Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 175 . mál.


560. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Fá mál sýna betur en þetta hversu langt framkvæmdarvaldið getur gengið í tillitsleysi við Alþingi. Þegar niðurstaða eigendanefndarinnar lá fyrir ákvað iðnaðaráðherra að halda blaðamannafund fremur en að kynna Alþingi málið. Hann varð að lokum knúinn til þess með umræðum utan dagskrár á Alþingi að skýra lauslega frá málinu. Málið kom svo til meðferðar fyrir áramót og fyrir harðfylgi stjórnarandstöðunnar gafst tími til þess yfir áramótin að skoða málið áfram.
    Aðalrök ríkisstjórnarinnar í málinu eru þau að eigendur eigi að fá eitthvað fyrir eigendaframlög sín. En hver eru þau og hvað hafa eigendurnir fengið?
    Til ársloka 1995 hafði Landsvirkjun greitt ríkinu 435 millj. kr. í svokallað ábyrgðargjald. Það er gjald fyrir það að ríkið er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum lánum Landsvirkjunar. Til þess að jafna á milli eignaraðilanna hafa aðrir eignaraðilar einnig fengið greitt ábyrgðargjald. Þannig hefur Reykjavík fengið 388 millj. kr. í ábyrgðargjald og Akureyri 48 millj. kr. Samtals hafa aðilarnir því fengið 871 millj. kr. í ábyrgðargjald á verðlagi ársins 1995.
    Eignaraðilarnir hafa líka fengið arð, gagnstætt því sem oft er látið í veðri vaka. Ríkið hefur fengið 291 millj. kr. í arð, Reykjavík 261 millj. kr. og Akureyri 29 millj. kr. Samtals hafa eignaraðilarnir fengið 581 millj. kr. í arð til loka ársins 1995 á verðlagi þess árs.
    Hvað hafa eignaraðilarnir látið af hendi rakna? Þeir hafa innt af hendi framlög sem hér segir: Ríkið 1.074 millj. kr., Reykjavík 957 millj. kr. og Akureyri 118 millj. kr.
    Samtals hafa eigendurnir greitt 2.149 millj. kr. samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar. Fyrir það hafa eigendurnir fengið 581 millj. kr. í arð en 871 millj. kr. hefur auk þess runnið til þeirra í ábyrgðargjald. Arðurinn af eigninni er því 27% af raunverulegu framlagi eigenda, en ef ábyrgðargjaldið er reiknað með kemur í ljós að tekjur eignaraðilanna af fyrirtækinu hafa numið 67% af höfuðstól sem er ekki slæmt.
    Nú er hins vegar fundin upp önnur aðferð til að reikna út tekjur handa eignaraðilunum. Það er gert með því að eignir Landsvirkjunar eru metnar eins og þær hafi allar komið af eigendaframlögunum, að þau ein hafi í raun skapað tekjurnar. Þegar það liggur fyrir kemur í ljós að eignin er allt of mikil og þess vegna eru eigendaframlögin áætluð 14 milljarðar kr. Þau mynda síðan útreikning til arðs eins og segir í samkomulagi eignaraðilanna frá 28. október sl.
    Arðurinn verður samkvæmt samkomulaginu ekki reiknaður af 2.149 millj. kr. heldur af 14 milljörðum kr., sjö sinnum hærri upphæð en þeirri sem eigendur hafa lagt fram. Þetta er því ekki arður heldur skattur sem lagður eru á rafmagnsnotendur í landinu til framtíðar.
    Miðað er við að arðurinn verði 5,5% af endurmetnum eigendaframlögum. Hann á þó ekki allur að koma til útborgunar heldur fer það eftir vissum reglum sem meira að segja takmarkast við afkomu fyrirtækisins! Það sem eftir er af arðinum bætist hins vegar við höfuðstól 14 milljarðanna og verður þannig grunnur fyrir arð framtíðarinnar. Með þessu móti eru eigendur að reikna sér 500–700 millj. kr. í tekjur af fyrirtækinu á ári. Sé gert ráð fyrir að það verði 600 millj. kr. til að byrja með eru þær 600 millj. kr. 28% af raunverulegu en ekki reiknuðu eigendaframlagi. Þannig er fullvíst að þessi framlög færa eigendum sínum hærri arð en nokkur dæmi eru til um annars staðar í heiminum.
    Aðalrök iðnaðaráðherra hafa verið þessi: Borgin vildi fá að vita hvað hún gæti haft upp úr eignarhlut sínum í Landsvirkjun. Hún óskaði því eftir að stofnuð yrði eigendanefnd. Akureyrarbær tók undir með Reykjavík. Þess vegna skipaði ráðherrann nefndina. Í henni voru embættismenn frá ríkinu en stjórnmálamenn frá borginni. Þeir síðarnefndu réðu því ferðinni. Þeir voru Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður stjórnar veitustofnana, og Vilhjálmur Vilhjálmsson, borgarráðsmaður Sjálfstæðisflokksins, sem jafnframt er formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og stjórnarmaður í Landsvirkjun. Þá var í nefndinni Jakob Björnsson sem er bæði bæjarstjóri á Akureyri og stjórnarmaður í Landsvirkjun. Hann er auk þess Framsóknarmaður. Það voru því pólitískir fulltrúar stjórnarflokkanna í þessum tveimur bæjarfélögum sem komu að málinu. Öðrum pólitískum fulltrúum stjórnarflokkanna var haldið utan við málið sem fór leynt til síðustu stundar og að sjálfsögðu var stjórnarandstaðan ekki höfð með í ráðum. Niðurstaðan varð sú að eigendurnir eiga að geta tekið hundruð milljóna króna út úr fyrirtækinu á hverju ári. Þá fjármuni geta þeir notað til að lækka verðið á raforku til viðskiptamanna sinna, til þess að lækka útsvar eða skuldir eða til að fjárfesta í öðrum verkefnum. Einnig er ljóst að arðgreiðslurnar til eigendanna eru settar framar en verðið til almennings.
    Auðvitað var samningurinn samþykktur samhljóða í borgarstjórn Reykjavíkur og í bæjarstjórn Akureyrar. Samningurinn er þessum stofnunum ótrúlega hagstæður en þegar á heildina er litið hlýtur að verða að skoða hann mjög gagnrýnið. Það á við um alla alþingismenn. Eins og kom í ljós við 1. umræðu málsins átti iðnaðarráðherra ekki einn einasta stuðningsmann og stjórnarliðar sem tóku til máls gagnrýndu samninginn harðlega.
    Niðurstaðan, þ.e. að eignaraðilar fengju fjármuni út úr Landsvirkjun, væri í sjálfu sér ágæt ef svo vildi til að eignaraðilarnir hefðu lagt fram beinharða peninga í fyrirtækið. Sú er þó ekki raunin nema að takmörkuðu leyti eins og sýnt hefur verið fram á. Þeir sem hafa byggt upp Landsvirkjun eru neytendur um allt land að Reykvíkingum meðtöldum. Niðurstaða eigendanefndarinnar er fráleit miðað við allar aðstæður í landinu. Hún skapar ófrið um Landsvirkjun og stofnar í hættu þeirri sátt sem verið hefur um Landsvirkjun sem fylgt hefur verðjöfnunarstefnu samkvæmt lögum.
    Afstaða þeirra sem komu til viðtals við iðnaðarnefnd um málið var sú sama. Þeir sögðu sem svo að með frumvarpinu væru eigendur að setjast yfir bráð sem þeir ættu alls ekki.
    Af þessum ástæðum og öðrum sem síðar verða raktar leggur 2. minni hluti fram frávísunartillögu um málið á sérstöku þingskjali þar sem einnig er lagt til að ríkisstjórninni verði gert að hefja samninga um málið á nýjan leik á nýjum forsendum.
    Verði Landsvirkjunarfrumvarpið knúið áfram óbreytt eins og flest bendir til mun það hafa í för með sér aukna mismunun í lífskjörum á Íslandi. Það mun minnka líkurnar á því að samstaða náist til lengri tíma í orkumálum í landinu. Það mun óhjákvæmilega hafa það í för með sér að einstakir landshlutar knýi á um að fá arðinn af orkuverum í eigin landshluta. Hvar yrðu Reykvíkingar settir ef Sunnlendingar gengju fram og heimtuðu sitt á sama hátt og eigendaskýrslan gerir ráð fyrir? Hvar verða landsmenn staddir ef Austurland heimtar yfirráð yfir virkjununum miklu á Austurlandi ef þær á annað borð verða einhvern tímann að veruleika? Hvað á að segja við þá sem byggja Skagafjörð framanverðan ef Skagfirðingar heimta að reisa Villinganesvirkjun? Það er ljóst að verði þetta frumvarp að lögum mun allt kerfið sem byggt hefur verið upp liðast sundur. Hvað þýðir það? Það þýðir að að lokum verður raforkan dýrari og sóun samkeppninnar mun bitna fyrst á fjarlægustu byggðunum. Þessu munu stjórnarliðar svara með því að verðjöfnun verði stýrt í gegnum ríkissjóð. Það er ekki rétt. Skattgreiðsluvilji almennings er ekki svo mikill að unnt sé að treysa á hann til langframa í þessu efni.
    Þá er það ónefnt að íslenska orkukerfið mun á næstu áratugum tengjast umheiminum. Með lagningu rafstrengs, sem ekki er verið að gera tillögu um en spáð er að verði raunin eftir 30 ár eða svo, tengist sundrað raforkukerfi Íslands hinum stóra umheimi sem aftur skapar forsendur fyrir erlend fyrirtæki til þess að hirða íslenskar orkulindir. Þess er svo loks að geta að sundruð greinin mun ekki ganga betur um landið en eitt fyrirtæki, Landsvirkjun, gerir. Landsvirkjun hefur setið undir þungri gagnrýni í umhverfismálum en fari svo að fyrirtækið klofni í mörg smáfyrirtæki sem eiga í innri samkeppni um virkjanir er landinu enn frekari hætta búin. Ábyrgð þeirra manna sem vilja knýja þetta mál óbreytt í gegnum Alþingi er því mikil.
    Þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru flestar óþarfar og rúmast innan gildandi laga. Þó eru nokkrar sem þarf að athuga sérstaklega:
    Í 1. gr. er gert ráð fyrir að lögfest verði heimild Landsvirkjunar til að hagnýta þá sérþekkingu sem fyrirtækið ræður yfir með verktöku og sölu innan lands og með eignaraðild að fyrirtækjum erlendis. Þessi tillaga er sprottin af því að fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur óskað samvinnu við Landsvirkjun, einkum erlendis. Það er eðlilegt að verða við þeirri ósk, en það er fráleitt að opna um leið fyrir það að Landsvirkjun geti beitt yfirburðarstyrk sínum í almennri samkeppni við íslensk fyrirtæki. Breytingin er því hæpin eins og fram kemur í umsögnum og óþarfi er að gera hana í tengslum við eigendasamkomulagið frá 28. október. Hún kemur því í rauninni ekkert við. Meiri hlutinn flytur breytingartillögur við þessa frumvarpsgrein. 2. minni hluti telur breytinguna til bóta, en engu að síður verður að undirstrika það aðalatriði að ekki er brýn þörf á að afgreiða þessa lagabreytingu á yfirstandandi þingi.
    Aðalbreytingin á lögunum samkvæmt frumvarpinu er að lögfesta að miða skuli arð við endurmetin eigendaframlög, þ.e. 14 milljarða kr., eins og fram kemur í eigendaskýrslunni. 2. minni hluti flytur tillögu um að fyrst skuli lækka raforkuverð áður en greiddur er út arður samkvæmt greininni. Verður fróðlegt að sjá hver viðbrögðin verða við þeirri breytingartillögu.
    Stjórnarmönnum er fækkað. Ráðherra á einn að skipa alla stjórnarmenn ríkisins. Þetta er fráleit tillaga eins og rakið verður í framsöguræðu 2. minni hluta og er því flutt breytingartillaga sem gerir ráð fyrir að Alþingi kjósi alla stjórnarmennina frá ríkinu svo sem verið hefur. Stjórnarflokkarnir réðu þessu máli einir til lykta við gerð eigendasamkomulagsins. Með lagabreytingartillögunni er gert ráð fyrir að enn verði hert á tökum stjórnarflokkanna á fyrirtækinu. Í þessu sambandi má minna á að í lok ársins er gert ráð fyrir að núverandi forstjóri fyrirtækisins láti af störfum. Stjórnin ræður forstjóra. Ekki er vafi á því að þessi staðreynd er ein meginástæða þess að stjórnarflokkarnir gera umrædda tillögu um breytingu á stjórninni.

    Þá er gert ráð fyrir að breyta ákvæðum um verkaskiptingu stjórnar og forstjóra til samræmis við hlutfélagalög. Um það mál er enginn ágreiningur og hefði verið unnt að gera þá breytingu með því að breyta reglugerð eða með einfaldri stjórnarsamþykkt án lagabreytingar.
    Til þess að færa fyrirtækið nær formi hlutafélags er gert ráð fyrir nýjum fundi, ársfundi, en núverandi ársfundir breytast í samráðsfundi. Hér er verið að auka umsvif og yfirstjórn að óþörfu og án nokkurra raka.
    Ákvæði um ársreikninga eru færð til samræmis við hlutafélagalög og lög um ársreikninga. Þessar tillögur eru báðar þannig að um þær er full samstaða. Að sjálfsögðu væri þó unnt án lagabreytinga að breyta reglum um ársreikninga Landsvirkjunar því að um það mál er og hefur verið full samstaða.
    Í gildandi lögum eru ákvæði um að leita þurfi tillagna Þjóðhagsstofnunar áður en gjaldskrá fyrirtækisins er afgreidd. Það er fráleitt að fella þetta ákvæði niður um leið og arðgreiðslurnar eru festar í sessi með þeim hætti sem gert er ráð fyrir. Þess vegna krefjast 1. og 2. minni hluti þess að því verði svo hagað að bera þurfi málið undir Samkeppnistofnun áður en gjaldskrá er breytt og gjöld hækkuð, en auk þess leggur 2. minni hluti til að sett verði inn ákvæði um að við ákvörðun gjaldskrár verði fylgt eigendasamkomulaginu um verðlækkun frá aldamótum.
    Eitt alvarlegasta ákvæði frumvarpsins er um að kippa út úr lögunum eftirlitsmöguleikum Ríkisendurskoðunar og hafna 1. og 2. minni hluti þeirri tillögu. Hún er ekki síst fráleit fyrir að vera í frumvarpi sem einnig fellir brott úr lögunum rétt Alþingis til að kjósa stjórn.
    Með vísan til framanritaðs leggur 2. minni hluti til að frávísunartillaga á þskj. 562 verði samþykkt en að öðrum kosti breytingartillögur þær sem 2. minni hluti leggur fram.

Alþingi, 3. febr. 1997.



Svavar Gestsson.






Fylgiskjal I.


Landsvirkjun,
fjármála- og markaðssvið:


Minnisblað um Marshall-aðstoð


til stórframkvæmda árin 1948–1953.


(27. nóvember 1996.)





(1 síða mynduð. Athugið pdf-skjalið.)






Fylgiskjal II.


Upplýsingar um raforkuverð lagðar fram af


Landsvirkjun á fundi iðnaðarnefndar 28. nóvember 1996.






(1 síða mynduð. Athugið pdf-skjalið.)







Fylgiskjal III.


Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.


(17. desember 1996.)





(1 síða mynduð. Athugið pdf-skjalið.)





Virðingarfyllst,



Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri.







Fylgiskjal IV.


Bréf borgarstjórans í Reykjavík til iðnaðarnefndar.


(18. desember 1996.)





(3 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)





Með bestu kveðju,



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



Fskj.

Rafmagnsveita Reykjavíkur,
hagdeild:






Fylgiskjal V.


Umsögn Ríkisendurskoðunar.


(16. desember 1996.)




(2 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)






Sig. Þórðarson.


Fylgiskjal VI.


Umsögn Orkubús Vestfjarða.


(9. desember 1996.)





(2 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)





Virðingarfyllst,


f.h. Orkubús Vestfjarða



Kristján Haraldsson, orkubússtjóri.



Fylgiskjal VII.


Bréf frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti


um samanburð á raforkuverði.


(9. desember 1996.)





(1 síða mynduð. Athugið pdf-skjalið.)






F.h.r.


Jón Ingimarsson.


Ragnheiður Kristjánsdóttir.



Fskj.

Samorka:


(13 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)








Fylgiskjal VIII.


Umsögn Hitaveitu Suðurnesja.


(5. desember 1996.)





(3 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)





Virðingarfyllst,


f.h. Hitaveitu Suðurnesja



Júlíus Jónsson, forstjóri.




Fylgiskjal IX.


Frá Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum.


    Árið 1996, fimmtudaginn 21. nóvember klukkan 18.00 var haldinn fundur í stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum. Fundurinn var haldinn að Háaleitisbraut 11 í Reykjavík. Mættir voru: Arngrímur Blöndal, Ólafur Kristjánsson og Magnús B. Jónsson. Guðrún S. Hilmisdóttir ritaði fundargerð. Eftirfarandi gerðist:
     Verkaskipting stjórnar. Ólafur Kristjánsson setti fundinn, og var fyrsta mál á dagskrá kosning formanns stjórnar. Magnús B. Jónsson var kosinn formaður og tók við stjórn fundarins.
     Fundargerð stofnfundar, stofnskrá og listi yfir stofnsveitarfélög Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum lagt fram. Engar athugasemdir voru gerðar. Samþykkt að senda þessi gögn út til sveitarfélaganna og óska eftir staðfestingu á stofnaðildinni.
     Kynning á stofnun samtakanna. Samþykkt að senda kynningarbréf til eftirfarandi aðila, greina frá stofnun samtakanna og óska eftir stuðningi við að ná fram markmiðum samtakanna: Landshlutasamtökum sveitarfélaga, Rarik, Orkubúi Vestfjarða, Landsvirkjun, orkuráði, Orkustofnun, Árna Magnússyni, formanni nefndar iðnaðarráðherra, svo og iðnaðarráðherra, með ósk um samvinnu svo og að samtökin fái að fylgjast með starfi starfsnefndar ráðherrans.
     Minnisblað iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis dags. 18. nóvember 1996 varðandi orkusparnaðarátak lagt fram og rætt.
     Útreiknigrunnur frá RARIK dags. 18. nóvember 1996 fyrir Hofshrepp lagður fram og ræddur.
     Næstu skref. Rætt var að auka þurfi fé til styrktar því að hægt sé að leita að heitu vatni til húshitunar á köldum svæðum. Senda iðnaðarráðherra bréf þar sem farið verði fram á frekari stuðning við rannsóknir á þessu sviði. Einnig rætt um hugsanlegan stuðning frá RARIK til að kosta útreikninga á valkostum fyrir sveitarfélög.
     Söfnun á upplýsingum. Taka þarf saman lista yfir gögn sem æskilegt er að koma á framfæri við aðildarsveitarfélög. Athuga þarf hvaða upplýsingar eru til hjá Samorku.
     Næsti fundur. Stefnt að því að halda næsta fund í lok janúar 1997.



Stofnskrá Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum


samþykkt á stofnfundi 20. nóvember 1996.



1. gr.


    Nafn samtakanna er Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum.

2. gr.


    Sérhvert sveitarfélag sem telur sig hafa hagsmuni af starfsemi samtakanna skv. 3. gr. getur verið aðili að samtökunum.

3. gr.


    Tilgangur samtakanna er:
    Að vinna að lækkun orkukostnaðar til húshitunar á „köldum svæðum“.
    Að stuðla að (frekari) jarðhitaleit.
    Að afla og dreifa upplýsingum um orkumál til aðildarsveitarfélaga.
    Að stuðla að aukinni þekkingu almennings á leiðum til orkusparnaðar.

4. gr.


    Ársfund samtakanna skal halda í tengslum við fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og eiga allir fulltrúar aðildarsveitarfélaga sem sitja ráðstefnuna seturétt á ársfundi. Komi til atkvæðagreiðslu hefur hvert sveitarfélag eitt atkvæði.

5. gr.


    Til ársfundar skal boðað með minnst viku fyrirvara.
    Á dagskrá ársfundar skal m.a. vera:
    Skýrsla stjórnar.
    Ársreikningur og fjárhagsáætlun.
    Umræður og ályktanir um orkumál.
    Kosning þriggja manna í stjórn og þriggja manna til vara.
    Stjórn skiptir með sér verkum.

6. gr.


    Stjórn samtakanna ræður málum milli ársfunda. Formaður boðar stjórnarfundi.

7. gr.


    Árgjald aðildarsveitarfélaga er 10.000 kr.

8. gr.


    Samþykktum þessum má breyta á ársfundi samtakanna. Til breytinga á samþykktum þessum þarf 2/3 hluta atkvæða mættra fulltrúa.



Fylgiskjal X.


Umsögn Rafveitu Hafnarfjarðar.


(5. desember 1996.)




(1 síða mynduð. Athugið pdf-skjalið.)





Virðingarfyllst,


f.h. Rafveitu Hafnarfjarðar



Jón G. Hermannsson.




Fylgiskjal XI.


Frá aðalfundi Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi.


    Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi haldinn í Stykkishólmi 1.–2. nóvember 1996 vekur athygli á hve orkukostnaður er stór þáttur í útgjöldum heimila og fyrirtækja í kjördæminu.
    Þar sem raforkusala Landsvirkjunar og verðlagning hennar varðar miklu um þróun raforkuverðs til almennings og atvinnufyrirtækja mótmælir fundurinn arðgreiðslum Landsvirkjunar.
    Fundurinn fagnar væntanlegri uppbyggingu stóriðju í kjördæminu sem leiðir til aukinnar orkusölu og fjölgar atvinnutækifærum. Gera verður þá kröfu að uppbygging stóriðju styrki stöðu Landsvirkjunar og leiði til lækkunar raforkuverðs til almennings.




Fylgiskjal XII.


Umsögn Bæjarveitna Vestmannaeyja.


(4. desember 1996.)




(2 síður.)





Virðingarfyllst,



Friðrik Friðriksson, veitustjóri.








Fylgiskjal XIII.


Bréf til iðnaðarnefndar frá Landsvirkjun.


(3. desember 1996.)





(3 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)





Virðingarfyllst,



Örn Marinósson,


framkvæmdastjóri fjármála- og markaðssviðs.





Fskj. 1.

(1 síða.)


Fskj. 2.


(1 síða.)


Fskj. 3.



(1 síða.)


Fskj. 4.


(1 síða.)


Fylgiskjal XIV.


Umsögn Rafveitu Sauðárkróks.


(2. desember 1996.)





(4 síður myndaðar. Athugið pdf-skjalið.)




Virðingarfyllst,



Sigurður Ágústsson, rafveitustjóri.




Fylgiskjal XV.



Eiginfjárframlög, arðgreiðslur og ábyrðargjald (í millj. kr.)



Eigin-

Arð-

Ábyrgðar-


Eigendur

fjárframlög

greiðslur

gjald




Ríkið           1.074
291
435
Reykjavík      957
261
388
Akureyri      118
29
48

Miðað við verðlag 1995      2.149
581
871