Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 57 . mál.


320. Nefndarálit



um frv. til 1. um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Annar minni hluti er í aðalatriðum sammála efni frumvarpsins. Þegar sama frumvarp var afgreitt frá sjávarútvegsnefnd síðasta vor átti 2. minni hluti aðild að áliti meiri hluta sjávarútvegsnefndar, en þó með fyrirvara sem varðaði afgreiðslu málsins og 8. gr., um eftirlitsákvæði.
    Þegar frumvarpið var lagt fram á nýjan leik nú í haust hafði það verið lagfært í samræmi við breytingartillögur meiri hlutans frá því í vor. 2. minni hluti er enn sama sinnis og mun styðja efni frumvarpsins, með einni undantekningu. 2. minni hluti telur að ótvíræð þörf sé fyrir að lögfesta nýjan lagaramma um úthafsveiðar, enda hefur þróun þeirra mála verið ör undanfarin ár og aðstæður að flestu leyti gjörbreyttar frá því að núgildandi lög voru sett árið 1976.
    Mikil umræða hefur orðið í sjávarútvegsnefnd um ákvæði 3. mgr. 5. gr. og 6. gr. frumvarpsins og þá einkum þau rúmu heimildarákvæði sem samkvæmt því yrðu sett í hendur ráðherra. Ráðherra yrði þannig falið að ákveða „hvort og einnig að hve miklu leyti innan þeirra marka sem greinarnar kveða á um“ skuli láta útgerðarmenn skila veiðiheimildum á móti úthlutun varanlegra veiðiréttinda á úthafinu. Undir lok umfjöllunar sinnar bárust sjávarútvegsnefnd í hendur lögfræðilegar athugasemdir þar sem varað er við þessum opnu heimildum.
    Annar minni hluti telur þessar athugasemdir, og reyndar athugasemdir við fleiri atriði frumvarpsins, það alvarlegar að ástæða hefði verið til að athuga þær nánar. Að minnsta kosti þyrfti að skoða hvort ekki væri rétt að afmarka mun betur þessi heimildarákvæði og skilyrða beitingu þeirra frekar eða binda við ákveðnar reglur.
    Að öðru leyti en því sem lýtur að 3. mgr. 5. gr. og 6. gr. telur 2. minni hluti frumvarpið til bóta og þörf á að setja skýrari ákvæði í lög í takt við þróun hafréttarins hvað úthafsveiðar snertir þótt deila megi um ýmis útfærsluatriði.
    Þjóðhagslegt mikilvægi úthafsveiða hefur aukist gríðarlega síðustu árin og er nú svo komið að allt að 15% af heildaraflaverðmæti íslenska flotans er frá þeim, sbr. meðfylgjandi töflu með yfirliti yfir úthafsveiðar Íslendinga síðustu fjögur ár:

1993

1994

1995

1996*


tonn

millj. kr.

tonn

millj. kr.

tonn

millj. kr.

tonn

millj. kr.




Reykjaneshryggur     
19.747
932 47.000 2.037 29.265 1.318 45.000 2.025
Smugan     
11.500
890 36.971 2.710 34.476 2.503 35.000 2.541
Flæmingjagrunn     
2.196
382 2.555 418 7.700 1.309 18.000 3.060
Íslandssíld     
21.010 111 174.000 948 170.000 927
Austur-Grænland     
331 57
Samtals     
33.443
2.204 107.867 5.333 245.441 6.078 268.000 8.533
Hlutfall úhafsafla af heildar-
aflaverðmæti íslenska flotans     
4,3%
10% 11,4% 14–15%

*Áætlun

    Annar minni hluti leggur áherslu á að alls ekki beri að skoða samþykkt þessa frumvarps sem aðgerð til að leggja stein í götu aukinnar sóknar íslenskrar útgerðar á úthafið. Þvert á móti er mikilvægt að leggja engar kvaðir eða íþyngjandi aðgerðir á íslenska úthafsútgerð, umfram það sem óumflýjanlegt er vegna alþjóðlegra samningsskuldbindinga. Ákvæði ýmissa annarra laga sem valda útgerðinni óþægindum í þessu sambandi þarf að endurskoða og er þar ekki síst átt við reglur um skráningu skipa og um úreldingu fiskiskipa.

Alþingi, 10. des. 1996.



Steingrímur J. Sigfússon,


form.