Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 260 . mál.


1191. Breytingartillögur



við frv. til l. um réttindi sjúklinga.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Við 2. gr. 4. mgr. orðist svo:
                   Vísindarannsókn: Rannsókn sem gerð er til að auka við þekkingu sem m.a. gerir kleift að bæta heilsu og lækna sjúkdóma. Mat vísindasiðanefndar eða siðanefndar skv. 29. gr. á rannsókninni verður að hafa leitt í ljós að vísindaleg og siðfræðileg sjónarmið mæli ekki gegn framkvæmd hennar.
    Við 3. gr.
         
    
    1. mgr. falli brott.
         
    
    Í stað orðsins „meðferð“ í 2. mgr. komi: heilbrigðisþjónustu.
         
    
    Í stað orðanna „meðferð og aðbúnaði“ í 3. mgr. komi: þjónustu.
         
    
    4. mgr. orðist svo:
                            Sjúklingur á rétt á samfelldri þjónustu og að samstarf ríki milli allra heilbrigðisstarfsmanna og stofnana sem hana veita.
    Við 4. gr. Við greinina bætist nýr málsliður er orðist svo: Jafnframt skal leitast við að veita almenningi upplýsingar um orsakir og afleiðingar sjúkdóma hjá börnum og fullorðnum.
    Við 5. gr.
         
    
    1. mgr. falli brott.
         
    
    Inngangsmálsliður 2. mgr. orðist svo: Sjúklingur á rétt á upplýsingum um.
    Við 6. gr. Í stað orðanna „nánasta vandamanni“ í 3. mgr. komi: nánum vandamanni.
    Við 8. gr.
         
    
    Í stað orðsins „heilbrigðisstarfsmaður“ í 1. mgr. komi: læknir.
         
    
    2. mgr. orðist svo:
                            Sjúklingur getur stöðvað meðferð hvenær sem er, nema á annan hátt sé mælt í öðrum lögum. Hafni sjúklingur meðferð skal læknir hans eða sá heilbrigðisstarfsmaður sem stjórnar meðferðinni upplýsa sjúkling um hugsanlegar afleiðingar þeirrar ákvörðunar. Um höfnun á meðferð sjúkra barna gilda ákvæði 26. gr.
    Við 10. gr. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám, þar með töldum lífsýnum, vegna vísindarannsókna gilda ákvæði 15. gr.
    Við 14. gr. Greinin orðist svo:
                  Sjúkraskrá skal varðveita á heilbrigðisstofnun þar sem hún er færð eða hjá lækni eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni sem hana færir á eigin starfsstofu.
                  Skylt er lækni og öðrum sem færa sjúkraskrá að sýna hana sjúklingi eða umboðsmanni hans, í heild eða að hluta, og afhenda þeim afrit skrárinnar sé þess óskað. Sama gildir gagnvart opinberum aðilum sem lögum samkvæmt athuga kæru sjúklings eða umboðsmanns vegna meðferðar. Heimilt er að taka gjald fyrir afrit af sjúkraská samkvæmt ákvæðum 12. gr. upplýsingalaga.
                  Upplýsingar í sjúkraskrá, sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum, skal ekki sýna honum nema með samþykki þess sem upplýsingarnar gaf. Ef sá sem þannig hefur veitt upplýsingar um sjúkling er látinn eða horfinn eða neitar á óréttmætum grundvelli að veita samþykki sitt getur landlæknir ákveðið að sjúklingi eða umboðsmanni hans skuli veittur aðgangur að umræddum upplýsingum, í heild eða að hluta.
                  Telji læknir að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að afhenda framangreindum aðilum afrit sjúkraskrár skal án tafar framsenda landlækni afrit sjúkraskrárinnar til frekari afgreiðslu.
                  Landlæknir skal innan átta vikna ákveða hvort viðkomandi fái afrit sjúkraskrárinnar. Synjun landlæknis má skjóta til úrskurðar heilbrigðisráðherra.
                  Ráðherra setur nánari reglur um afhendingu og varðveislu sjúkraskráa, að fengum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands.
    Við 15. gr. Greinin orðist svo:
                  Þess skal gætt við aðgang að sjúkraskrám að þær hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og að upplýsingar í þeim eru trúnaðarmál, sbr. 12. gr.
                  Sjúkraskrár skulu geymdar á tryggum stað og þess gætt að einungis þeir starfsmenn sem nauðsynlega þurfa hafi aðgang að þeim.
                  Tölvunefnd er heimilt samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga að veita aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám, þar með töldum lífsýnum, vegna vísindarannsókna, enda uppfylli rannsókn skilyrði vísindarannsóknar, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga þessara. Unnt er að binda slíkt leyfi þeim skilyrðum sem metin eru nauðsynleg hverju sinni.
                  Í hvert sinn sem sjúkraskrá er skoðuð vegna vísindarannsóknar skal það skráð í hana og ákvæða 1. og 2. mgr. gætt.
    Við 18. gr.
         
    
    Í stað orðsins „heilbrigðisstarfsmaður“ í 1. mgr. komi: læknir.
         
    
    2. mgr. orðist svo:
                            Skylt er að gera sjúklingi grein fyrir því ef unnt er að fá þá meðferð sem hann þarfnast fyrr annars staðar.
    Við 20. gr. Greinin orðist svo:
                  Þrátt fyrir skiptingu landsins í heilsugæsluumdæmi samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu á sjúklingur rétt á að leita til þess læknis sem honum hentar best. Þá á hann rétt á að fá álit annars læknis á greiningu, meðferð, ástandi og batahorfum. Sama gildir um aðra heilbrigðisstarfsmenn.
    Við 21. gr. 2. mgr. falli brott.
    Við 22. gr.
         
    
    Í stað orðsins „heilbrigðisstarfsmaður“ í 2. mgr. komi: læknir.
         
    
    Í stað orðsins „vistunarúrræði“ í 3. mgr. komi: úrræði.
    Við 23. gr. Síðari málsliður 2. mgr. orðist svo: Sjúklingur og nánustu vandamenn hans eiga rétt á að njóta andlegs, félagslegs og trúarlegs stuðnings.
    Við 24. gr.
         
    
    Á eftir orðunum „tilraunum til endurlífgunar skal“ í síðari málslið komi: læknir.
         
    
    Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                            Sé dauðvona sjúklingur of veikur andlega eða líkamlega til þess að geta tekið þátt í ákvörðun um meðferð skal læknir leitast við að hafa samráð við vandamenn sjúklings og samstarfsfólk sitt áður en hann ákveður framhald eða lok meðferðar.
    Við 25. gr.
         
    
    Í stað orðanna „foreldri eða forráðamanni“ í 1. mgr. komi: foreldrum.
         
    
    Fyrri málsliður 2. mgr. orðist svo: Sjúkum börnum skulu veittar upplýsingar að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska.
    Við 26. gr.
         
    
    1. mgr. orðist svo:
                            Foreldrar sem fara með forsjá barns skulu veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára. Eftir því sem kostur er skulu sjúk börn höfð með í ráðum og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri.
         
    
    2. mgr. orðist svo:
                            Neiti foreldrar sem fara með forsjá barns að samþykkja nauðsynlega meðferð, sbr. 1. mgr., skal læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður snúa sér til barnaverndaryfirvalda, sbr. ákvæði barnaverndarlaga.
         
    
    Í stað orðanna „heilbrigðisstarfsmanni skylt að hafa heilbrigði þess að leiðarljósi og grípa tafarlaust til meðferðar sem hann telur nauðsynlega“ í 3. mgr. komi: skylt að hafa heilbrigði þess að leiðarljósi og grípa tafarlaust til nauðsynlegrar meðferðar.
    Við 27. gr.
         
    
    Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                            Hlífa ber börnum við ónauðsynlegum rannsóknum og aðgerðum.
         
    
    2. mgr. (er verði 3. mgr.) orðist svo:
                            Sjúk börn, sem dveljast á heilbrigðisstofnun, eiga rétt á að hafa foreldra eða aðra nána vandamenn hjá sér og skal sköpuð aðstaða fyrir þá eftir því sem kostur er.
         
    
    4. mgr. (er verði 5. mgr.) orðist svo:
                            Sjúk börn á skólaskyldualdri skulu fá kennslu sem hæfir aldri þeirra og ástandi.
    Við 28. gr. 1. mgr. orðist svo:
                  Athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun skal beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar.
    Við 29. gr. Greinin orðist svo:
                  Ráðherra skal setja reglugerð um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Þar skulu m.a. vera ákvæði um vísindasiðanefnd og siðanefndir skv. 4. mgr. 2. gr. Þá er ráðherra heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.