Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 410 . mál.


1171. Nefndarálit



um frv. til lögræðislaga.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Drífu Pálsdóttur frá dómsmálaráðuneyti. Enn fremur komu til fundar Friðrik Sigurðsson og Svanfríður Larsen frá Þroskahjálp, og Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna, og frá Geðlæknafélagi Íslands komu Magnús Skúlason, Halldóra Ólafsdóttir og Kristófer Þorleifsson. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um frumvarpið frá Félagi íslenskra heimilislækna, starfshópi um málefni geðsjúkra, barnaverndarráði, Barnaverndarstofu, Landssambandi lögreglumanna, Bandalagi íslenskra skáta, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Lögmannafélagi Íslands, Barnaheillum, Dómarafélagi Íslands, Þroskahjálp, Geðhjálp, Foreldrafélagi Gagnfræðaskóla Akureyrar, Öryrkjabandalagi Íslands og Heimili og skóla.
    Með frumvarpinu er lögð til ný heildarlöggjöf um lögræði. Meðal helstu nýmæla þess er að mun ítarlegri reglur um nauðungarvistanir og meðferð lögræðismála fyrir dómstólum eru í frumvarpinu en í gildandi lögum og miða reglurnar að því að tryggja betur réttarstöðu nauðungarvistaðra og þeirra sem krafist er að sviptir verði lögræði. Mikilvægt nýmæli frumvarpsins er einnig að þeir sem eru fjárráða en eiga erfitt með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar geta fengið skipaðan ráðsmann er fari með fjármál þeirra að því er varðar tilteknar eignir. Í frumvarpinu er nýmæli um tímabundna sviptingu lögræðis og heimild til að svipta menn fjárræði einungis að því er varðar tilteknar eignir hans. Þá er lagt til að settar verði reglur um rétt nauðungarvistaðs manns til að njóta stuðnings og ráðgjafar sérstaks ráðgjafa vegna sjúkrahúsdvalarinnar. Einnig er að finna það nýmæli í frumvarpinu að dómari getur skipað sóknaraðila talsmann ef hann óskar eftir því. Þá eru í frumvarpinu ítarlegri reglur um lögráðamenn en í núgildandi lögum, einkum um lögborna lögráðamenn, og mikilvægt nýmæli um að þóknun til skipaðs lögráðamanns megi greiða úr ríkissjóði ef sérstaklega stendur á.
    Miklar umræður urðu í nefndinni um hækkun sjálfræðisaldurs, en frumvarpið gerir ráð fyrir að hann miðist áfram við 16 ár. Komu fram rök bæði með og á móti hækkun sjálfræðisaldurs, en mælt var með hækkun í nær öllum umsögnum sem nefndinni bárust. Þá hefur nefndin einnig haft til umfjöllunar 49. mál, en þar leggja flutningsmenn til hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár. Allsherjarnefnd bárust alls tíu umsagnir um það mál og mæltu níu umsagnaraðilar af tíu með breytingunni, en ekki var tekin afstaða til málsins í umsögn dómsmálaráðuneytisins. Umsagnaraðilar sem mæltu með hækkun sjálfræðisaldurs voru Barnaheill, Heimili og skóli, Félag framhaldsskólanema, Sýslumannafélag Íslands, Félagsmálastjóri Akureyrar, Félagsmálastofnun Hafnarfjarðar, Félagsmálastofnun Kópavogs, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Barnaverndarstofa. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár og þykir nefndinni rétt að ákvörðun um þetta atriði komi til atkvæða í þinginu.

Prentað upp.

    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Helstu atriði breytingartillagna nefndarinnar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að sjálfræðisaldur verði hækkaður í 18 ár. Í athugasemdum við I. kafla frumvarpsins eru reifuð ítarleg rök bæði með og á móti hækkun sjálfræðisaldurs sem ýmsar stofnanir, félög og samtök færðu fram í umsögnum sínum til nefndar þeirrar er frumvarpið samdi. Meiri hluti umsagnaraðila mælti með hækkun sjálfræðisaldurs en enginn mælti gegn hækkuninni. Nefndin, sem samdi frumvarpið, tók ekki afstöðu til þess álitaefnis hvort hækka bæri sjálfræðisaldurinn og gekk þannig frá málinu að samin voru tvö frumvörp sem voru efnislega eins að öðru leyti en því er þetta efni varðar. Þá liggur fyrir að verkefnisstjórn dómsmálaráðherra vegna átaks í ávana- og fíkniefnavörnum lagði til í skýrslu sinni, sem hún sendi frá sér í júní 1996, að sjálfræðisaldur yrði hækkaður í 18 ár. Helstu rök, sem færð hafa verið fyrir hækkun sjálfræðisaldurs, eru að þjóðfélagsaðstæður hafi breyst á síðustu árum. Þorri íslenskra ungmenna búi nú í foreldrahúsum fram undir tvítugt og njóti stuðnings foreldra sinna. Þannig hafi sjálfræði aðeins táknrænt gildi fyrir þennan hóp. Einnig hefur verið bent á að með minnkandi atvinnumöguleikum ungmenna og lengri skólagöngu hafi aðstæður þeirra breyst og fæst þeirra séu fær um að framfæra sig sjálf eða reka heimili. Þá hefur verið á það bent að hið íslenska fyrirkomulag sé ekki í samræmi við löggjöf í nágrannalöndum okkar þar sem sjálfræðisaldur er 18 ár, en komið hefur fram í nefndinni að fjölskyldur sem flytjast til Norðurlanda geta lent í vandræðum vegna þessa misræmis. Þá hafa verið færð rök fyrir því að rétt sé að fylgja meginreglu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem allir einstaklingar undir 18 ára aldri séu skilgreindir sem börn. Einnig hefur verið bent á að óeðlilegt misræmi felist í því að forsjárskyldur falli niður við 16 ára aldur barna, en framfærsluskylda haldist til 18 ára aldurs. Þá hefur verið bent á að á grundvelli barnaverndarsjónarmiða sé rétt að hækka sjálfræðisaldurinn þar sem barnaverndarnefndir geti ekki haft afskipti af málefnum unglings sem náð hefur 16 ára aldri nema með samþykki hans. Þannig geti meðferðarstarf, sem hafið er fyrir 16 ára aldur, glatast þar sem unglingur rjúfi oft öll tengsl við meðferðaraðila í krafti fengins sjálfræðis. Þannig ætti að verða auðveldara að beita viðeigandi stuðningsúrræðum í barnaverndarmálum ef sjálfræðisaldurinn er hækkaður. Loks má nefna að bent hefur verið á hvað varðar afbrot og vímuefnaneyslu ungmenna á aldrinum 16–18 ára að auðveldara geti verið að ná til og grípa í taumana hjá einstaklingum á þessum aldri ef sjálfræðisaldur verður hækkaður.
                  Helstu rök, sem færð hafa verið gegn hækkun sjálfræðisaldurs, lúta að því að með hækkuninni sé verið að svipta stóran hóp ungmenna rétti til að takast á við sjálfsábyrgð. Einnig hafa verið sett fram þau rök að með hækkun sjálfræðisaldurs sé einkum verið að reyna að ná til hóps unglinga sem sé á villigötum vegna afbrota og neyslu vímuefna. Þá hafa verið færð fram þau rök að skólaskyldu barna ljúki við 16 ára aldur, og að ekki sé óeðlilegt að sjálfræði og skólaskylda fari saman. Í því sambandi er þó rétt að geta þess að skólaskyldu á Norðurlöndum lýkur við 16 ára aldur þó að unglingar verði ekki sjálfráða fyrr en 18 ára. Þá er það af sumum talinn kostur að ungmenni öðlist sjálfstæði stig af stigi þannig að þau fái fyrst sjálfræði og síðan fjárræði og þar með lögræði. Þá hafi sýnt sig að oftar en ekki hafi 16 ára aldurinn í för með sér aukna ábyrgð á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
                  Að öllu þessu athuguðu telur allsherjarnefnd rétt að leggja til hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár.
    Lögð er til breyting við 4. mgr. 10. gr. í samræmi við ábendingar Dómarafélags Íslands. Lýtur breytingin að málsmeðferð í lögræðissviptingarmálum og felst í því að dómara er skylt að lokinni rannsókn máls að gefa aðilum kost á að flytja málið munnlega. Telja verður að slík breyting geti leitt til skilvirkari málsmeðferðar. Bendir Dómarafélagið á að reynslan hafi leitt í ljós að það fyrirkomulag að viðhafa skriflega vörn í lögræðissviptingarmálum geti leitt til seinkunar á lyktum máls.
    Þá felast breytingarnar í því að lagt er til að sá tími, sem nauðungarvistun sem dómsmálaráðuneytið getur heimilað skv. 3. mgr. 19. gr., verði lengdur úr 15 sólarhringum í 21 sólarhring. Fram kom hjá fulltrúum Geðlæknafélags Íslands sem komu á fund nefndarinnar að lenging þessi væri mjög æskileg þar sem áhrifa lyfjameðferðar sé ekki alltaf farið að gæta að fullu eftir 15 sólarhringa. Mæltu þeir þar af leiðandi með því að tími nauðungarvistunar yrði lengdur í 21 sólarhring og byggjast tillögur nefndarinnar á þessum ábendingum, en gera þarf breytingar á 19. og 29. gr. vegna þessa.
    Einnig felast tillögur nefndarinnar í því að gerð verði breyting á 3. mgr. 30. gr. þess efnis að við greinina bætist ákvæði um að í kröfu um að nauðungarvistun verði aflétt komi fram hvort óskað er skipunar ákveðins talsmanns og ef svo er hver það eigi að vera. Barst nefndinni ábending um þessa breytingu frá Dómarafélagi Íslands. Til grundvallar henni liggur það sjónarmið að það sé í þágu skjóts framgangs málsins og til frekari hagræðingar að dómari geti skipað nauðungarvistuðum manni talsmann um leið og honum berst krafa um að nauðungarvistun verði aflétt. Í samræmi við þessa breytingu leggur nefndin til smávægilega breytingu á 1. mgr. 31. gr.
    Breytingartillaga við 2. mgr. 51. gr. tengist tillögunni um hækkaðan sjálfræðisaldur. Við hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár falla forsjá barna og fjárhald niður við sömu aldursmörk og á því 2. málsl. 2. mgr. 51. gr. ekki lengur við.
    Einnig er lögð til breyting á 2. mgr. 58. gr. er tengist tillögunni um hækkaðan sjálfræðisaldur. Með hækkuðum sjálfræðisaldri kemur að sjálfsögðu ekki til þess að ungmenni undir 18 ára aldri verði svipt sjálfræði sínu og á því heimildin til að vista sjálfræðissviptan mann nauðugan á heimili eða stofnun sem rekin er samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna ekki við. Sú heimild, sem 2. mgr. 58. gr. veitir til að vista sjálfræðissviptan mann á stofnun, að skilyrðum ákvæðisins fullnægðum, er því bundin við stofnanir sem reknar eru samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eða lögum um málefni fatlaðra.
    Tillaga um ákvæði til bráðabirgða er einnig tengd tillögunni um hækkaðan sjálfræðisaldur. Með þessu ákvæði er lagt til að þeir sem öðlast hafa sjálfræði samkvæmt ákvæðum laga nr. 68/1984 haldi því. Þetta hefur eingöngu þýðingu varðandi ungmenni sem náð hafa 16 ára aldri við gildistöku laganna, en eru ekki orðin 18 ára. Unglingur, sem fæddur er 31. desember 1981 og verður því 16 ára á gamlársdag 1997, öðlast sjálfræði samkvæmt ákvæðum laga nr. 68/1984 og heldur því þrátt fyrir gildistöku nýrra laga þar sem mælt er fyrir um 18 ára sjálfræðisaldur. Unglingur, sem fæddur er 1. janúar 1982 og verður því 16 ára 1. janúar 1998, öðlast hins vegar ekki sjálfræði fyrr en að tveimur árum liðnum, þ.e. þegar hann nær 18 ára aldri, þar sem gildistaka laganna miðast við 1. janúar 1998. Ljóst er að hér skapast ákveðið tímabundið misræmi. Hjá því er hins vegar örðugt að komast þegar lagt er til að sjálfræðisaldur verði hækkaður. Sú lagaskilaregla sem hér er lögð til byggist að meginstofni á því sjónarmiði að þeir unglingar, sem öðlast hafa sjálfræði í gildistíð gildandi lögræðislaga, verði ekki sviptir þeim réttindum.
    Loks telur nefndin rétt að benda á að samhliða hækkun sjálfræðisaldurs þarf að huga að breytingu á ákvæðum annarra laga þó að nefndin telji ekki nauðsynlegt að gera þessar breytingar þegar í stað.
    Fyrirvari Hjálmars Jónssonar og Árna R. Árnasonar lýtur að hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár og styðja þeir ekki breytingartillögur þar að lútandi.

Alþingi, 9. maí 1997.



Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir.


form., frsm.



Jón Kristjánsson.

Árni R. Árnason,

Guðný Guðbjörnsdóttir.


með fyrirvara.



Kristján Pálsson.

Ögmundur Jónasson.

Hjálmar Jónsson,


með fyrirvara.