Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 90 . mál.


1082. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félagsmálaráðuneyti. Þá komu til fundar Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Birgir Björn Sigurjónsson frá Bandalagi háskólamanna, Björn Arnórsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ragnar Árnason frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Ásgeir Sigfússon frá Félagi framhaldsskólanema, Eyjólfur Sæmundsson og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir frá Vinnueftirliti ríkisins, Magnús L. Sveinsson og Guðmundur Þ. Ólafsson frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, Sigurður Þórarinsson frá Kaupmannasamtökunum, Jón Ingi Einarsson frá Skólastjórafélagi Íslands, Margrét Friðriksdóttir frá Skólameistarafélagi Íslands, Sigurður Guðmundsson frá Félagi starfsfólks í veitingahúsum og Bragi Guðbrandsson og Hrefna Friðriksdóttir frá barnaverndarstofu. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Vinnueftirliti ríkisins, Vinnuveitendasambandi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Bandalagi háskólamanna, Félagi framhaldsskólanema, Verkamannasambandi Íslands og Vinnumálasambandinu.
    Nefndin ræddi og skoðaði sérstaklega skilgreiningar frumvarpsins, þ.e. að ungmenni merki samkvæmt frumvarpinu einstakling undir 18 ára aldri og nánari greiningu í börn og unglinga. Nefndin telur ástæðu til að taka fram að hugtakanotkun frumvarpsins er t.d. ekki í samræmi við skilgreiningar í lögum um vernd barna og ungmenna. Skilgreiningar frumvarpsins byggjast á tilskipun ESB 94/33 um vinnuvernd barna og ungmenna. Þannig er í frumvarpinu miðað við að börn séu einstaklingar undir 15 ára aldri eða sem eru í skyldunámi. Þetta felur það í sér t.d. að einstaklingur, sem er 16 ára og enn í skyldunámi, telst barn samkvæmt reglum frumvarpsins.
    Þá ræddi nefndin ákvæði a- og e-liðar 1. mgr. 4. gr. þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að ráða ungmenni til vinnu sem talin er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra og vinnu sem stofnað getur heilsu þeirra í hættu vegna mikils kulda, hita, hávaða eða titrings. Nefndin telur rétt að þegar settar verða nánari reglur um þessi atriði verði ákvæðin meðal annars skýrð svo að t.d. öll almenn vinna ungmenna í frystihúsum og byggingarvinna geti ekki talist vinna sem felur í sér hættu fyrir heilsu ungmenna.
    Nefndin ræddi einnig ákvæði 6. gr. um hvíldartíma barna og unglinga. Ljóst er að undanþágur frá ákvæðum 1. mgr. er að finna í 2. og 3. mgr. greinarinnar. Nefndin telur rétt að við nánari útfærslu reglna um hvíldartíma verði verslunarstörf sérstaklega skoðuð.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lögð er til sú breyting á 2. gr. frumvarpsins að skýrt verði hver skuli sækja um leyfi til Vinnueftirlits ríkisins ef ráða á börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri til að taka

Prentað upp.

        þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Tekin eru af tvímæli um að það er í höndum þess sem ræður barn til slíkra starfa en ekki barnsins sjálfs. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra skuli að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlitsins setja nánari reglur um það hvernig standa skuli að slíkum leyfisveitingum, sbr. 3. lið. Nefndin telur í þessu sambandi rétt að skoða hvort ekki sé ástæða til að Vinnueftirlitið taki saman sérstaka skrá yfir þá aðila sem fá almennt leyfi og að nánari reglur verði útfærðar með hliðsjón af slíkum almennum leyfisveitingum í stað þess að ætíð þurfi að sækja um sérstakt leyfi fyrir hvert barn um sig.
    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á a-, b- og e-lið 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins í samræmi við texta tilskipunarinnar. Í a-lið verði miðað við að óheimilt verði að ráða ungmenni til vinnu sem líklega sé ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra, í b-lið verði notað orðalagið „vinnu sem líklega veldur varanlegu heilsutjóni“ og e-liður taki til vinnu sem felur í sér hættu fyrir heilsu ungmenna vegna óvenjumikils kulda, hita, hávaða eða titrings.
    Þá er lögð til sú breyting á 8. gr. frumvarpsins að nánar verði skilgreint hvað átt er við með óviðráðanlegum tilvikum sem atvinnurekandi fær ekki stjórnað og leitt geta til þess að víkja má frá ákvæðum um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga. Í greinargerð með frumvarpinu er skilgreint að ákvæði greinarinnar fjalli um svokölluð force majeure tilvik en nefndin telur rétt að þetta komi skýrt fram í lagatextanum. Hugtakið force majeure merkir ytri atvik sem ekki verða séð fyrir og ekki er unnt að koma í veg fyrir þótt gerðar séu eðlilegar öryggisráðstafanir, t.d. náttúruhamfarir.
    Lagt er til að heimildir ráðherra sem víða er að finna í frumvarpinu til setningar reglugerða, að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, verði sameinaðar og settar fram í einni grein.
    Loks er lagt til að við frumvarpið verði bætt nýrri grein sem breyti ákvæðum 52. gr. laganna um lágmarkshvíldartíma. Í 52. gr. er gert ráð fyrir að vinnutíma skuli hagað þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn a.m.k. 10 klukkustunda samfellda hvíld. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, er hins vegar gert ráð fyrir 11 klukkustunda lágmarkshvíld á hverjum sólarhring. Í júní 1996 samþykktu íslensk stjórnvöld að tilskipun Evrópusambandsins nr. 93/104, um ákveðna þætti er varða skipulag og vinnutíma, yrði bætt við EES-samninginn. Helstu samtök atvinnurekenda og launafólks hafa þegar undirritað samkomulag um skipan vinnu- og hvíldartíma. Því er ekki talið nauðsynlegt að svo stöddu að breyta öðrum ákvæðum laganna en ákvæðinu um lágmarkshvíldartíma, en eitt af grundvallaratriðum tilskipunarinnar er ákvæðið um 11 klukkustunda lágmarkshvíld.

Alþingi, 5. maí 1997.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Siv Friðleifsdóttir.

Arnbjörg Sveinsdóttir.


form., frsm.



Pétur H. Blöndal.

Bryndís Hlöðversdóttir,

Rannveig Guðmundsdóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Einar K. Guðfinnsson,

Kristján Pálsson,

Magnús Stefánsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.

með fyrirvara.