Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 214 . mál.


823. Nefndarálit



um frv. til l. um endurskoðendur.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Braga Gunnarsson og Ragnheiði Snorradóttur frá fjármálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Félagi löggiltra endurskoðenda og Reykjavíkurborg.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Skal nú gerð grein fyrir einstökum liðum þeirra tillagna:
    Lögð er til umorðun á 1. gr. Ekki felst efnisbreyting í þeirri tillögu.
    Lagðar eru til nokkrar tæknilegar breytingar á 2. gr. til frekari skýringar og einföldunar. Sérstaklega skal tekið fram að með því að fella brott 7. tölul. er ekki verið að breyta neinu þar sem mælt er fyrir um vátryggingarskylduna í 11. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að í 4. gr. verði settar skýrari reglur um endurmenntun.
    Við 7. gr. Breytingartillaga a-liðar snýr að orðalagi málsliðarins. Í b-lið er lagt til að efni 10. gr. frumvarpsins verði fært yfir í 7. gr. og jafnframt verði horfið frá þeirri kröfu að þeir sem löggiltir hafa verið sem endurskoðendur, en hafa endurskoðun ekki að aðalstarfi, verði skyldaðir til að leggja inn réttindi sín.
    Við 9. gr. Í a-lið er horfið frá því skilyrði að ákvæðið nái eingöngu til „arðgefandi“ eignarhluta. Í b-lið er lagt til að heimilt verði að veita undanþágu frá skilyrði um að endurskoðandi megi ekki í þrjú ár samfellt eiga stærri hluta en 20% af veltu sinni undir einum viðskiptavini sem hann endurskoðar fyrir.
    Lagt er til að 10. gr. falli brott. Sjá skýringar við 4. lið.
    Við 11. gr. Í a-lið er lagt til að talað verði um „gáleysi“ í stað „einfalds gáleysis“. Er það til samræmis við sambærileg ákvæði í öðrum lögum. Undir gáleysi fellur bæði einfalt og stórfellt gáleysi. Tillögu b-liðar leiðir af breytingartillögum við 7. gr.
    Lögð er til lagfæring á orðalagi 13. gr. Ekki felst efnisbreyting í þeirri tillögu.
    Lagt er til að við bætist bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið verði á um að ákvæði 4. gr. um endurnýjun löggildingar og viðhald menntunar gildi einnig um þá endurskoðendur sem öðlast hafa löggildingu fyrir gildistöku laga þessara.
    Jón Baldvin Hannibalsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. mars 1997.



Vilhjálmur Egilsson,

Ágúst Einarsson.

Valgerður Sverrisdóttir.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Pétur H. Blöndal.

Steingrímur J. Sigfússon.



Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Einar Oddur Kristjánsson.