja gera allt sem þeir geta til að spara í spítalarekstrinum en menn verða að horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Hin frækna jarðýta, hv. þm. og formaður Alþfl., Sighvatur Björgvinsson, reyndi það sem hann gat. Og eftirmenn hans hafa reynt það sem þeir geta. Það blasir samt sem áður við að við stöndum frammi fyrir svipuðum vanda á þessum punkti ársins og við gerðum fyrir nákvæmlega 12 mánuðum síðan. Ég held að það megi segja að vandinn sem blasti við áður en ráðist var í þessar aðgerðir sem færðu 300 millj. að því mér sýnist hafi verið einhvers staðar á milli 800 og 900 millj. kr. Eftir stendur samt sem áður, þó að Sjúkrahús Reykjavíkur fái 120 millj. kr. og þó að Ríkisspítalarnir fái 77 millj. kr. og þó að 100 millj. kr. séu í sérstökum hagræðingarsjóði þá stendur samt hálfur milljarður eftir þegar kemur að lokum næsta árs. Það er allt of mikið.

Tökum til að mynda það sjúkrahús sem hefur verið hvað mest í umræðunni, Sjúkrahús Reykjavíkur, og skoðum hvernig það hefur verið á síðasta ári. Þar hafa stjórnendurnir verið í endalausum slag. Þar hafa verið tvær ef ekki þrjár niðurskurðarhrinur og þar er búið að skera inn að beini. Það er bara svoleiðis. Það er ekki hægt að ná fram frekari sparnaði þar. Það er ekki hægt að ná fram frekari hagræðingu sem leiðir til sparnaðar í viðbót. Ég fullyrði það. Það þarf að leysa þetta með einhverjum öðrum hætti. Ég sé enga aðra leið til að leysa það, hv. þm., nema aukið fjármagn. Hvernig er staðan í dag? Mér skilst að vegna lokana megi segja að sem svari heilli deild liggi á göngum sjúkrahússins og jafnvel stundum á salernum sjúkrahússins. Það er náttúrlega ekki hægt að reka heilbrigðiskerfið með þessum hætti, herra forseti.

Ég ætla ekki að fara frekar í þetta en lýsi einungis vanþóknun minni á því að ekki skuli hægt að taka rösklegar á þessum málum. Vinnumórallinn á Sjúkrahúsi Reykjavíkur eftir þessar niðurskurðarlotur held ég að sé afskaplega dapurlegur. Maður getur ekki annað en vorkennt þeim stjórnendum sem þurfa allan sinn tíma í vöku, og sennilega í draumunum líka, að berjast við að finna nýjar leiðir til að skera niður. Við sjáum líka fyrir okkur afleiðingarnar, sú þróun er þegar farin af stað, að rjómi rjómans, hinir bestu í hópi læknanna, þeir sem eiga auðveldast með að fá vinnu á hinum alþjóðlega markaði eru að fara. Heilaskurðlæknir sem á ekki sinn líka í landinu er farinn, hefur kvatt út af aðbúnaði og launum og því umhverfi sem við höfum skapað þessu fólki.

Ég vona að það sé ekki toppurinn á ísjaka. Ég vona að það sé ekki þróun sem er að fara af stað. En ég verð að segja að ég óttast það. Þá væri vá fyrir dyrum bæði fyrir mann eins og mig og ekki síst fyrir þann ágæta þingmann sem situr út í sal, hv. þm. Egil Jónsson, sem brosir. Ég vona að hann geti brosað mjög lengi.