Samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 19:45:35 (2675)

1996-12-20 19:45:35# 121. lþ. 53.10 fundur 248. mál: #A samningar um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum 1997# þál., Frsm. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[19:45]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Minni hluti utanrmn. leggst alls ekki gegn því að þetta mál verði afgreitt og ég ætla ekki að setja hér á langa tölu til þess að tefja málið. Við vísum hins vegar til þess að forsaga málsins er sú að við teljum rétt að afgreiðsla málsins verði á ábyrgð stjórnarflokkanna. Ég held að velflestir í stjórnarandstöðunni muni sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Það er alveg ljóst að með þessum samningi er fest í sessi það aðalatriði sem gagnrýnt var í fyrra, sem var hin lága hlutdeild sem Íslendingar fá úr heildarstofninum, úr þessum mikla síldarstofni í Norður-Atlantshafinu. Það var fest með samningunum í fyrra að við fengjum einungis 17,2% þegar við teljum, með vísan til sögulegrar reynslu og reyndar líka dreifingar á síldinni áður en Norðmenn drápu hana endanlega niður með gegndarlausri rányrkju á ungsíld, að okkar hlutdeild úr fullorðna stofninum ætti að vera í kringum þriðjung.

Við óttuðumst það mjög þegar þessi samningur var gerður í fyrra að þar með væri verið að gefa fordæmi inn í framtíðina. Við teljum að varnaðarorð okkar hafi verið staðfest með þeim samningi sem núna hefur verið gerður vegna þess að hlutdeild Íslendinga hefur meira að segja minnkað, hún hefur orðið 15,7% af heildarstofninum við þær breytingar sem þarna voru gerðar. Stjórnarliðið og hæstv. utanrrh. hafa haldið því fram að ekki sé hægt að segja að hér sé verið að ítreka fordæmið vegna þess að ekkert hafi breyst, vegna þess að engar forsendur hafi breyst. Það hefur hins vegar breyst að Evrópusambandið hefur núna fengið 125 þús. tonna kvóta en stóð áður utan kvótans en veiddi allverulegt magn. Ég skil vel þær röksemdir sem hafa verið fluttar fyrir nauðsyn þessa. Menn telja að með þessu móti sé verið að ná stjórn á veiðunum. Það blasir eigi að síður við að þessi hlutdeild Evrópusambandsins er langt umfram það sem söguleg veiðireynsla þeirra ríkja sem nú mynda sambandið gefur tilefni til og líffræðileg dreifing stofnsins innan lögsögu viðkomandi ríkja gefur heldur ekkert tilefni til þess. Þeir sérfræðingar íslenskir sem um þetta mál hafa fjallað og lagt mat á það hvað Evrópusambandinu bar komust að þeirri niðurstöðu að miðað við núverandi stærð norsk-íslenska síldarstofnsins sé erfitt að færa rök að því að Evrópusambandið eitt ætti að fá meira en 22 þús. tonn.

Við höfum hins vegar ítrekað bent á það í umræðum um þennan samning að menn verði þó að sjá það sem gott er við þetta. Við höfum bent á það, og minni hlutinn gerir það raunar í sínu áliti sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar standa sameinaðir að, að rök Norðmanna sem beittu sér harðast fyrir þessum óhóflega kvóta Evrópusambandsins voru þau að til þess að ná stjórn á þessum veiðum væri réttlætanlegt að láta þjóð sem gæti ekki gert sögulegt tilkall til veiðanna eigi að síður fá umtalsverðan kvóta. Við Íslendingar teljum að t.d. í Smugunni þá höfum við umtalsverðan sögulegan rétt til veiða og með vísan til þessara raka bendir minni hlutinn á að samkvæmt þessari niðurstöðu og þessari röksemdafærslu þá hljóti ríkisstjórnin að fara þegar í stað fram á það að Smugudeilan verði leyst með svipuðum rökum. Rök okkar til þorsksins í Barentshafi eru miklu sterkari heldur en Evrópusambandsins til íslensku síldarinnar.

Ég vil að lokum, herra forseti, nota þetta tækifæri til þess að ítreka að sagan sýnir okkur það að þeir sem halda því fram að það hafi verið Íslendingar sem eyddu þessum stofni hafa algjörlega rangt fyrir sér. Það er með engu móti hægt að halda því fram að það hafi verið veiðar úr fullorðna síldarstofninum sem leiddu til þess að stofninn hrundi. Það var alls ekki svo. Það var eingöngu rányrkja Norðmanna á ungsíld innan norskrar lögsögu og innfjörðum Noregs. Norðmenn voru ekki einungis að veiða síld upp að fjögurra ára aldri heldur voru þeir að veiða verulegt magn af síld sem ekki hafði náð eins árs aldri og síld sem ekki hafði náð tveggja ára aldri. Það var gríðarlegt magn sem þeir veiddu af slíkri síld. Þetta varð til þess að heilir árgangar komust ekki upp. Það er hægt að vísa til þess að 1965-árgangurinn var svo gjöreytt að einungis 0,1% af stofninum náði fjögurra ára aldri. Það var þetta sem drap síldina. Ég tel nauðsynlegt að þetta komi hérna fram vegna þess að við höfum þurft að sæta því að Norðmenn hafa aftur og aftur haldið þessu fram. Rússneski sjávarútvegsráðherrann, sem hér var í heimsókn á síðasta vetri eða á hinu árinu, hélt þessu fram í viðtali við íslenska sjónvarpið. Og því miður heyrir maður jafnvel svipaðar skoðanir stundum innan lands líka. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa þessa forsögu í huga til þess að skilja líka hversu mikið óréttlæti felst í þeirri skiptingu norsk-íslenska stofnsins sem við höfum núna fyrir framan okkur og ríkisstjórnin hefur fallist á í annað skipti og er rétt að hún beri ábyrgð á.