Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 172 . mál.


660. Nefndarálit



um frv. til l. um vinnumarkaðsaðgerðir.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Á undanförnum árum hefur verið pólitísk samstaða um að flytja æ fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga í þeim tilgangi að styrkja sveitarstjórnarstigið og færa þjónustuna nær íbúunum. Á síðasta ári tóku sveitarfélögin við grunnskólum landsins. Nokkur sveitarfélög eru að vinna að nýjum verkefnum á grundvelli laga um reynslusveitarfélög og hafa t.d. tekið í sínar hendur málefni fatlaðra og heilsugæslu. Það hefur verið stefnt að því að flytja vald og ákvarðanir til sveitarfélaganna í þeim málum sem snerta daglegt líf fólks þannig að sambandið milli íbúanna og þeirra sem stýra málum sé sem nánast.
    Nú bregður nýrra við. Ríkisstjórnin leggur til í frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir að málefni atvinnulífsins, þ.e. skráning atvinnulausra, aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi og þjónusta við atvinnulausa, verði færðar frá sveitarfélögunum til ríkisins, án þess þó að nein haldbær rök liggi til grundvallar. Þær skýringar, sem nefndarmenn hafa fengið, eru þess efnis að þær vinnumiðlanir sem fyrir eru virki ekki. Þetta á eflaust við um einstaka sveitarfélög, en alls ekki á þeim svæðum þar sem atvinnuleysið hefur verið hvað mest á undanförnum árum. Þótt ekki sé langt um liðið frá því að umtalsvert atvinnuleysi skall á hafa stærstu sveitarfélögin, svo sem Reykjavík, Akureyri, Reykjanesbær og Akranes, byggt upp þjónustu sem hefur verið að þróast í ljósi reynslunnar og er orðin býsna öflug. Mörg hinna minni sveitarfélaga hafa staðið sig mjög vel við að skapa sumarvinnu fyrir ungt fólk og átaksverkefni fyrir þá sem eldri eru þótt önnur þjónusta sé takmörkuð. Stærstu sveitarfélögin hafa mótmælt efni þessa frumvarps, enda mjög skiljanlegt að þau vilji fylgjast með ástandi atvinnumála á sínu svæði, þjóna sínu fólki og efla tengsl vinnumiðlana og félagsþjónustunnar almennt, en þetta tvennt er nátengt.
    Það er afar sérkennilegt að ætla nú að flytja þetta málefni frá sveitarfélögunum sem hafa verið að byggja upp þjónustu og þekkja skjólstæðinga sína. Réttara hefði verið að efla sveitarfélögin, auka samvinnu þeirra og koma þeim til aðstoðar sem verst standa að vígi, t.d. með faglegri ráðgjöf.
    Á Akureyri hefur verið byggt upp heildstætt kerfi þar sem saman tengjast skráning atvinnulausra, vinnumiðlun, atvinnumál fatlaðra og félagsþjónustan almennt. Vandséð er hvernig sú uppbygging á að nýtast með því skipulagi sem fyrirhugað er að koma upp, jafnvel þótt samið verði sérstaklega við Akureyri, því að þeir verða að sjálfsögðu að vinna samkvæmt lögunum og koma upp því stjórnkerfi sem gert er ráð fyrir.
    Samkvæmt frumvarpinu á að koma upp miklu ríkisbákni, nýrri ríkisstofnun með höfuðstöðvar í Reykjavík, en deildir víða um land, svokallaðar svæðisvinnumiðlanir (fæstar 8), þótt ekki sé ljóst hve margar þær verða. Gert er ráð fyrir mjög víðtæku hlutverki stofnunarinnar sem felst m.a. í eftirliti með svæðisvinnumiðlunum, faglegri aðstoð og fræðslu til starfsfólks svæðisvinnumiðlana og upplýsingaöflun um atvinnuástand. Starfsmenn skulu koma tillögum um vinnumarkaðsaðgerðir á framfæri við stjórn stofnunarinnar, fylgjast með þróun erlendis og miðla upplýsingum.
    Átta manna stjórn stýrir rekstrinum og gagnrýnir minni hlutinn samsetningu hennar. Þar eiga Bandalag háskólamanna, Samband bankamanna, Farmanna- og fiskimannasambandið og fleiri sjálfstæð stéttarfélög engan fulltrúa og samtök fatlaðra koma heldur ekki að stjórn stofnunarinnar þótt ljóst megi vera hve nauðsynlegt það er að stofnun af þessu tagi hafi yfirsýn yfir allan vinnumarkaðinn og þjóni þeim hópum sem eiga við atvinnuleysi að stríða. Þó er gert ráð fyrir samráði við hópa sem eiga „sérhagsmuna“ að gæta en það er auðvitað allt annað en að eiga hlut að skipulögðum vinnumarkaðsaðgerðum og að tryggja að skilningur sé til staðar á mismunandi aðstæðum.
    Svo sem áður segir er ekki ljóst af frumvarpinu hversu mörgum svæðisvinnumiðlunum verður komið á fót. Ef þeirri heimild verður beitt, sem lögð er til í breytingartillögu, að semja við þau sveitarfélög sem hvað harðast hafa mótmælt þessum fyrirhuguðu breytingum og vilja ráða sínum málum sjálf má búast við að í landinu verði algjörlega tvöfalt kerfi atvinnuleysismála. Annars vegar verða nokkur sveitarfélög sem reka svæðisvinnumiðlanir og ná hugsanlega til nágrannasveitarfélaga, hins vegar svæðisvinnumiðlanir sem ná yfir miklu stærri svæði, t.d. heilt kjördæmi, og þjóna íbúum með ráðgjöf. Þeir ráðgjafar eru ekki til, en eigi kerfið að virka þurfa þeir að ferðast fram og aftur á dagpeningum og ökustyrk um svæðin, t.d. Austfirði, en búast má við að sú þjónusta verði harla dýr.     Stjórnkerfi atvinnuleysismála mun líta þannig út nái þau vinnumarkaðsfrumvörp, sem liggja fyrir Alþingi, fram að ganga:

Atvinnuleysistryggingasjóður:
    Níu manna stjórn með þriggja manna framkvæmdastjórn.
    Stjórnin skipar fimm manna úthlutunarnefndir í umdæmi hverrar svæðisvinnumiðlunar.
    Ráðherra skipar þriggja manna úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta.

Vinnumálastofnun:
    Forstjóri (sem þegar hefur verið ráðinn) og átta manna stjórn.

Svæðisvinnumiðlanir (óvíst hve margar):
    Forstöðumaður yfir hverri svæðisvinnumiðlun.
    Níu manna ráðgjafarnefnd hjá hverri miðlun (svæðisráð).
    Þriggja manna framkvæmdaráð hverrar svæðisvinnumiðlunar.

Tryggingasjóður einyrkja:
    Fimm manna stjórn,
    Fimm manna úthlutunarnefnd.

    Við þetta bætist annað starfsfólk, svo sem ráðgjafar og skrifstofufólk, en alls er óvíst hvesu margir fá vinnu við það að miðla öðrum vinnu.
    Ef gert er ráð fyrir að menn sitji aðeins í einni stjórn eða ráði, forstöðumenn eru taldir með og gengið er út frá átta svæðisvinnumiðlunum, verða allt að 120 manns að störfum við það eitt að stýra þessari þjónustu við landsmenn. Alls er óvíst hve ráðgjafarnir verða margir, en þeir eru auðvitað það mikilvægasta eigi að efla þjónustuna og fjölga úrræðum í þágu atvinnulausra. Minni hlutanum þykir þetta sérkennileg forgangsröð verkefna hjá ríkisstjórninni og væri nær að efla mennta- og heilbrigðiskerfið í stað þess að þenja út ríkisbáknið þegar fyrir er þjónusta hjá sveitarfélögunum sem má efla og bæta með mun minni tilkostnaði.
    Voru ekki einhverjir með kjörorðið báknið burt? Samkvæmt fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er áætlaður kostnaður við Vinnumálastofnun og svæðisvinnumiðlanir um 190–215 millj. kr. fyrsta árið en 160–175 millj. kr. á ári eftir það. Til samanburðar má nefna að Vinnueftirlit ríkisins fær 134,7 millj. kr. til sinna starfa á þessu ári, Jafnréttisráð 25 millj. kr. og Hollustuvernd ríkisins 130,7 millj. kr. en þetta eru allt stofnanir sem hafa víðtæk verkefni og þjóna öllu landinu. Fulltrúar sveitarfélaganna hafa bent á að kostnaður þeirra dragist ekki saman að sama skapi þar sem þau störf sem hér um ræðir eru víða unnin með öðru og tengjast annarri félagsþjónustu svo sem áður greinir. Hér er því um verulegan kostnað að ræða, en það sem verra er, málið er allt svo vanhugsað að ástæða er til að ætla að þetta mikla stjórnkerfi skili takmörkuðum árangri.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að landið sé eitt vinnusvæði. Það ætti auðvitað að vera sjálfsagt mál, en þetta ákvæði tengist breytingum á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að senda fólk í vinnu milli landshluta, svo framarlega sem fjölskylduástæður hamla því ekki. Þarna er mjög gamaldags hugsun á ferð sem gengur út frá farandverkafólki sem beri nánast skylda til að fara hvert á land sem er til að sækja vinnu. Margt getur komið í veg fyrir að einstaklingur geti eða vilji fara á milli staða, svo sem félagslegt umhverfi, persónulegar aðstæður og kostnaður sem hlýst af, missir íbúðar, að ekki sé minnst á möguleika til að fá vinnu í sínu fagi, en fólk þarf auðvitað að fá svigrúm til að leita sér að vinnu. Hætt er við að þetta ákvæði bitni einna helst á ófaglærðu fólki en það er ekkert í frumvarpinu sem tryggir að því verði ekki beitt að geðþótta þeirra sem taka munu ákvarðanir langt frá þeim sem málið snertir. Tilgangur þessa ákvæðis er að koma fólki út úr bótakerfinu!
    Þá er vert að benda á að ekki verður séð að það skipulag sem á að koma á fót eða þær aðgerðir sem grípa á til miðist við þær miklu breytingar sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði á undanförnum áratugum. Viðmiðunin er allt of bundin við verkafólk og ófaglærða sem hingað til hafa einna helst orðið fyrir barðinu á atvinnuleysinu. Búast má við að atvinnumissir og hugsanlega atvinnuleysi eigi eftir að verða algengara, t.d. í röðum bankamanna og jafnvel meðal háskólamanna, ef þróunin verður svipuð hér og annars staðar þar sem tæknibreytingar hafa sett strik í vinnureikninginn. Samtök bankamanna spá því að störfum muni fækka um mörg hundruð á næstu árum vegna breytinga á bankakerfinu og þeir ætla að bregðast við með endurmenntun og leit að nýjum tækifærum.
    Samkvæmt skýringum í greinargerð við 10. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir ýmiss konar aðgerðum til að koma í veg fyrir atvinnuleysi, úrræðum til að aðstoða þá sem leita sér vinnu, mennta þá, styðja og styrkja og er allt gott um það að segja. Þetta eru þó aðeins hugmyndir. Vandinn er sá að ekki er til sérmenntað fólk til að sinna þjónustu af þessu tagi og jafnvel í Reykjavík er erfitt að fá hæft starfsfólk til að starfa við svo flókna þjónustu. Úrræðin eru ekki lögfest, aðeins það að innan ákveðins tíma skuli gerð starfsleitaráætlun. Hættan er sú að allt hjakki í sama farinu ef ekki fæst nýtt fólk til starfa og þeir sitji áfram við stjórnvölinn sem að mati þeirrar nefndar sem samdi frumvarpið hafa ekki staðið sig í stykkinu.
    Skýrt kemur fram í frumvarpinu og reyndar einnig frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar að það eigi að halda ungu fólk í skóla. Það væri gott og blessað ef íslenskt skólakerfi byði upp á fjölbreytta möguleika til starfsnáms og styttri þjálfun af ýmsu tagi, en því er ekki að heilsa. Þrátt fyrir áratuga áform um uppbyggingu verk- og starfsmenntunar hefur lítið orðið úr þeim góðu áformum og það fjármagn sem til þarf hefur aldrei fengist. Það er til lítils að vísa fólki sem flosnað hefur upp úr skóla inn í þá sömu skóla aftur. Þar þarf önnur úrræði og viðurkenningu á því að um sérstakan vanda er að ræða.
    Í samræmi við þá skoðun að tengja eigi saman þá atvinnulausu og framhaldsskólana er lagt til í 11. gr. að framhaldsskólar á viðkomandi svæði eigi fulltrúa í ráðgjafarnefnd svæðisvinnumiðlunar. Hingað til hafa framhaldsskólar landsins komið afar lítt að málefnum atvinnulausra og vinnumiðlun almennt þótt þeir séu allir að búa ungt fólk undir líf og starf. Það er vandséð hvaða erindi fulltrúar þeirra eiga inn í ráðgjafarnefndirnar miðað við núverandi hlutverk framhaldsskólanna. Það er helst að iðn- og verkmenntaskólar landsins séu með þau tengsl við atvinnulífið að einhverjir innan þeirra veggja hafi forsendur til að sinna ráðgjafarstörfum í atvinnumálum og tengja þau nauðsynlegri menntun, endurmenntun og símenntun. Hverja á að skipa og hvernig? Skólameistara/rektora, kennara eða fulltrúa nemenda? Við því fengust engin svör. Í Reykjavík eru 17 skólar á framhaldsskólastigi (Verslunarskólinn meðtalinn) samkvæmt fjárlögum, auk þeirra skóla sem kenna á háskólastigi og eru að mennta fólk til ákveðinna starfa. Hver þessara skóla á að skipa fulltrúasætið í ráði svæðisvinnumiðlunarinnar í Reykjavík? Stærsti skólinn eða sá sem er í mestum tengslum við atvinnulífið og hvernig á að velja hann? Það er enginn aðili til sem getur valið þennan fulltrúa á lýðræðislegan hátt og einfaldast er að menntamálaráðherra skipi þessa fulltrúa ef þeir eiga eitthvert erindi yfir höfuð inn í ráðin.
    Af framansögðu má ráða að minni hlutinn hefur mjög margt við þetta frumvarp að athuga. Við mótmælum því að málaflokkurinn sé fluttur frá sveitarfélögunum til ríkisins og teljum hann best hjá þeim kominn. Við leggjumst gegn því að komið verði á fót nýju ríkisbákni með margföldu stjórnkerfi og miklum tilkostnaði sem vandséð er að hafi forsendur til að sinna hlutverki sínu.
    Því miður bendir margt til þess að atvinnuleysi sé orðið varanlegt hér á landi. Til að vinna gegn því þarf góða þjónustu, nýsköpun, menntun, hugarfarsbyltingu og sköpun úrræða eigi að takast að mæta þörfum atvinnulausra, þeirra sem eru að koma út á vinnumarkaðinn og þörfum atvinnulífsins fyrir vel menntað starfsfólk. Það stendur sveitarfélögunum næst að hugsa um sitt fólk og sinna framantöldum verkefnum í samvinnu við stéttarfélög, atvinnurekendur og þá sem sinna hvers kyns starfsmenntun í atvinnulífinu. Ríkið á hins vegar að hafa yfirsýn yfir stöðu atvinnumála, sinna upplýsingaöflun og birtingu upplýsinga, kjararannsóknum og vinnuvernd og setja vinnumarkaðnum leikreglur. Með frumvarpinu er haldið í þveröfuga átt og á því verður ríkisstjórnin að bera ábyrgð.

Alþingi, 25. febr. 1997.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Margrét Frímannsdóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir.


form., frsm.




    Eftirtöldum fylgiskjölum er útbýtt með nefndarálitinu:
    Umsögn frá bæjarráði Akureyrar.
    Umsögn frá bæjarráði Hafnarfjarðar.
    Umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.
    Umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Umsögn frá Verslunarráði Íslands.
    Umsögn frá Bandalagi háskólamanna.
    Umsögn frá Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar.