Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 437 . mál.


1065. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Jónasson, Indriða H. Þorláksson og Jón Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum verðbréfafyrirtækja og Verslunarráði Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem er gerð tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Breytingartillaga í 1. tölul. lýtur að því að fella brott 1. tölul. 1. gr. Ekki þykja forsendur að svo stöddu fyrir því að gera þessa breytingu gagnvart fjármálafyrirtækjum.
    Í 2. og 3. tölul. eru lagðar til breytingar sem allar eru af sama toga og lúta að því að fjárhæðir verði lögbundnar. Í framtíðinni verður það því hlutverk löggjafans að ákveða hækkun þeirra í stað þess að lögin kveði á um vísitölubundna hækkun. Til þess að gera þá breytingu mögulega er fjárhæðunum breytt í samræmi við vísitöluhækkanir í gegnum árin.
    Í 4. tölul. er verið að leiðrétta prentvillu. Í frumvarpinu er vísað til 2. mgr. 42. gr. en þar er átt við 3. mgr. 42. gr.
    Í 5. tölul. er lagt til að 10. gr. frumvarpsins falli brott. Breyting sú, sem lögð var til í ákvæðinu, hefur þegar verið gerð með lögum sem samþykkt voru á síðasta þingi.
    Í 6. tölul. er svo lagt til að 45. gr. laganna, sem kveður á um vísitöluhækkanir, verði felld brott þar sem gert er ráð fyrir að allar fjáhæðir í lögunum verði lögbundnar, eins og fram hefur komið.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 29. apríl 1997.



Vilhjálmur Egilsson,

Jón Baldvin Hannibalsson.

Valgerður Sverrisdóttir.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Steingrímur J. Sigfússon.

Pétur H. Blöndal.



Ólafur Þ. Þórðarson.

Ágúst Einarsson.

Einar Oddur Kristjánsson.







Prentað upp.