Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 104 . mál.


1166. Nefndarálit



um till. til þál. um olíuleit við Ísland.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið umsagnir frá Hafrannsóknastofnuninni, Náttúrufræðistofnun Íslands og Orkustofnun. Í greinargerð Orkustofnunar um olíuleit við Ísland kemur fram að eiginleg olíuleit hafi ekki farið fram á íslenskum hafsvæðum í þeim skilningi sem olíuiðnaðurinn leggur í hugtakið. Aftur á móti hafi verið stundaðar frumkannanir af því tagi sem opinberar jarðfræðistofnanir í hverju ríki leitast við að halda uppi. Fram kemur að kostnaður við eiginlega olíuleit er óhemjumikill og að ekki verði ráðist í slíkar rannsóknir nema verulega sterkar vísbendingar liggi fyrir um að olíu sé að finna. Náttúrufræðistofnun bendir á að líkurnar á því að olía eða gas finnist hér á landi séu of litlar til að réttlæta þann mikla kostnað sem óhjákvæmilega fylgdi slíkum rannsóknum. Hafrannsóknastofnunin bendir á að ef vilji er til að hleypa nýjum þrótti í olíuleit við Ísland er eðlilegt að nokkrum tíma yrði varið til undirbúnings, sem fælist í því m.a. að skilgreina verkefni og forgangsröðun, kanna áhuga erlendra aðila til samstarfs og afmarka valkosti í rannsóknum og áætla kostnað við þá. Í niðurlagi greinargerðar með tillögunni kemur reyndar fram að flutningsmenn telja eðlilegt að ríkisstjórnin skipi starfshóp vísindamanna er ynni að framgangi málsins og fylgdist með störfum erlendra rannsóknaraðila. Orkustofnun bendir á að nú þegar sé starfandi nefnd um vísindalegar hafsbotnsrannsóknir á vegum Rannsóknarráðs Íslands. Fram til 1993 starfaði sérstök hafsbotnsnefnd á vegum iðnaðarráðuneytisins en hún var ekki endurskipuð er umboð hennar rann út.
    Nefndin telur að hér sé um mikilvægt mál að ræða og að nauðsynlegt sé fyrir íslensk stjórnvöld að halda vöku sinni í því. En með vísan til framangreindra umsagna telur nefndin eðlilegt að iðnaðarráðherra verði falið að skipa starfshóp er meti hvort hefja skuli markvissar olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands. Slíkur hópur þyrfti m.a. að vera skipaður vísindamönnum frá opinberum stofnunum sem fengist hafa við rannsóknir á þessu sviði og þeim sem eiga sæti í nefnd Rannsóknarráðs um vísindalegar hafsbotnsrannsóknir.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að skipa starfshóp með þátttöku vísindamanna er meti hvort rétt sé að hefja markvissar rannsóknir á því hvort olía eða gas finnst á land-
grunni Íslands. Hópurinn meti sérstaklega þau svæði á landgrunninu sem fyrirliggjandi rannsóknir benda til að líklegust séu til að geyma olíu eða gas.

Alþingi, 7. maí 1997.



Stefán Guðmundsson,

Sighvatur Björgvinsson.

Guðjón Guðmundsson.


form., frsm.



Svavar Gestsson,

Hjálmar Árnason.

Sigríður A. Þórðardóttir.


með fyrirvara.



Jóhanna Sigurðardóttir.

Árni R. Árnason.

Pétur H. Blöndal.