Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 175 . mál.


598. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Verði frumvarpið samþykkt hækkar rafmagnsverð til almennings um 500–700 millj. kr. á ári sem renna þá til eigendanna, í ríkissjóð, borgarsjóð og bæjarsjóð Akureyrar. Heildarsala á raforku til almennings nam á síðasta ári um 5,5 milljörðum kr. Hér er því um að ræða um það bil 10% aukaskatt á alla raforkunotendur í landinu. Þessi skattur leggst hlutfallslega þyngst á þá sem borga hæst orkuverð.
    Verði frumvarpið samþykkt er stigið skref í þá átt að brjóta niður þá stefnu verðjöfnunar sem á að fylgja samkvæmt lögunum um Landsvirkjun. Alþýðubandalagið ítrekaði stuðning sinn við verðjöfnunarstefnu í raforkumálum á miðstjórnarfundi flokksins fyrir nokkru. Aðalgalli þessa frumvarps eins og það liggur fyrir er einmitt að gert er ráð fyrir að hækka rafmagn mest hjá þeim sem borga hæsta verðið fyrir raforkuna.
    Þá er hætt við því að fyrirtækið sundrist í mörg smærri virkjunarfyrirtæki fari svo að frumvarpið verði samþykkt.
    Þá ber að gagnrýna harðlega að Alþingi gefst of lítill tími til að fjalla um málið í lokagerð þess. Framsóknarflokkurinn knúði á um það að frumvarpið yrði tekið til atkvæða í gær. Samt voru lagðar fyrir þingnefnd í gær breytingartillögur sem fjalla annars vegar um tæknileg málefni en hins vegar er um að ræða bókun sem engu breytir. Í bókun þessari er gengið skemmra en þegar hefur komið fram í áliti meiri hlutans og í ummælum ráðherra. Bókun er líka aðeins bókun og breytir engu um efni málsins nema hún verði gerð að lögum. Minni hlutinn mun því gera tillögu um að láta á það reyna hvaða vilji er á bak við bókunina með því að flytja hana sem breytingartillögu við frumvarpið við 3. umræðu sem ákvæði til bráðabirgða.
    Í bókun eignaraðila segir: „ Núverandi samkomulag ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og bæjarstjórnar Akureyrar felur í sér málamiðlun um arðgreiðslur til eigenda. Sammæli er um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir.“
    Leturbreytingar eru minni hlutans en þær eru gerðar til að vekja athygli á mikilvægum efnisatriðum:
    Talað er um núverandi aðila sem þýðir að þeir sem taka við geta breytt samkomulaginu. Kjörtímabil bæjarstjórnanna rennur út fyrir aldamót. Bókunin er því hrein markleysa til lengri tíma litið.
    Talað er um sammæli en ekki um samkomulag.
    Það er engin frétt að raforkuverð geti lækkað eftir aldamót!
    Bókunin er því aumlegur kattarþvottur. Verði hún hins vegar lögfest horfir málið öðruvísi við. Þess vegna flytur minni hlutinn breytingartillögu um að svo verði gert.
    Tilgangur bókunarinnar er að slá ryki í augu annarra. Formaður iðnaðarnefndar túlkaði bókunina þannig í útvarpsfréttum í gærkvöldi: „ . . .  við höfum . . .  haldið því fram að arðgreiðslurnar væru víkjandi fyrir lækkun orkuverðs og svo er enn.“
    Þannig er reynt að nota bókunina til að blekkja. Þessi lýsing þingmannsins gengur þvert á lýsingu borgarstjóra á málinu eins og hann greindi frá afstöðu sinni til málsins í iðnaðarnefnd í gærmorgun. Þeir sem undirrita segja því ekki það sama um efni þess sem undirritað er. Það er greinilega skoðun borgarstjóra að bókunin breyti engu; eftir sem áður hafi arðgreiðslurnar forgang.
    Í nefndaráliti meiri hlutans segir svo um málið: „Samkomulagið felur í sér málamiðlun milli eðlilegra sjónarmiða um hæfilegar arðgreiðslur til eigenda og þess meginmarkmiðs að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót. Það er skilningur meiri hlutans, sem einnig hefur komið fram af hálfu iðnaðarráðherra, að markmið um lækkun gjaldskrár gangi framar arðgreiðslumarkmiðum.“ Eins og lesendur geta séð er þetta allt annað en fram kemur í bókun eignaraðilanna.
    Við 1. umræðu málsins upplýsti iðnaðarráðherra að ætlunin væri að verja því fé sem ríkissjóður fær af arðgreiðslum Landsvirkjunar til atvinnuuppbyggingar utan Reykjavíkur og Akureyrar. Engar upplýsingar hafa komið fram um hvernig þetta á að gerast.
    Loks vill minni hlutinn gagnrýna sérstaklega asann á málinu nú við lok þess, en hann er Alþingi til vansa. Meðferð Alþingis hefur ekki þann tilgang að staðfesta vilja ríkisstjórnarinnar; meðferð málsins á Alþingi á líka að hafa þann tilgang að opna mál fyrir þjóðinni. Þess vegna er Alþingi haldið í heyranda hljóði.

Alþingi, 11. febr. 1997.



Svavar Gestsson.