Almannatryggingar og lyfjalög

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:00:10 (2690)

1996-12-20 22:00:10# 121. lþ. 54.4 fundur 250. mál: #A almannatryggingar og lyfjalög# (kaup á vörum og þjónustu, lyfjaverðsnefnd) frv. 153/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:00]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég tel að sú tillaga sem er til umræðu sé eitt mikilvægasta þingmál sem hefur komið til umfjöllunar. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það væri full ástæða til að fresta þinglokum þar til þessi tillaga hefur fengið samþykki. Ef þarf að tala lengi, mikið og ítarlega til að sannfæra menn um nauðsyn þess, þá held ég að þingið eigi að taka þann tíma.

Hvað er það sem þessi tillaga felur í sér? Jú, með þessari brtt. er ætlunin að láta bætur úr almannatryggingakerfinu, þ.e. ellilífeyri, örorkulífeyri, tekjutryggingu, barnalífeyri, bætur í fæðingarorlofi, slysatryggingar og sjúkratryggingar taka mið af breytingum sem verða á launum yfirstandandi árs. Ríkisstjórnin afnam viðmiðun við launabreytingar með bráðabirgðaákvæði í fyrra og ákvað að hækkanir þeirra þátta kæmu fram á fjárlögum hverju sinni. Eins og komið hefur fram í umræðum um fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að hækka þessa bótaliði um 2% á næsta ári þótt líklegt sé að launabreytingar verði meiri. Samkvæmt forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að launabreytingar muni nema 3,5% og ef samtök launafólks hafa sitt fram verða þessar launahækkanir miklu meiri en þessu nemur. Þegar breytingarnar voru gerðar fyrir réttu ári, þá var ítrekað sagt úr þessum stóli að ekki stæði til að skerða kjörin. En nú er því miður annað komið á daginn og það er tilefni þess að brtt. er flutt af fjórum þingmönnum stjórnarandstöðu.

Menn eru og hafa verið mjög bundnir yfir þingstörfum undanfarna daga. Annaðhvort hafa menn verið við umræðu í þinginu eða setið í nefndum þingsins og unnið þar að undirbúningi mála og hafa þess vegna átt lítinn kost á því margir hverjir að fylgjast með því sem er að gerast úti í þjóðfélaginu. Ég veit t.d. ekki hve margir áttu kost á að hlýða á útvarpsþátt í Ríkisútvarpinu, í gærmorgun held ég að það hafi verið, þar sem komu fram fulltrúar frá hjálparstofnunum, ekki Bíafra, ekki Eþíópíu, ekki einhvers staðar í fátækum ríkjum heimsins þar sem örbirgðin er mest. Nei, það voru fulltrúar hjálparstofnana í Reykjavík sem sögðu að aldrei fyrr hefði verið eins mikil ásókn til þeirra og nú. Og hvaða fólk skyldi það vera sem núna leitar til hjálparstofnana? Ætli það sé ekki konan sem hringdi í Þjóðarsál Ríkisútvarpsins í dag miður sín yfir þeirri skerðingu sem yrði fyrirsjáanlega á hennar kjörum? Þetta var öryrki. Og eitt af því sem lagt er til í þessari tillögu að fylgi verðlagi, launum, launavísitölu á komandi árum eru örorkubætur. Og hugsið ykkur í rauninni hvað við erum að ræða um hér. Við erum ekki að ræða um það sem við ættum í rauninni að vera að gera --- að fjalla um hvernig við gætum bætt kjör þessara aðila. Við erum að ræða um hvort þingið ætli að samþykkja brtt. sem felur það í sér að komið verði í veg fyrir frekari skerðingu á kjörum þessarar konu og annarra kvenna og annarra karla og annarra fjölskyldna sem fyrirsjáanlegt er að munu skerðast, ef ekki verður gerð breyting á.

Í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar kom fram að ef ætla mætti að launaþróun næmi 3,5% en þessar hækkanir 2% þá skeikar hér 2--3 hundruð millj. kr. sem verið er að hafa af þessu fólki. Í rauninni finnst manni það hálfgerður hégómi þegar menn eru að æsa sig hér upp úr öllu valdi yfir því hvort þeir komist heim til sín klukkutímanum fyrr eða seinna þegar þingið ætlar að fara í jólafrí, ætlar að ljúka störfum fyrir jólin með það á samviskunni að skerða kjör þessara hópa. Þetta er náttúrlega alveg forkastanlegt. Og þegar það kom fram, hæstv. forseti, í máli hæstv. forsrh. áðan að gert hefði verið samkomulag í þinginu um lok þingstarfa og það samkomulag hefði á engan hátt verið brotið af hálfu ríkisstjórnarinnar, þá leyfi ég mér að setja fram ákveðnar efasemdir og ákveðnar spurningar sem væri fróðlegt að fá svör við, því ég vil að sönnu virða samkomulag sem gert er hvort sem það er milli stjórnar og stjórnarandstöðu eða annarra aðila. Að sjálfsögðu vil ég það. En það sem ég velti fyrir mér er hvort mönnum finnist það eins og hvert annað hégómamál þegar upplýst er að ríkisstjórnin ætlar að frysta skattleysismörkin og bótakerfið með þeim afleiðingum að verið er að hafa af launafólki, af barnafólki, af íslenskum almenningi 800--1.000 millj. á næsta ári. Það var upplýst í máli hæstv. fjmrh. í gær að til standi að semja um þessi efni og verið sé að semja um þessi efni í svokallaðri jaðarskattanefnd. Það er þakkarvert að vísu að um þau mál skuli fjallað á breiðum vettvangi. Mér finnst það þakkarvert. En ef það á virkilega að vera þannig að ríkisstjórnin fjármagni kosningaloforð sín með þessum hætti, þá er það náttúrlega nokkuð sem hlýtur að koma til alvarlegrar umræðu á Alþingi. Þess vegna varð ég svolítið undrandi í ljósi þeirrar umræðu sem varð í gær --- að forsrh. segir að engin mál hafi komið upp á sem hafi gefið tilefni til að tefja eða trufla þinghaldið. Það er eins og það sé bara hvert annað hégómamál að farið sé ofan í vasann hjá almennu launafólki á Íslandi og teknar séu þar upp 800--1.000 millj. kr. og sagt að þessa peninga eigi síðan (Gripið fram í: Haltu áfram.) að fjalla um í tengslum við kjarasamninga.

Haltu áfram, heyrði ég einn ágætan stjórnarþingmann segja í salnum og það skal ég gera og ég er tilbúinn að halda áfram þess vegna í alla nótt og á morgun og í marga daga þangað til þingmenn sjá sóma sinn í því að samþykkja þessa tillögu, sem því miður felur ekki í sér neinar úrbætur fyrir öryrkja og lífeyrisþega, því að hún gerir ekki annað en að koma í veg fyrir að hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar skerði kjör þessara hópa um mörg hundruð millj. kr.

Mér þætti fróðlegt að heyra álit stjórnarþingmanna á tillögunni. Það er eitthvað muldrað þarna úr sæti baka til í salnum. Ég man ekki betur en hér væri sagt af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni --- ég sé að hæstv. iðnrh. er kominn í salinn. Það væri fróðlegt að heyra hans álit, en ég man ekki betur en það væri sagt af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni sl. haust, fyrir réttu ári, að enda þótt bótakerfið væri tekið úr sambandi við launaþróun, þá stæði ekki til að skerða kjör lífeyrisþega, öryrkja og atvinnulausra. Ég man ekki betur en þetta væri fullyrt. Núna hins vegar er komin fram tillaga þess efnis að ríkisstjórnin getur sýnt í verki hver hennar raunverulegi vilji er og það verður fróðlegt að fylgjast með hvort hæstv. iðnrh. ætlar að tjá sig um þetta mál eða láta duga að ræða einungis um einkavæðingu Rafmagnseftirlitsins í landinu. (ÖS: Tökum það á eftir.) Það væri fróðlegt að heyra hvort --- hér kemur hæstv. dómsmrh. líka í gættina. Ég man ekki betur en fleiri en einn ráðherra í ríkisstjórninni segðu þegar bætur til atvinnulausra og öryrkja voru teknar úr sambandi við launaþróun í fyrra, að þetta væri tæknileg útfærsla og ekki stæði til að skerða kjör þessara hópa. Voru þetta bara blekkingar? Hér er verið að tala samkvæmt þeim fjárlagatillögum sem við höfum. Þær ganga út á að skerða kjör þessara hópa um 200--300 millj. kr. Og miklu meira ef launakröfur verkalýðshreyfingarinnar ná fram að ganga, þá er verið að hafa enn meiri fjármuni af þessu fólki. En ég auglýsi eftir því að ráðherrar í ríkisstjórninni upplýsi hvort það hafi verið blekking ein fyrir réttu ári þegar fullyrt var að fyrst og fremst væri um tæknilega útfærslu, tæknilega breytingu að ræða. Það stæði ekki til að skerða kjör öryrkja. Það stæði ekki til að skerða kjör atvinnulausra. Það stæði ekki til að skerða kjör lífeyrisþega. En nú liggur á borðinu að þetta voru ósannindi. Og svo er verið að tala hér á léttvægan hátt um hvort menn komist heim til sín klukkutímanum fyrr eða síðar. (Gripið fram í: Okkur liggur ekkert á.) Okkur liggur ekkert á, segja menn og hrista hausinn. Okkur kemur þetta ekkert við. Ykkur kemur þetta kannski ekkert við, hv. þm.? Mönnum kemur það kannski ekkert við þegar verið er að skerða kjör öryrkja og atvinnulausra. Ég veit ekki hvað hæstv. menntmrh., sem er kominn í salinn, segir um það efni. Var engin meining á bak við það fyrir réttu ári þegar ráðherrar í ríkisstjórn fullyrtu að ekki stæði til að skerða kjör þessara hópa? Þetta væru fyrst og síðast tæknilegar breytingar sem menn væru að framkvæma og nú þegja menn bara þunnu hljóði (Gripið fram í: Já.) og baka til í salnum hrista menn hausinn og segja: Okkur liggur ekkert á. (Gripið fram í: Við komumst ekkert að.)

Hæstv. forseti. Ég skal ljúka máli mínu svo menn komist að, bæði ráðherrar og stjórnarþingmenn. Við skulum taka þá á orðinu.