Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 152 . mál.


755. Nefndarálit



um frv. til l. um Flugskóla Íslands hf.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund allmarga umsagnaraðila.
    Í frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélag um rekstur Flugskóla Íslands. Ástæða þess er sögð sú að með því sé aðilum, sem hagsmuna eiga að gæta varðandi rekstur skólans, gefinn kostur á að gerast eignaraðilar að honum og hafa þannig áhrif á stefnu hans og viðgang. Engum einum aðila öðrum en ríkinu sé þó heimilt að eiga meira en 25% hlutafjár samkvæmt frumvarpinu.
    Auðvelt virðist að gefa hagsmunaaðilum kost á að hafa áhrif á stjórn skólans án þess að breyta skólanum í hlutafélag, t.d. mætti skipa þá í skólaráð eða skólanefnd ásamt fulltrúum ráðuneyta, kennara og nemenda. Almennt virðist það heldur hæpin stefna í skólamálum að hagsmunaðilar og fyrirtæki geti keypt sér áhrif í skólum með hlutafjárframlögum.
    Þá er rétt að benda á að frumvarpið er mjög umdeilt og mikilvægur umsagnaraðili, Félag íslenskra einkaflugmanna, mælir eindregið gegn samþykkt þess.
    Að þessu athuguðu telur minni hluti nefndarinnar rétt að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til endurskoðunar.

Alþingi, 12. mars 1997.



Ragnar Arnalds,

Guðmundur Árni Stefánsson.

Ásta R. Jóhannesdóttir.


frsm.