Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 171 . mál.


653 . Nefndarálit



um frv til l. um atvinnuleysistryggingar.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins Gissur Pétursson, Margréti Tómasdóttur, Gunnar E. Sigurðsson og Ingvar Sverrisson. Þá komu til fundar Birgir Ármannsson frá Verslunarráði, Oddrún Kristjánsdóttir frá Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar, Þórður Skúlason og Sigríður Stefánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Martha Hjálmarsdóttir og Birgir Björn Sigurjónsson frá BHM, Sigríður Kristjánsdóttir og Sjöfn Ingólfsdóttir frá BSRB, Jón H. Magnússon frá VSÍ, Þórir Þorvarðarsson frá Hagvangi, Hervar Guðmundsson frá ASÍ, Ásmundur Hilmarsson frá MFA, Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar, Ellert Eiríksson frá Reykjanesbæ, Oddur Albertsson frá Lýðskólanum, Ólafur M. Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri blaðsins Gegn atvinnuleysi, Logi Sigurfinnsson frá Hinu húsinu, Anna Kristín Halldórsdóttir og Kristín Ingunnardóttir frá Vinnuklúbbnum, Jón Erlendsson frá upplýsingaþjónustu Háskóla Íslands og Rögnvaldur Sigurjónsson frá atvinnudeild Akureyrarbæjar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi framhaldsskólanema, Akraneskaupstað, Sjómannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, upplýsingaþjónustu Háskólans, Mosfellsbæ, Verslunarráði, Selfosskaupstað, Landssambandi íslenskra verslunarmanna, Læknafélagi Íslands, Akureyrarkaupstað, Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg, Vinnumálasambandinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vesturbyggð, Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstað og vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 2. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að neðri aldursmörk þeirra sem geta átt rétt til atvinnuleysisbóta, sbr. 1. tölul., skuli vera 16 ár í stað 18 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Er þetta í samræmi við gildandi reglur. Í öðru lagi er lögð til sú breyting á 5. tölul. að sá sem hefur skráð sig atvinnulausan þurfi einungis að bíða í þrjá daga eftir að réttur hans til bóta verði virkur en ekki í tvær vikur eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þetta er einnig í samræmi við gildandi reglur. Í þriðja lagi er lögð til sú breyting á 6. tölul. að í stað þess bótaskilyrðis að menn þurfi að vera tilbúnir að ráða sig í fullt starf, með undantekningum þó sem úthlutunarnefnd metur, verði miðað við að atvinnuleitandi skuli vera reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa. Breytingar á 4. mgr. 13. gr. eru gerðar með hliðsjón af þessum breytingum á 6. tölul. Aðrar breytingar á greininni leiðir af fyrrnefndri breytingu á aldursmörkum.
    Tvær breytingar eru lagðar til á 3. gr. Annars vegar er lagt til að felld verði niður upptalning í 1. mgr. um hvað geti talist til heimilsástæðna. Með þessu er þó ekki litið svo á að þessi atriði geti ekki fallið undir hugtakið heimilisaðstæður heldur geta þau öll komið til skoðunar sem og margt annað í þessu samhengi. Þau tilvik sem talin voru upp í ákvæðinu munu vera í samræmi við túlkun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs á hugtakinu „heimilisaðstæður“ og er með þessari breytingu ekki ætlunin að ganga gegn þeirri túlkun. Hins vegar er lögð til sú rýmkun á ákvæði 2. mgr. að í stað þess að sá sem fer í fæðingarorlof haldi áunnum bótarétti í allt að sex mánuði verði miðað við töku fæðingarorlofs sem getur verið lengra tímabil, t.d. vegna fjölburafæðingar.
    Þá er lögð til breyting á 4. gr. til að taka af öll tvímæli um að með trúnaðarlækni í 4. mgr. sé átt við trúnaðarlækni Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Lagðar eru til þær breytingar á 5. gr. að bótaréttur þeirra sem sagt hafa starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á falli niður í 40 daga í fyrsta sinn í stað 55 daga eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Er þetta í samræmi við gildandi reglur. Þá er lagt til að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs verði heimilt að setja reglur um að þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar skuli undir sérstökum kringumstæðum eiga bótarétt. Slíkar reglur skulu staðfestar af ráðherra. Breyting þessi er sett fram til þess að mögulegt verði í ákveðnum undantekningartilvikum að koma til móts við þá einstaklinga sem hafa orðið að hætta námi fyrir lok námsannar.
    Lögð er til sú breyting á 6. gr. að tekjutenging bóta verði afnumin en í frumvarpinu er miðað við að tekjur einstaklings sem öðlast hefur bótarétt hafi ekki á síðustu tólf mánuðum fyrir skráningu verið hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum á mánuði. Þannig munu tekjur einstaklings áður en hann hefur töku bóta ekki fresta rétti til bóta eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Lagðar eru til breytingar á 7. gr. er varða fjárhæð atvinnuleysisbóta og endurskoðun þeirra. Gert er ráð fyrir að lögbundin fjárhæð hámarksbóta komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta bótafjárhæð ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Nær samhljóða ákvæði eru í gildandi lögum. Enda þótt ákvæðið mæli svo breytt fyrir um bætur, en ekki dagpeninga, verður eftir sem áður miðað við hvern dag um ákvörðun bóta, sbr. einnig 5. mgr. 8. gr. varðandi skrá um ákvörðun dagpeninga.
    Lagt er til að ákvæði 9. gr., sem kveður á um að þau tímabil, sem hinn atvinnulausi tekur þátt í úrræðum á vegum svæðisvinnumiðlunar sem styrkt eru af sjóðnum, teljist hluti bótatímabils, falli brott.
    Lögð er til sú breyting á 13. gr. að miða skuli við að bjóðist hinum atvinnulausa starf sem að starfshlutfalli er minna en bótaréttur hans segir til um skuli úthlutunarnefnd meta með hliðsjón af möguleikum hans á fullu starfi, sbr. og breytingu sem rakin er í 1. lið, um að atvinnulausir skuli reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa, hvort honum sé eftir atvikum rétt eða skylt að taka því hlutastarfi sem í boði er. Þá er felld niður sú regla frumvarpsins að maður er sinnir hlutastarfi geti jafnframt því aðeins notið bóta í sex mánuði.
    Lagt er til að það skilyrði 15. gr. að einungis vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar varði missi bótaréttar falli brott. Telja verður nægjanlegt að rangar eða villandi upplýsingar séu gefnar enda getur reynst erfitt að sanna ásetning manna í þessum efnum. Með hliðsjón af þessari breytingu er einnig lögð til breyting á 26. gr. og er þar vísað til ákvæðis 15. gr.
    Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á 16. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að frestur til að skjóta ákvörðun úthlutunarnefndar um bætur og missi bótaréttar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta verði lengdur úr tveimur vikum í þrjá mánuði. Er það í samræmi við almennan kærufrest skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá er lagt til að ákvæði um að svæðisvinnumiðlun skuli sjá úthlutunarnefndum fyrir nauðsynlegri aðstoð og aðstöðu falli brott. Þetta er í samræmi við þá breytingu á greininni að kostnaður af starfi nefndanna skuli greiddur af Atvinnuleysistryggingasjóði og að hver úthlutunarnefnd fyrir sig ákveði fyrirkomulag á greiðslu bóta. Í þessu felst að úthlutunarnefndir geta m.a. ákveðið útborgunarstaði. Til samræmis við þetta er einnig lögð til breyting á 19. gr. og fellt brott ákvæðið um að Vinnumálastofnun annist útborgun bóta í umboði stjórnar sjóðsins.
    Lagt er til að árlega skuli verja ákveðinni fjárhæð úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu og til sérstakra þróunarverkefna til að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur. Fjárhæð þessara framlaga ákvarðist við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Ákvæðið er sett fram með hliðsjón af því að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1997 var ákveðið að framangreind verkefni yrðu kostuð af Atvinnuleysistryggingasjóði. Starfsmenntaráð gerir tillögu til ráðherra um ráðstöfun starfsmenntafjár.
    Sú breyting er lögð til á 25. gr. að auk þeirra aðila sem taldir eru upp í greininni og skylt er að láta Atvinnuleysistryggingasjóði og úthlutunarnefndum í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna skuli hlutaðeigandi lífeyrissjóðum einnig skylt að veita slíkar upplýsingar vegna framkvæmdar ákvæðis 5. mgr. 7. gr.
    Þá er gert ráð fyrir að í stað ákvæðis til bráðabirgða I, sem ekki á lengur við með hliðsjón af breytingu á aldursmörkum, sbr. 1. lið, komi ákvæði sem snertir kjararannsóknarnefnd, en sambærilegt ákvæði er nú að finna í ákvæði til bráðabirgða II í gildandi lögum. Ákvæðið lýtur meðal annars að því að á meðan nefndin starfar skuli kostnaður við störf hennar greiddur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Loks er gert ráð fyrir að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við frumvarpið. Ákvæðið er hliðstætt ákvæði til bráðabirgða V í gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, sbr. 13. gr. laga nr. 140/1996, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997. Þar er mælt fyrir um heimild stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs til að gera tillögu um að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi, enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Félagsmálaráðherra setur samkvæmt ákvæðinu reglur um úthlutun styrkja. Nú munu vera í gildi reglur nr. 680/1996 um úthlutun styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði árið 1997 til átaksverkefna á vegum sveitarfélaga.

Alþingi, 24. febr. 1997.



Siv Friðleifsdóttir,

Einar K. Guðfinnsson.

Magnús Stefánsson.


varaform., frsm.



Pétur H. Blöndal,

Arnbjörg Sveinsdóttir.

Kristján Pálsson.


með fyrirvara.