Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 1 . mál.


331. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 23. september sl. og átti viðtal við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Samstarf fjárlaganefndarmanna og sveitarstjórnarmanna hefur nú sem áður verið gott og sú yfirsýn, sem fundir nefndarinnar með sveitarstjórnarmönnum gefa, er mikilvæg fyrir nefndina við afgreiðslu fjárlaga. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Nefndin óskaði eftir með bréfi, dags. 15. október sl., álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað áliti og fylgja þau nefndarálitinu sem fylgiskjöl eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Þetta er sjötta árið sem þessi skipan er höfð á um samskipti fastanefnda þingsins við fjárlaganefnd um afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.
    Eftir að frumvarp til fjárlaga hefur verið lagt fram á Alþingi eru fjölmargir aðilar, félög, samtök og stofnanir, sem telja sig eiga erindi við fjárlaganefnd og kallar þá nefndin fyrir sig forsvarsmenn ýmissa stofnana til viðræðna um starfsemi þeirra og fjárframlög.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 48 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila. Auk þess hafa undirnefndir unnið að afgreiðslu einstakra málaflokka.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu allra fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær, sem eru til umfjöllunar við 2. umræðu, nema samtals 710,9 millj. kr. til hækkunar á 4. gr. frumvarpsins.
    Meiri hluti nefndarinnar vill þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og einstök ráðuneyti hafa veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.
    Eins og venja er bíða 3. umræðu afgreiðsla á tekjuhlið frumvarpsins, B-hluti og heimildir skv. 6. gr. Auk þess bíða ýmis viðfangsefni 3. umræðu, smærri og stærri, sem nefndin hefur enn til umfjöllunar.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.

00 Æðsta stjórn ríkisins


201    Alþingi: Framlag til Alþingis hækkar alls um 43,4 m.kr. og verður 823,9 m.kr. Hækkun skiptist á eftirfarandi viðfangsefni: Viðfangsefnið 1.04 Rekstrarskrifstofa hækkar um 15,6 m.kr. Viðfangsefnið 1.08 Hið íslenska þjóðvinafélag hækkar um 1,8 m.kr. Viðfangsefnið 5.20 Fasteignir hækkar um 18 m.kr. Að lokum hækkar viðfangsefnið 6.01 Tæki og búnaður um 8 m.kr.
610    Umboðsmaður Alþingis: Rekstrarframlag hækkar um 5,2 m.kr. og verður 38,9 m.kr.

01 Forsætisráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar alls um 33 m.kr. og verður 43,7 m.kr. Teknir eru inn fjórir liðir. Í fyrsta lagi viðfangsefnið 1.11 Ritun biskupasögu, Hið íslenska fornritafélag, og verður framlag 4 m.kr. Það er önnur greiðslan af þremur til félagsins til ritunar á biskupasögu. Í öðru lagi er tekinn inn liðurinn 1.12 Handverk, hönnunarmiðstöð heimilis- og listiðnaðar. Framlag er 6,5 m.kr. en gert er ráð fyrir framlagi í tvö ár og að framlag á árinu 1998 verði 5 m.kr. Í þriðja lagi er tekið inn nýtt viðfangsefni, 1.13 Saga Íslands, Hið íslenska bókmenntafélag, og er framlag 6 m.kr. Fyrirhugað er að gera samning við félagið um að ljúka ritun og útgáfu á Sögu Íslands á næstu árum. Í fjórða og síðasta lagi er tekinn inn nýr liður, 1.15 Útboðs- og einkavæðingarverkefni. Fjárveiting er 15 m.kr. en á móti fellur niður viðfangsefni með sama heiti og fjárveitingu undir fjármálaráðuneyti á fjárlagalið 999 Ýmislegt. Að lokum hækkar framlag til viðfangsefnisins 1.23 Hrafnseyri um 1,5 m.kr. og verður 3 m.kr. til að ljúka byggingu torfbæjar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

02 Menntamálaráðuneyti


201    Háskóli Íslands: Tekinn er inn nýr liður, 1.11 Ritakaupasjóður, og er framlag 31,5 m.kr. Á móti lækkar framlag til bókakaupa Landsbókasafns – Háskólabókasafns um 19,5 m.kr.
202    Tilraunastöð Háskólans að Keldum: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 2,8 m.kr. vegna launakostnaðar við rannsóknir á riðu og Crautztfeldt-Jakob sjúkdómi.
203    Raunvísindastofnun Háskólans: Viðfangsefnið 1.03 Rannsóknastofur hækkar alls um 12,3 m.kr. Af þeirri hækkun eru 10,5 m.kr. ætlaðar til sérstaks átaksverkefnis í grunnrannsóknum á aðstæðum í Vatnajökli en 1,8 m.kr. til rannsókna.
205    Stofnun Árna Magnússonar: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 5 m.kr. til úrbóta í öryggismálum stofnunarinnar og vegna móttöku handrita.
211    Tækniskóli Íslands: Tekinn er inn nýr liður 6.01 Tæki og búnaður. Framlag að fjárhæð 12 m.kr. er ætlað til endurnýjunar tölvubúnaðar.
221    Kennaraháskóli Íslands: Viðfangsefnið 1.05 Kennsla hækkar um 3 m.kr. vegna fjarkennslu.
225    Samvinnuháskólinn: Fjárlagaliðurinn fær nýtt númer og nýtt heiti en var áður 580 Samvinnuskólinn. Heildarframlag hækkar um 5 m.kr. og verður 48,9 m.kr. Fyrirhugað er að endurskoða samning menntamálaráðuneytis við skólann. Nemendur hafa verið fleiri vegna framhaldsdeildar en sem heimilað var. Fjárveiting færist á 1.01 Almennur rekstur, 28,7 m.kr. og 1.02 Annað en kennsla, 22 m.kr. Sértekjur verða 1,8 m.kr.
318    Framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður: Viðfangsefnið 6.50 Tölvubúnaður lækkar um 13 m.kr. og verður 7 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 6.90 Byggingarframkvæmdir hækkar um 13 m.kr. og verður 508 m.kr. Í breytingartillögum nefndarinnar er fjárhæðum skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.
319    Framhaldsskólar, almennt: Framlag til viðfangsefnisins 1.40 Framhaldsskólar, óskipt hækkar um 30 m.kr. og verður 78,1 m.kr. Hækkun er vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á gildistölu nokkurra framhaldsskóla og leiðréttingar á framlagi.
506    Vélskóli Íslands: Framlag til eignakaupa á viðfangsefni 1.02 Annað en kennsla hækkar um 3 m.kr.
507    Stýrimannaskólinn í Reykjavík: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla hækkar um 3 m.kr. til að standa undir kostnaði við breytingar á kennsluaðstöðu verklegrar kennslu.
551    Hússtjórnarskólinn Hallormsstað: Framlag til viðfangsefnisins 1.01 Kennsla hækkar um 4 m.kr.
561    Myndlista- og handíðaskóli Íslands: Framlag til viðfangsefnisins 1.02 Annað en kennsla hækkar um 2 m.kr. og er ætlað til kaupa á tæknibúnaði til margmiðlunar.
580    Samvinnuskólinn: Fjárlagaliðurinn fellur brott en fjárveiting til skólans flyst á fjárlagalið 02-225 Samvinnuháskólinn.
872    Lánasjóður íslenskra námsmanna: Fjárveiting hækkar um 100 m.kr. og verður 1.600 m.kr. vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um sjóðinn.
884    Jöfnun á námskostnaði: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 10 m.kr. og verður 106,5 m.kr.
902    Þjóðminjasafn Íslands: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 2 m.kr. og er ætlað til skráningar fornminja. Tekinn er inn nýr liður, 6.01 Tæki og búnaður. Framlag er 3 m.kr. til að ljúka endurnýjun á tölvubúnaði sem hófst í ár.
903    Þjóðskjalasafn Íslands: Framlag til viðfangsefnisins 1.11 Héraðsskjalasöfn hækkar um 1 m.kr. og verður 5 m.kr.
905    Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn: Viðfangsefnið 6.05 Bókakaup o.fl. fær nýtt heiti, 6.05 Bókakaup, Landsbókasafnsþáttur. Framlag lækkar um 19,5 m.kr. og verður 23,5 m.kr. Fjárveitingin er flutt til nýs Ritakaupasjóðs á fjárlagalið Háskóla Íslands.
973    Þjóðleikhús: Rekstrarframlag hækkar um 7 m.kr. til að standa undir greiðslu uppbóta á lífeyri fyrrum starfsmanna leikhússins.
974    Sinfóníuhljómsveit Íslands: Rekstrarframlag hækkar um 7 m.kr. vegna endurskoðunar á útreikningsreglum um fjármögnun hljómsveitarinnar, greiðslu uppbóta á lífeyri, tekna af skemmtanaskatti og umsvifa í rekstri.
981    Kvikmyndasjóður: Framlag til sjóðsins hækkar um 25 m.kr. og verður 119,8 m.kr. og er hluti hækkunarinnar ætluð til uppgjörs á skuld.
983    Ýmis fræðistörf: Tekinn er inn nýr liður, 1.13 Bókaútgáfa Leifs Eiríkssonar. Fjárveiting er 2,5 m.kr. og rennur til útgáfu á Íslendingasögum og Íslendingaþáttum á ensku. Þar er um að ræða lokagreiðslu til útgáfunnar.
988    Æskulýðsmál: Fjárveiting til viðfangsefnisins 1.12 Ungmennafélag Íslands hækkar um 4 m.kr. og verður 14 m.kr. Hækkun skiptist þannig að 3 m.kr. eru ætlaðar til rekstrar félagsins en 1 m.kr. til endurbóta á húsnæði samtakanna.
989    Ýmis íþróttamál: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar alls um 13,5 m.kr. Viðfangsefnið 1.10 Íþróttasamband Íslands hækkar um 4 m.kr. og verður 28 m.kr. Fjárveiting til viðfangsefnisins 1.11 Ólympíunefnd Íslands hækkar um 1,5 m.kr. vegna kostnaðar við Ólympíuleikana í Atlanta. Tekinn er inn nýr liður, 1.26 Borgarbyggð, landsmót UMFÍ, Skallagrímsvöllur, og er framlag 8 m.kr.
999    Ýmislegt: Tekinn er inn nýr liður, 1.11 Forvarnarstarf í skólum. Framlagið sem er 5 m.kr. er ætlað til að standa undir kostnaði við sérstakt sérfræðingateymi en hlutverk þess verður m.a. að skipuleggja forvarnastarf í skólum gegn áfengis- og fíkniefnanotkun ungmenna.

03 Utanríkisráðuneyti


101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar um alls 15 m.kr. og verður 389,6 m.kr. Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 9,5 m.kr. Annars vegar er hækkun um 3,5 m.kr. sem ætlað er til að standa undir kostnaði ráðuneytisins við þátttöku fulltrúa Íslands í fundum og starfi efnahags- og félagsráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC). Hins vegar hækkar framlag um 6 m.kr. til að mæta auknum kostnaði vegna launa, ferða og bættrar starfsaðstöðu starfsmanns til að hafa með höndum samningagerð og viðræður um úthafsveiðar. Viðfangsefnið 1.53 Þýðingamiðstöð hækkar um 5,5 m.kr. og verður 18,3 m.kr. Hækkun á að standa undir kostnaði á þýðingum á reglum ESB er tengjast innflutningi og afnámi heilbrigðiseftirlits með sjávarafurðum á landamærum EFTA og ESB.
190    Ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður, 1.13 Þátttaka fulltrúa vinnumarkaðarins í EFTA- og EES-samstarfi. Fjárveiting að fjárhæð 2,5 m.kr. er ætluð til að kosta þátttöku fulltrúa vinnumarkaðarins í nefndarstarfi í tengslum við Fríverslunarsamtök Evrópu og samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Á móti lækkar fjárlagaliður 07-981-1.90 Vinnumál, ýmislegt um sömu fjárhæð.

04 Landbúnaðarráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Viðfangsefnið 1.31 Skógræktarfélag Íslands hækkar um 0,5 m.kr. og verður 3,5 m.kr.
851    Greiðslur vegna smitsjúkdóma og salmonellumengunar: Liðurinn breytir um heiti en hét áður Greiðslur vegna riðuveiki.

05 Sjávarútvegsráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður, 1.21 Fiskifélag Íslands, sjóvinnukennsla, og er framlag 4 m.kr. Stefnt er að því að gerður verði samningur við Fiskifélagið um að það annist sjóvinnukennslu í grunnskólum.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


290    Dómsmál, ýmis kostnaður: Framlag til viðfangsefnisins 1.15 Lögfræðiþjónusta neyðarmóttöku vegna nauðgana hækkar um 1 m.kr. og verður 4,3 m.kr. vegna hækkunar á taxta lögfræðinga.
291    Húsnæði og búnaður dómstóla: Viðfangsefnið 6.01 Húsnæði Hæstaréttar hækkar um 35 m.kr. og verður 45 m.kr.
321    Almannavarnir ríkisins: Rekstrarframlag hækkar um 2,7 m.kr. vegna sameiginlegrar björgunaræfingar NATO á árinu 1997.
331    Umferðarráð: Tekinn er inn nýr liður, 1.11 Ökuhermar fyrir grunnskólabörn. Framlag er 3 m.kr. en gert er ráð fyrir að unglingum verði gefinn kostur á kennslu í ökuhermi sem valgrein í efstu bekkjum grunnskóla.
341    Áfengis- og fíkniefnamál: Tekinn er inn nýr liður, 1.25 Átak í löggæslu vegna fíkniefnamála. Fjárveiting er 35 m.kr. en gert er ráð fyrir að framkvæmdaáætlun um nýtingu fjárveitingarinnar liggi fyrir í lok febrúar 1997.
397    Schengen samstarf: Fjárveiting til viðfangsefnisins 1.01 Almennur rekstur lækkar um 6 m.kr. og verður 14 m.kr. þar sem framlag til reksturs skrifstofu Schengen og kostnaður við þýðingar verður lægri en áætlað var við gerð frumvarps til fjárlaga.
501    Fangelsismálastofnun ríkisins: Almennur rekstur hækkar um 7,5 m.kr. en á móti hækka sértekjur um sömu fjárhæð þannig að heildaráhrifin eru engin. Breytingin er gerð vegna mistaka við vinnslu frumvarps til fjárlaga.

07 Félagsmálaráðuneyti


400    Málefni barna og ungmenna: Viðfangsefnið 1.20 Heimili fyrir börn og unglinga hækkar um 3 m.kr. en á móti lækkar fjárlagaliður 07-950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð. Um er að ræða verðlagshækkun á framlagi til einkarekinna heimila.
701    Málefni fatlaðra, Reykjavík: Framlag til viðfangsefnisins 1.20 Sambýli hækkar um 5 m.kr. og verður 190,3 m.kr. Um er að ræða framlag til að hefja rekstur þriggja heimila fyrir fatlaða í lok ársins.
801    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: Framlag til viðfangsefnisins 1.10 Almennur rekstur hækkar um 35 m.kr. og verður 2.415 m.kr. Framlagið er hið þriðja af fjórum í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um að jafna skuldastöðu sveitarfélaga sem sameinast.
950    Rekstrarhagræðing: Framlag lækkar um 3 m.kr. sem millifært er á fjárlagalið 07-400 Málefni barna og ungmenna.
981    Vinnumál: Viðfangsefnið 1.90 Ýmislegt lækkar um 2,5 m.kr. en á móti er tekinn inn nýr liður, 03-190-1.13 Þátttaka fulltrúa vinnumarkaðarins í EFTA- og EES-samstarfi, og er framlag þess liðar 2,5 m.kr.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefnið 1.31 Félagasamtök, styrkir hækkar um 3 m.kr. en á móti fellur brott viðfangsefnið 08-399-1.67 Sjálfsbjörg í Reykjavík.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


203    Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð: Fjárveiting að fjárhæð 6 m.kr. flyst yfir á fjárlagalið 206 Sjúkratryggingar vegna nýrra ákvæða almannatryggingalaga um styrk til kaupa á næringarefni og sérfæði.
206    Sjúkratryggingar: Viðfangsefnið 1.10 Almennur rekstur lækkar alls um 970 m.kr. og er breytingin þríþætt. Í fyrsta lagi hækkar framlag um 19 m.kr. vegna nýrra ákvæða almannatryggingalaga um styrk til kaupa á næringarefni og sérfæðis. Þar af eru 6 m.kr. millifærðar frá fjárlagalið 203 Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í öðru lagi lækkar framlag um 19 m.kr. og er þar um að ræða millifærslu til rannsóknastöðvar Hjartaverndar á fjárlagalið 399 Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Að lokum lækkar framlag um 970 m.kr. og flyst fjárhæðin á nýjan fjárlagalið 207 Verkgreiðslur til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Millifærslan er vegna áforma um sparnað í rannsóknum.
207    Verkgreiðslur til sjúkrahúsa: Þetta er nýr fjárlagaliður og er framlag sem er 970 m.kr. millifært af fjárlagalið 206 Sjúkratryggingar. Millifærslan er vegna áforma um sparnað í rannsóknum. Fyrirhugað er að heilbrigðisráðuneyti ráðstafi þessum fjármunum í byrjun næsta árs á grundvelli reynslutalna fyrir árið 1996.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi: Viðfangsefnið 1.35 Hjartavernd, rannsóknarstöð fær nýtt heiti en var áður 1.25 Hjartavernd, Monica-rannsóknir. Framlag hækkar um 29,5 m.kr. og er um millifærslur að ræða. Annars vegar lækkar framlag til fjárlagaliðarins 206 Sjúkratryggingar um 19 m.kr. og hins vegar fellur viðfangsefnið 1.37 Hjartavernd brott en fjárveiting til þess viðfangsefnis er 10,5 m.kr. í frumvarpi til fjárlaga. Breytingarnar eru í samræmi við drög að samningi milli Hjartaverndar annars vegar og heilbrigðisráðuneytisins hins vegar um kaup á þjónustu af rannsóknarstöð Hjartaverndar. Fjárveiting til viðfangsefnisins 1.59 Krýsuvíkurskóli, vist- og meðferðarheimili hækkar um 2 m.kr. og verða 16,4 m.kr. Viðfangsefnið 1.67 Sjálfsbjörg í Reykjavík fellur brott en fjárveiting að fjárhæð 3 m.kr. flyst á viðfangsefnið 07-999-1.31 Félagasamtök, styrkir.
408    Sunnuhlíð, Kópavogi: Almennur rekstur lækkar um 8,8 m.kr. en á móti lækka sértekjur um sömu fjárhæð þannig að heildarbreytingin er engin. Breyting er vegna breytinga á rekstrarfyrirkomulagi eldhúss stofnunarinnar.
420    Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið: Framlag hækkar um 3 m.kr. vegna rannsókna á alnæmi, lifrarbólgu o.fl.
510    Heilsuverndarstöðin í Reykjavík: Heildarframlag til fjárlagaliðarins lækkar um 4,1 m.kr., annars vegar vegna 0,9 m.kr. hækkunar almennra rekstrargjalda og hins vegar um 5 m.kr. vegna hækkunar sértekna. Á móti hækkar framlag til heilsugæslustöðvarinnar í Lágmúla, Reykjavík um sömu fjárhæð. Breytingarnar eru vegna endurnýjunar á samningi við Heimilislæknastöðina hf.
515    Heilsugæslustöðin Lágmúla í Reykjavík: Heildarframlag hækkar um 4,1 m.kr. Framlag til almenns rekstrar hækkar um 8,4 m.kr. en á móti hækka sértekjur um 4,3 m.kr. Breytingarnar eru vegna endurnýjunar á samningi við Heimilislæknastöðina hf.
524    Heilsugæslustöðin Ólafsvík: Sértekjur lækka um 2,3 m.kr. vegna ofáætlunar tekna af sjúkraflutningum.
526    Heilsugæslustöðin Búðardal: Sértekjur lækka um 1,3 m.kr. vegna ofáætlunar tekna af sjúkraflutningum.
553    Heilsugæslustöðin Akureyri: Rekstrarframlag hækkar um 2 m.kr. vegna lokaáfanga þróunarverkefnis um aukna fjölskylduvernd og bætt samskipti.
573    Heilsugæslustöðin Vestmannaeyjum: Sértekjur lækkar um 1,5 m.kr. vegna ofáætlunar sértekna.
581    Heilsugæslustöð Suðurnesja: Heildarframlag hækkar um 6 m.kr. Launagjöld viðfangsefnisins 1.01 Almennur rekstur hækka um 2 m.kr. vegna nýrrar stöðu heilsugæslulæknis. Að auki lækka sértekjur um 4 m.kr. vegna ofáætlunar.

09 Fjármálaráðuneyti


103    Ríkisbókhald: Rekstrarframlag hækkar um 10 m.kr. vegna aukins kostnaðar er tengist nýrri framsetningu á ríkisreikningi.
201    Ríkisskattstjóri: Heildarframlag hækkar um 23 m.kr. og verður 337 m.kr. Viðfangsefnið 1.10 Sameiginleg útgjöld ríkisskattstjóra og skattstofa lækkar um 10 m.kr. en á móti er tekinn inn nýr liður, 1.20 Skatteftirlit. Framlag er 33 m.kr. en breytingarnar eru liður í endurskoðun á fyrirkomulagi skatteftirlits.
202    Skattstofan í Reykjavík: Rekstrarframlag lækkar um 3 m.kr. en áætlað er að fyrirhuguð skönnun á skattframtölum hafi í för með sér hagræðingu í rekstri.
203    Skattstofa Vesturlands: Almennur rekstur lækkar alls um 1,9 m.kr. og er fjárhæðin tvískipt. Annars vegar lækkar framlag um 1,5 m.kr. vegna breytinga á fyrirkomulagi skatteftirlits og hins vegar lækkar framlag um 0,4 m.kr. vegna hagræðingar sem fyrirhuguð skönnun á skattframtölum hefur í för með sér.
204    Skattstofa Vestfjarða: Rekstrarfjárveiting lækkar um 1,5 m.kr. vegna breytinga á fyrirkomulagi skatteftirlits og um 0,4 m.kr. vegna skönnunar á skattframtölum. Alls lækkar því framlag um 1,9 m.kr.
205    Skattstofa Norðurlands vestra: Rekstrarframlag lækkar um 0,7 m.kr. en áætlað er að fyrirhuguð skönnun á skattframtölum hafi í för með sér hagræðingu í rekstri.
206    Skattstofa Norðurlands eystra: Almennur rekstur lækkar alls um 7,5 m.kr. og er fjárhæðin tvískipt. Annars vegar lækkar framlag um 6 m.kr. vegna breytinga á fyrirkomulagi skatteftirlits og hins vegar lækkar framlag um 1,5 m.kr. vegna hagræðingar sem fyrirhuguð skönnun á skattframtölum hefur í för með sér.
207    Skattstofa Austurlands: Rekstrarfjárveiting lækkar um 1,5 m.kr. vegna breytinga á fyrirkomulagi skatteftirlits og um 0,4 m.kr. vegna skönnunar á skattframtölum. Alls lækkar því framlag um 1,9 m.kr.
208    Skattstofa Suðurlands: Framlag lækkar um 1 m.kr. vegna fyrirhugaðrar skönnunar á skattframtölum.
209    Skattstofa Vestmannaeyja: Rekstrarframlag lækkar um 0,3 m.kr. vegna skönnunar á skattframtölum.
211    Skattstofa Reykjaness: Rekstrarframlag til skattstofunar á Reykjanesi hækkar um 4,3 m.kr. þannig að fjárveiting verði sambærileg við aðrar skattstofur miðað við íbúafjölda. Á móti lækkar framlag um 2 m.kr. vegna fyrirhugaðrar skönnunar á skattframtölum og hækkar því framlag alls um 2,3 m.kr.
212    Skatta- og tollamál, ýmis útgjöld: Framlag hækkar alls um 17,9 m.kr. Í fyrsta lagi fellur viðfangsefnið 1.01 Ýmis sameiginleg útgjöld brott og við það lækkar framlag um 46,6 m.kr. Í öðru lagi er tekinn er inn nýr liður, 1.15 Átak í tollgæslu gegn fíkniefnasmygli, og er fjárveiting 25 m.kr. Hluti er ætlaður til að efla eftirlit á Keflavíkurflugvelli en ráðgert er að framkvæmdaáætlun og tillögur um skiptingu fjárveitingarinnar liggi fyrir í lok febrúar 1997. Í þriðja lagi er tekinn inn nýr liður, 1.30 Þungaskattur, og er fjárveiting 15 m.kr. Í fjórða lagi er fjárveiting á nýjum lið, 1.40 Fjármagnstekjuskattur, 27,5 m.kr. Að lokum lækkar framlag til viðfangsefnisins 6.01 Tæki og búnaður um 3 m.kr. og verður 13 m.kr.
999    Ýmislegt: Tekinn er inn nýr liður, 1.21 Breytingar á framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings. Framlag er 12 m.kr. einskiptisgreiðsla og er ætlað til að standa undir kostnaði vegna nýrrar framsetningar á fjárlögum og ríkisreikningi. Viðfangsefnið 1.41 Útboðs- og einkavæðingarverkefni fellur brott og flyst fjárveiting að fjárhæð 15 m.kr. á nýtt viðfangsefni hjá forsætisráðuneyti.

10 Samgönguráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Heildarframlag til fjárlagaliðarins hækkar um 25,4 m.kr. og verður 177,4 m.kr. Viðfangsefnið 1.23 Slysavarnaskóli sjómanna hækkar um 1,7 m.kr. og verður 33,6 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 1.24 Tilkynningarskylda íslenskra skipa hækkar um 1 m.kr. og verður 19,8 m.kr. Viðfangsefnið 1.27 Slysavarnafélag Íslands hækkar um 2,6 m.kr., m.a. vegna tjóns við björgunarstörf við Hornafjörð. Tekinn er inn nýr liður, 1.29 Snæfellsbær, almannavarna- og björgunarskóli á Gufuskálum. Framlag er 5 m.kr. til að styrkja uppbyggingu björgunarskólans og umsýslu staðarins. Framlag til Landsbjargar á viðfangsefninu 1.31 Landsbjörg hækkar um 5,1 m.kr. Þar af eru 2,5 m.kr. vegna björgunarbátsins Þórs og er það lokagreiðsla. Framlag til nýs viðfangsefnis, 1.42 Ferðamál og markaðsstarf, er 10 m.kr. og er ætlað til ferðamála á landsbyggðinni og til að styrkja markaðsaðgerðir.
211    Vegagerðin: Framlag til viðfangsefnisins 6.10 Nýframkvæmdir hækkar um 100 m.kr. Um er að ræða lán úr ríkissjóði til að flýta viðgerðum á vegamannvirkjum sem urðu fyrir skemmdum af völdum náttúruhamfara á Skeiðarársandi. Lánið verður endurgreitt af vegafé á árinu 1999.
651    Ferðamálaráð: Viðfangsefnið 1.21 Fjölsóttir ferðamannastaðir hækkar um 9 m.kr. og verður 14,1 m.kr.

11 Iðnaðarráðuneyti


299    Iðja og iðnaður, framlög: Viðfangsefnið 1.19 Staðlaráð hækkar um 15 m.kr. og verður 18,8 m.kr. til samræmis við ákvörðun um að 0,007% af tryggingagjaldsstofni renni til Staðlaráðs Íslands til að kosta þróun staðla.
301    Orkustofnun: Vegna skipulagsbreytinga hjá stofnuninni eru gerðar nokkrar innbyrðis breytingar milli viðfangsefna fjárlagaliðarins en heildarfjárveiting breytist ekki. Eftirfarandi viðfangsefni breytast: Viðfangsefnið 1.01 Stjórnsýslusvið fær nýtt heiti, 1.01 Yfirstjórn, og framlag er 8,8 m.kr. Viðfangsefnið 1.02 Rannsóknarsvið fær nýtt heiti, 1.02 Orkumálasvið, og framlag er 66,5 m.kr. Teknir eru inn tveir nýir liðir. Annars vegar 1.03 Orkurannsóknir með 95,5 m.kr. fjárveitingu og hins vegar 1.04 Sala rannsókna en þar er framlag 169,2 m.kr. Að lokum fellur brott viðfangsefnið 1.09 Annað, óskipt.
399    Ýmis orkumál: Viðfangsefnið 1.16 Styrking dreifikerfis í sveitum hækkar um 10 m.kr. og verður 110 m.kr. til samræmis við samkomulag sem gert var við RARIK um ráðstöfun arðgreiðslna fyrirtækisins.

14 Umhverfisráðuneyti


190    Ýmis verkefni: Framlag til viðfangsefnisins 1.23 Ýmis umhverfisverkefni hækkar um 1 m.kr.
410    Veðurstofa Íslands: Framlag til viðfangsefnisins 1.01 Almenn starfsemi hækkar um 1,5 m.kr. til að mæta kostnaði við sólarhringsvakt vegna veðurathugana á Egilsstaðaflugvelli.

Alþingi, 12. des. 1996.



Jón Kristjánsson,

Sturla Böðvarsson.

Árni Johnsen.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Hjálmar Jónsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Fylgiskjal I.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 15. október 1996. Á fund nefndarinnar kom frá forsætisráðuneyti Guðmundur Árnason skrifstofustjóri og frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti þau Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, Þorsteinn A. Jónsson skrifstofustjóri, Þórhallur Ólafsson, aðstoðarmaður ráðherra, Dagný Leifsdóttir deildarstjóri og Sólmundur Már Jónsson. Þá komu einnig á fund nefndarinnar Stefán Hirst frá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík og Ágúst Þór Árnason frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlag til forsætisráðuneytis hækki um 2% milli ára. Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður ráðuneytisins hækki um 23%, aðallega vegna fasteigna sem eru í umsjá ráðuneytisins og greiðslu biðlauna til starfsmanna Húsameistara ríkisins. Framlag til stofnkostnaðar og viðhalds lækkar um 11% þar sem framlag til Byggðastofnunar lækkar. Áætluð rekstrarútgjöld dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hækka nokkuð á árinu. Tæplega helming þeirrar hækkunar má rekja til hækkunar launagjalda vegna kjarasamninga, en helstu hækkanir aðrar til aukins kostnaðar samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þá aukast útgjöld vegna Schengen-samstarfs, nýrra lögreglulaga og opinberrar réttaraðstoðar. Auk þess hækka aðrir smærri liðir nokkuð. Framlag vegna kosninga fellur niður og einnig er gert ráð fyrir við lokun Síðumúlafangelsisins að á næsta ári falli niður eingreiðslur til Fangelsismálastofnunar, auk þess sem gerð er 1% hagræðingarkrafa til stofnana dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Fjárveiting til viðhalds- og stofnkostnaðar lækkar þó nokkuð og má rekja það að mestu til þess að lokið er byggingu dómhúss Hæstaréttar, þó hækkar framlag til kaupa á húsnæði fyrir héraðsdómstól Suðurlands.
    Nefndin kannaði sérstaklega nokkur atriði frumvarpsins og óskaði eftir upplýsingum um þau frá viðkomandi aðilum. Óskað var upplýsinga um kostnað við flutning skrifstofu forsetaembættisins og viðgerðir á húsnæði Alþingis við Kirkjustræti. Í svörum til nefndarinnar kom fram að kostnaður við flutning skrifstofu forseta Íslands er 36,8 millj. kr. en áætlaður heildarkostnaður við viðgerðir á húsnæði Alþingis í Kirkjustræti er 122,4 millj. kr. Einnig var óskað eftir upplýsingum um kostnað af útboðs- og einkavæðingarmálum á árinu 1996 og kom fram í svari ráðuneytisins að áætlaður kostnaður af starfi Framkvæmdanefndar um einkavæðingu á árinu 1996 væri 9 millj. kr.
    Í nefndinni komu einnig fram spurningar um hvort fyrirhuguð væri hækkun dómsmálagjalda og fleiri gjalda skv. lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991. Gjöld samkvæmt lögunum hafa ekki hækkað síðan lögin voru sett og tjáðu fulltrúar ráðuneytisins nefndinni að hugmyndir væru uppi um að færa fjárhæðir til samræmis við breytingar verðlags um næstu áramót, en verðlagsbreytingar munu nema 12,5%. Gjöldum þessum verður ekki breytt nema með lagasetningu sem undirbúin yrði af fjármálaráðuneyti og samhliða yrði væntanlega lagt fram yfirlit yfir hver áhrif hækkun gjaldanna hefði á tekjur ríkissjóðs. Þá fjallaði nefndin um fjárveitingar til lögreglumála í ljósi endurskipulagningar æðstu stjórnar lögreglunnar og annarra breytinga innan hennar. Skipuð hefur verið nefnd sem ætlað er að undirbúa gildistöku lögreglulaganna og fjallar hún m.a. um flutning verkefna frá Rannsóknarlögreglu ríkisins til annarra embætta. Stefnt er að því að nefnd þessi ljúki störfum fyrir afgreiðslu fjárlaga og munu tillögur hennar verða lagðar fyrir fjárlaganefnd Alþingis. Leggur allsherjarnefnd áherslu á að við flutninginn verði sérstaklega tekið tillit til þeirrar starfsemi lögreglu er lýtur að rannsóknum og fíkniefnamálum, sem og almennt að forvörnum gegn ávana- og fíkniefnum. Í því sambandi ítrekar allsherjarnefnd það sem kom fram í áliti nefndarinnar um frumvarp til laga um lögreglumál, en þar segir: „Þá leggur nefndin til að farið verði rækilega yfir þær forsendur sem fram koma í athugasemdum með frumvarpinu og lagðar hafa verið til grundvallar flutningi starfsmanna og fjárheimilda til embætta ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans í Reykjavík þannig að tryggt sé að hægt verði að sinna með fullnægjandi hætti rannsóknum þeirra mála sem flytjast munu til embættis lögreglustjórans í Reykjavík.“
    Þá mælist nefndin til þess að leitað verði leiða til að koma til móts við aukinn rekstrarkostnað Mannréttindaskrifstofu Íslands vegna aukinna umsvifa skrifstofunnar.
    Loks var það upplýst í nefndinni að fyrir fjárlaganefnd liggur beiðni forsætisnefndar vegna fjárveitinga til embættis umboðsmanns Alþingis. Tekur nefndin undir beiðni um að fjárveitingar til embættisins verði auknar.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara, m.a. vegna þeirrar hækkunar dómsmálagjalda sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu. Vilja þau vara við hækkunum á gjöldunum, ekki síst þeim sem bitna á fórnarlömbum gjaldþrota og nauðasamninga.
    Hjálmar Jónsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Árni R. Árnason og Jón Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. nóv. 1996.



Valgerður Sverrisdóttir, varaform.


Kristján Pálsson.


Hjálmar Jónsson, með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal.


Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.


Guðný Guðbjörnsdóttir, með fyrirvara.





Fylgiskjal II.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Félagsmálanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.
    Nefndin fékk á sinn fund Sturlaug Tómasson og Sigríði Lillý Baldursdóttur frá félagsmálaráðuneyti og skýrðu þau þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu á fund Sigurður E. Guðmundsson, Grétar Guðmundsson og Hilmar Þórisson frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Margrét Tómasdóttir frá Atvinnuleysistryggingasjóði, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Guðmundur Gunnarsson frá Rafiðnaðarsambandinu, Hannes Sigurðsson og Bolli Árnason frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Bragi Guðbrandsson frá Barnaverndarstofu og Friðrik Sigurðsson og Guðmundur Ragnarsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp.
    Heildarframlög til Byggingarsjóðs verkamanna voru á fjárlögum þessa árs 400 millj. kr. en samsvarandi fjárhæð í fjárlagafrumvarpinu er 300 millj. kr. Ástæðan er sú að útlánum til kaupa á húsnæði fækkar úr 250 í 180. Í máli fulltrúa Húsnæðisstofnunar ríkisins kom fram að dregið hafi úr nýbyggingum og eftirspurn eftir félagslegu húsnæði hafi minnkað og að helsta áhyggjuefni stofnunarinnar væri veik eiginfjárstaða Byggingarsjóðs verkamanna.
    Varðandi breytingar sem tengjast starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnumálum kvenna skal tekið fram að þær ættu ekki að hafa áhrif á áframhaldandi viðgang starfsmenntunar og framlög til atvinnumála kvenna. Í þessu sambandi má vekja athygli á að miðað er við að árlega skuli verja ákveðinni fjárhæð úr Atvinnuleysistryggingasjóði í sérstakan sjóð til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu. Starfsmenntaráð fer með stjórn sjóðsins.
    Á þessu ári greiðir Framkvæmdasjóður fatlaðra rekstrarverkefni að fjárhæð 140 millj. kr. Á árinu 1997 mun einvörðungu heimilt að greiða tvö rekstrarverkefni úr sjóðnum, þ.e. kostnað vegna stjórnarnefndar málefna fatlaðra og styrki vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar. Samtals er varið til þessara tveggja verkefna 13 millj. kr. í ár. Rekstrarverkefnum að fjárhæð 130 millj. kr. verður því létt af sjóðnum á næsta ári en fjármagn til þeirra fæst hins vegar í fjárlögum 1997. Í ár fær Framkvæmdasjóður fatlaðra 257 millj. kr. af erfðafjárskatti. Í 9. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997, 119. máls, er gert ráð fyrir að þetta framlag verði 165 millj. kr. Þessa lækkun á framlagi til sjóðsins verður að skoða með hliðsjón af því að rekstrarverkefnum að fjárhæð tæpar 130 millj. kr. verður létt af sjóðnum. Breytingin felur í sér að rekstraraðilar heimila og stofnana fyrir fatlaða fá nákvæma vitneskju um hvað þeir hafa til ráðstöfunar í ársbyrjun en þurfa ekki að bíða fram í febrúar eða mars eftir upplýsingum um hver hin endanlega rekstrarfjárveiting er. Þá er rétt að benda á að á síðustu árum hafa mál þróast með þeim hætti að stjórnarnefnd málefna fatlaðra hefur tekið að sér að ákvarða háar rekstrarfjárveitingar án þess að fjárveitingavaldið hafi komið þar nærri.
    Arnbjörg Sveinsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. nóv. 1996.



Siv Friðleifsdóttir, varaform.


Einar K. Guðfinnsson.


Magnús Stefánsson.


Pétur H. Blöndal.


Kristján Pálsson.





Fylgiskjal III.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Félagsmálanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.
    Minni hlutinn gerir athugasemdir við eftirfarandi atriði frumvarpsins:
     Málefni fatlaðra. Samkvæmt lögum nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, eiga tekjur erfðafjársjóðs að renna beint til málefna fatlaðra og hefur það fé farið til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Minni hlutinn telur það ekki góða þróun að taka fé úr Framkvæmdasjóði til reksturs þótt fallist sé á að brýnt var að fjármagna þau nýju verkefni sem sjóðurinn tók að sér. Það er því óviðunandi að þegar rekstrarverkefnum er létt af sjóðnum skuli erfðafjárskatturinn ekki renna til uppbyggingar fyrir fatlaða. Á undanförnum árum hefur gætt þeirrar tilhneigingar að taka sífellt meira fé í rekstur í stað framkvæmda og varar minni hlutinn við þeirri þróun. Þá á í annað sinn að klípa af erfðafjárskatti og taka stóran hluta hans beint í ríkissjóð. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 er erfðafjárskattur áætlaður 420 millj. kr. Þrátt fyrir mikla þörf, m.a. fyrir sambýli, munu aðeins 165 millj. kr. renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra þannig að 255 millj. kr. renna í ríkissjóð. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að svona skuli staðið að verki, enda miklu nær að endurskoða lög og skilgreina þarfir og fjármögnun upp á nýtt en að taka eyrnamerkt fé til annarra nota og beita til þess „þrátt-fyrir“-ákvæði.
     Byggingarsjóður verkamanna. Fulltrúar Húsnæðisstofnunar ríkisins hafa á undanförnum árum vakið athygli á sífellt versnandi stöðu Byggingarsjóðs verkamanna. Þrátt fyrir það er framlag ríkisins til sjóðsins skorið niður ár eftir ár og verður 300 millj. kr. á næsta ári (var 918 millj. kr. 1994)! Í úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Húsnæðisstofnunar (október 1996) segir: „Sýnt þykir að fjárhagsstaða Byggingarsjóðs verkamanna, sem fer með félagslega hluta húsnæðiskerfisins, stefni í óvissu“ (bls. 29), og síðar segir: „Alvarleg staða blasir hins vegar við Byggingarsjóði verkamanna, en útreikningar benda til þess að sjóðinn vanti um 4–5 milljarða kr. til að standa undir skuldbindingum, sé miðað við núvirtar eignir og skuldir um síðustu áramót. Útreikningar benda jafnframt til þess að eigið fé sjóðsins verði upp urið skömmu eftir næstu aldamót miðað við að útlánum sjóðsins yrði hætt. Ljóst er að þær aðgerðir sem gripið var til á árunum 1992 og 1993 og miðuðu að því að tryggja fjárhagsgrundvöll Byggingasjóðs verkamanna hafa brugðist“ (bls. 30). Því er augljóst að mjög brýnt er að taka á málefnum sjóðsins, ella stefnir í mikinn vanda.
     Atvinnuleysistryggingasjóður. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 og frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir sama ár er ætlunin að flytja tvö verkefni sem verið hafa á vegum félagsmálaráðuneytisins yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð. Hér er um að ræða starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnumál kvenna, samtals 67 millj. kr. Minni hlutinn mótmælir harðlega þessum tilflutningi sem felur í sér að nú á atvinnulífið að standa undir þessum verkefnum í stað þess að ríkisvaldið veiti styrki til menntunar og nýsköpunar. Að dómi minni hlutans er verið að blanda saman alls óskyldum málum. Styrkir Atvinnuleysistryggingasjóðs til verkefna fyrir atvinnulausa og átaksverkefni sveitarfélaga eru allt annað mál en almenn starfsmenntun, endurmenntun og símenntun í atvinnulífinu fyrir vinnandi fólk. Slík menntun á eftir að stóraukast á komandi árum, óháð atvinnuleysi, og mun kalla á stefnumótun og aukin fjárframlög. Því er algjör firra að flytja verkefni til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs sem hún hefur engar forsendur til að sinna, enda ekki skipuð út frá þörf fyrir sérhæfða menntun. Minni hlutinn hvetur fjárlaganefnd til að kynna sér þetta mál sérstaklega og bendir á að bæði Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið leggjast gegn þessari breytingu.
                  Sama gildir um atvinnumál kvenna. Staðan á vinnumarkaði og þróun hans sýna að mikil þörf er fyrir sérstakar aðgerðir í þágu kvenna. Í fjölmörgum ríkjum, t.d. Bandaríkjunum, hefur verið komið á fót sérstökum sjóðum fyrir konur sem ýmist veita lán eða styrki til nýsköpunar og stofnunar nýrra fyrirtækja. Sú þróun tengist ekki atvinnuleysi, enda þörf á alveg sérstökum aðgerðum til að draga úr atvinnuleysi kvenna sem er mest meðal ófaglærðra. Minni hlutinn telur það mikla afturför og misskilning á hlutverki þess sjóðs sem styrkt hefur atvinnumál kvenna ef hann verður settur undir Atvinnuleysistryggingasjóð, sem lögum samkvæmt gegnir allt öðru hlutverki og hefur ekki yfirsýn yfir nýsköpun í atvinnulífi. Hér er einfaldlega um að ræða verkefni sem krefst sérþekkingar og rannsókna á íslenskum vinnumarkaði sem verulega skortir á.
     Sambýli fyrir geðfatlaða. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir yfirstandandi ár kemur fram að undanfarin fjögur ár hefur verið veitt 20 millj. kr. framlag til byggingar sambýla fyrir geðfatlaða og var þar um fimm ára átak að ræða (sjá bls. 323 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996), sbr. 39. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Ein 20 millj. kr. greiðsla er eftir og nú spyr minni hlutinn: Hvað er orðið um hana? Hvergi er stafkrók að finna um sambýli geðfatlaðra í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997. Af hverju stendur ríkisvaldið ekki við fyrri ákvarðanir?
     Jafnréttismál. Framlög til jafnréttismála eru óbreytt milli ára þótt ljóst megi vera að mjög þarf að efla þann málaflokk. Skýrsla félagsmálaráðherra um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem lögð var fram á 120. löggjafarþingi leiddi í ljós að flest ráðuneytin hafa staðið sig illa og þurfa heldur betur að taka sig á. Stofnanir þurfa að gera jafnréttisáætlanir og taka þarf á launamálum kvenna, svo dæmi séu nefnd. Þá hefur komið í ljós að Íslendingar hafa ekki staðið við sáttmálann um afnám allrar mismununar gegn konum sem íslensk stjórnvöld staðfestu árið 1985 og að fylgja þarf eftir þeim samþykktum sem gerðar voru á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking. Við þurfum því að taka okkur tak í jafnréttismálum og það kostar peninga. Því leggur minni hlutinn til að fjárframlög til skrifstofu jafnréttismála verði aukin þannig að hún geti eflt starf sitt. Þá leggur minni hlutinn áherslu á að starf sjálfstæðra félagasamtaka á sviði kvennabaráttu og jafnréttismála verði styrkt, t.d. Kvenréttindafélag Íslands sem verður 90 ára á næsta ári, svo og önnur samtök sem starfa á þessu sviði. Minni hlutinn skorar því á fjárlaganefnd að veita umsóknum samtaka sem vinna að málefnum kvenna brautargengi. Oft var þörf, en nú er nauðsyn.

Alþingi, 21. nóv. 1996.



Kristín Ástgeirsdóttir, form.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Sigríður Jóhannesdóttir.





Fylgiskjal IV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.
    Nefndin fékk á sinn fund Þóri Haraldsson frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og skýrði hann þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Einnig komu til fundar frá heilbrigðisráðuneyti Einar Magnússon og Eggert Sigfússon. Þá komu til fundar Ingólfur Þórisson og Vigdís Magnúsdóttir frá Ríkisspítölum, Kristín Á. Ólafsdóttir, Jóhannes Pálmason og Magnús Skúlason frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Björn Ástmundsson og Björn Gunnarsson frá Landssambandi sjúkrahúsa.
    Verður hér gerð grein fyrir því helsta sem fram kom í máli framangreindra aðila:
    Varðandi sjúkrastofnanir á höfuðborgarsvæðinu kom fram hjá fulltrúa ráðuneytisins að í fjárlagafrumvarpinu væri gert ráð fyrir sama fjárframlagi til þeirra stofnana og í ár sem að óbreyttu þýðir að jafnhliða er gert ráð fyrir hagræðingu og sparnaði sem nemur a.m.k. 400 millj. kr.
    Hjá fulltrúum Ríkisspítalanna kom fram að uppsafnaður vandi frá árunum 1995–96 næmi um næstu áramót um 260 millj. kr. Þeir telja að það þurfi að hagræða um 300 millj. kr. til viðbótar ef engar aðrar ráðstafanir verði gerðar fyrir árið 1997. Fram kom í máli fulltrúanna að biðlistar hafi lengst.
    Fulltrúar Sjúkrahúss Reykjavíkur töldu að um 200 millj. kr. vantaði í rekstur á næsta ári þrátt fyrir sparnaðaraðgerðir og bentu á að uppsafnaður vandi áranna 1995–96 væri einnig til staðar.
    Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 160 millj. kr. sparnaði á sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Fulltrúar Landssambands sjúkrahúsa bentu á að ef þetta fæli í sér flata skerðingu þýddi það 10–11% skerðingu að meðaltali á stofnun.
    Þá er þess að geta að nefndin heimsótti Vog í tengslum við athugun sína á fjárlagafrumvarpinu. Þar hafa frá árinu 1992 verið framkvæmdar skimanir á blóðsýnum til þess að leita að hugsanlegum smitberum lifrarbólgu. Þessar skimanir hafa farið fram í samráði við sérfræðinga á Landspítalanum. Ástæða þykir til að benda á að Vogur er eini staðurinn á landinu þar sem unnt er ná til smitbera veirunnar með svo skipulegum hætti en menn telja sig nú þegar hafa náð til á þriðja hundrað smitbera. Forsvarsmenn SÁÁ höfðu hins vegar áhyggjur af því að nú vantaði um 6,5 millj. kr. til að standa straum af kostnaði við þessar og aðrar nauðsynlegar skimanir en hingað til hefur kostnaðurinn við þessar skimunarrannsóknir að mestu fallið á Rannsóknastofu Háskólans í sýklafræði. Frá 1. janúar 1997 mun Rannsóknastofan hins vegar senda reikninga fyrir þessar rannsóknir. Heilbrigðis- og trygginganefnd telur ástæðu til að fjárlaganefnd skoði vandlega hvort unnt sé að koma til móts við SÁÁ í þessu efni.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir og Sólveig Pétursdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. nóv. 1996.



Össur Skarphéðinsson, form.


Siv Friðleifsdóttir.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.


Guðni Ágústsson.


Ásta B. Þorsteinsdóttir.


Ingibjörg Sigmundsdóttir, með fyrirvara.





Fylgiskjal V.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.



    Iðnaðarnefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa Alþingis og bréf fjárlaganefndar frá 15. október 1996. Nefndin fékk á sinn fund Halldór J. Kristjánsson, ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytis, Kristmund Halldórsson, deildarstjóra í iðnaðarráðuneyti, Þorkel Helgason orkumálastjóra, Hákon Ólafsson, forstjóra Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, Kristján Jónsson, forstjóra Rariks, og Eirík Briem, fjármálastjóra Rariks. Þá fór nefndin í vettvangsferð í Iðntæknistofnun.
    Í framhaldi af þeirri umræðu sem varð um málið vill nefndin vekja sérstaka athygli fjárlaganefndar á málefnum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnunar.
    Fjárveiting til stofnananna er lækkuð og þeim gert að ná fram hagræðingu með aukinni samvinnu sín á milli. Á undanförnum árum hefur stærri hluta þjóðarframleiðslunnar verið varið til rannsóknar- og þróunarverkefna. Sem dæmi má nefna að 1983 nam hlutur þessara verkefna 0,7% þjóðarframleiðslu en hann var 1,4% árið 1993. Hafa fyrirtæki mjög sótt í sig veðrið á þessum vettvangi en á sama tíma hefur hlutur rannsóknastofnana hins opinbera (án menntastofnana) í rannsóknar- og þróunarverkefnum lækkað úr 70% í 40% af heildarverkefnum. Því er ljóst að samdráttur hefur orðið á því fjármagni sem veitt er á fjárlögum til hagnýtra rannsókna fyrir atvinnuvegina. Sé litið til skiptingar heildarfjármagns til rannsókna eftir greinum atvinnulífsins kemur í ljós að framlag sem hlutfall af landsframleiðslu er lægst innan byggingariðnaðar og almenns framleiðsluiðnaðar. Þannig var fyrir hverjar 1.000 kr. í landsframleiðslu á fjárlögum ársins 1995 varið 20–30 kr. til rannsókna í landbúnaði og fiskveiðum en 2-3 kr. til rannsókna í iðnaði og byggingarstarfsemi. Þessi upphæð hækkar þó ef reiknuð eru með framlög iðnfyrirtækja, en þau eru burðarás þeirrar ánægjulegu þróunar sem orðið hefur með aukinni þátttöku fyrirtækja í rannsóknar- og þróunarstarfi. Mikilvægt er þó að rannsóknastofnanirnar hafi svigrúm til að eiga frumkvæði að framsæknum þróunarverkefnum sem skipta atvinnulífið máli, þannig að starfsemi þeirra einskorðist ekki við ráðgjafarstörf. Rannsóknastofnanir iðnaðarins hafa lagt áherslu á almenna þjónustu við fyrirtæki og nýsköpun sem stuðlar að bættri samkeppnisstöðu greinarinnar. Vert er að minna á að af hefðbundnum atvinnugreinum er almennt talið að iðnaður og þjónusta muni skapa flest framtíðarstörf. Hvað varðar málefni Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins tók gildi 1. janúar 1995 þjónustusamningur til þriggja ára milli stofnunarinnar og iðnaðarráðuneytisins. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu kemur fram að gerð hans sé ein af tilraunum ríkisins við að koma á þjónustusamningum við stofnanir þar sem hlutverk þeirra og verkefni eru skilgreind. Hér er um merkilega nýjung að ræða þar sem gerð er tilraun til að miða fjárhagsforsendur rannsóknastofnunar við lengri tíma en eitt ár. Nefndin vekur athygli á því að vart geti talist traustvekjandi, með tilliti til samningsgerðar í framtíðinni, ef ekki er staðið við ákvæði þjónustusamnings sem þessa og telur óeðlilegt að ákvæði hans verði brotin.
    Hvað varðar Rafmagnsveitur ríkisins, Rarik, minnir nefndin á að arðgreiðslur til ríkissjóðs skulu nema 2% af bókfærðu eigin fé Rarik við næstliðin áramót, nú um 10,6 milljarðar kr. Á árunum 1997 og 1998 skal þó lækka eigið fé um bókfært verðmæti dreifiveitna í sveitum, eða um 3 milljarða kr. Þar að auki skal lækka árlegt framlag Rarik um 20 millj. kr. árin 1997 til 2001 til að aðstoða fyrirtækið við að mæta tjóni á raforkukerfi þess. Frá og með árinu 1997 munu 65% af arðgreiðslum Rarik verða varið til framkvæmda við dreifikerfi í sveitum, 5% í þróunarverkefni og 30% renna í ríkissjóð. Á þessu ári er því gert ráð fyrir að 103 millj. kr. af arðgreiðslunum renni til styrkingar og endurnýjunar á dreifikerfi í sveitum en allt umfram það greiðir Rarik. Háspennudreifikerfi í sveitum er alls um 6.500 km að lengd. Rætt hefur verið hvort leggja megi það í jörðu en almennt er þó talið að ekki sé unnt að ráðast í slíkar stórframkvæmdir. Til að auka rekstraröryggi kerfisins má þó telja raunhæft að leggja um 10–20% af því í jörðu, þar sem verðurfarsskilyrði eru hvað erfiðust, en kostnaður af því er áætlaður allt að 2.000 millj. kr. Talið er miðað við orkuspá að árlegur viðhaldskostnaður kerfisins sé um 150–200 millj. kr.
    Iðnaðarnefnd hyggst á yfirstandandi þingi kynna sér sérstaklega málefni Orkustofnunar, m.a. vegna breytinga á skipulagi stofnunarinnar.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma.
    Sigríður A. Þórðardóttir og Jóhanna Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. nóv. 1996.



Stefán Guðmundsson, form.


Guðjón Guðmundsson.


Svavar Gestsson, með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal.


Árni R. Árnason.


Sighvatur Björgvinsson.


Hjálmar Árnason.




Fylgiskjal VI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og beiðni fjárlaganefndar frá 15. október 1996.
    Nefndin fékk á sinn fund Guðmund Sigþórsson og Ingimar Jóhannsson frá landbúnaðarráðuneyti, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Gísla Karlsson frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, Árna Ísaksson veiðimálastjóra, Jón Loftsson skógræktarstjóra, Svein Runólfsson landgræðslustjóra og Þorstein Tómasson, forstjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.
    Vakin er athygli á því að í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum framlögum til jarðræktar samkvæmt jarðræktarlögum. Ekki hefur fengist fé fyrir fjölda styrkhæfra framkvæmda á undanförnum árum. Meiri hlutinn vekur athygli fjárlaganefndar á því að mikilvægt er að gera þessi framlög upp og vísar um það til álits meiri hlutans um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1996. Enn fremur eru nú að þróast hér á landi búgreinar, svo sem kornrækt, sem þarf að búa sömu skilyrði og gerist annars staðar í Evrópu. Þá eru bændur nú í auknum mæli farnir að feta sig inn á svið lífrænnar ræktunar, en slíkar afurðir verða sífellt eftirsóttari, og því mikilvægt að hlúð verði að þessari ræktun eftir mætti.
    Meiri hlutinn lýsir yfir áhyggjum af því að framlög til fyrirhleðslna hafa stöðugt lækkað hin síðari ár. Matsnefndir fyrirhleðslna sem starfa í öllum sýslum landsins, samkvæmt lögum um landbrot af völdum fallvatna, nr. 43/1975, hafa gert úttektir á þessum vanda í viðkomandi sýslum. Landgræðslan hefur raðað verkefnum í forgangsröð sem breytist frá ári til árs. Fjögur brýnustu verkefnin nú eru við Markarfljót, Jökulsá á Dal, Skaftá og Jökulsá í Lóni. Meiri hlutinn leggur áherslu á að gera þurfi langtímaáætlun um þessi mál.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að halda áfram uppbyggingu nytjaskógræktar á Íslandi. Sex ára reynsla er komin á verkefnið Héraðsskógar og er hún góð. Þróa þarf hugmyndina á bak við Héraðsskóga áfram þannig að hún nái til allra landshluta. Skógrækt ríkisins er tilbúin að stíga næsta skref í þessari þróun með því að ýta úr vör verkefninu Suðurlandsskógum í samvinnu við Sunnlendinga.
    Þetta er það brýnasta sem við blasir en önnur atriði mætti nefna sem snerta fjárlagafrumvarpið og munu hafa áhrif á afkomu bændastéttarinnar og landbúnaðarins.

Alþingi, 26. nóv. 1996.



Guðni Ágústsson, form.


Egill Jónsson.


Magnús Stefánsson.


Guðjón Guðmundsson.


Hjálmar Jónsson, með fyrirvara.


Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.


Sigríður Jóhannesdóttir.




Fylgiskjal VII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Heildarútgjöld til landbúnaðarmála eru áætluð 6.924 millj. kr. á árinu 1997 eða svipuð og í fjárlögum 1996. Hæst ber greiðslur vegna búvöruframleiðslu eða 5.240 millj. kr.

     Aðalskrifstofa. Heildarútgjöld skrifstofu landbúnaðarráðuneytis eru áætluð 136 millj. kr. og er vandséð að allir liðir eigi þar rétt á sér. Má þar nefna ýmsa þætti sem eðlilegt er að atvinnugreinin beri sjálf en ekki ríkisvaldið, t.d. mat á búvörum tæpar 9 millj. kr. og verðlagsnefnd landbúnaðarafurða tæpar 8 millj. kr.
    Rekstur aðalskrifstofu kostar tæpar 91 millj. kr. en til upplýsingar eru útgjöld aðalskrifstofu ráðuneytanna skv. frumvarpi til fjárlaga fyrir 1997 eftirfarandi:
Forsætisráðuneyti
  61 millj. kr.

Utanríkisráðuneyti
 375 millj. kr.

Menntamálaráðuneyti
 261 millj. kr.

Landbúnaðarráðuneyti
  91 millj. kr.

Sjávarútvegsráðuneyti
  85 millj. kr.

Dómsmálaráðuneyti
 123 millj. kr.

Félagsmálaráðuneyti
 102 millj. kr.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti
 157 millj. kr.

Fjárlagaráðuneyti
 300 millj. kr.

Samgönguráðuneyti
 109 millj. kr.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
 126 millj. kr.

Umhverfisráðuneyti
  99 millj. kr.

    Það er greinilegt af þessum samanburði að umfang landbúnaðarráðuneytisins er nokkuð mikið, einkum þegar horft er til umsvifa landbúnaðar í þjóðlífinu, en framlag landbúnaðar til landsframleiðslunnar er einungis um 2,5%. Hér þarf að eiga sér stað endurmat, en ekki örlar á slíkri vinnu af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Aðrir liðir sem falla undir aðalskrifstofu eru einnig gagnrýnisverðir, svo sem að veita framlag upp á tæpar 11 millj. kr., m.a. vegna rekstrarvanda ráðuneytisins, og þegar nær væri að hagræða, einkum með tilliti til þeirra miklu umsvifa sem fyrr er getið.
    Einnig er veitt framlag til nýrrar nefndar um inn- og útflutning landbúnaðarafurða og er þetta skólabókardæmi um verkefni sem á að vera á sviði atvinnugreinarinnar sjálfrar en ekki greitt af skattfé almennings. Í þessu birtist í hnotskurn landbúnaðarstefna stjórnvalda, þ.e. atvinnugreinin er það fléttuð inn í opinberan rekstur og umsýslu að eðlileg skil milli skattfjár og athafnasemi atvinnugreinarinnar sjálfrar eru ekki lengur fyrir hendi.

     Landbúnaðarstofnanir. Framlag til RALA er lækkað um 14 millj. kr. en gert er ráð fyrir að Framleiðnisjóður veiti stofnuninni 15 millj. kr framlag til rannsókna. Það er ekki fast í hendi og málefni Framleiðnisjóðs eru í mikilli óvissu. Meginverkefnum hans er nú lokið og því eðlilegt að hann væri lagður niður. Því er rangt að eyrnamerkja framlög til RALA þannig, eins og gert er í frumvarpi til fjárlaga.
    Minni hlutinn telur að leggja verði aukna áherslu á rannsóknir og menntun í landbúnaði en þar vantar stefnumótun af hálfu stjórnvalda. Mikil verkefni eru fram undan í rannsóknum, m.a. hjá RALA, sem munu skila aukinni þekkingu og auknum tekjum innan landbúnaðarins þegar fram líða stundir. Þetta á einnig við um menntastofnanir landbúnaðarins, svo sem bændaskólana á Hvanneyri og Hólum og Garðyrkjuskólann svo og Hagþjónustuna en framlög til þessara málaflokka eru svipuð og á þessu ári að teknu tilliti til að lokið er að verulegu leyti endurbótum á húsnæðinu á Hólum.
    Tryggja þarf betur samvinnu og samstarf stofnana á sviði rannsókna og menntunar í landbúnaði en engin áform eru um það af hálfu stjórnvalda, að því best er vitað.
    Málefni Veiðimálstofnunar eru í mikilli óvissu og þarf ráðuneytið að gera upp við sig hvort þessi starfsemi eigi að vera rekin á vegum ríkisins í sjálfstæðri stofnun eða falla undir önnur verkefni og stofnanir ríkisins.
    Ef til vill væri til bóta að þátttaka ríkisvaldins í öllu sem snýr að fiskum, hvort sem er í sjó, vötnum eða ám, væri frá einu ráðuneyti, þ.e. sjávarútvegsráðuneytinu og þá fyrst og fremst innan Hafrannsóknastofnunar. Minni hlutinn hvetur til umræðu um hvort eðlilegt sé að breyta vistun þeirra málaflokka sem nú heyra undir landbúnaðarráðuneyti á sviði fiskeldis.

     Skógrækt og landgræðsla. Til Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins og Héraðsskóga verður varið 412 millj. kr. á næsta ári. Þetta er mikið fé enda risavaxið verkefni fram undan. Minni hlutinn telur hins vegar að gera þyrfti úttekt á því hvort ekki komi til greina að sameina Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins í eina stofnun og hvort slík stofnun ætti að heyra undir umhverfisráðuneytið.

     Greiðslur vegna búvöruframleiðslu. Greiðslur vegna búvöruframleiðslu eru 5.240 millj. kr. og er einn stærsti liðurinn á fjárlögum. Þessar greiðslur eru um 4,2% af útgjöldum ríkisins og er nær sama fjárhæð og fer til rekstrar á öllum framhaldsskólum landsins og meira en nemur öllum elli- og örorkulífeyri landsmanna.
    Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu nema 2,7 milljörðum og vegna sauðfjárframleiðslu 2,5 milljörðum. Greiðslur þessar eru í samræmi við búvörusamninga. Minni hlutinn er ósammála landbúnaðarstefnu stjórnvalda og telur að hagsmunir neytenda séu fyrir borð bornir eins og sést m.a. á þessum fjallháu greiðslum úr ríkissjóði til eins atvinnuvegar. Núverandi fyrirkomulag landbúnaðarstefnunnar er ekki hagkvæmt bændum eins og sést vel á lágum launum þeirra.
    Engin tilraun er gerð í fjárlagafrumvarpinu að stokka upp þætti landbúnaðarmála, svo sem litla framleiðni í úrvinnslugreinum, háan milliliðakostnað og verðlagskerfi afurða óhagkvæmt bændum og neytendum.
    Á síðasta ári voru ekki nýtt sóknarfæri í tengslum við GATT-samninginn til að breyta landbúnaðarstefnunni og auka fjölbreytni í úrvali á landbúnaðarafurðum. Stuðningur við íslenskan landbúnað er sá fjórði mesti í heiminum og er ljóst að ekki verður lengur við svo búið nema að það komi alvarlega niður á lífskjörum launafólks.
    Staðnað landbúnaðarkerfi er síst af öllu bændum til hagsbóta til lengri tíma en það er mjög brýnt að leyfa markaðsöflunum að leika meira um landbúnaðinn en gert hefur verið en þó ber vitanlega að fara að öllu með gát og hafa eðlilega aðlögun að breyttum aðstæðum.

     Ýmis framlög. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 eru ýmis framlög sem eru gagnrýnisverð. Þannig verður varið 180 millj. kr. til Bændasamtakanna en eðlilegt er að atvinnugreinin standi sjálf undir kostnaði við eigin hagsmunasamtök þótt vissulega sé um að ræða aðkeypta þjónustu af hálfu ríkisins. Það er hins vegar mikið matsatriði hvort ríkisvaldið eigi að vera kaupandi að slíkri þjónustu.
    Einnig má geta þess að ríkið er þátttakandi í ýmsum verkefnum sem ekki þekkjast í öðrum atvinnugreinum. Þannig er ríkisvaldið borgunaraðili að markaðsátaki fyrir lífrænar landbúnaðarfurðir en til þess er varið 25 millj. kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga. Þótt slík markaðssetning sé vitaskuld markverð er það álitamál að mati minni hlutans hvort styrkja eigi slíkar markaðskannanir með beinum hætti á fjárlögum.
    Áætlað er að verja 274 millj. kr. til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins en að mati minni hlutans er tímabært að endurmeta starfsemi sjóðsins svo og aðra þætti innan sjóðakerfis landbúnaðarins.
    Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar lýsir stöðnun gagnvart landbúnaði. Þar örlar ekki á neinum breytingum né nýmælum. Það lýsir íhaldssamri stefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem hafa öðrum flokkum framar byggt upp landbúnaðarkerfi fortíðarinnar og er umhugað um að breyta þar sem allra minnstu.

Alþingi, 19. nóv. 1996.



Ágúst Einarsson.


Lúðvík Bergvinsson.





Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá menntamálanefnd.



    Menntamálanefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og í samræmi við beiðni fjárlaganefndar, sbr. bréf dags. 15. október 1996, farið yfir þann kafla frumvarps til fjárlaga sem er á hennar málefnasviði.
    Nefndin fékk á sinn fund Örlyg Geirsson, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneyti, og Halldór Árnason, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneyti. Þá komu á fund nefndarinnar frá Skólameistarafélagi Íslands Margrét Friðriksdóttir og Sigurður Sigursveinsson, Elna Katrín Jónsdóttir frá Hinu íslenska kennarafélagi, Guðrún Ebba Ólafsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ingvar Ásmundsson, skólameistari Iðnskólans í Reykjavík, Kristján Bersi Ólafsson frá Félagi áfangaskóla, frá Hússtjórnarskólanum í Reykjavík Ingibjörg Þórarinsdóttir og Helga Konráðsdóttir og frá Hússtjórnarskólanum Hallormsstað Signý Ormarsdóttir. Þá átti nefndin fund með fyrirsvarsmönnum Háskóla Íslands þar sem m.a. voru rædd fjármál skólans og stofnana hans. Fund þann sóttu fyrir hönd Háskólans Sveinbjörn Björnsson rektor, Stefán Karlsson, forstöðumaður Árnastofnunar, Einar Sigurðsson, forstöðumaður Landsbókasafns, Jón Torfi Jónasson prófessor, Ástráður Eysteinsson, formaður vísindanefndar, Ásta Kr. Ragnarsdóttir, formaður kynningarnefndar, og Magnús Guðmundsson, deildarstjóri upplýsingadeildar.
    Þeir fjárlagaliðir sem snúa að menntamálum voru ítarlega ræddir á fundum nefndarinnar.
    Nefndin bendir á að í kjölfar setningar nýrra laga um framhaldsskóla, þar sem aukin áhersla er lögð á starfsmenntun, er fyrirsjáanlegt að veita verði auknu fé til málaflokksins. Þá minnir nefndin einnig á ákvæði framhaldsskólalaga um gerð reiknilíkans, til að reikna út kennslu- og rekstrarkostnað skóla, og leggur áherslu á að vinnu við líkanið verði hraðað og að henni ljúki sem fyrst, þannig að unnt verði að nýta það við fjárlagagerð fyrir árið 1998. Varðandi fjárveitingu til einstakra skóla leggur nefndin áherslu á að þegar hagræðingarkröfur eru settar fram þurfi sérstaklega að gæta að stöðu fámennra framhaldsskóla sem þjóna dreifbýlum svæðum og að starfsemi Framhaldsskólans á Laugum, Framhaldsskólans á Húsavík og Framhaldsskólans í A-Skaftafellssýslu sé tryggð áfram. Í nefndinni urðu miklar umræður um framtíð hússtjórnarskólanna og hvernig starfsemi þeirra verði best fyrir komið. Beinir nefndin því til fjárlaganefndar að hún skoði málefni þessara skóla sérstaklega. Þá vekur nefndin athygli á miklum kostnaði foreldra sem þurfa að senda börn sín úr heimahéraði til framhaldsskólanáms.
    Nefndin telur mjög brýnt að fjárveitingar til Árnastofnunar verði athugaðar sérstaklega. Þrátt fyrir mikið aðhald var halli á rekstri stofnunarinnar á árinu 1995. Fjárhagsstaða hennar hefur enn versnað á árinu 1996 og er útlit fyrir að í árslok muni hallinn nema allt að 6 millj. kr. Þær fjárveitingar sem ætlaðar eru stofnuninni í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 eru ekki nægilega háar, miðað við óbreytt umfang, til að unnt verði að minnka hallann. Helsta verkefni sem stofnunin verður að geta sinnt betur er öryggismál, en það er frumskylda Árnastofnunar að varðveita þau handrit sem hún geymir. Nokkrar úrbætur hafa verið gerðar og fleiri standa fyrir dyrum en fé vantar til verksins.
Samið var um það við Dani árið 1986 að Íslendingar fengju ljósmyndir af þeim íslensku handritum sem verða eftir í Kaupmannahöfn. Þetta verkefni er mikið öryggisatriði og hefur einnig í för með sér stórfellt hagræði fyrir rannsóknir hér á landi. Íslendingar áttu að bera kostnaðinn af myndagerðinni en fjárveiting til þess hefur ekki enn fengist. Jafnframt fara fram á Árnastofnun alþjóðlegar rannsóknir og merk útgáfustarfsemi. Á þeim tímamótum sem fram undan eru í íslenskri handritasögu, er síðustu handritin verða afhent Íslendingum til varðveislu, leggur menntamálanefnd áherslu á að Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi verði með fjárframlögum gert kleift að sinna með sóma þeim mikilvægu verkefnum sem stofnunin hefur með höndum. Nefndin telur koma til álita að skoðað verði að stofnunin fái sérstakt fjárframlag í tilefni þessa.
    Þá vill menntamálanefnd vekja athygli á fjárveitingum til ritakaupa við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Við sameiningu Háskólabókasafns og Landsbókasafns, sbr. 8. gr. laga nr. 71/1994, var gert ráð fyrir að hluti af fjárveitingu til Háskóla Íslands skyldi árlega renna til bókasafnsins samkvæmt sérstöku samkomulagi milli bókasafnsins og Háskólans. Segir í greinargerð með frumvarpinu að nota skuli fé þetta til ritakaupa og almennrar þjónustu. Þetta ákvæði laganna hefur ekki verið uppfyllt. Umræddur hluti af fjárveitingu Háskóla Íslands hefur, frá setningu laganna, ekki runnið til bókasafnsins, auk þess sem fjárveiting hefur ekki nægt til að mæta lágmarkskröfum í þessu efni og blasir nú alvarlegur vandi við bókasafninu að því er ritakaup varðar. Verð rita sem keypt eru til bókasafnsins hækka með hverju ári og var halli á ritakaupum orðinn 12 millj. kr. á árinu 1995. Stendur bágborinn ritakostur kennslu og rannsóknum í Háskólanum fyrir þrifum. Nú hefur verið gert samkomulag milli bókasafnsins og Háskólans þar sem fyrirhugað er að stofna sérstakan ritakaupasjóð sem yrði myndaður frá og með árinu 1997. Yrði sjóðurinn í vörslu Háskóla Íslands og gert er ráð fyrir að hluti fjárveitingar til bókakaupa flytjist frá Landsbókasafni yfir á Háskóla. Bendir menntamálanefnd á að ljóst þurfi að vera hvort þessi tilhögun samrýmist lögunum. Jafnframt bendir nefndin á að brýnt er að leysa vandann og koma ritakaupum safnsins í viðunandi horf.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að gera nánar grein fyrir afstöðu sinni í umræðum um frumvarpið og flytja við það breytingartillögur.
    Guðný Guðbjörnsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Svanfríður Jónasdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara. Þær eru sammála þeim áhersluatriðum sem fram koma í nefndarálitinu en fordæma almennan niðurskurð í menntakerfinu sem mun skaða þjóðina á komandi árum og er ekki í neinu samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru í síðustu kosningum eða við setningu nýrra framhaldsskólalaga. Þá vísa þær alfarið á bug hugmyndum um sérstaka gjaldtöku á nemendur framhaldsskóla vegna endurtekninga prófa.

Alþingi, 21. nóv. 1996.



Sigríður A. Þórðardóttir, form.


Hjálmar Árnason.


Svanfríður Jónasdóttir, með fyrirvara.


Tómas Ingi Olrich.


Sigríður Jóhannesdóttir, með fyrirvara.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Ólafur Örn Haraldsson.


Guðný Guðbjörnsdóttir, með fyrirvara.


Árni Johnsen.


Fylgiskjal IX.



Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.



    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga, nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.
    Nefndin fékk á sinn fund Jón Birgi Jónsson ráðuneytisstjóra og Friðrik Andersen frá samgönguráðuneyti og skýrðu þeir þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu á fund nefndarinnar Þorgeir Pálsson flugmálastjóri frá Flugmálastjórn, Magnús Oddsson ferðamálastjóri frá Ferðamálaráði, Hermann Guðjónsson forstjóri og Jón Leví Hilmarsson frá Siglingastofnun Íslands og Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri og Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóri frá Vegagerð ríkisins.
    Heildarframlög til rekstrar Vegagerðarinnar og hvers konar framkvæmda í vegamálum voru á fjárlögum þessa árs 6.663 millj. kr. en samsvarandi fjárhæð í fjárlagafrumvarpinu er 6.964 millj. kr. Hér er þó um að ræða verulega lækkun frá gildandi vegáætlun sem gerði ráð fyrir 7.555 millj. kr. framlagi. Það skýrist af því að framlög úr ríkissjóði vegna framkvæmdaátaks verða samkvæmt fjárlagafrumvarpi lægri og að skerðing markaðra tekjustofna vegasjóðs er áætluð 856 millj. kr. á næsta ári í stað 144 millj. kr. Ljóst er að þessi skerðing mun hafa í för með sér um 18–19% lækkun fjárveitinga til nýframkvæmda.
    Framlög til framkvæmda og rekstrar flugvalla eru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 612 millj. kr., þar af 310 millj. kr. til framkvæmda. Í athugasemdum við fjárlagafrumvarpið kemur fram að gert sé ráð fyrir því að 60 millj. kr. af þeirri upphæð verði varið til þess að standa undir fjárhagsskuldbindingum og nýjum framkvæmdakostnaði vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þau mál voru rædd síðastliðið vor við undirbúning flugmálaáætlunar og var niðurstaðan þá sú að slíkt skyldi ekki gert. Samkvæmt núgildandi flugmálaáætlun verður stærsta viðfangsefnið uppbygging Reykjavíkurflugvallar auk ýmissa verkefna á öðrum flugvöllum. Ráðstöfun á tekjum flugmálaáætlunar til annarra verkefna mundi óhjákvæmilega setja þau verkefni í uppnám. Því er ljóst að frekari skerðingar koma í veg fyrir að unnt sé að ráðast í framangreinar framkvæmdir.
    Varðandi stöðu hafnamála er ástæða til að vekja athygli á miklum skuldbindingum sem fyrir liggja vegna framkvæmda í þeim málaflokki sem þegar hafa verið unnar eða hafist handa við. Áætlað er að þessar skuldbindingar nemi um 700 millj. kr. um áramót. Samgöngunefnd telur rétt að vara við þessari þróun og leggur áherslu á að við henni sé brugðist.
    Heildarframlög til ferðamála eru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 117,3 millj. kr. Mikilvægt er að verja fé til rannsókna og þróunarstarfsemi í ferðamálum og úrbóta í umhverfismálum, t.d. á fjölsóttum ferðamannastöðum, líkt og fjárlaganefnd gerði tillögu um við 2. umræðu núgildandi fjárlaga. Það er álit samgöngunefndar að forsenda fyrir aukinni sókn í ferðamálum sé að þeim málum sé vel sinnt. Fagna ber ráðningu sérstaks starfsmanns til að sinna málefnum ferðaþjónustunnar og mun það styrkja stjórnsýslulega stöðu málaflokksins.
    Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. nóv. 1996.



Einar K. Guðfinnsson, form.
Magnús Stefánsson.
Stefán Guðmundsson.
Árni Johnsen.
Egill Jónsson.
Kristján Pálsson.
Ragnar Arnalds.
Guðmundur Árni Stefánsson.





Fylgiskjal X.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur að beiðni fjárlaganefndar, sbr. bréf frá 15. október sl., farið yfir þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði. Nefndin fékk á sinn fund frá sjávarútvegsráðuneyti Árna Kolbeinsson ráðuneytisstjóra. Þá komu Jakob Jakobsson og Vignir Thoroddsen frá Hafrannsóknastofnun og Atli Atlason frá Fiskistofu á fund hennar.
    Þeir fjárlagaliðir, sem snúa að sjávarútvegsmálum, voru ítarlega ræddir á fundum nefndarinnar.
    Í máli fulltrúa Hafrannsóknastofnunar kom fram að ekki væri í frumvarpinu gert ráð fyrir fjárveitingu til nokkurra nýlegra verkefna, þ.e. haustralls, klakrannsókna á þorski, þorskmerkinga og mælinga botnfiska. Sjávarútvegsnefnd er hlynnt þessum verkefnum og telur mikilvægt að hægt verði að halda þeim áfram. Þá tekur nefndin undir með Hafrannsóknastofnun, sjávarútvegsráðuneyti o.fl. að brýnt er fyrir Íslendinga að halda úti öflugu rannsóknarstarfi á fiskistofnum og lífríki hafsins.
    Fulltrúi Fiskistofu gerði nefndinni grein fyrir nýjum verkefnum sem stofnuninni verða falin, sérstaklega rekstri svokallaðra ytri landamærastöðva ESB, en frumvarpið gerir ráð fyrir 22,7 millj. kr. í þann lið. Hins vegar taldi hann nokkuð skorta á að stofnunin fengi auknar fjárveitingar vegna ýmissa annarra nýrra verkefna sem Fiskistofu hefur að undanförnu verið falið að annast, svo sem vegna skelfiskeftirlits, símakróks, aukins sjóeftirlits vegna laga um umgengni um nytjastofna sjávar, eftirlits á Flæmska hattinum o.fl.
    Loks vill sjávarútvegsnefnd ítreka ábendingu sína frá því í áliti með fjárlagafrumvarpi síðasta árs að fjárlagaliðinn 1 41, Lúðueldi á Reykjanesi, væri réttara að nefna t.d. „Tilraunastöðin á Stað“ miðað við að sú starfsemi sem nú fer þar fram er alls ekki bundin við lúðueldi.

Alþingi, 13. nóv. 1996.



Árni R. Árnason, varaform.


Stefán Guðmundsson.


Vilhjálmur Egilsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Hjálmar Árnason.


Einar Oddur Kristjánsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Sighvatur Björgvinsson.





Fylgiskjal XI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Umhverfisnefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 15. október 1996 farið yfir þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem snýr að hennar málefnasviði.
    Nefndin fékk til viðræðna við sig Þórð H. Ólafsson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneyti, og skýrði hann þá liði frumvarpsins sem varða ráðuneytið og stofnanir þess. Þá komu á fund nefndarinnar Hermann Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins og Magnús Jónsson veðurstofustjóri. Þá bárust nefndinni erindi frá Æðarræktarfélagi Íslands, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Kaldrananeshreppi, auk þess sem skriflegar upplýsingar bárust frá umhverfisráðuneytinu, Hollustuvernd ríkisins, Skipulagi ríkisins, Veðurstofu Íslands og Landmælingum Íslands.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrarútgjöld umhverfisráðuneytisins hækki um tæplega 78 millj. kr. Má að mestu leyti rekja hækkunina til aukinna fjárveitinga til Hollustuverndar ríkisins, en stofnuninni hafa verið falin fleiri verkefni en áður. Einnig hækkar framlag til aðalskrifstofu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Veðurstofu Íslands vegna aukinna verkefna, en áætlað er að sértekjur þessara stofnana hækki. Þá er áætlað að ársverkum umhverfisráðuneytis fjölgi um tæp 6% frá síðustu fjárlögum. Gert er ráð fyrir að rekstrarútgjöld aukist um 24%. Leiðir hækkunin að mestu leyti af aukinni vinnu Veðurstofunnar við rannsóknir og eftirlit með snjóflóðum og flutnings verkefna milli ráðuneyta. Annars er gert ráð fyrir að framlag til viðhalds og stofnkostnaðar lækki nokkuð.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki formlegar breytingartillögur við einstaka liði þess þáttar fjárlagafrumvarpsins sem heyrir undir málefnasvið hennar, en bendir sérstaklega á eftirfarandi atriði:
    Við umfjöllun um frumvarpið urðu nokkrar umræður í nefndinni um niðurfellingu greiðslna fyrir veiðar á refum og voru skoðanir skiptar innan nefndarinnar. Kostnaður ríkisins af veiðunum hefur í ákveðnum tilvikum verið úr hófi fram og er meiri hlutinn sammála um að grípa hafi þurft til sparnaðar á þessu sviði.
    Athygli nefndarinnar var vakin á aukningu verkefna hjá Hollustuvernd ríkisins og að aukinn halli hefur verið á rekstri stofnunarinnar undanfarin ár.
    Þá var athygli nefndarmanna vakin á fjárveitingu til eignakaupa hjá Veðurstofu Íslands. Kom fram í máli veðurstofustjóra að fjárveitingar til þessa liðar þyrftu að þrefaldast ef vel ætti að standa að málunum, en undir hann fellur m.a. endurnýjun búnaðar veðurathugunarstöðva og jarðskjálftastöðva, svo og endurnýjun veðurratsjár, tölva o.fl.
    Þá vill meiri hlutinn benda á vaxandi mikilvægi Landmælinga Íslands og kortagerðar á þeirra vegum fyrir umhverfismál í landinu.
    Loks bendir meiri hlutinn á misræmi sem kemur fram í frumvarpinu varðandi náttúrugripasöfn. Þannig er Náttúrugripasafnið í Vestmannaeyjum eina safnið sem ætluð er sérstök fjárveiting. Telur nefndin að betur færi á því að samræmis væri gætt á milli safna.
    Kristín Halldórsdóttir vill sérstaklega taka fram að horfur eru á rekstrarhalla hjá Hollustuvernd ríkisins þrátt fyrir tillögur um aukafjárveitingu til stofnunarinnar á þessu ári. Áætlaðar fjárveitingar á næsta ári munu að líkindum duga til að viðhalda óbreyttum rekstri, en halli fyrri ára verður áfram til staðar. Þá bendir hún á að athuga þurfi rækilega launalið Veðurstofu Íslands sem stofnunin telur vanáætlaðan um liðlega 11 millj. kr. miðað við óbreytt umfang almennrar starfsemi. Verði sá liður ekki leiðréttur telur stofnunin ljóst að draga verði verulega úr þjónustu, en hún hefur tekið við æ fleiri verkefnum á síðustu árum, einkum við vöktun náttúru og umhverfis.
    Gísli S. Einarsson lýsti sig mótfallinn niðurskurði til refaveiða og telur hann nauðsynlegt að áfram verði á fjárlögum gert ráð fyrir styrkjum til refaveiða, t.d í formi fastrar greiðslu fyrir hvert fellt dýr.
    Til frekari upplýsinga vísast til fylgiskjala.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir og Tómas Ingi Olrich voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. nóv. 1996.



Ólafur Örn Haraldsson, form.


Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.


Gísli S. Einarsson, með fyrirvara.


Kristján Pálsson.


Kristín Halldórsdóttir.


Ísólfur Gylfi Pálmason, með fyrirvara.





Fylgiskjal XII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Undirritaður átelur að meiri hluti nefndarinnar skuli ekki setja fram marktækar tillögur og ábendingar til fjárlaganefndar um fjárveitingar til umhverfisráðuneytis og stofnana sem undir það heyra vegna frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1997. Það er skoðun undirritaðs að nefndin sem heild hefði átt að setja fram rökstuddar hugmyndir um forgangsröðun viðbótarfjárveitinga, í von um að fjárlaganefnd sjái sér fært að leggja meira til þessa málaflokks.
    Markmiðið með því að fagnefndir fjalli um fjárlagafrumvarp á sínu málefnasviði átti m.a. að vera að fá fram slíkar tillögur eða ábendingar um hugsanlega tilfærslu fjármagns milli liða.
    Það er þó betra en ekki að í umfjöllun umhverfisnefndar um fjárlagagerðina fengust margháttaðar upplýsingar, skriflegar og munnlegar, um fjárveitingabeiðnir umhverfisráðuneytis og stofnana þess, sem og um bakgrunn framkominna óska og tillagna. Stendur umhverfisnefnd í heild að framsendingu skriflegra upplýsinga sem nefndin aflaði um fjárlagagerðina. Til viðbótar vísast til skriflegs svars umhverfisráðherra við fyrirspurn undirritaðs um málefni Hollustuverndar ríkisins á þskj. 106 (121. löggjafarþing).
    Að öðru leyti vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri við fjárlaganefnd:
     Hollustuvernd ríkisins. Alvarlegasta staðan sem við blasir hjá umhverfisráðuneytinu varðar fjárhag og ónógan mannafla hjá Hollustuvernd ríkisins. Vakin er sérstök athygli á bréfi Hermanns Sveinbjörnssonar, framkvæmdastjóra Hollustuverndar, til umhverfisnefndar, dags. 13. nóvember 1996. Þar kemur m.a. fram að ríkisframlag samkvæmt fjárlagafrumvarpi muni ekkert saxa á þann halla sem yfirfærist að óbreyttu frá árinu 1996. Ýmsir mikilvægir þættir í starfsemi stofnunarinnar verði áfram í svelti, svo sem eftirlit og umhverfisvöktun, fræðslu- og kynningarmál og alþjóðleg samvinna. Alvarlegar brotalamir eru í starfsemi stofnunarinnar vegna stórfelldrar undirmönnunar miðað við lögboðið hlutverk og verkefni sem eru tilkomin vegna EES-aðildar. Hefur það m.a. leitt til þess að dregið hefur úr samskiptum Hollustuverndar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna. Eftirlit er vanrækt, m.a. á eiturefnasviði þar sem „lögbundið innflutningseftirlit hefur í raun aldrei komist í framkvæmd auk þess sem vítur liggja fyrir vegna vanefnda um merkingu og skráningu eiturefna“.
                  Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ítrekað gert athugasemdir við framkvæmd mála hér á landi og mjög skortir á að sinnt sé upplýsingaskyldu gagnvart stofnuninni. Þannig hefur eftirlitsstofnunin t.d. gert formlegar athugasemdir við 18 gerðir á eiturefnasviði.
                  Umhverfisráðherra hefur upplýst að „gerðir í umræðu og mótun hjá Evrópusambandinu er varða starfsemi Hollustuverndar og gera má ráð fyrir að komi inn í EES-samninginn eru nú 106 talsins og eru á ýmsum stigum undirbúnings“. (Svar við fyrirspurn á þskj. 106.)
                  Niðurstaða sérstakrar úttektar á „mannaflaþörf hjá Hollustuvernd ríkisins“, sem unnin var af Skipulagi og stjórnun ehf., er sú að stofnunin þarfnist a.m.k. 35,5 stöðugilda til viðbótar við 40 ársverk sem fyrir eru. Þar segir síðan: „Eftir rækilega yfirferð ráðgjafa með forstöðumönnum var komist að þeirri niðurstöðu að „alger lágmarksþörf“ til aukningar væri 20,5 stöðugildi.“
                  Öllum ætti að vera ljóst að þessi staða mála endar með ósköpum fyrir þau verkefni sem Hollustuvernd er skylt að sinna. Lágmarkslagfæring í tengslum við afgreiðslu fjárlaga nú er að mati undirritaðs að halli fyrri ára verði úr sögunni og hallalaus starfsemi tryggð á næsta ári miðað við fjölgun um sjö ný stöðugildi, þannig að unnt verði að ná viðbót um 21 stöðugildi á þremur árum. Vinna ætti að því um leið að færa hluta af stofnuninni út á land með skipulegum hætti.
     Veðurstofa Íslands. Framlög til almennrar starfsemi virðast vanáætluð um 11 millj. kr. Alvarlegra er þó að um 20 millj. kr. vantar til endurnýjunar tækjabúnaðar. Þá verður að tryggja við afgreiðslu fjárlaga að heimild sé á næsta ári til lausnar á miklum húsnæðisvanda stofnunarinnar.
     Landmælingar Íslands.
         
    
    Til að sinna þátttöku Íslands í fjölþjóðlegum GPS-mælingum vantar 12,3 millj. kr.
         
    
    Til að ljúka samningsbundnu verkefni um grunnkortagerð í mælikvarðanum 1:25.000 fyrir aðila á Fljótsdalshéraði vantar fjárveitingu að upphæð 7,4 millj. kr.
     Náttúruvernd ríkisins. Fram undan er fyrsta starfsár nýrrar ríkisstofnunar sem tekur við verkefnum af Náttúruverndarráði og skrifstofu Náttúruverndarráðs. Á vegum ráðsins var lögð fram veruleg vinna í formi sjálfboðastarfs. Ljóst er að með þeirri skipulagsbreytingu sem ákveðin var með nýrri löggjöf um náttúruvernd mun þurfa að greiða fyrir slíka vinnu og ráða fleira fólk til starfa eigi að halda í horfinu. Ótal verkefni bíða þess utan óleyst á vegum Náttúruverndar ríkisins. Lágmarksviðbót á framlagi til stofnunarinnar ætti að vera 10 millj. kr.
     Skipulagsstjóri ríkisins. Mikil þörf er á að hraða og hefja vinnu við fleiri svæðisskipulagsverkefni sveitarfélaga og ætla til þess 8 millj. kr. til viðbótar því sem felst í fjárlagafrumvarpi.
     Náttúrustofur. Brýnt er að gera Náttúrustofu í Neskaupstað kleift að komast í eigið húsnæði, væntanlega ásamt útibúi Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins.
     Náttúruhús. Heimild þarf að fást á fjárlögum fyrir ríkið til að gera samning við Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands um byggingu náttúrufræðisafns, sbr. tillögur stjórnskipaðrar nefndar. Jafnframt þarf að leggja fram nokkra upphæð til vinnu að frekari undirbúningi málsins, t.d. 5 millj. kr. Í svari umhverfisráðuneytis til nefndarinnar segir m.a.: „Fullur vilji er til að fylgja eftir þeim hugmyndum sem þá voru uppi.“

Alþingi, 21. nóv. 1996.



Hjörleifur Guttormsson.





Fylgiskjal XIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá utanríkismálanefnd.



     Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa og bréf fjárlaganefndar frá 15. október 1996. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Helga Ágústsson ráðuneytisstjóra, Benedikt Jónsson sendiherra, Stefán Hauk Jóhannesson, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneyti, og Björn Dagbjartsson, framkvæmdarstjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
    Í framhaldi af þeirri umræðu sem varð um málið í nefndinni sér hún ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við frumvarpið að þessu sinni. Nefndin telur hins vegar eðlilegt að málefni utanríkisþjónustunnar séu til stöðugrar endurskoðunar í ljósi síbreytileika aðstæðna og með það fyrir augum að nýta takmarkaðan mannafla og fjármagn sem best. Mun nefndin á næstunni huga nánar að skipulagi þjónustunnar og þeim verkefnum sem hún sinnir.
    Árni R. Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. okt. 1996.



Geir H. Haarde, form.


Össur Skarphéðinsson.


Siv Friðleifsdóttir.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Svavar Gestsson.


Gunnlaugur M. Sigmundsson.


Kristín Ástgeirsdóttir.


Tómas Ingi Olrich.