Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 23:54:11 (2713)

1996-12-20 23:54:11# 121. lþ. 55.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GE (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[23:54]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Minni hlutinn flutti nokkrar breytingartillögur við 2. umr. fjárlaga. Sumar þeirra voru dregnar til baka og eru nú endurfluttar. Meiri hluti Alþingis felldi hins vegar tillögu minni hlutans um að staðið yrði við lögboðið framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Hann felldi einnig tillögu um að skila framhaldsskólanum aftur þeim niðurskurði á framlögum til hans sem fram kemur í frv. Það vakti hins vegar athygli að tveir stjórnarþingmenn sátu hjá við þá atkvæðagreiðslu og sýndu með því andúð sína á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu efni. (Gripið fram í: Hvaða menn voru það?) Þær tillögur sem dregnar voru til baka við 2. umr. eru hins vegar endurfluttar við 3. umr. Þar sem um er að ræða mjög hófsamar tillögur sem skekkja í engu fjárhag ríkisins þá er þess vænst að þær hljóti brautargengi hins háa Alþingis.