Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 171 . mál.


659. Nefndarálit



um frv. til l. um atvinnuleysistryggingar.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Þegar frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar kom til umræðu á Alþingi mætti það harðri gagnrýni minni hlutans. Frumvarpið bar í sér mjög neikvæða afstöðu til atvinnulausra og reyndist innihalda fjölmörg skerðingarákvæði um réttindi atvinnulausra. Í því birtist sú sýn ríkisstjórnarinnar að hinn atvinnulausi sé vandamálið, ekki atvinnuleysið sjálft. Fólkið er gert að meginvandamáli, ekki verkefnaskorturinn. Það virðist nokkuð ljóst að við munum búa við atvinnuleysi enn um sinn og þótt hlutfall atvinnulausra sé lægra nú en þegar atvinnuleysið var mest hefur það samt mælst um og yfir 5% að undanförnu. Atvinnuleysið er langmest í þéttbýlinu á suðvesturhorninu og staða kvenna er verri en karla. Ríkisstjórnin sýnir enga tilburði til að bregðast við þessum staðreyndum. Í frumvarpinu birtust eingöngu kröfur á hinn atvinnulausa á meðan atvinnurekendum er ekki ætlað neitt hlutverk í atvinnuuppbyggingu, eins og algengt er hjá öðrum þjóðum. Aukinn hagvöxtur og efling atvinnulífsins hefur ekki skilað sér í samsvarandi fjölgun starfa. Fyrirtækin virðast fremur auka vinnuna hjá þeim sem fyrir eru.
    Í nokkurn tíma hefur staðið til að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar og flestir áttu von á að þegar frumvarp til breytinga á lögunum kæmi fram væri því ætlað að efla réttindi og skapa úrbætur fyrir atvinnulaust fólk. Atvinnuleysisbætur eru hluti af því félagslega öryggisneti sem búa þarf launafólki og fjölskyldum í velferðarþjóðfélagi. Það reyndist á annan veg því í frumvarpinu var ekki að finna framtíðarsýn, það treysti ekki rétt hins atvinnulausa heldur skerti hann. Þann mikilvæga þátt að bregðast við vanda einstaklingsins í langtímaatvinnuleysi og byggja hann upp er aðallega að finna í óljósum hugmyndum í greinargerð með vinnumarkaðsfrumvarpinu. Frumvarp um atvinnuleysistryggingar vakti upp þá grundvallarspurningu hvort líta bæri á atvinnuleysisbætur sem atvinnuleysistryggingu með réttindum eða hvort um ölmusu hins opinbera væri að ræða. Frumvarp ríkisstjórnarinar ber því miður keim þess síðarnefnda og er því áratuga skref aftur á bak í réttarstöðu atvinnulausra. Mikilvægt er að halda því til haga að launafólk samdi um atvinnuleysistryggingar eftir harðvítugt verkfall árið 1955 og gaf þá eftir 1% af launum sínum í staðinn.
    Ríkisstjórnin hefur komið fram með fljótfærnislega unnin frumvörp í hverju málinu á fætur öðru, sérstaklega hvað varðar vinnumarkaðinn og minni hlutinn spyr hvað vinnist með slíkum vinnubrögðum. Frumvarp um atvinnuleysistryggingar er engin undantekning frá því.
    Minni hlutinn gagnrýnir það harðlega að í annað sinn sé lagt fram frumvarp sem snýr að réttindum fólks á vinnumarkaði með valdboði og án raunverulegs samráðs við verkalýðshreyfinguna. Í fyrravor voru sett lög, einhliða af hálfu ríkisstjórnarinnar, um stéttarfélög og vinnudeilur og um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þau vinnubrögð hafa haft mjög neikvæð áhrif á þróun kjaraviðræðna undanfarna mánuði og síst verið til að einfalda samningsferlið eða greiða fyrir kjarasamningum, eins og markmiðið var þó. Leikurinn var endurtekinn í desember með því að leggja fram frumvarp um atvinnuleysistryggingar sem mikill ágreiningur var um við samtök launafólks. Nú þegar stefnir í átök á vinnumarkaði er hlaupið til og sest yfir frumvarpið með fulltrúum ASÍ og þess freistað að gera á því viðunandi breytingar. Þetta eru vond vinnubrögð og hætta á að lögin sem sett verða reynist innantóm umgjörð og alls ekki það framfaraskref sem ný löggjöf á þessu sviði ætti að verða. Meiri hluti nefndarinnar hafði áður kynnt tillögur sem gengu mun skemur í breytingum á frumvarpinu og ljáði ekki máls á öðrum hugmyndum sem fram höfðu komið hjá minni hlutanum. Minni hlutinn telur þær breytingartillögur sem nú eru komnar fram allar til bóta og mun samþykkja þær flestar. Einnig telur minni hlutinn jákvætt að námsmenn og heimavinnandi geti öðlast rétt til bóta en í því efni er réttur einnig lítt skilgreindur og óljós. Hins vegar telur minni hlutinn að mörgu sé enn þá ábótavant í lagasetningu þessari.
    Óbreytt er ákvæði frumvarpsins um að atvinnulausir falli út úr bótakerfinu þegar þeir hafa verið atvinnulausir í fimm ár. Bótaréttur fæst ekki á ný fyrr en að tólf mánuðum liðnum og þá því aðeins að viðkomandi eigi a.m.k. sex mánaða vinnu að baki eftir að bótatímabili lauk.
    Í umsögn Bandalags háskólamanna segir að með því að setja hámarkstíma atvinnuleysisbóta fimm ár þrátt fyrir að hinn atvinnulausi hafi engar úrbætur fengið í atvinnumálum sínum feli þetta ákvæði í sér fullkomna afneitun á langtímaatvinnuleysi.
    Í sama streng tekur BSRB sem segir að verði bótatímabil stytt í fimm ár verði jafnframt að gera þá kröfu á hendur samfélaginu að réttur til atvinnu eða viðunandi úrræða verði tryggður.
    Í umsögn Reykjavíkurborgar segir um þetta ákvæði að með lögfestingu þessarar breytingar muni þeir sem lengst hafa verið atvinnulausir, þ.e. fimm ár eða lengur, í raun missa bótarétt sinn. Á þennan hátt sé verið að vísa þessum einstaklingum á framfærslu sveitarfélaga og þá um leið verið að auka fjárhagsbyrðar þeirra. Í sama streng taka önnur sveitarfélög sem sendu inn umsögn. Erfiðast fyrir hinn atvinnulausa er þó að reglur um fjárhagsaðstoð hafa ekki verið samræmdar hjá sveitarfélögum og mikil óvissa er því samfara að missa bótaréttinn eftir því hvar á landinu viðkomandi býr.
    Minni hlutinn telur að skilgreina þurfi hópa langtímaatvinnulausra og setja í lög hvernig bregðast eigi við ólíkum hópum. Í hópi atvinnulausra er til að mynda óvinnufært fólk sem beina þarf inn í tryggingakerfið á ákveðinn og faglegan hátt. Í skýrslu starfshóps um þjónustu og öryggiskerfi atvinnulausra sem skilaði skýrslu í júní 1994 var lögð áhersla á að atvinnuleysisbótakerfið væri fyrir þá sem eru atvinnulausir í atvinnuleit og ekki fyrir aðra, að kanna ætti hverjir ættu fremur að vera á öðrum bótum en atvinnuleysisbótum. Starfshópurinn lagði jafnframt til að endurskoða ætti örorkuhugtak almannatryggingalaganna.
    Aðrir hópar atvinnulausra þurfa markvissa þjálfun áður en þeim er beint inn á vinnumarkaðinn og enn aðrir þarfnast endurmenntunar svo að þeim sé unnt að sækja inn í ný störf. Tryggja verður atvinnulausum slíka skólun eða þjálfun og þá leið hafa nágrannaþjóðir okkar valið.
    Minni hlutinn gagnrýndi það harðlega við fjárlagagerðina að liðirnir Starfsmenntasjóður og Atvinnumál kvenna, sem hafa hingað til verið sjálfstæðir fjárlagaliðir, voru felldir undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans við frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar er þessi breyting lögfest. Með því er horfið frá grundvallarhugsun laganna um starfsmenntun í atvinnulífinu sem byggist á hugmyndafræðinni um sí- og endurmenntun fólks á vinnumarkaði. Minni hlutinn telur þessi vinnubrögð algerlega óviðunandi. Með þessu sýnir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks svo ekki verður um villst að hún hyggst ekki bjóða upp á raunveruleg úrræði til handa atvinnulausum sem í mestri þörf eru, þ.e. ófaglærðum og konum. Starfsmenntasjóður er mikilvægt tæki til endurmenntunar og hann á ekki að setja í eina hít með Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Sá litli sjóður, sem veitt hefur verið úr til atvinnumála kvenna, hefur verið konum í eigin atvinnurekstri mikilvæg stoð þótt framlög hafi verið lág og skilyrt. Það er skoðun minni hlutans að þessum mikilvægu sjóðum sé hætta búin inni í Atvinnuleysistryggingasjóðnum því sú skoðun hefur komið fram hjá hugmyndasmiðum frumvarpsins að ríkið eigi ekki að kosta námskeið annarra en atvinnulausra. Starfsmenntasjóður og kvennasjóðurinn eiga þar að auki alls ekki heima undir Atvinnuleysistryggingasjóði að mati minni hlutans.
    Alþingi er ekki ætlað að kjósa fulltrúa í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs samkvæmt þessu frumvarpi. Nýlega var afgreitt frumvarp um Landsvirkjun þar sem samsvarandi breyting var gerð varðandi kjör í stjórn og þess vegna er ástæða til að spyrja hvort búið sé að marka þá stefnu af hálfu stjórnarflokkanna að Alþingi hætti að kjósa fulltrúa í stjórnir og ráð á vegum ríkisins. Sé svo þá hefur sú stefnumörkun ekki verið kynnt.
    Ríkisstjórnin ætlaði að spara með þessu frumvarpi. Það átti að henda ungu fólki út úr kerfinu, lækka bætur hinna lægst launuðu og koma í veg fyrir meinta misnotkun kerfisins. Nú hafa verið gerðar breytingar á frumvarpinu sem koma í veg fyrir þessi hæpnu áform.
    Miðað við að sparnaður sá, sem ná átti með frumvarpi um atvinnuleysistryggingar, er sýnilega fyrir bí og með tilliti til ábendinga og gagnrýni sem fram hefur komið í umsögnum og hjá gestum félagsmálanefndar má spyrja hvers vegna lögð sé slík ofuráhersla á að lögfesta frumvarpið sem nú er ekki annað en umgjörð um eitthvað sem aldrei varð, minnisvarði um hroðvirknisleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, hvort ekki hefði verið farsælla að vinna frumvarpið betur, skoða ábendingar annarra en ASÍ og leggja fram metnaðarfyllri smíð en hér getur að líta.

Alþingi, 25. febr. 1997.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Rannveig Guðmundsdóttir,

Margrét Frímannsdóttir.


form.

frsm.





    Eftirtöldum fylgiskjölum er útbýtt með nefndarálitinu:
1.     Skýrsla um skráð atvinnuleysi í Reykjavík.
2.        Yfirlit um atvinnuástandið frá vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytis, febrúar 1997.
3.        Yfirlit um atvinnuástandið frá vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytis, janúar 1997.
4.        Umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
5.        Umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
6.        Umsögn frá Bandalagi háskólamanna.