Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 409 . mál.


706. Frumvarp til laga



um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



I. KAFLI

Stofnun hlutafélaga um ríkisviðskiptabankana.

1. gr.

    Stofna skal hlutafélag um Landsbanka Íslands annars vegar og Búnaðarbanka Íslands hins vegar. Hlutverk félaganna er að hafa á hendi þá starfsemi sem viðskiptabönkum er heimil samkvæmt lögum.
    Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar hvors ríkisviðskiptabanka um sig til hlutafélaganna.

2. gr.

    Við gildistöku laga þessara skipar viðskiptaráðherra tvær þriggja manna undirbúningsnefndir sem hvorri um sig er ætlað að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna stofnunar hlutafélags um hvorn ríkisviðskiptabankanna. Nefndirnar annast undirbúning löggerninga er varða stofnun hlutafélagsbankanna og fyrirhugaða starfsemi, í umboði viðskiptaráðherra og í samráði við hlutaðeigandi ríkisviðskiptabanka. Löggerningar þessir skulu að því er varðar verkefni sem bankaráð og bankastjórn fer með skv. 39. og 41. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, hljóta staðfestingu hlutaðeigandi aðila, og þá bankaráða og bankastjórna ríkisviðskiptabankanna þar til bankaráð og bankastjórar hlutafélagsbankanna taka til starfa. Viðskiptaráðherra setur nefndunum erindisbréf.
    Nefndir skv. 1. mgr. skulu hafa fullan aðgang að gögnum hlutaðeigandi ríkisviðskiptabanka þrátt fyrir ákvæði um þagnarskyldu skv. 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Skulu stjórnendur og starfsmenn ríkisviðskiptabankanna veita nefndarmönnum viðkomandi nefndar nauðsynlega aðstoð. Nefndarmenn eru bundnir af 43. gr. laga nr. 113/1996.

3. gr.

    Hinn 1. janúar 1998 tekur Landsbanki Íslands hf. við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands og Búnaðarbanki Íslands hf. við rekstri og starfsemi Búnaðarbanka Íslands og skal viðskiptaráðherra þá hafa veitt hlutafélagsbönkunum starfsleyfi skv. II. kafla laga nr. 113/1996.
    Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands skulu lagðir niður þegar nýir hlutafélagsbankar taka til starfa skv. 1. mgr.
    Kjósa skal bankaráð hvors hlutafélagsbanka á stofnfundum sem haldnir skulu fyrir yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Umboð bankaráða Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem síðast voru kjörin af Alþingi skv. 27. gr. laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. nú lög nr. 113/1996, falla niður þegar nýir hlutafélagsbankar hafa tekið til starfa skv. 1. mgr.

II. KAFLI
Hlutafé, hlutir og meðferð hlutafjár.
4. gr.

    Viðskiptaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.


5. gr.

    Við stofnun Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skal allt hlutafé vera í eigu ríkissjóðs.
    Ráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka við stofnun. Skal við það miðað að heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka sé eigi hærri en sem nemur 75% af eigin fé Landsbanka Íslands annars vegar og Búnaðarbanka Íslands hins vegar samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi ársins 1996. Hlutafé getur þó tekið breytingum til hækkunar.
    Ráðherra skipar sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna til að leggja mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka skv. 2. mgr. Við mat á stofnhlutafé skal tekið tillit til efnahags og rekstrar ríkisviðskiptabankanna á liðnum árum og mats á rekstrarhorfum. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir í síðasta lagi 1. október 1997. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. eiga við um störf nefndarinnar. Viðskiptaráðherra setur nefndinni erindisbréf.

6. gr.

    Eigi er skylt að gefa út hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Viðskiptaráðherra getur þó ákveðið skiptingu hlutafjár í hluti.
    Sala á hlutafé í eigu ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. er óheimil án samþykkis Alþingis.
    Þrátt fyrir 2. mgr. getur ráðherra, til að styrkja eiginfjárstöðu hlutafélagsbankanna, heimilað útboð á nýju hlutafé. Samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs má þó ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanna um sig.
    Hlutabréf skv. 1. mgr. eru undanþegin stimpilgjöldum.

7. gr.

    Ákvæði 6. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gildir ekki um innborgun hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.
    Ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um tölu stofnenda og fjölda hluthafa í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

III. KAFLI
Réttindi starfsmanna.
8. gr.

    Allir starfsmenn Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, skulu eiga kost á sambærilegu starfi hjá Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf. við yfirtöku þeirra á ríkisviðskiptabönkunum.
    Nú tekur maður, sem gegnir starfi hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands, við starfi hjá Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf., og skal hann þá njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Réttur hans til launa hjá Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands fellur niður er hann tekur við starfinu.

9. gr.

    Um ráðningu og starfskjör bankastjóra, staðgengla bankastjóra, forstöðumanns endurskoðunardeildar og eftir atvikum aðstoðarbankastjóra Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skal fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög.


10. gr.

    Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum, gilda ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

11. gr.

    Ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands gagnvart Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands gagnvart Eftirlaunasjóði starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, sem verða til vegna starfsmanna ríkisviðskiptabankanna áður en rekstur þeirra er yfirtekinn af Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og til staðar eru samkvæmt reglugerðum eftirlaunasjóðanna eins og þær eru á því tímamarki sem greinir í 3. gr., ef ekki nást á einhverjum tíma samningar um aðra tilhögun. Hið sama gildir um lífeyrisskuldbindingar ríkisviðskiptabankanna aðrar en skuldbindingar gagnvart eftirlaunasjóðunum.
    Nú reynir á ábyrgð 1. mgr. og skal þá greiðsluhlutfall ríkissjóðs annars vegar og viðkomandi hlutafélagsbanka hins vegar vera hið sama og hlutfallslegur starfstími viðkomandi starfsmanns hjá hvorum aðila um sig.

12. gr.

    Um kjarasamninga Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. við starfsmenn skal fara samkvæmt lögum nr. 34/1977, um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins.


IV. KAFLI
Ríkisábyrgð á innlánum og lántökum.
13. gr.

    Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum innlendum og erlendum skuldbindingum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands sem stofnað er til áður en rekstur hlutaðeigandi ríkisviðskiptabanka er yfirtekinn af Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf. Ábyrgð ríkissjóðs er eins og til hennar er stofnað og gildir uns viðkomandi skuldbinding er að fullu efnd. Um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum fer þó skv. 2. mgr. og um ábyrgð ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum ríkisviðskiptabankanna fer skv. 11. gr. laga þessara.
    Ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum fellur niður við yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Þó ber ríkissjóður ábyrgð á bundnum innstæðum hafi þær verið lagðar inn fyrir yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Ríkisábyrgðin fellur niður þegar viðkomandi innstæða er laus til útborgunar að loknum binditíma.
    Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. umfram það sem kveðið er á um í lögum þessum og í hlutafélagalögum.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
14. gr.

    Innlánsreikningar við Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands flytjast til viðkomandi hlutafélagsbanka við yfirtöku þeirra á ríkisviðskiptabönkunum. Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands skulu birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu. Auglýsingarnar skulu birtar með u.þ.b. tveggja vikna millibili, og skal hin fyrri birt a.m.k. 30 dögum fyrir yfirtöku Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. á ríkisviðskiptabönkunum.

15. gr.

    Greiðslustaður skuldaskjala, sem eru í eigu tiltekinna útibúa Landsbanka Íslands eða Landsbanka Íslands almennt, verður hjá samsvarandi útibúi Landsbanka Íslands hf. eða almennt hjá Landsbanka Íslands hf. eftir því sem við á hverju sinni þegar Landsbanki Íslands hf. hefur tekið til starfa. Landsbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og öllum skyldum Landsbanka Íslands, þar á meðal réttindum eða skyldum tengdum skuldaskjölum í eigu Landsbanka Íslands og aðild að dómsmálum sem Landsbanki Íslands rekur eða rekin eru gegn Landsbanka Íslands. Landsbanki Íslands skal birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu.
    Greiðslustaður skuldaskjala, sem eru í eigu tiltekinna útibúa Búnaðarbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands almennt, verður hjá samsvarandi útibúi Búnaðarbanka Íslands hf. eða almennt hjá Búnaðarbanka Íslands hf. eftir því sem við á hverju sinni þegar Búnaðarbanki Íslands hf. hefur tekið til starfa. Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og öllum skyldum Búnaðarbanka Íslands, þar á meðal réttindum eða skyldum tengdum skuldaskjölum í eigu Búnaðarbanka Íslands og aðild að dómsmálum sem Búnaðarbanki Íslands rekur eða rekin eru gegn Búnaðarbanka Íslands. Búnaðarbanki Íslands skal birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu.
    Vistunarstaður skjala sem innheimt skulu hjá tilteknum útibúum Landsbanka Íslands eða Búnaðarbanka Íslands verður samsvarandi útibú viðkomandi hlutafélagsbanka eftir yfirtöku þeirra síðarnefndu á viðkomandi ríkisviðskiptabanka. Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands skulu birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu.
    Um auglýsingar samkvæmt þessari grein fer skv. 14. gr. laga þessara.


16. gr.

    Innköllun til lánardrottna Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands skal eigi gefin út.

17. gr.

    Í stofnyfirlýsingu skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.


18. gr.

    Landsbanki Íslands hf. tekur við öllum skattalegum réttindum og skyldum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum skattalegum réttindum og skyldum Búnaðarbanka Íslands. Um skattskyldu Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. fer að öðru leyti eftir lögum um skattskyldu lánastofnana.

19. gr.

    Þar sem Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hefur verið falið í lögum að sinna sérstökum verkefnum taka Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf. við þeim réttindum og skyldum eftir því sem við á.

20. gr.

    Um hlutafélagsbanka samkvæmt lögum þessum gilda að öðru leyti en leiðir af ákvæðum laga þessara ákvæði um starfsemi hlutafélagsbanka samkvæmt lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög, eftir því sem við á.

21. gr.

    Allur kostnaður af stofnun hlutafélaga og yfirtöku þeirra á rekstri Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands greiðist af Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

22. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kemur fram að breyta skuli rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna þannig að þeir verði reknir sem hlutafélög. Það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að breyta í hlutafélög þeim ríkisfyrirtækjum sem starfa á samkeppnismarkaði þannig að þau geti starfað á sama grundvelli og samkeppnisfyrirtæki.
    Á grundvelli þessarar stefnu ríkisstjórnarinnar hefur viðskiptaráðuneytið unnið að undirbúningi að formbreytingu ríkisviðskiptabankanna. Í ágúst 1995 skipaði viðskiptaráðherra nefnd sem finna skyldi lausnir á ýmsum álitaefnum í tengslum við breytingu á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélagsbanka og semja lagafrumvarp þar að lútandi. Í nefndinni áttu sæti Gunnlaugur M. Sigmundsson alþingismaður, formaður, Birgir Ísleifur Gunnarsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands, og Geir H. Haarde alþingismaður. Starfsmaður nefndarinnar var Páll Gunnar Pálsson, lögfræðingur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Meginverkefni nefndarinnar var að semja drög að frumvarpi til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Við þá vinnu leitaði nefndin víða fanga, hafði samráð við stjórnendur bankanna, forsvarsmenn starfsmannafélaga bankanna og Samband íslenskra bankamanna auk þess að leita aðstoðar ýmissa aðila. Síðla árs 1995 skiluðu Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands greinargerðum um fyrirhugaða breytingu á rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna þar sem fram komu helstu sjónarmið og áherslur stjórnenda og starfsmanna bankanna.
    Í nefndinni komu fram mismunandi sjónarmið um það hvernig standa bæri að breytingu á rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna. Því samdi nefndin drög að þremur frumvörpum til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands sem endurspegla þær leiðir sem taldar voru koma til greina að því er varðaði framkvæmd hlutafélagavæðingar.
    Frumvarpið, sem viðskiptaráðherra leggur nú fram, er grundvallað á vinnu fyrrgreindrar nefndar en hefur tekið breytingum í meðferð ráðuneytisins frá þeim frumvarpsdrögum sem nefndin samdi. Af hálfu viðskiptaráðuneytis hefur verið haft samráð við formenn bankaráða, bankastjóra og endurskoðendur ríkisviðskiptabankanna, forsvarsmenn starfsmanna Seðlabanka Íslands og fleiri.

2. Breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði.
    Á síðustu árum hefur átt sér stað ör þróun á fjármagnsmarkaði. Þannig hefur fjármagnsmarkaðurinn opnast og orðið alþjóðlegri og áherslur í viðskiptum hafa breyst. Þessi þróun er í samræmi við þróun viðskiptaumhverfisins í heild. Samhliða þessu hafa áherslur í fjármálastarfsemi breyst og starfsaðferðir fjármálastofnana sömuleiðis. Á grundvelli samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði hefur löggjöf um fjármálastofnanir og fjármálastarfsemi verið aðlöguð reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og löggjöf á þessu sviði tekið stakkaskiptum á síðustu árum.
    Eitt megineinkenni þessara breytinga er að hefðbundin flokkun fjármálastarfsemi hefur riðlast. Í því felst m.a. að hinar rótgrónu og hefðbundnu fjármálastofnanir standa nú frammi fyrir samkeppni nýrra aðila, svo sem fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, lífeyrissjóða o.fl. Sú þróun hefur leitt til aukinna krafna um jafna samkeppnisstöðu, jafnframt því sem þörf hefur verið á aukinni sérhæfingu á fjármagnsmarkaði.
    Þátttaka ríkisins á íslenskum fjármagnsmarkaði er áberandi. Tveir af þremur starfandi viðskiptabönkum eru ríkisviðskiptabankar og starfandi eru nokkrir fjárfestingarlánasjóðir í eigu ríkisins. Starfsemi þeirra er gjarnan bundin við afmörkuð svið eða atvinnugreinar og þeim settar sérreglur í lögum.
    Sú þróun, sem áður var lýst, hefur beint athyglinni að aðstöðumun fjármálastofnana í ríkiseigu og annarra aðila á fjármagnsmarkaði. Sá munur er fjármálastofnunum í ríkiseigu bæði í hag og óhag. Kostir geta verið því samfara að njóta ríkisábyrgðar og verndar ríkisins. Á hinn bóginn hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að svigrúm stofnana í eigu ríkisins til að bregðast við aukinni samkeppni er oft á tíðum lítið.
    Með hliðsjón af framangreindu er nauðsynlegt að skilgreina að nýju hlutverk ríkisins á fjármagnsmarkaði. Meginhlutverk þess verður jafnan að tryggja að til staðar séu reglur um starfsemi á þessu sviði og að reglunum sé fylgt. Jafnframt kann á hverjum tíma að vera nauðsynlegt að ríkið hlutist til um fjármálastarfsemi sem nauðsynleg er til að efla atvinnulíf og tryggja þjóðfélaginu ákveðin lífsgæði. Hins vegar hníga ýmis rök að því að láta beri öðrum eftir að stunda þá starfsemi sem einkaaðilar eru tilbúnir til að annast með eðlilegum hætti. Sem dæmi um slíka starfsemi má nefna viðskiptabankastarfsemi, verðbréfaþjónustu ýmiss konar, hefðbundna fjárfestingarlánastarfsemi og fleira. Sem dæmi um svið þar sem ríkið hefur enn hlutverki að gegna samkvæmt þessu má nefna fjárfestingarþjónustu eins og verkefnafjármögnun og beina áhættufjármögnun.
    Þótt ekki sé ráðist í sölu á fjármálastofnunum í eigu ríkisins mælir margt með því að slík starfsemi sé rekin í formi hlutafélaga. Þetta á við jafnvel þótt ríkið sé eini eigandi viðkomandi hlutafélags eins og gert ráð fyrir í þessu frumvarpi. Starfsemi hlutafélaga er í vandlega skilgreindu formi og hefur löggjafinn sett ítarlegar reglur þar um, m.a. um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Nefna má að í hlutafélagalögum eru ákvæði sem vernda rétt minnihlutaeigenda. Þar sem ríkið býður öðrum til samstarfs um atvinnurekstur er því hlutafélagsformið sérstaklega viðeigandi. Með því að reka viðskiptabanka í hlutafélagsformi verður reksturinn einnig sveigjanlegri. Þá veldur fjárhagsleg uppbygging fyrirtækis því að mjög æskilegt er að reka fyrirtæki í eign ríkisins í hlutafélagsformi. Vilji ríkið ekki leggja fram aukið hlutafé til að halda eiginfjárhlutföllum í horfinu er unnt að leita eftir nýjum hluthöfum sem færa með sér nýtt hlutafé.
    Með frumvarpinu, sem hér er lagt fram, eru stigin skref í þá átt sem að framan er lýst. Auk þessa frumvarps leggur viðskiptaráðherra fram frumvarp til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Frumvörpin tvö fela í sér umfangsmiklar breytingar á sjóðakerfi atvinnuveganna. Gert er ráð fyrir að á grunni Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs rísi einn öflugur fjárfestingarbanki sem starfi á samkeppnismarkaði og veiti öllum atvinnugreinum þjónustu á hagstæðum kjörum. Með þessu yrði komið á fót sérhæfðum fjárfestingarbanka sem gæti sinnt stærri fjárfestingarverkefnum með sérhæfðri þjónustu og þannig bætt framboð á fjármálaþjónustu hér á landi. Jafnframt verði settur á stofn sjóður, Nýsköpunarsjóður, sem hafi það hlutverk að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar og styðja við þróunar- og kynningarverkefni.
    Með þessu hyggst ríkisstjórnin stuðla að umfangsmikilli hagræðingu á fjármagnsmarkaði. Megintilgangur aðgerðanna er að stuðla að því að íslenskur fjármagnsmarkaður geti séð einstaklingum og fyrirtækjum fyrir öflugri og hagkvæmri þjónustu á hagstæðum kjörum.

3. Staða ríkisviðskiptabankanna.
    Ríkisviðskiptabankarnir eiga rætur sínar að rekja til þess tíma þegar takmarkað framboð var á fjármagni og því talið nauðsynlegt að ríkið hlutaðist til um þessa starfsemi og tæki jafnframt áhættuna af henni. Nú er þessi staða ekki lengur fyrir hendi.
    Eins og áður er fram komið gerir hið nýja umhverfi á fjármagnsmarkaði kröfur til að fyrirtæki og stofnanir sem starfa á þessu sviði búi við eðlileg samkeppnisskilyrði. Þannig hefur Eftirlitsstofnun EFTA um nokkurt skeið þrýst á úrbætur að því er rekstur ríkisviðskiptabanka hér á landi varðar.
    Athuganir á samkeppnisstöðu ríkisviðskiptabankanna benda til þess að ýmist halli á banka í einkaeigu eða ríkisviðskiptabanka þegar staða þeirra er borin saman. Þannig virðist ríkisábyrgð leiða til þess að ríkisviðskiptabönkunum bjóðist betri kjör á meðallöngum lánum en bönkum sem ekki njóta ríkisábyrgðar, auk þess sem langtímalán standi síðarnefndu bönkunum síður til boða. Hins vegar virðist ríkisábyrgð á skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna ekki færa þeim ávinning í vaxtakjörum á innlánum og skemmri lánum. Þó er innheimt ríkisábyrgðagjald af ríkisviðskiptabönkum á skammtímalánum þannig að staða þeirra er að því leyti verri en annarra banka.
    Hingað til hafa ríkisviðskiptabankarnir ekki skilað beinum arði til ríkissjóðs á sama hátt og hlutafélagsbönkum er ætlað að skila hluthöfum arði af hlutafé sínu.
    Ríkisviðskiptabankar geta ekki styrkt fjárhagsstöðu sína með því að afla aukins eigin fjár á markaði með sama hætti og hlutafélagsbankar. Ef frumvarp þetta verður að lögum getur viðskiptaráðherra heimilað útboð á nýju hlutafé í hlutafélagsbönkunum til að styrkja eiginfjárstöðu þeirra.
    Það er mat ríkisstjórnarinnar að tímabært sé að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög og tryggja þannig að þeir geti starfað á sama grundvelli og samkeppnisfyrirtækin.

4. Breytingar á eignarhaldi.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að óheimilt verði að að selja eignarhluti ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., nema með samþykki Alþingis. Þannig er beinlínis tekið fram í 6. gr. frumvarpsins að hlutafé í eigu ríkissjóðs í bönkunum tveimur verði ekki selt, nema með samþykki Alþingis.
    Það er stefna ríkisstjórnarinnar að hinum nýju hlutafélagsbönkum verði gefið nokkurt svigrúm til að fóta sig á markaðinum. Þau sjónarmið hafa komið fram að óvissa um eignarhald hlutafélagsbankanna geti leitt til þess að þeir eigi erfiðara með að ná hagstæðum kjörum í lánasamningum við erlenda lánveitendur. Til að tryggja festu í rekstri hlutafélagabankanna er miðað við að ríkissjóður selji ekki hlutabréf sín í þeim fyrstu fjögur rekstrarár þeirra.
    Hins vegar er gert ráð fyrir að ráðherra getið heimilað útboð á nýju hlutafé í hlutafélagsbönkunum. Með þessum hætti er mögulegt að styrkja eiginfjárstöðu bankanna án þess að leita til ríkissjóðs, jafnframt því sem utanaðkomandi aðilum gefst færi á að eignast hlut í þeim. Hlutafjárútboð af þessu tagi ætti einnig að leiða til þess að virði bankanna verði ljósara. Útboði á hlutafé eru þó sett þau takmörk að samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs má ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanna um sig.
    Þegar til sölu á hlutabréfum í hlutafélagsbönkunum kemur er það mat ríkisstjórnarinnar að allir aðilar í landinu eigi að hafa rétt til að eignast eignarhlut í bönkunum. Jafnframt beri að stefna að dreifðri eignaraðild. Rétt er að huga að því hvernig veita megi starfsmönnum bankanna aukinn rétt eða aðgang að kaupum á hlutafé.

5. Staða viðskiptamanna ríkisviðskiptabankanna við formbreytinguna
    Það er mat ríkisstjórnarinnar að staða viðskiptamanna í hlutafélagsbönkunum verði tryggð og að hagsmunir þeirra skerðist ekki við breytinguna. Á það við um almenna viðskiptavini og innlánseigendur bankanna, svo og erlenda lánardrottna. Má nefna nokkur atriði sem tryggja eiga að hagsmunir þessara aðila skerðist ekki. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að ríkisábyrgð haldist á skuldbindingum sem til eru orðnar fyrir yfirtöku ríkisviðskiptabankanna á hlutafélagsbönkunum. Þetta á þó ekki við um almenn innlán, en bundnar innstæður sem lagðar hafa verið inn fyrir yfirtökuna verða með ríkisábyrgð út binditímann. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að hlutafélagsbankarnir verði fyrst um sinn í eigu ríkissjóðs að meiri hluta. Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra geti heimilað útboð á nýju hlutafé. Með því gefst færi á að styrkja eiginfjárstöðu bankanna og tryggja enn betur stöðu viðskiptamanna þeirra auk þess sem nýjum aðilum, þar með talið viðskiptamönnum, gefst færi á að eignast eignarhlut í bönkunum. Síðustu ársreikningar ríkisviðskiptabankanna fylgja sem fylgiskjöl með frumvarpi þessu.

6. Staða starfsmanna ríkisviðskiptabankanna við formbreytinguna.
    Frumvarpið miðar að því að sem minnst röskun verði á starfshögum almennra starfsmanna við breytinguna. Gert er ráð fyrir að almennir starfsmenn ríkisviðskiptabankanna fái sambærilegt starf í hlutafélagsbönkunum við breytinguna. Í því felst að þeir haldi réttindum samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Þá er ekki gert ráð fyrir breytingum á lögbundnum réttindum umfram það sem almennt fylgir breytingu sem þessari lögum samkvæmt. Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum, fer samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þau lög byggja á stefnu ríkisstjórnarinnar í starfsmannamálum ríkisins sem m.a. miðar að því að gera réttarstöðu opinberra starfsmanna sem líkasta réttarstöðu starfsmanna hjá einkafyrirtækjum.

7. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er farin sú leið að kveða á um stofnun hlutafélaga um Landsbankann og Búnaðarbankann í einum lögum og að sömu ákvæði gildi því um báða bankana. Helstu efnisatriði frumvarpsins eru þessi:
    Hlutafélagsbankarnir taki við öllum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna, þar með töldum skattaréttarlegum réttindum og skyldum.
    Ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna sem stofnað er til áður en rekstur þeirra er yfirtekinn af hlutafélagsbönkunum. Þó fellur niður ríkisábyrgð á innlánum öðrum en bundnum innlánum.
    Ríkissjóður beri ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum ríkisviðskiptabankanna eins og þær eru við formbreytinguna og eins og um semst að öðru leyti.
    Viðskiptaráðherra fari með hlut ríkissjóðs í hlutafélagsbönkunum. Það þýðir m.a. að hann mun fara með atkvæði ríkissjóðs við kosningu í bankaráð hlutafélagsbankanna.
    Gert er ráð fyrir að sérstakar nefndir verði skipaðar til að annast undirbúning vegna stofnunar hlutafélaga um hvorn ríkisviðskiptabankanna. Þær starfi í umboði viðskiptaráðherra og í samráði við hvorn banka fyrir sig. Þá er gert ráð fyrir að sérstök nefnd verði skipuð til að aðstoða við mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár.
    Allir starfsmenn ríkisviðskiptabankanna sem taka laun samkvæmt kjarasamningum SÍB og kjarasamningum annarra stéttarfélaga eigi kost á sambærilegu starfi hjá viðkomandi hlutafélagsbanka við yfirtöku þeirra á ríkisviðskiptabönkunum. Starfsmaður njóti þá sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum, gildi ákvæði nýsettra laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Ríkissjóður verði einn eigandi að hlutafé í bönkunum og óheimilt verði að selja hlutafé í hans eigu, nema með samþykki Alþingis, en ráðherra geti heimilað útboð á nýju hlutafé í hlutafélagsbönkunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um stofnun hlutafélaga um ríkisviðskiptabankana tvo. Hlutverk félaganna verður að hafa á hendi þá starfsemi sem viðskiptabönkum er heimil samkvæmt lögum. Með því er vísað til laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Hlutafélögin taka við eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum hvors ríkisviðskiptabanka.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um undirbúning formbreytinga. Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi tvær þriggja manna undirbúningsnefndir sem hvorri um sig verði fengið umboð til að undirbúa stofnun hvors hlutafélags og grípa til nauðsynlegra aðgerða vegna formbreytinganna. Nefndunum verði falið að annast undirbúning löggerninga er varða stofnun hlutafélagsbankanna og fyrirhugaða starfsrækslu þeirra. Samkvæmt því verða verkefni þeirra m.a. að semja drög að samþykktum, stofnyfirlýsingu og stofnefnahagsreikningi og afla starfsleyfa. Einnig verður nefndunum falið að vera viðkomandi ríkisviðskiptabanka til stuðnings við kynningu á fyrirhuguðum breytingum, en ætla má þó að slík kynning verði langt á veg komin við skipun nefndanna. Jafnframt geta nefndirnar búið í haginn fyrir fjármögnun á starfsemi hlutafélagsbankanna. Þá er það eftir atvikum hlutverk nefndanna að tryggja að yfirfærsla á starfsmönnum verði með þeim hætti sem greinir í 8. gr. frumvarpsins. Það fellur og undir starfssvið nefndanna að huga að og leggja fram drög að skipuriti fyrir yfirstjórn bankanna.
    Rétt er að leggja áherslu á að umræddum nefndum er ekki ætlað að skerða lögbundið valdssvið bankastjórna og bankaráða ríkisviðskiptabankanna. Staðfestingar- eða ákvörðunarvald vegna þeirra löggerninga sem nefndunum er ætlað að undirbúa er í höndum þar til bærra bankaráða og eftir atvikum bankastjóra eða bankastjórna, lögum samkvæmt, þar með talið eftir atvikum bankaráða eða bankastjórna ríkisviðskiptabankanna þar til hlutafélagsbankarnir taka til starfa.
    Gert er ráð fyrir að nefndirnar starfi í umboði viðskiptaráðherra og í samráði við viðkomandi ríkisviðskiptabanka. Þá er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra setji nefndunum erindisbréf.
    Í 2. mgr. er lögð áhersla á að hvor nefnd hafi greiðan aðgang að nauðsynlegum gögnum og upplýsingum viðkomandi ríkisviðskiptabanka og njóti aðstoðar stjórnenda og starfsmanna þeirra, en að þær séu jafnframt bundnar af ákvæðum um þagnarskyldu.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er kveðið nánar á um yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum. Gert er ráð fyrir að hlutafélagsbankarnir taki við rekstri og starfsemi ríkisviðskiptabankanna 1. janúar 1998. Á þeim degi skulu ríkisviðskiptabankarnir lagðir niður.
    Gert er ráð fyrir að viðskiptaráðherra veiti hlutafélagsbönkunum starfsleyfi skv. II. kafla laga nr. 113/1996. Ætla verður að umræddir hlutafélagsbankar uppfylli þau skilyrði sem sett eru fyrir veitingu starfsleyfis lögum samkvæmt, sbr. þó 7. gr. frumvarpsins, en þar er kveðið á um undanþágu frá nokkrum ákvæðum laga nr. 113/1996 og laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Eðlilegt þykir að bankarnir afli sér starfsleyfis og gangi í gegnum þá skoðun sem því fylgir, en það ætti að treysta grundvöll þeirra og afla þeim trausts, m.a. á erlendum lánamarkaði.
    Í 3. mgr. kemur fram að umboð sitjandi þingkjörinna bankaráða falli niður frá og með yfirtökudegi, en gert er ráð fyrir að nýtt bankaráð hafi þá verið kosið.


Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að viðskiptaráðherra fari með eignarhlut ríkissjóðs í hlutafélagsbönkunum. Eðlilegt þykir að ráðherra bankamála fari með þetta vald enda í samræmi við þá meginreglu að viðkomandi fagráðherra fari með eignarhlut ríkisins í hlutafélagi sem tekur við rekstri ríkisstofnunar sem undir hann heyrir.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er skýrt kveðið á um að allt hlutafé við stofnun hlutafélaganna skuli vera í eigu ríkissjóðs.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra ákveði upphaflegt hlutafé í hvorum banka. Við það er þó miðað að heildarfjárhæð hlutafjár sé eigi hærri en sem nemur þremur fjórðu hlutum af eigin fé hvors banka samkvæmt ársreikningi ársins 1996. Breytingar á hlutafé til hækkunar eru þó heimilar. Ýmis sjónarmið eru uppi um hvert sé æskilegasta innra virði (hlutfall eiginfjár og hlutafjár) hlutafjár í upphafi. Upphafleg ákvörðun um hvert vera skuli hlutfall milli hlutafjár og annars eiginfjár ræðst m.a. af því með hvaða hætti ríkissjóður hyggst taka arð af þessari eign sinni því það er lagt í mat ráðherra hvert sé heppilegasta viðmiðunarmarkið. Mismunurinn á hlutafé hlutafélagsbankanna og eigin fé ríkisviðskiptabankanna telst til óráðstafaðs eigin fjár hinna nýju banka og myndar því ekki stofn til greiðslu arðs.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að skipuð verði þriggja manna nefnd sem verði ráðherra til ráðuneytis um ákvörðun á heildarfjárhæð stofnhlutafjár beggja bankanna.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir ákveðnu svigrúmi í framkvæmd með því að kveðið er á um að ekki verði skylt að gefa út hlutabréf í hlutafélagsbönkunum. Hins vegar sé ráðherra heimilt að ákveða skiptingu hlutafjár í hluti. Þegar til sölu á hlutafé skv. 3. mgr. kemur má ætla að skipta verði hlutafé í hluti.
    Í 2. mgr. er lagt til að fest verði í lög að hlutafé í eigu ríkissjóðs í bönkunum tveimur skuli ekki selt, nema með samþykki Alþingis. Í 3. mgr. er hins vegar gert ráð fyrir að ráðherra geti heimilað útboð á nýju hlutafé í hlutafélagsbönkunum. Með þeim hætti verði hægt að styrkja eiginfjárstöðu bankanna og hefur áður verið vikið að þessu atriði. Útboði á hlutafé eru þó sett þau takmörk að samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs má ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanna um sig.
    Það er mat ríkisstjórnarinnar að tryggja verði hlutafélagsbönkunum nokkurn tíma til að sanna að þeir njóti sama trausts og fyrirrennarar þeirra. Miðað er við að hlutafé í eigu ríkisins í bönkunum tveimur verði ekki selt fyrstu fjögur rekstrarár þeirra.

Um 7. gr.

    Þar sem hlutafélagsbankarnir eru stofnaðir með sérstökum lögum og þar sérstaklega kveðið á um nokkur atriði er talið nauðsynlegt að kveða á um að tiltekin ákvæði laga um viðskiptabanka og sparisjóði og hlutafélagalaga gildi ekki um hlutafélagsbankana. Í 6. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, er kveðið á um innborgun hlutafjár við stofnun hlutafélagsbanka. Í 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995 er kveðið á um að stofnendur og hluthafar skuli vera tveir hið fæsta. Hlutafélagsbankarnir eru undanþegnir þessum ákvæðum.

Um III. kafla.

    Í þessum kafla er kveðið á um hvernig farið skuli með réttindi starfsmanna ríkisviðskiptabankanna.

Um 8. gr.

    Lagt er til að allir starfsmenn ríkisviðskiptabankanna, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum SÍB eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, skuli eiga kost á sambærilegu starfi hjá hlutafélagsbönkunum við yfirtökuna. Taki starfsmaður við slíku starfi skal hann njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum. Óþarft þykir með tilliti til þessa að telja upp hvaða réttindi sé hér um að ræða. Einkum er um að ræða áunnin réttindi starfsmanna, svo sem rétt til launagreiðslna í veikindum, barnsburðarleyfi og orlofsrétt. Einnig falla hér undir réttur til uppsagnarfrests og önnur starfstengd kjör. Þessi réttindi þurfa ekki í öllum tilvikum að vera bundin í skriflegum samningum milli ríkisviðskiptabankans og starfsmanns. Höfð hefur verið hliðsjón af lögum nr. 77/1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.
    Í frumvarpinu er ekki kveðið sérstaklega á um hvernig starfsmenn taki við starfi í hlutafélagsbanka og flytji með sér réttindi. Nauðsynlegt er að formlega sé gengið frá þessu í samráði við forsvarsmenn starfsmanna.

Um 9. gr.

    Í frumvarpsdrögunum er ekki gert ráð fyrir að bankastjórum, staðgenglum þeirra, aðstoðarbankastjórum og forstöðumönnum endurskoðunardeilda ríkisviðskiptabankanna verði tryggð sambærileg störf í hlutafélagsbanka. Nauðsynlegt þykir að tryggja nýjum hlutafélagsbönkum nokkurt svigrúm til að gera breytingar á innra skipulagi bankanna með það fyrir augum að gera skipulag á yfirstjórn þeirra skýrara. Því er ekki gert ráð fyrir að þessum aðilum verði tryggt sambærilegt starf með sama hætti og almennum starfsmönnum, sbr. 8. gr. frumvarpsins.
    Í greininni er einungis vísað til ákvæða hlutafélagalaga og laga um viðskiptabanka og sparisjóði, en samkvæmt þeim ræður bankaráð bankastjóra og forstöðumann endurskoðunardeildar og staðfestir ráðningu staðgengla bankastjóra. Ekki er gert sérstaklega ráð fyrir aðstoðarbankastjórum í lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, og starfsheiti þeirra ekki lögbundið. Það fer eftir atvikum hvernig starfsheitum í yfirstjórn hlutafélagsbankanna verður háttað.

Um 10. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um hvernig fara skuli með biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum. Í greininni er vísað til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða þeirra laga er kveðið á um að sé starf lagt niður eigi starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku þeirra laga og fallið hefur undir lög nr. 38/1954 en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laganna, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði. Hins vegar gildi ákvæði 34. gr. laganna um bótarétt og bótafjárhæð að öðru leyti. Af henni leiðir m.a. að ef starfsmaður hafnar öðru sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkis eða annars aðila, fellur niður réttur til biðlauna. Þá er mælt fyrir um það í ákvæðinu að ef starfsmaður tekur við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en liðinn er biðlaunaréttartíminn skuli launagreiðslur samkvæmt greininni, þ.e. biðlaunagreiðslur, falla niður ef laun er nýja starfinu fylgja eru jöfn eða hærri en þau er hann naut í fyrra embætti. Ef launin í nýja starfinu eru lægri skal greiða honum launamismuninn til loka þriggja eða sex mánaða tímabilsins.
    Hin nýju lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins byggjast á stefnu ríkisstjórnarinnar í starfsmannamálum ríkisins sem m.a. miðar að því að gera réttarstöðu opinberra starfsmanna sem líkasta réttarstöðu starfsmanna hjá einkafyrirtækjum. Þau ákvæði, sem hér var lýst, eru liður í því og gera stjórnvöldum kleift að minnka ríkisumsvif.

Um 11. gr.

    Á undanförnum mánuðum hefur endurskoðun lífeyrismála verið til umfjöllunar innan bankanna og liggja nú fyrir drög að nýjum reglugerðum fyrir Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og Eftirlaunasjóð Búnaðarbanka Íslands. Breytingarnar lúta að því að í framtíðinni verði byggt á nýju kerfi, þ.e. stigasjóði og séreignasjóði. Þeir sem hófu störf fyrir breytinguna haldi áfram í svipuðu kerfi og sjóðirnir byggjast nú á. Hins vegar mæti ríkisviðskiptabankarnir skuldbindingum sínum með útgáfu eða afhendingu skuldabréfa til eftirlaunasjóðanna. Gert er ráð fyrir að ríkisviðskiptabankarnir verði með því leystir frá frekari skuldbindingum sínum við sjóðina og að bakábyrgð ríkissjóðs falli jafnframt niður. Eins og fram kemur í fylgiskjölum hafa bankarnir lagt til hliðar fyrir skuldbindingum sínum að verulegu leyti.
    Umræddar breytingar hafa ekki náð fram að ganga við framlagningu frumvarps þessa. Því er í þessari grein að finna almennt ákvæði þess efnis að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna gagnvart eftirlaunasjóðunum vegna starfsmanna ríkisviðskiptabankanna, í samræmi við reglugerðir sem gilda þegar rekstur þeirra er yfirtekinn af hlutfélagsbönkunum, en jafnframt að heimilt sé að semja um annað eftir það tímamark. Hér er því um einfalda ábyrgð að ræða. Ákvæðið er í samræmi við 12. gr. laganna þar sem kveðið er á um ábyrgð ríkissjóðs á innlendum og erlendum skuldbindingum. Ef fyrrgreindar breytingar hafa náð fram að ganga fyrir yfirtökuna ber ríkissjóður aðeins ábyrgð á skuldbindingum bankanna eins og þær eru, þ.e. ríkisábyrgð verður á eftirstöðvum af skuldabréfum bankanna vegna greiðslna til eftirlaunasjóðanna. Ef breytingarnar hafa ekki náð fram að ganga á fyrrgreindu tímamarki ber ríkissjóður ábyrgð á skuldbindingunum eins og þær eru við yfirtökuna. Heimilt er síðan að semja um annað.
    Gert er ráð fyrir að sömu sjónarmið gildi um ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum sem ríkisviðskiptabankarnir hafa samið um vegna tiltekinna einstaklinga sem eru því ekki aðilar að eftirlaunasjóðunum. Sem dæmi um þetta má nefna bankastjóra og aðstoðarbankastjóra í Búnaðarbanka Íslands og bankastjóra í Landsbanka Íslands sem ráðnir voru fyrir mitt ár 1989. Fleiri dæmi eru um þetta.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hvernig með skuli fara gagnvart réttindum starfsmanns sem unnið hefur hjá banka fyrir og eftir breytingu ef reynir á ábyrgð ríkissjóðs.

Um 12. gr.

    Í lögum nr. 34/1977, um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins, er kveðið á um að bankar í eigu ríkisins annars vegar og starfsmenn bankanna hins vegar hafi hvor um sig samflot um samninga. Ekki er talin ástæða til að hrófla við þessari skipan á þessu stigi.

Um 13. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum sem stofnað er til áður en hlutafélagsbankarnir taka til starfa. Ábyrgðin gildi uns skuldbindingarnar eru að fullu efndar og inntak hennar í hverju tilviki hið sama og þegar til hennar var stofnað.
    Hins vegar er gert ráð fyrir að ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum falli niður við yfirtöku hlutafélagsbankanna á rekstri ríkisviðskiptabankanna að öðru leyti en því að ríkissjóður muni áfram bera ábyrgð á bundnum innstæðum sem lagðar hafa verið inn fyrir yfirtöku hlutafélagsbankanna á ríkisviðskiptabönkunum, á binditíma þeirra, þ.e. þar til innstæðan er laus til útborgunar að loknum binditíma. Eðlilegt þykir að tryggja ríkisábyrgð á bundnum innstæðum á sama hátt og almennum skuldbindingum, svo sem erlendum lántökum, svokölluðum bankabréfum o.fl., þar sem ella þyrfti að gefa innstæðueigendum kost á að taka út af hinum bundnu reikningum áður en binditíma lyki. Hæsti binditími innlánsreikninga er fimm ár. Í ákvæðinu er ekki kveðið á um hvernig staðið skuli að því tæknilega að skilja að bundnar innstæður sem lagðar eru inn fyrir yfirtökuna og nokkurt svigrúm því gefið um framkvæmd þess.
    Ekki er gert ráð fyrir að hlutafélagsbönkunum verði veitt ríkisábyrgð í tiltekinn aðlögunartíma umfram það er áður greinir. Það er í samræmi við þá stefnu að gera umrædda hlutafélagsbanka jafnsetta öðrum bönkum þegar við stofnun. Um ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum er sérstaklega fjallað í 11. gr.

Um 14. gr.

    Í greininni er kveðið á um að flytja skuli innlánsreikninga við ríkisviðskiptabankana til viðkomandi hlutafélagsbanka við yfirtökuna og hvernig auglýsa skuli breytingar samkvæmt þessari grein.

Um 15. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um greiðslustað skuldaskjala sem eru í eigu ríkisviðskiptabankanna og vistunarstað skjala sem eru í innheimtu þeirra fyrir yfirtökuna. Ákvæðið er í samræmi við þá meginhugsun frumvarpsins að hlutafélagsbankarnir taki við réttindum og skuldbindingum bankanna. Nauðsynlegt þykir að kveða ítarlega á um þessi atriði til þess að koma í veg fyrir réttaróvissu.

Um 16. og 17. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.

    Í þessari grein er lagt til að hlutafélagsbankarnir taki við öllum skattalegum réttindum og skyldum ríkisviðskiptabankanna og að um það fari eftir almennum lögum um skattskyldu lánastofnana. Rétt er að vekja athygli á að Landsbankinn á yfirfæranlegt rekstrartap frá fyrri árum en Búnaðarbankinn ekki eins og fram kemur í fylgiskjölum. Ákvæðið er í samræmi við 17. gr. laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands.

Um 19. gr.

    Víða er ríkisviðskiptabönkunum falið í lögum að sinna afmörkuðum verkefnum. Ekki þykir ástæða til að breyta ákvæðum allra laga sem fela ríkisviðskiptabönkunum verkefni af þessu tagi. Eftir breytingu á rekstrarformi og síðar eftir atvikum breytingu á eignarhaldi má ætla að slík starfsemi falli niður.
    Rétt er að nefna að samhliða frumvarpi þessu leggur landbúnaðarráðherra fram frumvarp til laga um Lánasjóð landbúnaðarins, en í því frumvarpi er gert ráð fyrir breytingum á starfsemi Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Í því felst m.a. að hin lögbundnu tengsl Búnaðarbankans og Stofnlánadeildarinnar verði rofin.

Um 20.–21. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.

    Gert er ráð fyrir að allur kostnaður af framkvæmd formbreytingarinnar greiðist af viðkomandi banka. Í því felst einnig undirbúningur hennar.

Fylgiskjal I.

Ársreikningar Búnaðarbanka Íslands (1996).


(Repró, 9 síður.)




Fylgiskjal II.


Ársreikningar Landsbanka Íslands (1995).


(Repró, 17 síður.)




Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélaga

um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands verði gerðir að hlutafélögum sem í upphafi verði alfarið í eigu ríkisins.
    Í 2. gr. er gert ráð fyrir að skipaðar verði tvær þriggja manna undirbúningsnefndir til að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir við stofnun hlutafélags um hvorn ríkisbankanna. Skv. 21. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að kostnaður vegna starfa nefndanna falli á bankana en ekki á ríkissjóð.
    Í 5. gr. er gert ráð fyrir að skipuð verði nefnd þriggja manna til að leggja mat á stofnhlutafé bankanna. Stofnefnahagsreikningar bankanna hafa mikla þýðingu fyrir samkeppnisstöðu þeirra, skattagreiðslur til ríkisins og á greiðsluhæfi þeirra.
    Í 8.–10. gr. er fjallað um réttindi starfsmanna. Greinar þessar miða að því að réttindi og starfskjör starfsmanna bankanna haldist óbreytt þótt ríkisviðskiptabönkunum verði breytt í hlutafélög. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður verði ekki fjárhagslega skuldbundinn gagnvart starfsmönnum bankanna við breytinguna og enginn kostnaður falli á ríkissjóð vegna réttinda starfsmanna við breytingu á bönkunum í hlutafélög.
    Í 11. gr. er fjallað um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum bankanna við eftirlaunasjóði starfsmanna þeirra. Þar er kveðið svo á að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna við eftirlaunasjóðina. Í athugasemdum við 11. gr. er það nánar skýrt að hlutafélagsbankarnir yfirtaki skuldbindingar gagnvart lífeyrissjóðum starfsmanna sinna en ríkissjóður er bakábyrgur fyrir skuldbindingum sem til hafa fallið á þeim tíma er bankarnir voru ríkisviðskiptabankar, ef slíkar skuldbindingar eru á annað borð fyrir hendi. Í 2. mgr. 11. gr. er sérstaklega tekið á því hver ábyrgð ríkissjóðs er á umræddum skuldbindingum ef til greiðslufalls hlutafélagsbanka kemur. Í heild er talið að ekki komi til kostnaðar hjá ríkissjóði vegna eftirlaunaskuldbindinga bankanna, hvorki vegna starfsmanna í eftirlaunasjóðum né æðstu yfirmanna. Hlutafélagsbankarnir muni algjörlega bera þann kostnað eftir að þeir eru teknir til starfa og mun hann koma fram í stofnefnahagsreikningi. Litið er svo á að ábyrgð ríkissjóðs sé einföld og komi ekki til hennar nema gengið hafi verið að hlutafélagsbönkunum fyrst. Þörf væri á að að skýra nánar en nú er gert hvernig samskiptum bankanna og lífeyrissjóðanna skuli háttað og skuldbindingar efndar. Þar eð Landsbanki Íslands og Seðlabanki Íslands hafa sameiginlegan eftirlaunasjóð fyrir starfsmenn sína er ljóst að skipta verður ábyrgð sjóðsins upp með tryggingafræðilegri aðgreiningu. Seðlabanki Íslands og ríkissjóður munu áfram bera ábyrgð á þeim hluta er snýr að starfsmönnum Seðlabanka.
    Í 13. gr. er fjallað um ríkisábyrgð á skuldbindingum bankanna. Þar er sagt að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum innlendum og erlendum skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna og er það efnislega í samræmi við 3. mgr. 8. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 43/1993. Ákvæðið um ábyrgð ríkissjóðs á erlendum skuldbindingum bankanna er túlkað svo að ríkissjóður beri einungis ábyrgð á lánum eða ábyrgðum sem stofnað er til meðan bankarnir eru ríkisbankar. Nú hefur verið stofnað til lántökuheimildar áður en ríkisbanka er breytt í hlutafélagsbanka, og er litið svo á að ábyrgð ríkissjóðs á ónotuðum hluta heimildarinnar falli niður um leið og viðkomandi hlutafélagsbanki tekur við.
    Í 18. gr. er kveðið svo á að báðir hlutafélagsbankarnir taki við öllum skattalegum réttindum og skyldum ríkisbankanna. Fyrir Landsbankann þýðir þetta að hann yfirfærir um það bil 3.080 m.kr. tap miðað við niðurstöður efnahagsreiknings í lok ársins 1996 (reikningurinn er enn óstaðfestur þegar þetta er ritað) og skattbyrði hins nýja hlutafélagsbanka verður léttari af þeim sökum. Enn fremur er útistandandi 2 milljarða króna víkjandi lán ríkissjóðs til Landsbanka Íslands til að bæta eiginfjárstöðu bankans. Hjá Búnaðarbanka er um hvorugt að ræða. Taka þarf afstöðu til þessara mála við undirbúning að stofnun hlutafélagsbankanna, sbr. umfjöllun um 5. gr. frumvarpsins.