Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 237 . mál.


807. Nefndarálit



um frv. til l. um Tryggingasjóð einyrkja.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá félagsmálaráðuneyti Gunnar E. Sigurðsson, Elínu Blöndal, Ingvar Sverrisson og Árna Gunnarsson. Þá komu til fundar Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökunum, Unnur Sverrisdóttir og Ása Þ. Baldursdóttir frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Helga Garðarsdóttir, Jóhanna Þráinsdóttir og Veturliði Guðnason frá þýðendum, Þráinn Hallgrímsson frá Dagsbrún, Ólafur M. Jóhannesson, fyrrverandi ritstjóri blaðsins Gegn atvinnuleysi, Lúðvík Geirsson og Fríða Björnsdóttir frá Blaðamannafélagi Íslands, Hjálmar H. Ragnarsson frá Bandalagi íslenskra listamanna og Guðni Pálsson og Hilmar Björnsson frá Arkitektafélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, Sjómannasambandi Íslands, Reykjavíkurborg, Bændasamtökum Íslands, Landssambandi kúabænda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssamtökum sauðfjárbænda, Félagi sjónvarpsþýðenda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Blaðamannafélagi Íslands, Félagi þýðenda við Stöð 2, þýðendum á Stöð 3, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Reykjanesbæ, Vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytis, Ólafi M. Jóhannessyni, Félagi framhaldsskólanema, Rithöfundasambandi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Blaðamannafélagi Íslands, Bandalagi íslenskra listamanna og Félagi tónskálda og textahöfunda,
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til breytingar á 1. gr. Í fyrsta lagi að nafni sjóðsins verði breytt og að hann fái heitið Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga, þ.e. í stað hugtaksins einyrki komi „sjálfstætt starfandi einstaklingur“. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að sjóðfélagar geti verið fleiri en bændur, vörubifreiðastjórar og smábátaeigendur, þ.e. aðrar starfsgreinar sjálfstætt starfandi einstaklinga. Með þessu er lagt til að sjóðurinn verði opnaður enn frekar þar sem menn geta verið sjálfstætt starfandi án þess að teljast einyrkjar. Fjölmargar breytingar eru síðan gerðar á frumvarpinu til samræmis við framangreint. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að sjóðurinn starfi í deildum samkvæmt reglum sem ráðherra setur og að í þeim reglum skuli meðal annars kveðið á um þann lágmarksfjölda einstaklinga sem þarf svo unnt verði að stofna deild. Meiri hlutinn leggur áherslu á að ekki verði færri en 500 í hverri deild og að jafnframt þurfi að ákveða hvaða starfsgreinasamtök eigi aðild að viðkomandi deild og að skilgreina þurfi atvinnuleysi í hverri deild fyrir sig.
    Með breytingum á 2. gr. er tryggt að önnur starfsgreinasamtök, sem öðlast aðild að sjóðnum og mynda deild innan hans, en eru ekki sérstaklega talin upp í greininni, eigi sæti í stjórn sjóðsins, þó þannig að séu fleiri en ein starfsgreinasamtök í sömu deild sjóðsins skulu þau sameiginlega tilnefna einn fulltrúa í stjórn. Í öðru lagi er lagt til að 4.–6. og 9. mgr. greinarinnar falli brott og færist fyrir í 24. gr. sem þá geymi meðal annars ákvæði um að stjórn sjóðsins skuli eftir hver áramót gefa ráðherra ítarlega skýrslu um hag og starfsemi sjóðsins, varasjóð og kostnað af rekstri sjóðsins. Í þriðja lagi er lagt til að fellt verði brott það ákvæði 8. mgr. að Vinnumálastofnun skuli annast útborgun bóta. Þá er í fjórða lagi lögð til breyting á fyrirsögn greinarinnar með hliðsjón af framangreindum breytingum. Aðrar breytingar eru í samræmi við breytingar á 1. gr., sbr. 1. lið.
    Lagðar eru til breytingar á 3. gr. Annars vegar að sjóðfélagaskilyrði 1. mgr. verði fellt brott. Þessi breyting er sett fram með hliðsjón af breytingu á 1. gr. , sbr. 1. lið, um frekari opnun sjóðsins, en skilyrðið var viðbótarskilyrði og til takmörkunar á mögulegri aðild að sjóðnum. Hins vegar er lögð til sú breyting á greininni að fleiri starfsgreinar geti átt aðild að sjóðnum og er það í samræmi við umfjöllun í 1. lið.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 1. mgr. 4. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að neðri aldursmörk þeirra sem geta átt rétt til bóta, sbr. 1. tölul., skuli vera 16 ár í stað 18 eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Er þetta í samræmi við gildandi lög um atvinnuleysistryggingar. Í öðru lagi er lagt til að í stað þess að miða við að sjóðfélagi þurfi að hafa hætt rekstri til að uppfylla almenn bótaskilyrði frumvarpsins verði miðað við að rekstur hafi verið stöðvaður, sbr. 2. og 5. tölul. Þá er einnig lögð til breyting á 5. tölul. í samræmi við breytingu á 3. gr. Í þriðja lagi er lagt til að sá sem hefur skráð sig atvinnulausan þurfi einungis að bíða í þrjá daga eftir að réttur hans til bóta verði virkur en ekki í tvær vikur eins og gert er ráð fyrir í 6. tölul. Þetta er einnig í samræmi við gildandi lög um atvinnuleysistryggingar. Í fjórða lagi er lögð til sú breyting á 7. tölul. að í stað þess bótaskilyrðis að menn þurfi að vera tilbúnir að ráða sig í fullt starf, með undantekningum sem úthlutunarnefnd metur, verði miðað við að atvinnuleitandi skuli vera reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa eða hefja sjálfstæðan rekstur. Með hliðsjón af þessum breytingum á 7. tölul. eru gerðar breytingar á 17. gr., sbr. 12. lið. Aðrar breytingar á greininni leiðir af fyrrnefndri breytingu á aldursmörkum.
    Lagðar eru til breytingar á 5. gr. í samræmi við breytingar á 1. gr. á nafni sjóðsins og 4. gr. þar sem kveðið er á um stöðvun reksturs í stað þess bótaskilyrðis að hætta verði rekstri, sbr. 4. lið.
    Lagðar eru til breytingar á 6. gr. Annars vegar er lagt til að felld verði niður upptalning í 1. mgr. um hvað geti talist til heimilisaðstæðna. Með þessu er þó ekki litið svo á að þessi atriði geti ekki fallið undir hugtakið heimilisaðstæður heldur geta þau öll komið til skoðunar sem og margt annað í þessu samhengi. Þau tilvik sem talin voru upp í ákvæðinu munu vera í samræmi við túlkun stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs á hugtakinu heimilisaðstæður og er með þessari breytingu ekki ætlunin að ganga gegn þeirri túlkun. Hins vegar er lögð til sú rýmkun á ákvæði 2. mgr. að í stað þess að sá sem fer í fæðingarorlof haldi áunnum bótarétti í allt að sex mánuði verði miðað við töku fæðingarorlofs sem getur verið lengra tímabil, t.d. vegna fjölburafæðingar. Hér er einnig um að ræða breytingar til samræmis við lög um atvinnuleysistryggingar.
    Þá er lögð til breyting á 7. gr. til að taka af öll tvímæli um að með trúnaðarlækni í 4. mgr. sé átt við trúnaðarlækni Atvinnuleysistryggingasjóðs og er breytingin til samræmis við lög um atvinnuleysistryggingar.
    Lagðar eru til breytingar á 8. gr. Í fyrsta lagi að bótaréttur þeirra sem sagt hafa starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á falli niður í 40 daga í fyrsta sinn í stað 55 daga eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, sbr. 4. og 5. tölul. Er þetta í samræmi við gildandi lög um atvinnuleysistryggingar. Í öðru lagi er lagt til að stjórn sjóðsins verði heimilt að setja reglur um að þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar skuli undir sérstökum kringumstæðum eiga bótarétt. Slíkar reglur skulu staðfestar af ráðherra. Breyting þessi er sett fram til þess að mögulegt verði í ákveðnum undantekningartilvikum að koma til móts við þá einstaklinga sem hafa orðið að hætta námi fyrir lok námsannar, sbr. 6. tölul., og í samræmi við framangreind lög um atvinnuleysistryggingar. Í þriðja lagi er lagt til að í stað þess að miða við að öflun bóta með sviksamlegum hætti valdi missi bótaréttar skuli miðað við athæfi sem um ræðir í V. kafla og er þetta í samræmi við breytingar á 19. gr., sbr. 13. lið.
    Lögð er til sú breyting á 9. gr. að tekjutenging bóta verði afnumin en í frumvarpinu er miðað við að tekjur einstaklings sem öðlast hefur bótarétt hafi ekki á síðustu tólf mánuðum fyrir skráningu verið hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum á mánuði. Þannig munu tekjur einstaklings áður en hann hefur töku bóta ekki fresta rétti til bóta eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Breytingin er í samræmi við gildandi lög um atvinnuleysistryggingar.
    Lagt er til að ákvæði 10. gr., sem kveður á um að þau tímabil sem hinn atvinnulausi tekur þátt í úrræðum á vegum svæðisvinnumiðlunar sem styrkt eru af sjóðnum teljist hluti bótatímabils, falli brott, sbr. framangreind lög um atvinnuleysistryggingar.
    Lagðar eru til breytingar á 11. gr. er varða fjárhæð atvinnuleysisbóta og endurskoðun þeirra. Gert er ráð fyrir að lögbundin fjárhæð hámarksbóta komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta bótafjárhæð ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Samhljóða ákvæði eru í gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Aðrar breytingar á greininni eru í samræmi við breytingar á nafni sjóðsins, sbr. 1. lið.
    Lögð er til sú breyting á 17. gr. að miða skuli við að bjóðist hinum atvinnulausa starf sem að starfshlutfalli er minna en bótaréttur hans segir til um skuli úthlutunarnefnd meta með hliðsjón af möguleikum hans á fullu starfi, sbr. og breytingu sem rakin er í 4. lið, um að atvinnulausir skuli reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa, hvort honum sé eftir atvikum rétt eða skylt að taka því hlutastarfi sem í boði er. Þá er felld niður sú regla frumvarpsins að maður er sinnir hlutastarfi geti jafnframt því aðeins notið bóta í sex mánuði. Þessar breytingar eru í samræmi við gildandi lög um atvinnuleysistryggingar.
    Lagt er til að það skilyrði 19. gr. að einungis vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar, sbr. 1. mgr., varði missi bótaréttar falli brott. Telja verður nægjanlegt að rangar eða villandi upplýsingar séu gefnar enda getur reynst erfitt að sanna ásetning manna í þessum efnum. Til samræmis er lagt til að orðin sviksamlegt athæfi í 3. mgr. verði fellt brott. Það orðalag kemur hins vegar sem fyrirsögn 20. gr. um sektarviðurlög.
    Lagðar eru til þær breytingar á 21. gr. að stjórn sjóðsins skuli skipa úthlutunarnefnd til fjögurra ára í senn og að í henni eigi sæti fulltrúar þeirra starfsgreinasamtaka sem öðlast aðild að sjóðnum og mynda deild innan hans, þó þannig að séu fleiri en ein starfsgreinasamtök í sömu deild sjóðsins skulu þau sameiginlega tilnefna einn nefndarmann. Kostnaður af starfi nefndarinnar skal greiðast úr sjóðnum og skal nefndin ákveða fyrirkomulag á greiðslu bóta.
    Lögð er til sú breyting á 22. gr. að frestur til að skjóta ákvörðun úthlutunarnefndar um bætur og missi bótaréttar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta verði lengdur úr tveimur vikum í þrjá mánuði. Er það í samræmi við almennan kærufrest skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og lög um atvinnuleysistryggingar. Önnur breyting á greininni er í samræmi við breytingar á nafni sjóðsins, sbr. 1. lið.
    Lögð er til breyting á 23. gr. sem lýtur að því að hver starfsgrein skuli njóta bóta úr sinni deild og tekjur sjóðsins frá hverri starfsgrein, sbr. 1. tölul. 1. mgr., skuli renna til viðkomandi deildar. Þá skuli fjárhagur hverrar deildar vera aðskildur. Þessi breyting er lögð til í samræmi við þá breytingu á sjóðnum sem rakin er í 1. lið, sem og aðrar breytingar á greininni.
    Lagt er til að fjórar nýjar málsgreinar bætist við 24. gr. og er sú viðbót í samræmi við breytingar sem raktar eru í 2. lið. Önnur breyting á greininni er í samræmi við breytingar á nafni sjóðsins, sbr. 1. lið.
    Þá er lagt til að nýtt ákvæði bætist við frumvarpið sem lýtur að aðgreiningu réttinda í Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga annars vegar og Atvinnuleysistryggingasjóði hins vegar komi upp sú staða að einstaklingur eigi réttindi í báðum sjóðunum á viðmiðunartímabili bóta. Í slíkum tilvikum er lögð til sú regla að viðkomandi taki allar bætur úr þeim sjóði sem hann á rétt til hærri bótafjárhæðar úr.
    Þá eru loks lagðar til breytingar á ákvæðum til bráðabirgða til samræmis við aðrar breytingar á ákvæðum frumvarpsins, sbr. 1. og 16. lið. Í nýju ákvæði til bráðabirgða er síðan sérstaklega kveðið á um að starfsgreinar sjálfstætt starfandi einstaklinga aðrar en bændur, vörubifreiðastjórar og smábátaeigendur geti einnig öðlast aðild að sjóðnum að fengnu samþykki ráðherra óski samtök þeirra þess. Áður en ráðherra afgreiðir slíka umsókn um aðild að sjóðnum skal hann leita umsagna stjórna Atvinnuleysistryggingasjóðs og Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga.
    Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. mars 1997.



Siv Friðleifsdóttir,

Einar K. Guðfinnsson.

Magnús Stefánsson.


varaform., frsm.



Arnbjörg Sveinsdóttir.

Pétur H. Blöndal.