Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 241 . mál.


1113. Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62 17. maí 1990 (starfsþjálfun guðfræðikandídata).

Frá minni hluta allsherjarnefndar.


    Nefndin fjallaði um málið, fékk gesti á sinn fund, sbr. nefndarálit meiri hluta allsherjarnefndar, og fór yfir umsagnir sem bárust frá leikmannaráði þjóðkirkjunnar, biskupi Íslands og guðfræðideild Háskóla Íslands.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að starfsþjálfun guðfræðikandídata verði tveir mánuðir í stað fjögurra áður. Ástæða styttingarinnar er sú að kostnaður við starfsþjálfunina hefur farið fram úr áætlunum þar sem kandídatar eru helmingi fleiri en áætlað var.
    Þó að ákvæði þessu sé aðeins ætlaður stuttur líftími, þar sem í frumvarpi um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar er gert ráð fyrir að ný ákvæði um starfsþjálfun verði sett í starfsreglur, telur minni hlutinn rétt að taka undir með guðfræðideild Háskóla Íslands og leggjast gegn þessari breytingu. Meginrökin eru þau að almennt þykir æskilegt að vanda vel til starfsþjálfunar í námi guðfræðikandídata sem annarra og ekki verður séð að hægt verði að ná sömu eða bættri starfsþjálfun á helmingi styttri tíma. Samþykkt frumvarpsins má skilja sem skilaboð um að þingið telji rétt að minnka þessa starfsþjálfun. Guðfræðideild háskólans, sem ber ábyrgð á menntun guðfræðikandídata, er ekki þeirrar skoðunar og minni hlutinn ekki heldur. Sá kostnaður sem um ræðir kemur úr kirkjumálasjóði og hefur væntanlegur sparnaður því ekki áhrif á ríkissjóð.

Alþingi, 7. maí 1997.


Guðný Guðbjörnsdóttir,

Jóhanna Sigurðardóttir.

Ögmundur Jónasson.

frsm.