Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 233 . mál.


1058. Nefndarálit



um frv. til l. um vörumerki.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Gunnar Guttormsson og Ástu Valdimarsdóttur frá Einkaleyfastofunni. Umsagnir bárust frá Erlu S. Árnadóttur hrl., Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, Íslenskri málnefnd, Lögmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum og Samtökum iðnaðarins.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á vörumerkjarétti með tilliti til þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands og réttarþróunar í öðrum löndum. Mikilvægt er að afgreiða frumvarpið á þessu þingi þar sem í því er gert ráð fyrir nýjum ákvæðum um alþjóðlega skráningu vörumerkja sem Íslandi hefur borið að framfylgja síðan 15. apríl 1997.
    Nefndin leggur til að þrjár efnisbreytingar verði gerðar á frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi er lagt til að 16. gr. verði breytt til að taka af allan vafa um að ekki verði lengur unnt að skrá vörumerki fyrir heila flokka heldur ber að tilgreina nákvæmlega þá vöru eða þjónustu sem óskað er skráningar fyrir.
    Í öðru lagi er lagt til að niðurstöður úrskurða vegna andmæla við skráningu vörumerkis verði birtar í ELS-tíðindum og sömuleiðis vörumerki sem eru afmáð úr vörumerkjaskrá, sbr. 22. og 32. gr. Þessar breytingar eru til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á 43. gr. Til samræmis við einkaleyfalög og lög um hönnunarvernd er lagt til að þeim sem brýtur gegn vörumerkjarétti af ásetningi eða gáleysi verði gert að greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu vörumerkis, auk skaðabóta fyrir tjón sem af brotinu hlýst. Þá er orðalagi í 2. mgr. 43. gr. breytt. Ef grandlaus aðili hagnast af broti gegn vörumerkjarétti ber honum að greiða hæfilegt endurgjald fyrir nýtinguna sem þó má ekki nema hærri upphæð en áætlaður hagnaður hans af brotinu.
    Í 30. gr. er að finna nýmæli sem heimilar að vörumerki verði afmáð eftir kröfu þess sem lögmætra hagsmuna á að gæta ef sýnt er fram á að starfsemi eiganda vörumerkisins hafi lagst af. Eðlilegt er að afmá vörumerki ef starfsemi eiganda hefur verið lögð niður og oft eru þar miklir hagsmunir í húfi. Hins vegar verður að gera ríkar kröfur til sönnurnar á því að starfsemi hafi raunverulega lagst af.
    Með frumvarpinu, ef af lögum verður, verður starf vörumerkjaskrárritara lagt niður en við hlutverki hans sem skráningaraðila vörumerkja tekur sérstök stofnun, Einkaleyfastofan. Vegna þess verður að fella brott ákvæði 92. gr. frumvarps til laga um breytingar á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 189. máls. Hins vegar bendir nefndin á að heiti stofnunarinnar, Einkaleyfastofan, er ekki ákveðið í lögum. Með 7. gr. einkaleyfalaga, nr. 17/1991, er mælt fyrir um að á vegum iðnaðarráðuneytisins skuli starfrækt einkaleyfaskrifstofa. Með auglýsingu nr. 187/1991 og reglugerð nr. 188/1991 var Einkaleyfastofan sett á fót, m.a. með vísan til heimildar einkaleyfalaga. Því


Prentað upp.
er ljóst að lagaheimild stofnunarinnar er fyrir hendi en nefndin telur umhugsunarefni að í frumvarpinu er Einkaleyfastofunni falin framkvæmd laganna og nafn stofnunarinnar kemur ótal oft fyrir í því en nafninu væri unnt að breyta með reglugerðarbreytingu ráðherra.
    Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkt áliti þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. apríl 1997.



Stefán Guðmundsson,

Guðjón Guðmundsson.

Sighvatur Björgvinsson.


form., frsm.



Jóhanna Sigurðardóttir.

Árni R. Árnason.

Hjálmar Árnason.



Sigríður Jóhannesdóttir.

Pétur H. Blöndal.

Sigríður A. Þórðardóttir.