Ferill 55. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 55 . mál.


269. Nefndarálit



um frv. til 1. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Ólafsson, aðstoðarmann dómsmálaráðherra og formann Umferðarráðs, Ólaf W. Stefánsson, skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu, Óla H. Þórðarson, framkvæmdastjóra Umferðarráðs, Guðbrand Bogason og Arnald Árnason frá Ökukennarafélagi Íslands og Ólaf Guðmundsson og Braga Bragason frá Landssambandi íslenskra akstursíþróttamanna.
    Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Slysavarnafélagi Íslands, Umferðarráði, Vegagerðinni og Ökukennarafélagi Íslands.
    Frumvarpið fjallar í fyrsta lagi um aðlögun að tilskipun Evrópusambandsins frá 1991 um ökuskírteini, þ.e. um aðlögun ökuréttindaflokka, um viðurkenningu á ökuskírteinum sem gefin eru út í aðildarríkjum EES, án tillits til búsetu, og um skilgreiningu á léttu bifhjóli. Í öðru lagi felast í frumvarpinu orðalagsbreytingar til samræmis við breytta flokkun vega í vegalögum. Þá fjallar það um breytingar á ákvæðum um leyfðan hámarkshraða bifreiða með eftirvagn eða skráð tengitæki (hjólhýsi og tjaldvagn) þannig að hann verði almennt sá sami og hámarkshraði vörubifreiða, þó þannig að hámarkshraði bifreiða með tiltekna eftirvagna, sem eru án hemla, eða óskráð tengitæki verði lægri. Rétt er að geta þess að nokkur umræða varð í nefndinni um 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins um hækkun hámarkshraða bifreiða með tengivagna úr 60 km/klst. í 80 km/klst. Nefndin leggur til að Umferðarráð fylgist með hvort breyting þessi hefur í för með sér aukna slysatíðni.
    Í frumvarpinu er einnig heimild fyrir ráðherra til setningar reglna um ökunám og um stofnun og starfsemi ökuskóla. Í frumvarpinu er lagt til að æfingaakstur, hvort heldur er með ökukennara eða leiðbeinanda, megi hefjast tólf mánuðum áður en nemandi öðlast aldur til að fá ökuskírteini útgefið. Einnig eru lagðar til breytingar að því er varðar réttindi til að stjórna léttu bifhjóli og torfærutæki. Loks gerir frumvarpið ráð fyrir að ráðherra kveði á um hverjir tilnefni fulltrúa í Umferðarráð, í stað þess að þeir aðilar séu taldir upp í lögum, og um rannsóknarnefnd umferðarslysa.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um tillögu sem felur í sér að nemanda verði heimilt að hefja æfingaakstur tólf mánuðum áður en hann hefur aldur til að fá útgefið ökuskírteini, í stað sex mánuðum áður eins og nú. Tími til æfingaaksturs áður en náð er tilskildum aldri til að fá ökuskírteini var lengdur úr þremur mánuðum í sex frá 1. júní 1993. Þá var dómsmálaráðherra jafnframt veitt heimild til að setja reglur um æfingaakstur nemanda án löggilts ökukennara en með leiðbeinanda sem uppfyllti tiltekin skilyrði. Reglur um æfingaakstur með leiðbeinanda tóku gildi í maí 1994. Samkvæmt þeim er nemanda, sem að mati ökukennara hefur öðlast næga þekkingu á umferðarreglum og þjálfun í meðferð

Prentað upp.

og stjórnun ökutækis til að æfa akstur með leiðbeinanda, heimill slíkur akstur, enda hafi leiðbeinandinn fengið til þess heimild lögreglustjóra. Nefndin telur að með því að lengja tíma til æfingaaksturs gefist þeim sem nýta vilja sér heimild til að æfa sig með leiðbeinanda færi á að hefja undirbúningsþjálfun hjá ökukennara fyrr. Fulltrúar dómsmálaráðuneytis upplýstu að í Noregi og Svíþjóð væri æfingaakstur, með ökukennara eða leiðbeinanda, heimill frá 16 ára aldri en þar er ökuskírteini ekki gefið út fyrr en við 18 ára aldur. Nefndin leggur áherslu á að um æfingaakstur með leiðbeinanda gilda að lögum allar sömu reglur og um æfingaakstur með ökukennara. Leiðbeinandi telst stjórnandi ökutækisins og er ábyrgur fyrir æfingaakstrinum á sama hátt og ökukennari. Samkvæmt reglum um æfingaakstur með leiðbeinanda á aksturinn að fara fram með hliðsjón af þjálfun nemanda og leiðbeiningum sem Umferðarráð gefur út. Nefndin telur að með auknum æfingaakstri eigi nemandi að öðlast meiri reynslu í akstri sem honum nýtist þegar hann byrjar að aka sjálfur. Á það hefur verið bent að misskilnings eða vanþekkingar gæti um þær reglur sem gilda um æfingaakstur með leiðbeinanda. Nefndin telur því nauðsynlegt að reglur um þetta verði vel kynntar svo að öllum verði ljóst hvaða skilyrðum aksturinn er háður. Þá er og æskilegt að leiðbeinandi og ökukennari hafi samráð sín á milli. Að teknu tilliti til þessa mælir nefndin með því að æfingaakstur megi hefjast þegar tólf mánuðir eru þar til aldri til ökuréttinda er náð, þ.e. við 16 ára aldur.
    Landssamband íslenskra akstursíþróttamanna gerði sérstaklega athugasemd við 1. gr. og b-lið 7. gr. frumvarpsins. Skal af því tilefni tekið fram að frumvarpið hefur ekki í för með sér hækkuð aldursmörk vegna réttinda til aksturs léttra bifhjóla, heldur er aðeins um að ræða breytingu á hraðamörkum léttra bifhjóla úr 50 km/klst. í 45 km/klst. Þá felur frumvarpið í sér að mörk er varða kraft hjólanna eru miðuð við 50 rúmsentimetra en ákvæðið um 2,5 hestöfl fellur niður. Er þetta í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um ökuréttindaflokka. Einnig gerði það athugasemdir við það að unglingum undir 17 ára aldri væri ekki heimilt að aka kraftminni vélsleðum, en það kom fram í nefndinni að vélsleðar með vélarstærð minni en 50 rúmsentimetra eru mjög fáir. Rétt þykir að dómsmálaráðuneytið kanni hvort unnt sé að veita undanþágur fyrir ökumenn á aldrinum 15–17 ára til að aka torfærutækjum með vélarstærð allt að 50 rúmsentimetrum.
    Nokkur umræða átti sér stað í nefndinni um það hvort hækka ætti ökuleyfisaldur, en upplýst var að hafin hefur verið viðhorfskönnun á hækkun ökuleyfisaldurs úr 17 í 18 ár.
    Nefndin fjallaði einnig um breytingartillögu sem lögð var fram við 1. umræðu, þskj. 79. Getur nefndin ekki mælt með samþykki hennar, enda er á það bent að við hönnun vega hér á landi er ekki gert ráð fyrir hraða umfram 90 km/klst.
    Nefndin leggur til að tvær breytingar verði gerðar á frumvarpinu í ljósi ábendinga sem henni hafa borist. Annars vegar er um að ræða breytingu á 3. gr. sem lögð er til samkvæmt ábendingu Umferðarráðs og Bifreiðaskoðunar Íslands, en tillagan felur í sér að hinn lægri leyfði hámarkshraði bifreiða með eftirvagn eða tengitæki miðist við eftirvagna sem eru meira en 750 kg að heildarþyngd í stað 300 kg eða meira eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Rökstuðningur við þessa breytingu er sá að óeðlilegt sé að miða við 300 kg þar sem þannig sé t.d. gerður greinarmunur á hámarkshraða tjaldvagns og jeppakerru. Þykja 750 kg eðlilegri mörk, enda eru þau í samræmi við ákvæði 63. gr. laganna þar sem kveðið er á um skráningarskyldu eftirvagna bifreiða og dráttarvéla. Hin breytingin sem lögð er til er einnig að ábendingu Umferðarráðs og felur hún í sér að þeim sem hefur rétt til að stjórna bifhjóli verði einnig heimilt til að stjórna torfærutæki. Þykir rétt að þeir sem hafa rétt til að stjórna bifhjóli án þess að hafa aflað sér bifreiðastjóraréttinda megi einnig stjórna torfærutæki, enda gilda sömu aldursmörk um réttindi til að stjórna bifreið og bifhjóli, þ.e. 17 ára aldur.
    Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:


    
    Í stað orðanna „300 kg eða meira“ í 2. efnismgr. 3. gr. komi: meira en 750 kg.
    Við efnismálsgrein b-liðar 7. gr. bætist: eða bifhjóli.

    Ögmundur Jónasson og Valgerður Sverrisdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Jóhanna Sigurðardóttir hefur fyrirvara við 3. gr. frumvarpsins.

Alþingi, 5. des. 1996.



Sólveig Pétursdóttir,

Ólafur Örn Haraldsson.

Jóhanna Sigurðardóttir,


form., frsm.

með fyrirvara.



Hjálmar Jónsson.

Kristján Pálsson.

Guðný Guðbjörnsdóttir.



Árni R. Árnason.