1996-12-21 01:30:33# 121. lþ. 55.98 fundur 153#B Jólakveðjur#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[25:30]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Hér hafa verið miklar annir síðustu daga og bregður ekki venju í því efni. Það verður auðvitað aldrei komist hjá því að taka duglegan lokasprett við afgreiðslu viðamikilla mála undir jól. Miklu máli skiptir hins vegar að þrátt fyrir ágreining um ýmis mál hefur góður starfsandi einkennt haustþingið og vil ég láta í ljós sérstakar þakkir mínar til þingflokksformanna og hæstv. ráðherra og raunar þingmanna allra fyrir samstarfsvilja þeirra.

Á þessu haustþingi var bryddað upp á þeirri nýbreytni í þingstörfunum að hafa sérstaka nefndaviku í lok nóvember. Ég tel reynsluna af nefndavikunni hafa verið góða og með því fyrirkomulagi hafi okkur tekist að jafna álagið nokkuð við þingstörfin og það meira en áður. Alltaf má þó bæta um betur og mun ég því í samráði við nefndaformenn kanna hvort einhverjar breytingar þurfi að gera þar á fyrir nefndavikuna á vorþinginu.

Jólahátíðin er í nánd. Hv. alþingismönnum og starfsfólki Alþingis gefst nú tækifæri til að vera samvistum við sína nánustu um hátíðarnar og njóta með þeim friðsemdar jólanna. Ég hygg að við séum öll vel að þessu jólaleyfi komin eftir langar vinnustundir undanfarna daga. Ég færi þingmönnum öllum, svo og starfsfólki Alþingis bestu óskir um gleðilega og friðsæla jólahátíð um leið og ég flyt bæði þingmönnum og starfsfólki mínar bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á því ári sem nú er senn lokið. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og ég bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.