Öryggi raforkuvirkja

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:26:09 (2696)

1996-12-20 22:26:09# 121. lþ. 54.6 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:26]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þessi svör. Ég verð að segja alveg eins og er að miðað við aðdragandann að þessum málum öllum þá hef ég áhyggjur af stöðu starfsfólksins. Það er ljóst að þó nokkur hópur af þessu fólki hefur beitt sér mjög hart gegn þeim breytingum sem hér er um að ræða. Ég vona að það sé að minnsta kosti tryggt að enginn verði látinn gjalda málafylgju sinnar í þessu máli og að það verði komið heiðarlega fram við alla aðila og ekki síst þá sem hafa beitt sér í málinu vegna þess að ég er sannfærður um að það er hætta á því ella ef ekki er einbeittur vilji um það í ráðuneytinu að þarna geti komið upp vandamál sem eru ófyrirsjáanleg og óþolandi.

Í sjálfu sér hef ég ekki fleiru við þetta að bæta, herra forseti. Ég tel að málið hefði batnað við það að bíða. Ég tel að það hefði verið skynsamlegra að fresta málinu fram yfir áramót. Ég taldi óskynsamlegt að taka síðustu nótt í að ræða þetta mál eins og gert var.

Ég endurtek engu að síður að ég þakka hv. formanni iðnn. fyrir það að hann reyndi að bæta málið eins og hann mögulega gat og á hann þakkir skildar fyrir það. Nú skulum við vona að skaðinn verði eins lítill og mögulegt er. Meginatriðið er þó líka í mínum huga eins og sakir standa að það fólk sem þarna hefur unnið verði alls ekki látið gjalda málafylgju sinnar því slík dæmi þekkjum við úr stjórnkerfinu að það hefur beinlínis verið komið illa fram við það fólk sem oft á tíðum hefur beitt sér gegn þeim ákvörðunum sem stjórnvöld hafa tekið. Ég vona að við séum vaxin upp úr slíkum niðurstöðum í stjórnkerfinu og að enginn leyfi sér slíkt.