Ferill 330. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 330 . mál.


601. Frumvarp til laga



um Bókasafnssjóð höfunda.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.


    Lög þessi taka til afnota bóka í almenningsbókasöfnum, sbr. lög nr. 50/1976, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, sbr. lög nr. 71/1994, skólasöfnum, sbr. lög um grunnskóla, nr. 66/1995, með síðari breytingum, og lög um framhaldsskóla, nr. 80/1996, og bókasöfnum í stofnunum sem kostuð eru af ríkissjóði eða sveitarfélögum.
    Lögin taka til bóka á prenti, í hljóðriti og í stafrænu formi.

2. gr.


    Í fjárlögum ár hvert skal veita framlag til Bókasafnssjóðs höfunda sem úthlutað er úr samkvæmt lögum þessum til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa, enda séu bækur þeirra notaðar í þeim bókasöfnum sem lögin taka til.

3. gr.


    Rétt til úthlutunar vegna afnota bóka í bókasöfnum eiga samkvæmt lögum þessum:
    Rithöfundar, enda hafi bækur þeirra verið gefnar út á íslensku, nema um sé að ræða þýðingu eða endursamið verk, endursögn eða staðfærslu á texta úr erlendu máli.
    Þýðendur, svo og þeir sem enduryrkja, endursegja eða staðfæra erlendar bækur á íslensku.
    Myndhöfundar og tónskáld, enda séu hugverk þeirra hluti af þeim bókum sem getið er í 1. tölul. eða gefin út sem sjálfstæð rit á Íslandi.
    Aðrir sem átt hafa þátt í ritun þeirra bóka sem getið er í 1. og 3. tölul., enda sé framlag þeirra skráð í Íslenska bókaskrá frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.
    1. mgr. á jafnframt við um bækur sem hljóðritaðar hafa verið eða skráðar til afnota og útlána með öðrum hætti.

4. gr.


    Rétt til úthlutunar eftir andlát rétthafa skv. 3. gr. eiga:
    Eftirlifandi maki.
    Eftirlifandi einstaklingur sem var í sambúð með rétthafa þegar hann lést, enda hafi sambúðin staðið í fimm ár hið skemmsta.
    Börn yngri en 18 ára, enda sé hitt foreldrið látið eða njóti ekki réttar samkvæmt lögum þessum.
    Séu framangreindir vandamenn fleiri en einn skiptist úthlutunin jafnt á milli þeirra.
    Rétthafar samkvæmt þessari grein fá aðeins helming af þeirri greiðslu sem rétthafa skv. 3. gr. hefði borið.

5. gr.


    Úthluta skal árlega styrkjum úr Bókasafnssjóði eftir nánari ákvörðun stjórnar sjóðsins með hliðsjón af reglugerð, sbr. 2. mgr. 6. gr. Enn fremur skal úthluta til rétthafa í samræmi við lög þessi miðað við fjölda útlána bóka samkvæmt skrá um afnot bóka í bókasöfnum sem lög þessi gilda um. Fyrir hljóðrit og útgáfur í stafrænu formi er úthlutað á sama hátt.
    Úthlutun skv. 3. og 4. gr. skal ákveðin á grundvelli skýrslna frá almenningsbókasöfnum, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, skólasöfnum og öðrum bóka- og gagnasöfnum, að svo miklu leyti sem útlán þessara bókasafna eru tölvuskráð.
    Fjárhæðir lægri er 1.000 kr. eru ekki greiddar út. Hámarksfjárhæð til einstakra rétthafa er 300.000 kr. Þessi mörk skulu endurskoðuð árlega með hliðsjón af verðlagsbreytingum.

6. gr.


    Stjórn Bókasafnssjóðs höfunda annast úthlutun samkvæmt lögum þessum. Skal hún skipuð af menntamálaráðherra til fjögurra ára, þannig: Tveir samkvæmt tilnefningu frá Rithöfundasambandi Íslands, einn samkvæmt tilnefningu frá Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, einn samkvæmt tilnefningu frá Myndstefi – Myndhöfundasjóði Íslands og formaður stjórnar án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki skulu tilnefndir í stjórn sömu menn tvisvar í röð.
    Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um úthlutun og aðra starfsemi sjóðsins, svo og um skráningarskyldu bókasafna og annarra gagnasafna og skýrslugerð þeirra.

7. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998. Um leið fellur úr gildi 11. gr. laga nr. 50/1976, um almenningsbókasöfn.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 10. júní 1996 skipaði menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, nefnd til að kanna forsendur fyrir breytingum á gildandi lagaákvæðum um þóknun til höfunda vegna afnota bóka í bókasöfnum, sbr. 11. gr. laga um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976.
    Í nefndina voru skipuð Karitas H. Gunnarsdóttir frá menntamálaráðuneyti, formaður, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, samkvæmt tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, Magnús Guðmundsson, tilnefndur af Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, og Knútur Bruun, tilnefndur af Myndstefi – Myndhöfundasjóði Íslands.
    Nefndin hélt tíu fundi og lauk störfum 9. desember 1996. Nefndin samdi drög að frumvarpi til laga um Bókasafnssjóð höfunda, greinargerð með því og tillögu að reglugerð um sama efni.
    Á fund nefndarinnar kom Þóra C. Óskarsdóttir, bókafulltrúi ríkisins, og sagði frá skráningu útlána. Þá kom og á fund nefndarinnar Hendricus E. Bjarnason, yfirkerfisfræðingur hjá Skýrr, og gerði grein fyrir Feng sem er íslenska útgáfan af alþjóðlega bókasafnskerfinu Dobis/Libris. Hendricus lagði enn fremur fyrir nefndina tillögur að nýjum skráningum innan kerfisins til þess að halda utan um útlán bóka, skilgreiningu höfunda og hvaðeina til þess að gera úthlutun til höfunda skilvísa.
    Nefndin fékk til athugunar ýmis gögn og upplýsingar er varða framkvæmd þessara mála í nágrannalöndum okkar, Hollandi, Englandi og Þýskalandi, en þó einkum annars staðar á Norðurlöndum. Nefndin hefur haft til hliðsjónar dönsk lög um „Biblioteksafgift“, nr. 354/1991, svo og reglugerð, „Bekendtgørelse om biblioteksafgift“, nr. 722/1991.
    Lögð var megináhersla á eftirfarandi grundvallarsjónarmið við gerð þessa frumvarps:
    Gert er ráð fyrir að árlega verði veitt í fjárlögum ákveðin fjárhæð í Bókasafnssjóð höfunda sem úthlutað verði samkvæmt ákvæðum laganna.
    Með aukinni tölvuvæðingu á bókasöfnum er hægt að fylgjast með útlánum bóka og greina höfunda, hvort sem um er að ræða einn höfund að bók eða fleiri. Þá er einnig unnt að ákveða framlög í fjárlögum með hliðsjón af útlánum næstliðins árs.
    Skv. 11. gr. núgildandi laga um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976, með síðari breytingum, og þeirri framkvæmd sem verið hefur frá gildistöku laganna hafa einungis rithöfundar fengið greitt út Rithöfundasjóði Íslands. Í samræmi við ríkjandi stefnu í þessum málum meðal annarra þjóða voru nefndarmenn sammála um að fleiri höfundum bóka beri úthlutun, þar með talið þýðendum og myndhöfundum, svo og tónskáldum og öðrum sem eiga höfundaframlag í bók. Það er í fullu samræmi við áðurgreind dönsk lög frá 1991, svo og almenna framkvæmd víða annars staðar.
    Réttur til úthlutunar eftir andlát höfunda er skilgreindur þrengra en t.d. í höfundalögum bæði hvað varðar gildistíma og hvaða aðilar skuli njóta þessara réttinda. Ákvæði dönsku laganna um þetta atriði voru að mestu höfð til hliðsjónar.
    Samkvæmt núgildandi lögum rennur árleg fjárveiting til greiðslu fyrir afnot bóka í almenningsbókasöfnum í Rithöfundasjóð Íslands sem starfar eftir reglugerð nr. 84/1977. Úthlutun úr sjóðnum annast þriggja manna stjórn sem menntamálaráðherra skipar og eru tveir stjórnarmanna skipaðir samkvæmt tilnefningu Rithöfundasambands Íslands en hinn þriðji án tilnefningar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Bókasafnssjóður höfunda leysi Rithöfundasjóð Íslands af hólmi og verði honum skipuð fimm manna stjórn, tveir fulltrúar samkvæmt tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu frá Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna og einn samkvæmt tilnefningu frá Myndstefi – Myndhöfundasjóði Íslands. Þá skipi menntamálaráðherra formann sjóðstjórnar án tilnefningar.
    Árlegri úthlutunarfjárhæð í fjárlögum skal skipt í tvo hluta og er það í samræmi við núgildandi úthlutunarreglur. Stjórn Bókasafnssjóðs úthlutar öðrum hluta fjárhæðarinnar í formi styrkja til höfunda. Hinum hlutanum skal úthluta til rétthafa miðað við fjölda útlána bóka samkvæmt skrá um afnot bóka í bókasöfnum sem lögin gilda um.
    Áherslu ber að leggja á að rekstrarkostnaði sjóðsins verði stillt í hóf þannig að sem mestur hluti fjármunanna renni beint til höfunda.
    Með tölvuvæðingu bókasafna verður nú í fyrsta sinn unnt að úthluta þessum fjármunum að öllu eða nokkru leyti einstaklingsbundið miðað við útlán bóka en jafnframt fela ákvæði frumvarpsins í sér einfalda en skilvirka framkvæmd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 11. gr. laga um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976, er gert ráð fyrir sérstakri árlegri greiðslu úr ríkissjóði vegna afnota bóka í almenningsbókasöfnum til úthlutunar til rithöfunda. Almenningsbókasöfn eru skilgreind í 2. gr. laganna.
    Í 1. gr. frumvarpsins eru þau söfn skilgreind sem verða grundvöllur ákvarðana um fjárveitingar til sjóðsins og úthlutun úr honum og er meginreglan sú að viðkomandi söfn séu kostuð af ríkissjóði eða sveitarfélögum.
    Frumvarpið tekur til útgefinna bóka á prenti, í hljóðriti og í stafrænu formi. Útgáfa og notkun hvers konar höfundaverka í stafrænu formi fer sívaxandi og má hiklaust gera ráð fyrir að þróunin gangi enn frekar í þá átt. Enn hafa sérfræðingar ekki séð fyrir endann á þeirri þróun, m.a. hvað varðar vernd höfundarréttinda.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að árlega verði í fjárlögum veitt framlag til Bókasafnssjóðs höfunda til úthlutunar vegna útlána í bókasöfnum.
    Ekki er sett fram tillaga um ákveðna fjárhæð en vakin er athygli á að verði frumvarp þetta að lögum öðlast fleiri höfundar en nú rétt til úthlutunar, m.a. þýðendur og mynd- og tónhöfundar.

Um 3. gr.


    Í greininni er fjallað um þá höfunda sem rétt eiga til úthlutunar úr Bókasafnssjóði.
    Samkvæmt gildandi lögum og reglugerð eiga aðeins rithöfundar möguleika á framlögum úr Rithöfundasjóði en frumvarpið gerir ráð fyrir að þýðendur, myndhöfundar, tónhöfundar og aðrir sem eiga hlut að ritun bóka geti fengið úthlutun úr Bókasafnssjóði.
    Vakin er athygli á því að í 1. og 2. tölul. er fjallað um þýðingar með sama hætti og gert er í dönsku lögunum. Í reglugerð samkvæmt þeim lögum er ákvæði sem gerir ráð fyrir þriðjungs greiðslu til almennra þýðenda. Til að unnt sé að hafa þennan hátt á er nauðsynlegt að skilgreina þýðendur með þeim hætti sem gert er í 1. og 2. tölul. Þetta er í samræmi við nýjustu reglur á þessu sviði í nágrannalöndum okkar.

Um 4. gr.


    Hér er fjallað um úthlutanir til erfingja rétthafa skv. 3. gr. Reglur þar um eru mjög þrengdar miðað við úthlutanir til sjálfra höfundanna. Er þá haft í huga það sjónarmið að leggja beri áherslu á að fé Bókasafnssjóðs nýtist til stuðnings höfundum í menningarstarfi þeirra.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um með hvaða hætti skuli úthluta styrkjum úr Bókasafnssjóði höfunda. Annars vegar er um að ræða úthlutun í formi styrkja samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar en hins vegar úthlutun til rétthafa miðað við fjölda útlána bóka samkvæmt skrá um afnot bóka í bókasöfnum sem lögin ná til.
    Með þessari tilhögun er stuðlað að sköpun bókmenntaverka. Jafnframt er tryggt að hver höfundur fái greiðslur fyrir útlán bóka á bókasöfnum. Bein úthlutun til höfunda og rétthafa byggist á tölvuskráningu bókasafna. Í 3. mgr. er ákvæði um lágmarks- og hámarksgreiðslur. Eðlilegt er að áhersla verði lögð á styrki til höfunda fagurbókmennta.

Um 6. gr.


    Hér er fjallað um stjórn sjóðsins og skal hún skipuð af menntamálaráðherra til fjögurra ára. Tveir stjórnarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu frá Rithöfundasambandi Íslands, einn frá Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna og einn frá Myndstefi – Myndhöfundasjóði Íslands en ráðherra skipar formann stjórnar án tilnefningar.
    Til þess að koma í veg fyrir of einlit sjónarmið við úthlutanir er höfundafélögunum gert að tilnefna ekki sömu stjórnarmenn tvisvar í röð.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Bókasafnssjóð höfunda.


    
Frumvarpið felur í sér að greiðslur ríkisins til Rithöfundasjóðs Íslands skv. 11. gr. laga um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976, renni til nýs Bókasafnssjóðs höfunda, greiðslur þessar hækki og að reglum um úthlutun fjárins verði breytt.
    Samkvæmt gildandi lögum greiðir ríkið framlag til Rithöfundasjóðs fyrir afnot bóka íslenskra höfunda í almenningsbókasöfnum, en söfnin eru rekin eru á kostnað sveitarfélaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einnig verði greitt fyrir afnot í Landsbókasafni – Háskólabókasafni, bókasöfnum í grunnskólum og framhaldsskólum og bókasöfnum í opinberum stofnunum. Einnig er lagt til að auk rithöfunda fái þýðendur og mynd- og tónhöfundar greiðslur úr sjóðnum. Þessar breytingar leiða til þess að framlag ríkisins mun hækka að öðru óbreyttu. Leggur menntamálaráðuneytið til að það hækki úr 12,3 m.kr. samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs í 17 m.kr. við afgreiðslu fjárlaga næsta árs.
    Gert er ráð fyrir að úthlutun breytist þannig að auk styrkja sem sjóðstjórn ákveður verði rétthöfum úthlutað framlögum í samræmi við útlán bóka á grundvelli skýrslna frá bókasöfnum að því leyti sem útlánin eru tölvuskráð. Til þessa hefur fjárhæð þóknana tekið mið af fjölda eintaka í eigu Borgarbókasafnsins. Miðað er við að kostnaður við úthlutun verði tekinn af framlaginu og er því brýnt að halda í lágmarki kostnaði við öflun og úrvinnslu upplýsinga þannig að fjárhæðin renni sem mest til rétthafa.