Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 148 . mál.


821. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni Erhardsdóttur, Kjartan Gunnarsson og Pál Gunnar Pálsson frá viðskiptaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Sýslumannafélagi Íslands, Verslunarráði Íslands, Bílgreinasambandinu, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Neytendasamtökunum, Lögreglustjóranum í Reykjavík, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Sambandi íslenskra viðskiptabanka.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Í þeim felst:
1.    Tekin verði af tvímæli um að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð ákvæði um sérstaka skrá sem leggja skal fram við sölu notaðra ökutækja þar sem fram kemur hverjir hafi verið eigendur að bifreiðinni og tjónaferill hennar.
2.    Lagt er til að fellt verði brott úr frumvarpinu ákvæði um sérstakt 5.000 kr. eftirlitsgjald til að standa straum af kostnaði við eftirlit lögreglustjóra með bifreiðasölum. Á fundi nefndarinnar kom fram að kostnaður við að leggja gjaldið á og innheimta það gæti jafnvel orðið meiri en sem nemur fjárhæð gjaldsins. Jafnframt er lögð til lagfæring á orðalagi 3. efnismgr. 7. gr. frumvarpsins.
3.    Lagt er til að inn í lögin komi almenn heimild fyrir ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd þeirra.
    Nefndin vill taka fram að hún lítur svo á að ef lögfræðingar eða viðskiptafræðingar sækja um starfsleyfi samkvæmt lögunum sé eðlilegt að veita þeim undanþágu frá námskeiðsskyldu 3. gr. laganna ef ætla má að þeir hafi fullnægjandi þekkingu til að annast bifreiðasölu.
    Jón Baldvin Hannibalsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. mars 1997.



Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson,

Valgerður Sverrisdóttir.


form.

frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Pétur H. Blöndal.

Steingrímur J. Sigfússon.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Einar Oddur Kristjánsson.