Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 1 . mál.


453. Framhaldsnefndarálit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1997.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því að 2. umræða fór fram 13. desember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hlutastofnana, þ.e. Ríkisútvarpsins og Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Fulltrúar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Þjóðhagsstofnunar komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum.
    Í máli forstjóra Þjóðhagsstofnunar kom fram að horfur í efnahagsmálum fyrir árið 1997 hefðu ekki breyst að marki frá því að þjóðhagsáætlun var lögð fram á Alþingi í byrjun október, að því undanskildu að líkur á byggingu nýs álvers og stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hefðu aukist verulega. Fyrir vikið hafði Þjóðhagsstofnun metið áhrif slíkra framkvæmda á helstu þjóðhagsstærðir.
    Áætlað er að fjárfesting vegna umræddra framkvæmda verði samtals tæplega 38 milljarðar kr. Þar af eru 23 milljarðar kr. vegna orkumannvirkja o.fl., 12 milljarðar kr. vegna nýs álvers og tæplega 3 milljarðar kr. vegna Íslenska járnblendifélagsins. Samkvæmt áætlun verður framkvæmt fyrir tæplega 15 milljarða kr. af þessari fjárhæð á árinu 1997.
    Lauslegt mat á áhrifum þessara framkvæmda á helstu þjóðhagsstærðir sýnir meðal annars að landsframleiðslan ykist um 4,3% á næsta ári og þjóðarútgjöld um 7,1%. Til samanburðar má nefna að þjóðhagsáætlun gerir ráð fyrir að landsframleiðslan aukist um 2,5% og þjóðarútgjöld um 3,5%. Jafnframt yrði hallinn á viðskiptajöfnuði sem hlutfall af landsframleiðslu 4,5% í stað 2,9% í þjóðhagsáætlun. Við bætist að verðbólga færðist í aukana þótt erfitt sé að sjá fyrir hversu mikil áhrifin á hana yrðu við svona aðstæður.
    Forstjóri Þjóðhagsstofnunar lagði áherslu á að ef þessum fjárfestingaráformum yrði hrint í framkvæmd væri brýnt að fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum til þess að stöðugleikanum yrði ekki stefnt í tvísýnu.
    Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu mála og mun minni hlutinn skila sérstöku áliti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hann stendur að og gerðar eru tillögur um á sérstökum þingskjölum. Tillögur meiri hluta nefndarinnar, er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs, leiða til hækkunar útgjalda um 1.053,1 m.kr.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1997 var reiknað með að tekjur ríkissjóðs yrðu 125,4 milljarðar kr., en nú er gert ráð fyrir að tekjurnar verði 126,2 milljarðar kr. eða 800 m.kr. meiri en í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram í haust.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

201    Alþingi: Viðfangsefnið 1.05 Alþjóðasamstarf þingmanna hækkar um 2,5 m.kr. vegna aukins kostnaðar við þátttöku í Vestnorræna þingmannasambandinu.
999    Ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður, 6.21 Minningarkapella við Ljósavatn. Framlag er 7 m.kr. og er veitt í tilefni 1000 ára afmælis kristnitöku. Um er að ræða fyrstu greiðslu af þremur.

01 Forsætisráðuneyti

221    Byggðastofnun: Framlag hækkar um 14 m.kr. og verður 204 m.kr. vegna atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni.
901    Húsameistari ríkisins: Framlag til embættisins lækkar um 2 m.kr. vegna tilfærslu á tveimur störfum til Þjóðskjalasafns Íslands.

02 Menntamálaráðuneyti

210    Háskólinn á Akureyri: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 3 m.kr. vegna tveggja starfa við leikskólakennarabraut og matvælaframleiðslubraut.
225    Samvinnuháskólinn: Viðfangsefnið 1.02 Annað en kennsla er fellt niður og fjárveitingin, 22 m.kr., flutt yfir á 1.01 Almennur rekstur til samræmis við framsetningu annarra háskóla.
303    Menntaskólinn á Laugarvatni: Viðfangefnið 1.02 Annað en kennsla lækkar um 16,7 m.kr. og verður 3,8 m.kr. Fjárhæðin er færð yfir á nýjan fjárlagalið 317 Sameignir skólanna á Laugarvatni.
317    Sameignir skólanna á Laugarvatni: Þetta er nýr fjárlagaliður og framlag er 31,2 m.kr. Á móti lækkar framlag til Menntaskólans á Laugarvatni um 16,7 m.kr. og framlag til Íþróttakennaraskóli Íslands um 14,5 m.kr. Einnig fellur niður liðurinn 22-679 Sameiginlegur kostnaður við skólana á Laugarvatni í B-hluta.
318    Framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður: Viðfangsefnið 6.50 Tölvubúnaður hækkar um 8 m.kr. og verður 15 m.kr.
531    Íþróttakennaraskóli Íslands: Viðfangefnið 1.02 Annað en kennsla lækkar um 14,5 m.kr. og verður 5,8 m.kr. Fjárhæðin er færð yfir á nýjan fjárlagalið 317 Sameignir skólanna á Laugarvatni.
903    Þjóðskjalasafn Íslands: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 5,9 m.kr. vegna tveggja starfa sem flytjast frá embætti Húsameistara ríkisins. Á móti fellur niður 2 m.kr. framlag á fjárlagalið 01-901 Húsameistari ríkisins.
919    Söfn, ýmis framlög: Tekinn er inn nýr liður 1.31 Kvennasögusafn og er framlag 1,0 m.kr.
989    Ýmis íþróttamál: Tekinn er inn nýr liður 1.19 Handknattleikssamband Íslands og er framlag 14 m.kr. Gert er ráð fyrir að veita styrk í þrjú ár. Tekinn er inn nýr liður, 6.51 Skíðaskólinn í Kerlingarfjöllum. Framlag er 4 m.kr. og er ætlað til greiðslu á skuld skólans við Framkvæmdasjóð.
999    Ýmislegt: Framlag til viðfangsefnisins 1.44 Snorrastofa hækkar um 4 m.kr. og er ætlað til greiðslu á skuld við embætti Húsameistara ríkisins. Viðfangsefnið 1.90 Ýmis framlög hækkar um 1 m.kr. og hækkar óráðstöfuð fjárveiting liðarins sem því nemur.

03 Utanríkisráðuneyti

101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn lækkar um 2 m.kr. og er fjárveitingin flutt á nýtt viðfangsefnið 03-190-1.13 Þátttaka fulltrúa vinnumarkaðarins í EFTA- og EES-samstarfi. Tekinn er inn nýr liður, 1.55 Viðskiptaþjónusta, og er framlag 25 m.kr. sem ætlað er til að efla þjónustu við fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum. Á móti lækkar framlag til 09-990-1.90 Markaðsátak erlendis um sömu fjárhæð.
190    Ýmis verkefni: Viðfangsefnið 1.13 Þátttaka fulltrúa vinnumarkaðarins í EFTA- og EES-samstarfi hækkar um 2 m.kr. og er um að ræða millifærslu af fjárlagalið 03-101 Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa.
511    Flugstöð Leifs Eiríkssonar: Þetta er nýr fjárlagaliður og er framlag að fjárhæð 60 m.kr. til að kosta hluta fyrirhugaðra framkvæmda við breytingar á innritunarsal og tengdum verkum.

04 Landbúnaðarráðuneyti

341    Átak í landgræðslu og skógrækt: Þetta er nýr liður og er framlag 75 m.kr. sem er fyrsta greiðsla af fjórum. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að verja 450 m.kr. viðbótarframlagi til landgræðslu og skógræktarverkefna á árunum 1997–2000.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

190    Ýmis verkefni: Viðfangsefnið 1.32 Starfsmenntun markaðsöflun, kynning og tilraunir hækkar um 10 m.kr. til að standa undir starfsmenntun fiskvinnslufólks sem rekin er á vegum starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

325    Neyðarsímsvörun: Framlag hækkar um 25 m.kr. og verður 50 m.kr. þar sem ríkissjóður tekur að sér að fjármagna hlut sveitarfélaga í rekstri Neyðarsímsvörunar.
390    Ýmis löggæslukostnaður: Heildarframlag til fjárlagaliðarins hækkar alls um 36,2 m.kr. og verður 91,5 m.kr. Breytingin er þríþætt: Í fyrsta lagi eru felldar niður 30 m.kr. sértekjur þar sem sparnaði sem ætlað var að ná með hagræðingu í löggæslu er frestað til ársins 1998. Í öðru lagi er tekinn inn nýr liður, 1.20 Störf rannsóknarlögreglumanna. Framlag sem er 11,2 m.kr. er millifært af nokkrum sýslumannsembættum. Að lokum lækkar viðfangsefnið 6.01 Tæki og búnaður um 5 m.kr. og verður 10 m.kr.
397    Schengen samstarf: Framlag til viðfangsefnisins 6.01 Tæki og búnaður lækkar um 10 m.kr. og verður 10 m.kr. Fjárveitingin er ætluð til kaupa á vél- og hugbúnaði.
418    Sýslumaðurinn á Ísafirði: Launaliður á viðfangsefninu 1.20 Löggæsla lækkar um 1,4 m.kr. og er fjárhæðin flutt á viðfangsefni 06-390-1.20 Störf rannsóknarlögreglumanna.
421    Sýslumaðurinn á Sauðárkróki: Launaliður á viðfangsefninu 1.20 Löggæsla lækkar um 1,4 m.kr. og er fjárhæðin flutt á viðfangsefni 06-390-1.20 Störf rannsóknarlögreglumanna.
424    Sýslumaðurinn á Akureyri: Launaliður á viðfangsefninu 1.20 Löggæsla lækkar um 1,4 m.kr. og er fjárhæðin flutt á viðfangsefnið 06-390-1.20 Störf rannsóknarlögreglumanna.
426    Sýslumaðurinn á Seyðisfirði: Launaliður á viðfangsefninu 1.20 Löggæsla lækkar um 1,4 m.kr. og er fjárhæðin flutt á viðfangsefnið 06-390-1.20 Störf rannsóknarlögreglumanna.
434    Sýslumaðurinn í Keflavík: Launaliður á viðfangsefninu 1.20 Löggæsla lækkar um 1,4 m.kr. og er fjárhæðin flutt á viðfangsefnið 06-390-1.20 Störf rannsóknarlögreglumanna.
436    Sýslumaðurinn í Hafnarfirði: Framlag til fjárlagaliðarins lækkar um 2,2 m.kr. Viðfangsefnið 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2 m.kr. en frá og með næstu áramótum mun embættið annast verkefni sem Gjaldheimtan í Garðabæ hefur annast fyrir ríkissjóð til þessa. Á móti lækkar viðfangsefnið 09-250-1.10 Ýmis innheimtukostnaður um sömu fjárhæð. Launaliður á viðfangsefninu 1.20 Löggæsla lækkar um 4,2 m.kr. og er fjárhæðin flutt á viðfangsefnið 06-390-1.20 Störf rannsóknarlögreglumanna.
491    Húsnæði og búnaður sýslumanna: Viðfangsefnið 6.26 Húsnæði sýslumannsins á Seyðisfirði hækkar um 6 m.kr. og verður 13 m.kr. vegna endurbóta á húsnæði sýslumannsins að Bjólfsgötu 7.
701    Biskup Íslands: Viðfangsefnið 1.21 Prestar og prófastar hækkar um 3,8 m.kr. vegna tveggja aðstoðarpresta. Önnur staðan er ný og verður í Garðasókn frá miðju ári en hin er tímabundin staða til heils árs á Ísafirði.

07 Félagsmálaráðuneyti

703    Málefni fatlaðra, Vesturlandi: Viðfangsefnið 1.01 Svæðisskrifstofa hækkar um 2 m.kr. og verður 14,7 m.kr. vegna ráðgjafarþjónustu við fatlaða.
801    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: Viðfangsefnið 1.10 Almennur rekstur lækkar um 25 m.kr. og verður 2.390 m.kr. vegna endurskoðunar á útreikningi á framlagi til sjóðsins.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi: Framlag til viðfangsefnisins 1.31 Félagasamtök, styrkir er óbreytt en sundurliðun breytist. Inn kemur 3 m.kr. framlag til Félags heyrnarlausra en á móti lækkar óráðstöfuð fjárveiting um sömu fjárhæð. Viðfangsefnið 1.90 Ýmis framlög hækkar um 10 m.kr. og verður 22 m.kr. Hækkunin er vegna þjónustu við flóttamenn frá Júgóslavíu sem komu til Ísafjarðar sl. sumar.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

201    Tryggingastofnun ríkisins: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 6,2 m.kr. vegna leigugjalda til Fasteigna ríkisins.
350    Sjúkrahúsið Akranesi: Rekstrarframlag til sjúkrahússins hækkar um 6 m.kr. og er ætlað til liðskiptaaðgerða við sjúkrahúsið.
358    Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 7 m.kr. vegna tveggja starfa, hjartalæknis og bæklunarlæknis.
368    Sólvangur, Hafnarfirði: Rekstrarframlag hækkar um 4 m.kr. vegna halla á rekstri og verður 252,4 m.kr.
370    Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi: Heildarframlag til fjárlagaliðarins hækkar um 260 m.kr. Rekstrarframlag hækkar um 100 m.kr. en fjárveitinguna á að nota til að greiða fyrir enn frekari hagræðingu í rekstri sjúkrahúsanna í Reykjavík. Einnig falla sértekjur að fjárhæð 160 m.kr. niður. Fjárhagslegur ávinningur af 160 m.kr. sparnaði hjá litlum sjúkrahúsum utan Reykjavíkur dreifist á þrjú ár. Á árinu 1997 verður sparnaðurinn 60 m.kr. og kemur til lækkunar á lið 08-950 Rekstrarhagræðing þar sem endanleg útfærsla á stofnanir liggur ekki fyrir.
371    Ríkisspítalar: Rekstrarframlag hækkar um 84 m.kr. vegna endurmats á fjárþörf.
375    Sjúkrahús Reykjavíkur: Viðfangsefnið 1.01 Almennur rekstur hækkar um 120 m.kr. vegna endurmats á fjárþörf.
621    Áfengisvarnir og bindindismál: Fjárlagaliðurinn breytir um nafn og fær heitið 621 Forvarnasjóður. Viðfangsefnið 1.90 Annað breytir einnig um nafn og fær heitið 1.90 Forvarnasjóður. Ekki er um breytingar á fjárhæðum að ræða.
950    Rekstrarhagræðing: Framlag lækkar um 60 m.kr. og verður 45 m.kr. Lækkunin er vegna áformaðs sparnaðar í rekstri lítilla sjúkrahúsa utan Reykjavíkur sem ekki hefur verið útfærður á stofnanir.

09 Fjármálaráðuneyti

201    Ríkisskattstjóri: Heildarframlag hækkar um 23 m.kr. og verður 337 m.kr. Viðfangsefnið 1.10 Sameiginleg útgjöld ríkisskattstjóra og skattstofa lækkar um 10 m.kr. en á móti er tekinn inn nýr liður, 1.20 Skatteftirlit. Framlag er 33 m.kr. en breytingarnar eru liður í endurskoðun á fyrirkomulagi skatteftirlits.
202    Skattstofan í Reykjavík: Rekstrarframlag lækkar um 3 m.kr. vegna áforma um hagræðingu, m.a. með skönnun á skattframtölum.
203    Skattstofa Vesturlands: Almennur rekstur lækkar alls um 1,9 m.kr. og er fjárhæðin tvískipt. Annars vegar lækkar framlag um 1,5 m.kr. vegna breytinga á fyrirkomulagi skatteftirlits og hins vegar lækkar framlag um 0,4 m.kr. vegna áforma um hagræðingu, m.a. með skönnun á skattframtölum.
204    Skattstofa Vestfjarða: Rekstrarfjárveiting lækkar um 1,5 m.kr. vegna breytinga á fyrirkomulagi skatteftirlits og um 0,4 m.kr. vegna áforma um hagræðingu, m.a. með skönnun á skattframtölum. Alls lækkar því framlag um 1,9 m.kr.
205    Skattstofa Norðurlands vestra: Rekstrarframlag lækkar um 0,7 m.kr. vegna áforma um hagræðingu, m.a. með skönnun á skattframtölum.
206    Skattstofa Norðurlands eystra: Almennur rekstur lækkar alls um 7,5 m.kr. og er fjárhæðin tvískipt. Annars vegar lækkar framlag um 6 m.kr. vegna breytinga á fyrirkomulagi skatteftirlits og hins vegar lækkar framlag um 1,5 m.kr. vegna áforma um hagræðingu, m.a. með skönnun á skattframtölum.
207    Skattstofa Austurlands: Rekstrarfjárveiting lækkar um 1,5 m.kr. vegna breytinga á fyrirkomulagi skatteftirlits og um 0,4 m.kr. vegna áforma um hagræðingu, m.a. með skönnun á skattframtölum. Alls lækkar því framlag um 1,9 m.kr.
208    Skattstofa Suðurlands: Framlag lækkar um 1 m.kr. vegna áforma um hagræðingu, m.a. með skönnun á skattframtölum.
209    Skattstofa Vestmannaeyja: Rekstrarframlag lækkar um 0,3 m.kr. vegna áforma um hagræðingu, m.a. með skönnun á skattframtölum.
211    Skattstofa Reykjaness: Rekstrarframlag til skattstofunnar á Reykjanesi hækkar um 4,3 m.kr. þannig að fjárveiting verði sambærileg við aðrar skattstofur miðað við íbúafjölda. Á móti lækkar framlag um 2 m.kr. vegna áforma um hagræðingu, m.a. með skönnun á skattframtölum og hækkar því framlag alls um 2,3 m.kr.
250    Innheimtukostnaður: Framlag til viðfangsefnisins 1.10 Ýmis innheimtukostnaður lækkar um 2 m.kr. Fjárhæðin er flutt á fjárlagalið 06-436 Sýslumaðurinn í Hafnarfirði þar sem embættið mun frá og með næstu áramótum annast verkefni sem Gjaldheimtan í Garðabæ hafði með höndum áður.
381    Uppbætur á lífeyri: Framlag lækkar um 380 m.kr. Frá og með næstu áramótum munu sveitarfélög fullnusta skuldbindingar vegna lífeyrisréttinda kennara með samtímagreiðslu iðgjalda til LSR. Í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins er gert ráð fyrir að þessi greiðsla sveitarfélaganna komi til frádráttar á uppbótum á lífeyri til LSR.
481    Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum: Framlag hækkar um 65 m.kr. og verður 265 m.kr. Gert er ráð fyrir að 80 m.kr. af liðnum vegna tillögu um nýtt ákvæði í 6. gr. fjárlaga um heimild til að ráðstafa allt að 80 m.kr. til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu á svæðum sem ekki njóta góðs af uppbyggingu stóriðju. Hins vegar er almennt framlag til útgjalda samkvæmt heimildarákvæðum lækkað um 15 m.kr.
989    Launa- og verðlagsmál: Viðfangsefnið 1.90 Almennur rekstur hækkar um 600 m.kr. Útgjöld ríkissjóðs munu aukast vegna samtímagreiðslna til fyrirhugaðrar A-deildar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
990    Ríkisstjórnarákvarðanir: Viðfangsefnið 1.90 Markaðsátak erlendis fellur brott. Framlagið að fjárhæð 25 m.kr. er flutt á viðfangsefnið 03-101-1.55 Viðskiptaþjónusta.
999    Ýmislegt: Tekinn er inn nýr liður, 1.20 Endurgreiðslur til sveitarfélaga, og er framlag 35 m.kr. Annars vegar er framlag að fjárhæð 15 m.kr. vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti á kostnaði sveitarfélaga vegna flutnings og förgunar brotamálma. Hins vegar er 20 m.kr. styrkur til sveitarfélaga til kaupa á slökkvibifreiðum og tækjabúnaði slökkviliða. Báðar breytingarnar eru samkvæmt samkomulagi við sveitarfélög.

10 Samgönguráðuneyti

190    Ýmis verkefni: Viðfangsefnið 1.12 Vetrarsamgöngur og vöruflutningar hækkar um 1,4 m.kr. og verður 29,5 m.kr. Í breytingartillögum nefndarinnar er fjárhæðum skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.
211    Vegagerðin: Framlag hækkar alls um 25 m.kr. en gerðar eru eftirfarandi breytingar á viðfangsefnum til samræmis við skiptingu vegaáætlunar 1997: Viðfangsefnið 6.10 Nýframkvæmdir lækkar um 30 m.kr. og verður 2.176 m.kr. Viðfangsefnið 6.11 Framkvæmdaátak vegna atvinnumála lækkar um 143 m.kr. og verður 507 m.kr. Viðfangsefnið 6.21 Landsvegir lækkar um 8 m.kr. og verður 52 m.kr. Framlag til viðfangsefnisins 6.43 Safnvegir lækkar um 6 m.kr. og verður 164 m.kr. Að lokum hækkar framlag til viðfangsefnisins 6.55 Ferjur og flóabátar um 212 m.kr. og verður 672 m.kr. Önnur viðfangsefni eru óbreytt.
472    Flugvellir: Heildarframlag til fjárlagaliðarins breytist ekki en gerðar eru innbyrðis breytingar á fjárlagaliðnum til samræmis við endurskoðaða flugmálaáætlun. Viðfangsefnið 6.80 Flugvellir, framkvæmdir hækkar um 76 m.kr. Á móti hækka sértekjur um sömu fjárhæð. Af hækkuninni renna 60 m.kr. til að kosta breytingar á innritunaraðstöðu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

12 Viðskiptaráðuneyti

190    Ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður, 1.20 Icepro-nefnd, og er framlag 2,2 m.kr. sem nemur 0,001% af gjaldstofni tryggingagjalds.

14 Umhverfisráðuneyti

190    Ýmis verkefni: Viðfangsefnið 1.29 Rannsóknir á botndýrum á Íslandsmiðum hækkar um 3,8 m.kr. Tekinn er inn nýr liður, 1.54 Rannsóknastöð Kvískerjum, og er framlag 3 m.kr. Gerðar eru eftirfarandi millifærslur milli viðfangsefna, en þær leiða ekki til breytinga á heildarframlagi til liðarins: Viðfangsefni 1.35 Umhverfisvöktun lækkar um 0,6 m.kr. Viðfangsefnið 1.53 Undirbúningur náttúrustofa lækkar um 0,3 m.kr. Viðfangsefnið 1.55 Stofnun Vilhjálms Stefánssonar lækkar um 0,1 m.kr. Viðfangsefnið 1.56 Vernd Breiðafjarðar hækkar um 0,5 m.kr. Að lokum hækkar viðfangsefnið 1.57 Þjóðgarður á Snæfellsnesi, undirbúningur um 0,5 m.kr.
210    Veiðistjóri: Framlag til stofnunarinnar hækkar um 7 m.kr. og er vegna nýs fyrirkomulags á greiðslu ríkissjóðs á hluta kostnaðar við refaveiðar.
310    Landmælingar Íslands: Rekstrarframlag hækkar um 12,2 m.kr. vegna fjölþjóðlegs mæliátaks næsta vor og er um eingreiðslu að ræða.
410    Veðurstofa Íslands: Viðfangsefnið 1.70 Veðurþjónusta fyrir millilandaflug lækkar um 3,7 m.kr. Á móti lækka sértekjur um 3,6 m.kr. og viðfangsefnið 6.01 Tæki og búnaður hækkar um 0,1 m.kr. Heildaráhrif breytinganna eru engin.

    Nefndinni hafa borist óskir fjármálaráðuneytis og annarra ráðuneyta um leiðréttingar á heitum fjárlagaliða og viðfangsefna í 4. gr. auk tæknilegra breytinga. Hér er ekki um efnislegar breytingar að ræða en þær eru sem hér segir:
1.    Viðfangsefnið 03-391-1.10 Háskóli Sameinuðu þjóðanna fær heitið 03-391-1.10 Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna.
2.    Viðfangefnið 03-391-1.15 Sjávarútvegsháskóli Sameinuðu þjóðanna fær heitið 03-391-1.15 Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna.
3.    Tilfærslur viðfangsefnisins 04-841-1.01 Fiskeldisrannsóknir millifærast af tegund 5911 Til B-hluta fyrirtækja og sjóða á tegund 5913 Til fyrirtækja og atvinnuvega.
4.    Fjárlagaliðurinn 08-207 og viðfangsefnið 08-207-1.10 Verkgreiðslur til sjúkrahúsa fær heitið 08-207-1.10 Verkgreiðslur til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva.
5.    Fjárlagaliðurinn 08-412 og viðfangsefnið 08-412-1.01 Hjúkrunarheimilið Árskógar fær heitið 08-412-1.01 Hjúkrunarheimilið Skógarbær.
    Nefndin hefur fallist á þessar breytingar og verða þær teknar upp í fjárlögum þegar þau verða prentuð eftir 3. umræðu, en ekki fluttar sérstakar breytingartillögur um þær.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGU VIÐ 5. GR. (B-HLUTA)


    B-hlutaáætlanir hafa verið endurmetnar frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram í október. Í endurskoðuðum áætlunum hefur verið tekið tillit til ýmissa leiðréttinga á fyrri áætlunum, áhrifa af ráðstöfunum í A-hluta fjárlaga og nýrra upplýsinga um fyrirhugaða starfsemi fyrirtækja og sjóða á næsta ári. Í framhaldi af því gerir meiri hlutinn tillögu um breytingar á átta áætlunum í B-hluta.

22 Menntamálaráðuneyti

679    Sameiginlegur kostnaður við skólana á Laugarvatni: Lagt er til að liðurinn falli brott og stofnaður verði nýr fjárlagaliður 02-317 í A-hluta fjárlaga vegna sameiginlegs reksturs skóla ríkisins á Laugarvatni.
872    Lánasjóður íslenskra námsmanna: Samkvæmt endurskoðaðri áætlun sjóðsins er gert ráð fyrir að útlán verði óbreytt. Talið er að umsækjendum um námslán fækki en á móti komi meiri útlán vegna breyttra reglna. Innheimta námslána er talin aukast um 94 m.kr. vegna fjölgunar greiðenda um 1.600 á næsta ári en þeir eru um 21.900 á yfirstandandi ári. Innheimta námslána hefur verið vanáætluð að undanförnu og er tekið tillit til þess í endurskoðaðri áætlun. Þá er áætlað að afborganir lána verði 100 m.kr. minni en áætlað er í fjárlagafrumvarpi og að fjármagnskostnaður hækki umfram fjármunatekjur um 16 m.kr. Áætlaður launakostnaður sjóðsins hækkar um 8 m.kr. og verður 60 m.kr. í samræmi við raunveruleg umsvif á síðustu árum. Þessar breytingar leiða til lækkunar á lánsfjárþörf sjóðsins um 170 m.kr. og er hún áætluð 3.800 m.kr. eftir 2. umræðu lánsfjárlaga. Við 2. umræðu fjárlagafrumvarps var framlag ríkissjóðs til sjóðsins hækkað um 100 m.kr. og verður það 1.600 m.kr. Hækkunin er færð á höfuðstól sjóðsins og verður henni ráðstafað í samræmi við breytingar á lögum um lánasjóðinn sem unnið er að.
973    Þjóðleikhúsið: Við 2. umræðu fjárlaga var samþykkt að hækka framlag til leikhússins um 7 m.kr. til að mæta hækkuðum launakostnaði í samræmi við áætlun um gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga vegna starfsmanna. Áætlun í B-hluta er breytt til samræmis.
974    Sinfóníuhljómsveit Íslands: Við 2. umræðu fjárlaga var samþykkt að hækka framlag til hljómsveitarinnar um 7 m.kr. Fjárhæðin skiptist þannig að 1,5 m.kr. er vegna leiðréttingar á 10% hlutdeild hljómsveitarinnar í skemmtanaskatti og 5,8 m.kr. eru vegna lífeyrisskuldbindinga, leiðréttingar á verðlagshækkunum o.fl. Framlög annarra rekstraraðila eru hækkuð til samræmis. Þá er áætlað að styrkir frá fyrirtækjum verði 1,6 m.kr. sem verði varið til eignakaupa. Áætlun í B-hluta er breytt til samræmis við framangreint.

23 Utanríkisráðuneyti

101    Fríhöfn, Keflavíkurflugvelli: Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að söluaukning milli áranna 1995 og 1996 verði 17% og milli áranna 1996 og 1997 um 7% en í frumvarpinu er miðað annars vegar við 11% og hins vegar við 6%. Þetta leiðir til 100 m.kr. hækkunar á vörum til endursölu og 160 m.kr. hækkunar á sölu. Mismunurinn, 60 m.kr., rennur í ríkissjóð.
114    Flugstöð Leifs Eiríkssonar: Að ráði hefur orðið að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem kynntar voru í fjárlagafrumvarpi 1997. Þess í stað verða framkvæmdir við breytingar á innritunarsal og tengd verk. Áætlaður kostnaður við þær breytingar er allt að 120 m.kr. Þar af verða 60 m.kr. fjármagnaðar með tekjum flugmálaáætlunar í A-hluta fjárlaga og 60 m.kr. með framlagi í A-hluta fjárlaga sem er sama fjárhæð og áætlaður tekjuauki af rekstri Fríhafnar. Að auki er áætlað að verja 27 m.kr. af eigin fé flugstöðvarinnar til að endurnýja tölvukerfi.

29 Fjármálaráðuneyti

101    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins: Nýlega var ákveðið að hækka tóbaksverð um 2% til að fjármagna sérstakt átak í fíkniefnavörnum á næsta ári. Áætlað er að sölutekjur verslunarinnar hækki af þessum sökum um 65 m.kr. og að fjárhæðinni verði skilað í ríkissjóð.
971    Lánasýsla ríkisins: Í fjárlagafrumvarpi var kynnt að breyta þyrfti áætlun stofnunarinnar vegna áforma um að hætta rekstri Þjónustumiðstöðvar ríkisverðbréfa á næsta ári. Gert er ráð fyrir að við þessa breytingu lækki launaliður um 9 m.kr. og fjármunatekjur lækki um sömu fjárhæð. Afkoma Lánasýslunnar verður því óbreytt.



Fylgiskjal I.


Álit


um 3. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp, hefur nefndin fjallað um tekjugrein fjárlagafrumvarpsins og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs. Til að skýra málið frekar fékk nefndin á fund sinn Bolla Þór Bollason og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneyti, Þórð Friðjónsson þjóðhagsstofustjóra, Ingva Örn Kristinsson frá Seðlabanka Íslands, Gylfa Arnbjörnsson og Guðmund Gylfa Guðmundsson frá ASÍ og Guðna Níels Aðalsteinsson frá VSÍ.
    Þær skattbreytingar, sem varða tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1997, koma einkum fram í nýsamþykktum lögum um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Má þar sérstaklega nefna þær breytingar sem snúa að tekjuskatti fyrirtækja, þ.e. breytt fyrningarhlutföll, og að ákveðið var að halda fjárhæðarmörkum persónuafsláttar og bótaliða óbreyttum. Sú ráðstöfun er reyndar ætluð til að skapa svigrúm til að mæta tillögum nefndar sem er að skoða leiðir til að draga úr jaðaráhrifum tekjuskattskerfisins.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 voru tekjur ríkissjóðs áætlaðar um 125,4 milljarðar kr. á næsta ári. Nú er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 800 millj. kr. meiri en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir eða um 126,2 milljarðar kr.
    Gert er ráð fyrir að skatttekjur hækki um 800 millj. kr. frá því sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Þar af munar mest um áætlaða hækkun af tekjuskatti einstaklinga um tæpan milljarð kr., en á móti er m.a. gert ráð fyrir lækkun tekjuskatts fyrirtækja um rúmar 280 millj. kr. og 450 millj. kr. lægri tekjum af virðisaukaskatti. Samkvæmt þessu verður hlutfall skatttekna af landsframleiðslu um 22,6% sem er svipað og á þessu ári ef tekið er tillit til flutnings grunnskólans frá ríki yfir til sveitarfélaga.
    Meiri hlutinn tekur fram að vegna óvissu um stórframkvæmdir á næsta ári liggur ekki enn fyrir endurskoðuð þjóðhagsáætlun.

Alþingi, 18. des. 1996.


Vilhjálmur Egilsson, form.

Valgerður Sverrisdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Pétur H. Blöndal.

Árni R. Árnason.


Fylgiskjal II.


Álit


um 3. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Minni hluti nefndarinnar gagnrýnir hversu lítill tími vannst til að skoða tekjuforsendur fjárlagafrumvarpsins eftir að endurskoðun lá fyrir, nú fyrst eftir miðjan desembermánuð. Minni hlutinn vill þó benda á eftirtalin atriði:
    Tekjuskattur einstaklinga er að aukast um yfir 4 milljarða kr. á sama tíma og tekjuskattur fyrirtækja er að lækka um tæpan hálfan milljarð miðað við forsendur fjárlaga. Þetta sýnir glöggt hvert skattbyrðin er að færast þessi missirin, frá gróðafyrirtækjunum yfir á herðar launamanna.
    Einnig er ástæða til að skoða vandlega þá þróun sem er að verða í skilum virðisaukaskatts. Það stingur í augu að á tímum vaxandi veltu í þjóðarbúskapnum skuli tekjur af virðisaukaskatti dragast saman, jafnvel þó fjárfestingar séu að aukast.
    Loks vill minni hlutinn mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að frysta persónufrádrátt og bótaliði eins og barnabætur, barnabótaauka og vaxtabætur í stað þess að láta þessa liði taka eðlilegri verðlagsuppfærslu nú um áramót. Með því er verið að þyngja skattbyrði á almenningi og skerða bætur út á óljós fyrirheit um að gera eitthvað gagnvart jaðarskattavítahringnum.

Alþingi, 19. des. 1996.


Steingrímur J. Sigfússon.

Ágúst Einarsson.

Jón Baldvin Hannibalsson.