Ferill 330. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 330 . mál.


954. Nefndarálit



um frv. til l. um Bókasafnssjóð höfunda.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karítas Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti og Gísla Sigurðsson og Hörð Bergmann frá Hagþenki, félagi höfunda fræðirita og kennslugagna. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Rithöfundasambandi Íslands, Hagþenki, Félagi bókavarða rannsóknarbókasafna, Bókavarðafélagi Íslands, Myndstefi og Félagi bókasafnsfræðinga.
    Frumvarpið, sem leysir af hólmi 11. gr. laga um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976, gerir ráð fyrir að árlega verði veitt í fjárlögum ákveðin upphæð í Bókasafnssjóð höfunda sem úthlutað verði samkvæmt lögunum. Tækniframfarir auðvelda það að hægt sé að fylgjast með útlánum bóka. Í frumvarpinu er lögð til sú nýbreytni að ekki einungis rithöfundar fái úthlutað úr sjóðnum heldur fleiri sem eiga höfundaframlag í bók, þar með taldir þýðendur, myndhöfundar, tónskáld o.fl. Gerir frumvarpið ráð fyrir að sjóðnum, sem leysir Rithöfundasjóð Íslands af hólmi, verði skipuð fimm manna stjórn sem úthluti úr sjóðnum. Skipta á framlaginu í tvennt, annars vegar verði um að ræða styrki til höfunda og hins vegar úthlutanir til rétthafa miðað við fjölda útlána bóka. Telur menntamálanefnd mikilvægt að við úthlutun styrkja verði rétthöfum gert jafnhátt undir höfði.
    Nauðsynlegt er að gera breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins þar sem nefndin leggur til að frumvarp til laga um almenningsbókasöfn verði afgreitt samhliða frumvarpi þessu. Gert er ráð fyrir að ný lög um almenningsbókasöfn taki gildi 1. ágúst 1997, en lög um Bókasafnssjóð höfunda ekki fyrr en 1. janúar 1998. Þar til síðarnefndu lögin taka gildi er gert ráð fyrir að 14. gr. laga um almenningsbókasöfn gildi um Rithöfundasjóð Íslands.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGU:



    2. málsl. 7. gr. orðist svo: Um leið fellur úr gildi 14. gr. laga um almenningsbókasöfn.

    Ólafur Örn Haraldsson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. apríl 1997.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Hjálmar Árnason.

Svanfríður Jónasdóttir.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Sigríður Jóhannesdóttir.

Arnbjörg Sveinsdóttir.



Guðný Guðbjörnsdóttir.