Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 72 . mál.


1092. Nefndarálit



um till. til þál. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Broddadóttur, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, Braga Guðbrandsson, forstjóra Barnaverndarstofu, Sigrúnu Júlíusdóttur, dósent í félagsvísindadeild HÍ, Láru Björnsdóttur, félagsmálastjóra Reykjavíkurborgar, Rannveigu Traustadóttur, lektor í félagsvísindadeild HÍ, Guðmund Gunnarsson frá samtökum aldraðra, Jónínu Bjartmarz frá Heimili og skóla, Sigurð Svavarsson frá karlanefnd Jafnréttisráðs, Ásþór Ragnarsson sálfræðing, Kristínu Jónasdóttur, Hrefnu Friðriksdóttur og Sólveigu Ásgríms frá Barnaheillum, Brynjólf Brynjólfsson frá Samvist, Pétur Lúðvígsson barnalækni, sr. Karl Sigurbjörnsson og sr. Þorvald Karl Helgason. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Sigrúnu Júlíusdóttur dósent og sr. Þorvaldi Karli Helgasyni.
    Í nefndinni var sérstaklega rætt um fjölskylduhugtakið og vill hún leggja áherslu á að hugtakið hefur öðlast víðtækari merkingu á síðustu áratugum. Skilgreining á fjölskylduhugtakinu var m.a. sett þannig fram af Landsnefnd um ár fjölskyldunnar 1994 að fjölskyldan sé hópur einstaklinga sem á sameiginlegt heimili þar sem þeir deila tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Fjölskyldumeðlimir séu oftast fullorðnar manneskjur af báðum kynjum, eða einstaklingar, ásamt barni eða börnum (þeirra).
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagt er til að í I. kafla tillögunnar verði ekki einungis talað um fjölskylduna sem hornstein íslensks samfélags heldur og sem uppsprettu lífsgilda. Þá er lagt til að það verði ekki einungis falið ríkisstjórn á hverjum tíma að marka opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar heldur og sveitarstjórnum og að slík stefna skuli ekki einungis miða að því að styrkja fjölskylduna og vernda án tillits til gerðar hennar heldur og án tillits til búsetu. Þá er og lagt til að ein af þeim meginforsendum sem fjölskyldustefna taki mið af verði sú að fjölskyldulífið veiti öllum einstaklingum, einkum þó börnum, öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika sína til hins ítrasta.
    Nefndin leggur til að eitt af almennum markmiðum stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu, sbr. ákvæði II. kafla tillögunnar, skuli vera það að varðveita gildi hjónabandsins sem eins traustasta hornsteins fjölskyldunnar og sérstaklega skuli gætt að því við setningu skattareglna að þeir sem velja það að ganga í hjónaband standi ekki hlutfallslega verr að vígi en aðrir í skattalegu tilliti. Þá vill nefndin leggja áherslu á að upplýsingar og fræðsluefni um samanburð á réttarstöðu fólks í hjúskap og óvígðri sambúð þurfi að liggja fyrir og bendir á nauðsyn þess að slíkt efni verði kynnt almenningi. Einnig er lagt til að það verði eitt af almennum markmiðum stjórnvalda að fjölskyldur sjúkra og annarra hópa eftir því sem við á skuli, eins og fjölskyldur fatlaðra, njóta nauðsynlegs stuðnings í ljósi aðstæðna hverju sinni. Enn fremur verði að efla skilning á eðli fjölskyldunnar, hlutverki, myndun og upplausn. Þetta verði m.a. gert með fræðslu um fjölskylduáætlanir, en með því er átt við einstaklingsbundnar fjölskylduáætlanir um t.d. takmörkun barneigna, fjölskyldumyndun og ábyrgð.
    Með hliðsjón af framangreindri breytingu, varðandi skyldu sveitarstjórna til að marka opinbera fjölskyldustefnu, er lagt til að sveitarfélögin eigi fulltrúa í fjölskylduráði, sbr. ákvæði III. kafla tillögunnar. Varðandi skipan fjölskylduráðs er auk þess gert ráð fyrir því að einn af fulltrúum ráðsins verði tilnefndur af skólum á háskólastigi en tilnefningin ekki takmörkuð við fulltrúa frá Háskóla Íslands. Þá verði það gert að skilyrði að fulltrúar sem sæti eiga í fjölskylduráði hafi víðtæka þekkingu eða reynslu af málefnum fjölskyldunnar. Nefndin leggur einnig til að eitt af hlutverkum fjölskylduráðs verði, auk þess að eiga frumkvæði að opinberri umræðu um málefni fjölskyldunnar, að veita leiðbeinandi upplýsingar til fjölskyldna um viðbrögð við nýjum og breyttum aðstæðum.
    Þá er lagt til að staða og afkoma barnafjölskyldna í nútímasamfélagi verði könnuð sérstaklega og að fastar verði kveðið að orði varðandi rétt feðra til fæðingarorlofs. Lagt er til að í stað þess að ganga út frá því að ríkisstjórnin skapi skilyrði sem tryggi feðrum aukinn rétt til fæðingarorlofs skuli feðrum tryggður aukinn réttur til fæðingarorlofs og þeir sérstaklega hvattir til að nýta hann. Loks er lagt til að í stað þess að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981, skuli slík skilyrði sköpuð.
    Einstakir nefndarmenn skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur og fylgja þeim.

Alþingi, 5. maí 1997.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Siv Friðleifsdóttir.

Arnbjörg Sveinsdóttir.


form., frsm.



Magnús Stefánsson.

Einar K. Guðfinnsson.

Pétur H. Blöndal.



Kristján Pálsson.

Bryndís Hlöðversdóttir,

Rannveig Guðmundsdóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.