Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 408 . mál.


940. Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór J. Kristjánsson, Pál Gunnar Pálsson og Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneytinu, Bjarna Ármannsson, Sigurð Einarsson, Hilmar Þór Kristinsson og Hreiðar Má Sigurðsson frá Kaupþingi hf., Johan Bergendahl frá J.P. Morgan, Stefán Pálsson frá Búnaðarbanka Íslands, Björn Líndal frá Landsbanka Íslands, Val Valsson og Björn Björnsson frá Íslandsbanka hf., Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sigurð Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Ingimund Friðriksson, Yngva Örn Kristinsson og Þórð Ólafsson frá Seðlabanka Íslands, Má Elísson frá Fiskveiðasjóði Íslands, Braga Hannesson frá Iðnlánasjóði, Þorvarð Alfonsson frá Iðnþróunarsjóði, Ólaf B. Thors og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Gunnar Felixson frá Tryggingamiðstöðinni hf., Friðbert Traustason frá Sambandi íslenskra bankamanna, Smára Þórarinsson fyrir hönd starfsmanna Fiskveiðasjóðs, Sverri Geirdal fyrir hönd starfsmanna Iðnlánasjóðs, Önnu Rósu Jóhannsdóttur og Ragnheiði Dagsdóttur frá Starfsmannafélagi Búnaðarbanka Íslands, Þórunni Þorsteinsdóttur og Ingveldi Ingólfsdóttur frá Starfsmannafélagi Landsbanka Íslands, Harald Sumarliðason, Jón Steindór Valdimarsson og Gunnar Svavarsson frá Samtökum iðnaðarins, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Arnar Sigurmundsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Sigurð Þórðarson og Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun, Árna Tómasson, endurskoðanda Landsbanka Íslands, og Gylfa Arnbjörnsson frá Eignarhaldsfélagi Alþýðubanka Íslands. Þá bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Búnaðarbanka Íslands, Bændasamtökum Íslands, Eignarhaldsfélaginu Hofi sf., Fiskveiðasjóði Íslands, Iðnlánasjóði, Iðnþróunarsjóði Íslands, Íslandsbanka hf., Íslenskum sjávarafurðum hf., Landsbanka Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Sambandi íslenskra sparisjóða, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Sjóvá-Almennum hf., Tryggingamiðstöðinni hf., Vátryggingaeftirlitinu, Vátryggingafélagi Íslands hf., Verslunarráði Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Í a-lið 1. tölul. er lagt til að ákvæði um að hámarkshlutfall heildarstofnhlutafjár af eigin fé sjóðanna sé 75% verði fellt brott. Viðskiptaráðherra verði þannig óbundinn við ákvörðun heildarfjárhæðarinnar. Í b-lið 1. tölul. er lagt til að sambærileg nefnd verði sett á stofn til að meta heildarfjárhæð stofnhlutafjár í bankanum og gert er ráð fyrir í 5. gr. frumvarps til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og

Prentað upp.

        Búnaðarbanka Íslands. Þá er jafnframt lagt til að ákvæði um undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda í 3. mgr. 4. gr. verði fellt brott.
    Lagðar eru til breytingar á 14. gr. með hliðsjón af athugasemdum sem fram komu í umsögn Seðlabanka Íslands um málið.
    Það er niðurstaða 1. minni hluta nefndarinnar, eftir ítarlega umfjöllun innan nefndarinnar, að draga beri úr sterkri eiginfjárstöðu hins nýja fjárfestingarbanka frá því sem lagt hefur verið upp með. Nefndin lét reikna út fyrir sig nokkrar tillögur í þá átt og var niðurstaðan sú að lækkun um 1 milljarð kr. kæmi hvað best út. Þannig verður bankinn arðvænlegri eign og fýsilegri fjárfestingarkostur. Hagsmunum bankans yrði engu að síður vel borgið þegar tekið er tillit til breyttra rekstrarforsendna samfara lækkun eigin fjár, vaxtakostnaðar og hækkunar vaxta af nýjum lánum. Upplýsingar frá aðilum sem komu á fund nefndarinnar staðfesta það. Búist er við að markaðsverð bankans lækki einungis um 350 millj. kr. þrátt fyrir 1 milljarðs kr. lækkun eigin fjár. Ríkið, sem eigandi bankans, verður því betur sett um 650 millj. kr. eftir slíka aðgerð. Jafnframt er það tillaga 1. minni hluta að sá milljarður sem þannig sparast verði nýttur til áhættufjármögnunar og þá einkum til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni, en um þessar mundir er nauðsynlegt að grípa til aðgerða á landsbyggðinni til að vega á móti sterkri verkefnastöðu á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni. Í breytingartillögum, sem lagðar eru fram samhliða þessum við frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, er gert ráð fyrir að þeim sjóði verði falið að sjá um þessa fjármuni.

Alþingi, 14. apríl 1997.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.