Almannatryggingar og lyfjalög

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:07:03 (2691)

1996-12-20 22:07:03# 121. lþ. 54.4 fundur 250. mál: #A almannatryggingar og lyfjalög# (kaup á vörum og þjónustu, lyfjaverðsnefnd) frv. 153/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:07]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að gera aðeins að umtalsefni þá brtt. sem minni hluti efh.- og viðskn. hefur lagt fram við frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Mig langar til að það komi skýrt fram að þessi tillaga er réttlætismál og okkur ber að samþykkja hana. Eins og menn þekkja frá fjárlagaumræðunni fyrir ári var við umræðu um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum samþykkt af meiri hluta Alþingis að aftengja almannatryggingabætur, greiðslur úr almannatryggingunum og atvinnuleysisbætur almennri launaþróun í landinu. Þetta gerir það að verkum að nú munu greiðslur til lífeyrisþega og þeirra sem fá greiðslur úr almannatryggingunum ekki hækka jafnmikið og laun í landinu ef marka má spár. Þessi hópur mun því búa við lakari kjör ef spár ná fram að ganga. Þetta er auðvitað óþolandi og við eigum ekki að líða það að fólk, sem hefur þurft að búa við mestan niðurskurð af hálfu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar frá því við síðustu fjárlagagerð, og hefur þurft að búa við meiri tekjutengingu og skertar bætur á þessu ári, þurfi enn einu sinni að búa við skert kjör. Og eins og komið hefur fram í fjölmiðlum og víðar er neyðin mikil hjá stórum hópi þessa fólks, sérstaklega þeirra sem eru með lítil réttindi úr lífeyrissjóðum og margra jafnvel þó þeir séu með greiðslur úr lífeyrissjóðum.

Okkur í stjórnarandstöðunni finnst nóg komið af atlögunni að þessu fólki. Ég vil minna á að lífeyrisþegarnir eru með hæstu jaðarskattana og á vissu tekjubili eru 100% jaðarskattar á lífeyrisþegum. Ég tel réttlætismál að við breytum þessu ákvæði til fyrra horfs, eins og lagt er til í brtt. Menn ættu að geta staðið að því nú í góðærinu því að það er ekki viðunandi að þessi hópur einn þurfi að búa við skertan hlut og það enn einu sinni.

Gert var ráð fyrir í lagabreytingunum í fyrra við fjárlagagerðina að þetta yrðu tímabundnar breytingar. Þess vegna munum við láta reyna á það við atkvæðagreiðslu á eftir hvort stjórnarmeirihlutinn ætli að standa við að láta þá hópa lífeyrisþega og þá sem fá greiðslur úr almannatryggingunum enn einu sinni sæta skerðingu miðað við almenna launamenn í landinu. Þess vegna skulum við fylgjast með hvaða afstöðu menn taka við atkvæðagreiðslu um brtt. þar sem lagt er til að almannatryggingabætur og greiðslur úr almannatryggingunum fylgi almennri launaþróun í landinu, eins og hún gerði fram að fjárlagagerðinni fyrir ári.