Öryggi raforkuvirkja

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:20:29 (2694)

1996-12-20 22:20:29# 121. lþ. 54.6 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, GE
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:20]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál. Í morgun frá kl. fjögur til átta ræddum við, nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar við hæstv. iðnrh. og hv. formaður iðnn., um frv. um öryggi raforkuvirkja og neysluveitna og raffanga. Ég hafði, herra forseti, efasemdir um að vinnubrögð stæðust vegna hagsmunatengsla nefndarmanna sem unnu að undirbúningi frv. Ég hef verið fullvissaður um að mér er óhætt að vera rólegur út af þeim efasemdum. En eins og hv. þm. má vera ljóst og einnig hæstv. ráðherrum þá varð að gera gífurlegar breytingar á frv., 28 eða 30 breytingar. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvað þær eru margar. Þannig að það þurfti mikið að laga og það var gert. Ég vil láta það koma fram að ég met að það hefur verið vel unnið að þessu máli.

Við áttum málefnalegar umræður og samskipti um þetta mál og það kom mér að gagni. Ég hef reyndar áhyggjur af því enn þá hvernig framkvæmdin verður. En eftir að hafa fengið svör frá hæstv. iðnrh. og hv. formanni iðnn. við öllum spurningum sem ég bar fram í morgun eða nótt þá get ég nú varla verið annað en sáttur við málefnaleg endalok umræðunnar. Eftir að hafa fengið í lokin þær hugleiðingar hæstv. iðnrh. að ekki yrði um aukinn kostnað neytenda að ræða þá lýsti ég því yfir að ég mundi sitja hjá við afgreiðslu málsins. Ég vona að það sem kom fram reynist rétt og ég ítreka að ég mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.