Ferill 258. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 258 . mál.


1056. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, o.fl. (innheimta sekta og punktakerfi vegna umferðarlagabrota).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð T. Magnússon héraðsdómara, Georg Lárusson sýslumann, Óla H. Þórðarson frá Umferðarráði og Ómar Smára Ármannsson frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Fangelsismálastofnun ríkisins, Lögregluskóla ríkisins, Umferðarráði, Rannsóknarlögreglu ríkisins og Lögmannafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þrennum lögum sem miða að því að gera meðferð sektamála skilvirkari, einkum hjá lögreglu, en ómarkviss og árangurslítil innheimta sekta, sem jafnvel er mismunandi milli umdæma, brýtur gegn jafnræði borgaranna og veikir réttlætiskennd þeirra og trú á réttarkerfið. Helstu nýmæli frumvarpsins eru að gert er ráð fyrir að hámarksfrestur til greiðslu sektar sem lögreglustjóri getur samið um við sakborning verði eitt ár. Þá er lagt til að vararefsing vegna sektarrefsingar, allt að 100.000 kr., verði lögbundin og heimilað að sakborningur geti skriflega gengist undir slíka vararefsingu ásamt sekt hjá lögreglustjórum. Einnig er lagt til að lögfest verði heimild til að staðla refsingar og önnur viðurlög við umferðarlagabrotum og að lögfest verði ákvæði um að við ákvörðun refsinga vegna tveggja eða fleiri umferðarlagabrota skuli beitt fullkominni samlagningu sekta. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að fest verði í lög heimild til að veita 25% afslátt af sektum vegna umferðarlagabrota ef greitt er innan 30 daga frá því að sektin var lögð á. Einnig felur frumvarpið í sér að tekið verði upp punktakerfi vegna umferðarlagabrota og lögfest að beitt skuli sviptingu ökuréttar vegna uppsafnaðra punkta samkvæmt punktakerfi. Jafnframt því að nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt leggur hún áherslu á að breytingin verði kynnt landsmönnum ítarlega.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Annars vegar er þar um að ræða smávægilegar orðalagsbreytingar og leiðréttingar á tilvísunum. Hins vegar er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 2. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að lagagrundvöllur vararefsingar og lengd varðhalds skuli tilgreind í lögreglustjórasátt og að sakborningur skuli gangast skriflega undir vararefsinguna ásamt öðrum viðurlögum. Ábending um að nauðsynlegt væri að taka skýrt fram í ákvæðinu að samhliða sátt um greiðslu sektar skuli sakborningur jafnframt gangast undir vararefsingu kom frá Lögmannafélagi Íslands. Í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir að sakborningur geti á síðari stigum fengið lögreglustjórasátt hnekkt án atbeina ríkissaksóknara, þó að hann geti ávallt neitað sök, neitað að gangast undir greiðslu sektar eða neitað að gangast undir tiltekna vararefsingu, telur nefndin rétt að kveða skýrt á um það í lögum að vararefsing skuli tilgreind í lögreglustjórasáttinni.

    Valgerður Sverrisdóttir og Kristján Pálsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 29. apríl 1997.



Sólveig Pétursdóttir,

Jón Kristjánsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.


form., frsm.



Hjálmar Jónsson.

Ögmundur Jónasson.

Árni R. Árnason.



Guðný Guðbjörnsdóttir.