Ferill 183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 183 . mál.


584. Nefndarálit



um frv. til l. um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, o.fl. (vegna samnings Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og samnings um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti Þorstein A. Jónsson, Björgu Thorarensen og Ragnheiði Harðardóttur. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, Heimili og skóla, tollstjóranum í Reykjavík, Barnaverndarstofu, landlækni, Fangelsismálastofnun ríkisins, Lögmannafélagi Íslands, áfengisvarnaráði, lögreglustjóranum í Reykjavík og Landssambandi lögreglumanna.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á almennum hegningarlögum, áfengislögum, lögum um ávana- og fíkniefni, tollalögum, lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma og lyfjalögum. Um er að ræða lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til þess að Ísland geti fullgilt tvo alþjóðasamninga á sviði refsiréttar, annars vegar samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og hins vegar samning um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum.
    Í umsögn sem nefndinni barst um málið kemur fram að nokkrum vanda hefur valdið að heiti á fíkniefninu „ecstasy“ eða „E-töflur“ kemur hvergi fyrir í lögum eða reglugerðum. Þar eru aðeins talin upp vímuefni sem er að finna í slíkum töflum. Upplýst var á fundi nefndarinnar að eðlilegra væri að kveða á um slíkt í reglugerð.
    Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 4. febr. 1997.



Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir,

Ögmundur Jónasson.


form.

frsm.



Árni R. Árnason.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Guðný Guðbjörnsdóttir.



Kristján Pálsson.