Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 75 . mál.


242. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 48/1994, um brunatryggingar, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson og Svein Þorgrímsson frá viðskiptaráðuneyti, Rúnar Guðmundsson frá Vátryggingaeftirliti, Ólaf B. Thors og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Magnús Ólafsson frá Fasteignamati ríkisins. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Fasteignamati ríkisins og Vátryggingaeftirlitinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:



    Lokamálsliður 1. gr. falli brott.
    Á eftir 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
                  Séu brunatryggingariðgjöld og önnur gjöld og skattar sem ákvörðuð eru sem hlutfall af brunabótamati og innheimtast eiga samhliða innheimtu iðgjalda, svo og matskostnaður, eigi greidd innan sex mánaða frá gjalddaga er heimilt að krefjast nauðungarsölu á hinni vátryggðu eign án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Önnur gjöld og skattar samkvæmt þessari málsgrein eru brunavarnargjald, umsýslugjald, forvarnargjald, viðlagatryggingargjald og álag á viðlagatryggingargjald.

    Fyrri tillagan mælir fyrir um að fella brott málslið um að eigi skuli greiðast þóknun vegna innheimtu umsýslugjaldsins. Með þessu er nefndin ekki að leggja til að félögin eigi að fá þóknun fyrir innheimtuna, heldur þvert á móti er það afstaða nefndarinnar að ekki beri að greiða þóknun fyrir innheimtu á slíkum skatti frekar en af öðrum sambærilegum sköttum sem vátryggingafélög innheimta fyrir ríkið enda hefur fram til þessa einungis verið greidd þóknun fyrir innheimtu á viðlagatryggingargjaldi. Með síðari tillögunni er lagt til að veitt verði bein nauðungarsöluheimild ef eitthvert þeirra gjalda sem upp eru talin í ákvæðinu hefur ekki verið greitt innan sex mánaða frá gjalddaga.
    Ásta B. Þorsteinsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. des. 1996.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Ágúst Einarsson.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon.

Valgerður Sverrisdóttir.



Einar Oddur Kristjánsson.

Pétur H. Blöndal.