1996-12-21 01:04:36# 121. lþ. 55.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GÁS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[25:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það vekur auðvitað dálitla undrun að við 2. umr. um fjárlögin kom þessi tillaga sem hér er til umræðu til umfjöllunar. Nú er við 3. umr. komin tillaga sem er ekki orðuð nákvæmlega eins en fjallar efnislega um hið sama. Og auðvitað veltir maður vöngum yfir því hvort hér sé keppni um það hver hafi frumkvæði. Ég lýsi eftir því hvort ekki hefði verið eðlilegra við þessar kringumstæður að stjórnarmeirihlutinn hefði einfaldlega gengist inn á tillögu Rannveigar Guðmundsdóttur o.fl. hv. þm. jafnaðarmanna og gert hana að sinni, fremur en að berjast í því að búa til nýtt orðalag eins og hér kemur síðar fram. Þetta sýnir auðvitað ákveðna minnimáttarkennd og það lýsir kannski þeim sem búa til þennan texta. En ég tek vitaskuld undir það að við eigum ekki að deila hér um keisarans skegg. Við viljum þennan barnaspítala upp og ég styð auðvitað það að við eyðum ekki tíma í eitthvað sem ekkert er. Við erum stærri en svo að við deilum um orðalag og drögum því þessa tillögu til baka.