Öryggi raforkuvirkja

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 22:27:56 (2697)

1996-12-20 22:27:56# 121. lþ. 54.6 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv. 146/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[22:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm., Svavari Gestssyni, að ég tel að það hefði verið hyggilegra að láta þessa lagabreytingu bíða. Það er greinilegt að mikil andstaða er við þessar lagabreytingar. Það er mikil andstaða við að einkavæða Rafmagnseftirlitið. Það hefur komið fram og kom fram við umræðu hér í gær og í nótt að þetta mun að öllum líkindum draga úr öryggi. Þetta verður dýrara og erfiðara á alla lund. Við höfum við umræðuna tíundað mótmæli sem borist hafa hvaðanæva að af landinu, frá sveitarstjórnarmönnum, rafverktökum og öðrum sem til þessara mála þekkja. Það var gott að heyra hæstv. iðnrh. lýsa því sérstaklega yfir að reynt yrði að verja atvinnuöryggi manna. Það er þakkarvert. Það er reyndar margt mjög undarlegt sem tengist störfum manna í þessu lagafrv., t.d. það að þess skuli krafist að forstjórinn hafi háskólamenntun. Þessi háskólaprófsárátta í þingmönnum er orðin harla undarleg. Það má ekki skipa nefnd í stjórnkerfinu án þess að þar sé lögfræðingur eða maður með dómararéttindi. Það er eins og menn telji að þjóðin sé ekki læs nema hún hafi háskólapróf upp á vasann. Þetta finnst mér mjög undarlegt. En ég vil að lokum þakka hæstv. iðnrh. fyrir hans orð varðandi atvinnuöryggi starfsmanna. Ég tel það vera mjög mikilvægt.