Öryggi raforkuvirkja

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:18:45 (2693)

1996-12-20 22:18:45# 121. lþ. 54.6 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:18]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Þetta mál, öryggi raforkuvirkja, var rætt hér mikið alla sl. nótt. Það var ágæt og skýr umræða þar sem ýmsir komu að málinu sem þekkja vel til þess og ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta. Það sem mér finnst aðalumhugsunarefnið í þessu máli er tvennt. Í fyrsta lagi er það hvernig Alþingi lætur fara með sig einu sinni enn að afgreiða svona mál síðustu sólarhringana fyrir jól þegar ekkert liggur á því. Það eru engin rök fyrir því að það þurfi endilega að ljúka þessu máli núna. Það er dálítið umhugsunarefni hvernig Alþingi er eins og leiksoppur í höndunum á framkvæmdarvaldinu oft á tíðum þó Alþingi hafi sjálft viðurkennt að þetta var meingallað mál með því að samþykkja, eða það þurfti að afgreiða, í dag einar 30 breytingartillögur ef ég tók rétt eftir. Það er eitt sem ég hef áhyggjur af í þessu og það er staða Alþingis.

Hitt er svo almennt um málið sem ég ætla í sjálfu sér ekki að fjalla um hér að öðru leyti en því að segja: Getur hæstv. iðnrh. upplýst okkur um hvað verður um fólkið sem starfar hjá Rafmagnseftirlitinu? Er tryggt að þetta fólk fái störf með eðlilegum hætti og í sátt og friði hjá þeirri nýju stofnun sem ætlað er að taka við því? En ég mótmæli málinu og ég tel að öll rök okkar í minni hlutanum í þessu máli standi enn þá, hæstv. forseti.