Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 259 . mál.


955. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni J. Hafstein, Hörð Lárusson og Hrólf Kjartansson frá menntamálaráðuneyti.
    Frumvarpið miðar að því að greiða fyrir framkvæmd tilskipana Evrópusambandsins um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, miðað við reynslu síðustu ára. Samkvæmt núgildandi lögum þarf að leita samþykkis Alþingis í hvert sinn sem viðaukum tilskipananna er breytt, en eðlilegra er talið að Alþingi veiti framkvæmdarvaldinu almenna heimild til að hrinda viðaukunum í framkvæmd. Þannig verði það skýrt tekið fram í lögunum að þau taki til allra breytinga sem kunna að verða gerðar á upptalningu starfa sem falla undir viðauka við tilskipanir 89/48EBE og 92/51/EBE. Nær frumvarpið ekki til breytinga sem hugsanlega verða gerðar á þeim meginreglum sem gilda um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum heldur eingöngu til breytinga á viðaukum við tilskipanirnar varðandi flokkun á starfsheitum.
    Við lögfestingu EES-samningsins var talið mikilvægt að tryggja sem allra best lýðræðisleg vinnubrögð og þátttöku Alþingis í setningu þeirra EES-reglna sem gilda eiga hérlendis. Í því skyni setti forsætisnefnd reglur í febrúar 1994 um þinglega meðferð EES-mála á mótunarstigi. Er þar kveðið á um hlutverk utanríkisráðuneytisins, utanríkismálanefndar og annarra fastanefnda Alþingis í samráðsferli um EES-mál. Menntamálanefnd telur mikilvægt að samráðsvettvangur Alþingis og Stjórnarráðsins sé nýttur til að gera rækilega grein fyrir breytingum sem fyrirhugaðar eru á viðaukum, meðan þær eru á vinnslustigi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Ólafur Örn Haraldsson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. apríl 1997.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Hjálmar Árnason.

Svanfríður Jónasdóttir.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Sigríður Jóhannesdóttir.

Arnbjörg Sveinsdóttir.



Guðný Guðbjörnsdóttir.