Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 354 . mál.


1160. Nefndarálit



um till. til þál. um stofnun Stephansstofu.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Valgeir Þorvaldsson frá Vesturfarasetrinu á Hofsósi. Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Valgeir Þorvaldssyni, Útflutningsráði Íslands, Háskólanum á Akureyri, stjórn Snorra Þorfinnssonar ehf. og Ferðamálaráði.
    Nefndin leggur til að sérstaklega verði kannaðar leiðir til þess að efla starfsemi Vesturfarasetursins á Hofsósi með því að setja á stofn sérstaka skrifstofu er sjái um samskipti við fólk af íslenskum ættum í Bandaríkjunum og Kanada.
    Í tillögugreininni er kveðið á um mun víðtækara verksvið skrifstofunnar auk þess sem ekki var gert ráð fyrir að tengja þá starfsemi við Vesturfarasetrið á Hofsósi.
    Nefndin telur nauðsynlegt að skilgreina betur þá athugun sem gerð yrði og einskorða hana við Íslendinga í Vesturheimi. Enn fremur telur nefndin eðlilegt að slík starfsemi verði í tengslum við Vesturfarasetrið á Hofsósi. Hluti þeirrar starfsemi sem tillögugreinin mælir fyrir um er nú þegar unninn á Hofsósi á vegum Vesturfarasetursins, auk þess sem þar hefur þegar verið hafinn undirbúningur vegna málsins að öðru leyti.
    Með hliðsjón af því að opinberir aðilar hafa einnig unnið að skráningu fólks af íslenskum ættum vestan hafs er eðlilegt að kannað sé hvernig tengja megi þá vinnu við það starf sem þegar er hafið og ætlunin er að efla enn frekar við Vesturfarasetrið á Hofsósi.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að kanna hvernig unnt sé að efla starfsemi Vesturfarasetursins á Hofsósi með því að setja á stofn sérstaka skrifstofu, kennda við Stephan G. Stephansson, sem sæi um samskipti við fólk af íslenskum ættum í Bandaríkjunum og Kanada.
    
    Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.
    Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. maí 1997.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Egill Jónsson.


form., frsm.



Stefán Guðmundsson.

Árni Johnsen.

Ragnar Arnalds.



Guðmundur Árni Stefánsson.

Ásta R. Jóhannesdóttir.