Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 493 . mál.


1169. Nefndarálit



um frv. til l. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Kolbeinsson og Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti og Auðun Ágústsson frá Fiskistofu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Eyþingi, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum dragnótamanna, Siglingastofnun Íslands, Sjómannasambandi Íslands, smábátafélaginu Hörpu í Bolungarvík, Sveinbirni Jónssyni í Súgandafirði, Útvegsmannafélagi Snæfellsness, Vélstjórafélagi Íslands og útgerðum togbátanna Danska Péturs VE 423, Drangavíkur VE 80, Frás VE 78, Freyju RE 38, Ófeigs VE 325, Þinganess SF 25 og Þórs Péturssonar GK 504.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 5. gr. A- og b-liður breytingartillagnanna lúta að því að bæta við þeim skipum er falla undir 2. og 3. flokk 2. mgr. og hafa heimild til veiða með botnvörpu, flotvörpu og dragnót innan fiskveiðilandhelginnar. Í c-lið er lögð til orðalagsbreyting á 3. mgr. 5. gr. til að gera ákvæðið skýrara. Í d-lið er lögð til lagfæring á 4. mgr. 5. gr. þannig að ekki fari milli mála að einungis sé haldin skrá yfir þau skip sem falla undir greinina. Jafnframt þykir eðlilegt að Siglingastofnun Íslands haldi skrána í stað Fiskistofu eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Í e-lið er lagt til að við flokk 3 í F-lið (Breiðafjörður) bætist nýtt hólf á tímabilinu 1. september–31. desember. Loks er lagt til í f-lið að úr frumvarpinu falli brott hólf fyrir flokka 2 og 3 utan Vestfjarða (G.2).
    Lagt er til að orðalag 12. gr. verði mildað þannig að skipstjóra verði falið að meta í hvert sinn hvort hann geti orðið við tilmælum veiðieftirlitsmanns um að kasta út eða leggja veiðarfæri á tilteknu svæði í tilraunaskyni.
    Lagt er til að auk Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu geti Landhelgisgæslan haft eftirlit með þeim veiðitilraunum og vísindarannsóknum í fiskveiðilandhelginni sem ráðherra hefur veitt heimild fyrir, sbr. 13 gr.
    Lögð er til lagfæring á orðalagi 14. gr.
    Lögð er til leiðrétting á tilvísun í 21. gr.
    Lögð er til breyting á gildistökuákvæði með hliðsjón af því að breytingartillögur við 2. mgr. 5. gr. þurfa strax að taka gildi. Lögin í heild koma hins vegar ekki til framkvæmda fyrr en í upphafi næsta árs.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða falli brott. Ákvæðið mælir fyrir um tímabundnar heimildir fyrir tiltekinn hóp skipa. Ekki verður lengur þörf fyrir ákvæðið þar sem í breytingartillögum við 5. gr. er lagt til að þessum skipum verði bætt við flokka 2 og 3.
    Loks vill nefndin taka fram að í framhaldi af lögfestingu þessa frumvarps er eðlilegt að hugað verði að breytingum á lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25/1967, vegna samspils þessara tveggja lagabálka.

Alþingi, 12. maí 1997.



Steingrímur J. Sigfússon,

Árni R. Árnason.

Stefán Guðmundsson.


form., frsm.



Guðmundur Hallvarðsson.

Einar Oddur Kristjánsson.

Hjálmar Árnason.



Lúðvík Bergvinsson.

Vilhjálmur Egilsson.

Sighvatur Björgvinsson.