Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 483 . mál.


1177. Nefndarálit



um till. til þál. um hafnaáætlun 1997–2000.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Guðjónsson og Jón Leví Hilmarsson frá Siglingastofnun Íslands, Sigurð Þórðarson og Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun, Jón Gunnar Stefánsson og Margréti Gunnarsdóttur frá Grindavíkurbæ og Eyjólf Sæmundsson og Má Sveinbjörnsson frá Hafnarfjarðarkaupstað. Umsagnir um tillöguna bárust nefndinni frá Siglingastofnun Íslands, Hafnasamlagi Suðurnesja, Hafnarfjarðarhöfn og Seyðisfjarðarkaupstað.
    Samkvæmt 24. gr. hafnalaga, nr. 23/1994, með síðari breytingum, skal Siglingastofnun Íslands gera sérstaka fjögurra ára áætlun um hafnaframkvæmdir á tveggja ára fresti. Við áætlunargerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild og ber Siglingastofnun við áætlunargerðina að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórn, Hafnasamband sveitarfélaga og hafnaráð. Áætlunin skal síðan lögð fyrir Alþingi til samþykktar í formi þingsályktunartillögu.
    Hafnaáætlun, sem verk- og kostnaðaráætlun samþykktri af Alþingi, verður ekki hrint í framkvæmd nema fyrir liggi nauðsynlegar greiðsluheimildir í fjárlögum. Hafnaáætlun hefur aldrei verið samþykkt með þeim hætti sem hafnalög gera ráð fyrir. Skuldbindingar ríkisins vegna hafnaframkvæmda námu um síðustu áramót 728,3 millj. kr. Frammi fyrir þessum vanda stendur fjárveitingavaldið nú. Því taldi nefndin nauðsynlegt að fjalla ítarlega um stöðu og framkvæmd áætlunarinnar. Vegna aðstæðna er sífellt koma upp er ljóst að óhjákvæmilegt mun reynast að gera breytingu á hafnaáætlun á gildistíma hennar. Mikilvægt er því að fyrir liggi við samþykkt hafnaáætlunar um hvernig afgreiða beri slík frávik.
    Sé um að ræða beiðnir, er fela í sér breytingu á framkvæmdaröðun, án þess að það raski fjárveitingu yfirstandandi árs, er eðlilegt að þær fari fyrir hafnaráð, sem starfar samkvæmt lögum um Siglingastofnun Íslands, að höfðu samráði við samgöngunefnd Alþingis.
    Komi upp þær aðstæður að nauðsynlegt reynist að ráðast í framkvæmdir fyrr en hafnaáætlun gerir ráð fyrir ber að leggja áherslu á að sveitarfélag getur ekki tekið ákvarðanir þar að lútandi sem skuldbinda ríkissjóð. Samkvæmt hafnalögum er hafnastjórn óheimilt að hefja kostnaðarsamar framkvæmdir án samþykkis ráðuneytisins, en sveitarfélög eru framkvæmdaraðili í hafnamálum. Semji sveitarfélag um að flýta eða ljúka framkvæmdum og annast fjármögnun á hlut ríkisins fyrr en hafnaáætlun gerir ráð fyrir leggur nefndin til að slíkt komi til umsagnar samgöngunefndar Alþingis áður en heimild er veitt skv. 20. gr. hafnalaga. Engu að síður er áhættan af síðbúnu samþykki Alþingis á fjárframlagi til verksins sveitarfélagsins. Í þessu efni þarf að huga að lögum um opinberar framkvæmdir auk hafnalaga en þar er m.a. að finna áskilnað um að fé til framkvæmda af þessu tagi skuli tryggt áður en hafist er handa.
    Varðandi þá spurningu hvort samgönguráðuneyti og Siglingastofnun sé heimilt að leyfa sveitarfélagi að hefja framkvæmd sem ekki er inni á samþykktri hafnaáætlun verður að telja slíkt óeðlilegt í ljósi hugsunarinnar að baki hafnaáætlunar og í raun hafnalaga. Alþingi gegnir lykilhlutverki í þessu efni og ef framkvæmd er hvorki á hafnaáætlun né á fjárlögum getur hvorki samgönguráðuneytið né Siglingastofnun tekið skuldbindandi ákvarðanir um þær fyrir ríkissjóð.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Breytingarnar taka allar mið af því að framlag ríkisins til hafnaframkvæmda verði hið sama og tillagan gerir ráð fyrir en um nokkrar tilfærslur verkefna er að ræða. Breytingarnar eru eftirfarandi:
    Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við hafnarframkvæmdir í Snæfellsbæ árið 1997 hækki úr 14,9 millj. kr. í 21,4 millj. kr. vegna endurbyggingar á trébryggju í smábátahöfn í stað grjótgarðs á sama stað. Í stað flotbryggju á Rifi komi síðan flotbryggja í Ólafsvík.
    Lagt er til að verkefni verði flutt á milli ára á Tálknafirði og í Súðavík. Í stað þess að steypa þekju á stálþil á Tálknafirði árið 1997 verði byggður skjólgarður í smábátahöfn og í stað þess að lengja trébryggju árið 1997 í Súðavík verði styrktur og lengdur brimvarnargarður.
    Þá er lögð til tilfærsla verkefna á Hvammstanga og Skagaströnd. Norðurgarður á Hvammstanga hefur verið endurhannaður og ljóst er að framkvæmd við hann verður ódýrari en áætlað var. Í stað þess verða fjármunir settir í dýpkun hafnar á Hvammstanga árin 1999–2000 og verklok vegna grjótvarnar á Skagaströnd.
    Lagt til að bætt verði við liðnum Smábátaaðstaða innan Nausthamarsbryggju, grjóthleðsla og frágangur, undir liðnum Suðurland, Vestmannaeyjar. Til framkvæmda þar verði settar 5 millj. kr. sem skiptast á milli áranna 1998 og 1999–2000 og í staðinn er lækkað framlag sem þeirri fjárhæð nemur til endurbyggingar Nausthamarsbryggju.
    Loks er lagt til að bætt verði inn liðnum Stálþil Háabakka; rammað þil og steyptur kantur (120 m), undir liðnum Reykjanes, Hafnarfjörður. Kostnaður við framkvæmdina er áætlaður 63,3 millj. kr. og er gert ráð fyrir að greiðsluþátttaka ríkissjóðs verði 30% eða 19 millj. kr. Jafnframt verði frestað fram yfir lok áætlunartímabilsins uppgjöri á 19 millj. kr. skuld ríkissjóðs við Hafnarfjarðarhöfn.

Alþingi, 9. maí 1997.



Einar K. Guðfinnsson,

Magnús Stefánsson.

Egill Jónsson.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Stefán Guðmundsson.

Kristján Pálsson.



Guðmundur Árni Stefánsson.

Ragnar Arnalds.

Ásta R. Jóhannesdóttir.