Fjárlög 1997

Föstudaginn 20. desember 1996, kl. 23:58:35 (2714)

1996-12-20 23:58:35# 121. lþ. 55.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GGuðbj (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[23:58]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Þessi tillaga er sú fyrsta af fjórum sem þingflokkur Kvennalistans leggur fram í þeim tilgangi að hefja markvissar aðgerðir í kjölfar TIMSS-rannsóknarinnar um árangur skólabarna í raungreinum og stærðfræði. Í þessari tillögu er lagt til að Kennaraháskóla Íslands verði gert kleift að lengja kennaranám til BEd-prófs við skólann frá og með næsta hausti úr þremur árum í fjögur til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þær 3 millj. kr. sem hér er gerð tillaga um eru til skipulagningar námsins einkum á fyrsta ári en hún þarf að fara fram fyrir næsta haust. Gert er ráð fyrir að fjórða námsárið verði 15 einingar í valgrein og 15 einingar í kjarnagreinum grunnskólans eins og ætlunin var þegar þessu fjórða ári var frestað með lögum. Lenging kennaranámsins í fjögur ár er löngu tímabær. Ég segi já.