Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 144 . mál.


253. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Efni þessa frumvarps er í raun og veru tvíþætt. Annars vegar er um að ræða tæknilegar lagfæringar og breytingar á málsmeðferðarreglum í virðisaukaskattslögum en hins vegar tengist málið þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar frá síðasta vetri að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og viðhalds og endurbóta úr 100% niður í 60%. Hvað fyrra atriðið snertir sér minni hlutinn ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þær breytingar sem leiðir beint af breytingum í öðrum skattalögum, svo sem breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt. Ákvæði 2. gr. um skýrari meðferð mála hvað varðar svonefndar virðisaukaskattsbifreiðar eru til bóta og sama má segja um fleiri ákvæði í frumvarpinu sem lúta að tæknilegum lagfæringum.
    Nefndinni bárust erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra sem lúta að lagfæringum á virðisaukaskattsuppgjöri sveitarfélaganna. Er þar annars vegar um að ræða ósk sveitarfélaganna um að breytt verði skilgreiningu á endurgreiðslu virðisaukaskatts sem sveitarfélögin fá vegna söfnunar, meðhöndlunar, flutnings og förgunar úrgangs. Gildandi túlkun ríkisskattstjóra er þröng og viðurkennir eingöngu neysluúrgang en ekki allan úrgang sem sveitarfélög bera ábyrgð á að farga. Upp koma ankannaleg dæmi þegar þetta mál er skoðað eins og rakið er í umsögn Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem birt er með álitinu sem fylgiskjal. Þá geta mismunandi förgunarleiðir sams konar úrgangs valdið því að í öðru tilvikinu sé um endurgreiðslu að ræða en í hinu tilvikinu ekki. Með tilliti til umhverfis hlýtur að vera æskilegra að notuð sé skattaleg hvatning til þess að bæta framkvæmd förgunarmála og ýtt sé undir endurvinnslu til að mynda plasts eða brotamálma.
    Minni hlutinn telur að þurft hefði að skoða betur en gert var hvort ekki væri unnt að verða við þessu erindi sveitarfélaganna. Að hinu leytinu til óska sveitarfélögin eftir því að virðisaukaskattur af slökkvi- og björgunarbúnaði verði endurgreiddur og er það rökstutt með því að mikil þörf sé á að endurnýja slíkan búnað, en hann er kostaður af þeim. Meiri hlutinn hefur því miður ákveðið að verða við hvorugri þessara óska.
    Hið pólitíska mál er að sjálfsögðu 9. gr. frumvarpsins sem er hluti þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna húsbygginga og viðhalds og endurbóta á húsnæði úr 100% niður í 60%. Minni hlutinn barðist hart gegn þessum áformum á síðasta þingi og varaði mjög við því að farið yrði út á þessa braut og stendur sú afstaða óbreytt. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var á sínum tíma tekin í tengslum við breytingar á vörugjöldum og í raun til að fjármagna tiltekna lækkun á þeirri hlið. Með því var skattbyrði flutt yfir á þann hóp sem er að byggja eða endurbæta húsnæði og hlýtur sú ráðstöfun að teljast fráleit. Engar vísbendingar eru um að húsbyggjendur séu öðrum landsmönnum færari um að taka á sig skattahækkanir um þessar mundir. Verst er þó að þessi lækkun virðisaukaskattsins er mjög líkleg til að koma fram í stórauknum undanskotum frá skatti og svartri atvinnustarfsemi. Það er mat þeirra sem til þekkja að nú þegar sjái þess stað í verulegum mæli að úr því dragi að reikningum sé skilað vegna þess þáttar málsins þar sem endurgreiðslan hefur þegar lækkað, þ.e. vegna vinnu manna við nýbyggingar. Reyndar er málið hið vandræðalegasta fyrir meiri hlutann þar sem breytingin nú kemur til af því að mistök urðu við lagasetninguna síðasta vor. Frá byrjun var ætlunin að lækkunin tæki jafnt til vinnu við byggingu íbúðarhúsnæðis sem vinnu við viðhald og endurbætur en þar urðu mistökin og þess vegna er nauðsynlegt að gera breytingar. Eftir stendur að þessi ráðstöfun er óskynsamleg og óréttmæt og minni hlutinn leggst eindregið gegn henni. Minni hlutinn mun greiða atkvæði gegn þessari grein frumvarpsins og frumvarpinu í heild sinni verði hún engu síður samþykkt. Fyrir liggja umsagnir um þetta mál, m.a. frá BSRB og Samtökum iðnaðarins, þar sem þessum breytingum er eindregið mótmælt. Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 3. des. 1996.



Steingrímur J. Sigfússon,

Ágúst Einarsson.


frsm.





Fylgiskjal I.


Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.


(28. nóvember 1996.)



(Repró 2 bls.)



Virðingarfyllst,


Þórður Skúlason framkvæmdastjóri.





Fylgiskjal II.


Umsögn Sambands sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.


(27. nóvember 1996.)



(Repró 1 bls.)



Virðingarfyllst,


Bjarni Þór Einarsson, framkvæmdastjóri SSNV.





Fylgiskjal III.


Umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.


(26. nóvember 1996.)



(Repró 1 bls.)



Virðingarfyllst,


f.h. BSRB,


Rannveig Sigurðardóttir.




Fylgiskjal IV.


Umsögn Samtaka iðnaðarins.


(26. nóvember 1996.)



(Repró 2 bls.)



Jón Steindór Valdimarsson aðstoðarframkvæmdastjóri.




Fylgiskjal V.


Bréf Tækjakaupanefndar Félags slökkviliðsstjóra,


Sambands íslenskra sveitarfélaga og Brunamálastofnunar.


(2. desember 1995.)



(Repró 1 bls.)



Með kveðju,


f.h. nefndarinnar,


Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri Brunavörnum Árnessýslu.