Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 530 . mál.


1203. Nefndarálit



um frv. til l. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steingrím Ara Arason, Áslaugu Guðjónsdóttur og Margréti Gunnlaugsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Grétar Þorsteinsson, Ara Skúlason, Gylfa Arnbjörnsson og Benedikt Davíðsson frá Alþýðusambandi Íslands, Þórarin V. Þórarinsson, Þórð Magnússon og Víglund Þorsteinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Jón Rúnar Pálsson frá Vinnumálasambandinu, Hrafn Magnússon og Þórunni Sveinbjörnsdóttur frá Sambandi almennra lífeyrissjóða, Þorgeir Eyjólfsson frá Landssambandi lífeyrissjóða, Birgi Björn Sigurjónsson og Mörthu Á. Hjálmarsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Björn Arnórsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ólaf Thors og Sigmar Ármannsson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Má Guðmundsson frá Seðlabanka Íslands, Jónas Fr. Jónsson og Birgi Ármannsson frá Verslunarráði Íslands, Rúnar Guðmundsson, Helga Þórsson og Jóhönnu Gústafsdóttur frá Vátryggingaeftirlitinu og Baldur Guðlaugsson, Sigurð R. Helgason, Guðmund Snorrason, Áslaugu Magnúsdóttur, Vigdísi Hauksdóttur og Bolla Magnússon frá Samtökum áhugafólks um lífeyrissparnað. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Árna Reynissyni, löggiltum vátryggingamiðlara, Bandalagi háskólamanna, Félagi frjálslyndra hagfræðinema, Landssambandi lífeyrissjóða, Lífeyrissjóði Tæknifræðingafélags Íslands, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum áhugafólks um lífeyrissparnað, Samtökum verðbréfafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Vátryggingaeftirlitinu, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, Verslunarráði Íslands og Vinnumálasambandinu og sameiginlegar umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands annars vegar og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna og Kennarasambandi Íslands hins vegar.
    Gerðar eru tillögur um breytingar á frumvarpinu á sérstöku þingskjali. Þær eru:
    Lagðar eru til tvær breytingar á 2. gr. Annars vegar er lagt til að skilgreining á sjóðfélaga verði gerð skýrari. Hins vegar er lögð til breyting á 2. mgr. til að taka af öll tvímæli um að aðild samkvæmt ráðningarsamningi víki ávallt fyrir aðild samkvæmt sérlögum eða kjarasamningi. Jafnframt er felld brott tilvísun til samþykkta sjóðanna þar sem 2. málsl. 3. gr. tekur á því atriði.
    Lagt er til að 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. verði skipt í tvo málsliði í því skyni að gera ákvæðið skýrara en þar er ekki um efnisbreytingu að ræða. Jafnframt er lagt til að ráðningarsamningi verði bætt við upptalninguna í 2. málsl. 1. mgr. til samræmis við ákvæði 2. gr.
    Lagt er til að núverandi 8. gr. verði sameinuð 7. gr. frumvarpsins, þó með þeirri breytingu að að lífeyrissjóðir fái að bjóða upp á samninga um lífeyrissparnað, enda fullnægi þeir tilteknum kröfum sem tilgreindar eru í breytingartillögu við 8. gr. (sbr. 4. lið). Þá er lagt til að skilyrðið um starfsstöð hér á landi verði ekki eingöngu látið ná til líftryggingafélaga heldur einnig verðbréfafyrirtækja, viðskiptabanka og sparisjóða, enda geta erlendar bankastofnanir og verðbréfafyrirtæki veitt hér þjónustu án starfsstöðvar. Það er hins vegar óþarft að setja þetta skilyrði varðandi lífeyrissjóðina enda geta erlendir lífeyrissjóðir ekki stundað hér starfsemi samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Lagt er til að í stað núverandi 8. gr., er flyst yfir í 7. gr., komi þau skilyrði sem verða að vera fyrir hendi til þess að lífeyrissjóðir geti boðið upp á samninga um lífeyrissparnað. Gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðir verði að tryggja fjárhagslegan aðskilnað á milli þess hluta rekstrarins sem felst í samtryggingu og þess sem felst í að gera samninga um lífeyrissparnað þannig að rekstur samtryggingasjóðs niðurgreiði ekki rekstur vegna sparnaðarsamninga. Þetta er í samræmi við markmið samkeppnislaga, sbr. einkum 14. gr. þeirra laga. Ekki er verið að gera þá kröfu að rekstur þessara tveggja þátta verði algerlega aðskilinn í sérstökum félögum heldur að kostnaði verði skipt með eðlilegum og ótvíræðum hætti á milli þeirra. Annað skilyrði sem lífeyrissjóður þarf að uppfylla til að taka við iðgjaldi með samningi um lífeyrissparnað er að hann tiltaki þá lágmarkstryggingavernd sem starfsemi hans er ætlað að taka mið af. Miðað við greiðslu iðgjalds í 40 ár og 70 ára ellilífeyrisaldur á lágmark þetta að leiða til þess að sjóðfélögum sé tryggður mánaðarlegur ellilífeyrir til æviloka sem er a.m.k. 50% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af. Lágmarkstryggingaverndin á jafnframt að leiða til samsvarandi örorku-, maka- og barnalífeyrisréttinda, sbr. ákvæði III. kafla frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að ákvæði um lágmarkstryggingavernd verði í samþykktum lífeyrissjóðs og í samræmi við tryggingafræðilega athugun. Iðgjaldi umfram það sem áætlað er að þurfi til að standa undir lágmarksverndinni á hver sjóðfélagi að geta ráðstafað eins og viðbótariðgjaldi til samtryggingar eða í samræmi við samning um lífeyrissparnað og þá hjá viðkomandi lífeyrissjóði eða öðrum. Ákvæði um lágmark tryggingverndar gefur lífeyrissjóði kost á því að útfæra verndina þannig að hún byggi samtímis á samtryggingu, skv. III. kafla, og samningi um lífeyrissparnað skv. II. kafla. Lífeyrissjóður getur því boðið sjóðfélögum sínum að uppfylla lágmarksskilyrðin með því að hluti iðgjalds þeirra fari til samtryggingar og hluti til lífeyrissparnaðar. Þannig er gefinn kostur á því að lágmarksverndin sé tryggð með samþættingu samtryggingar og séreignar. Þá felst einnig í hinu nýja ákvæði að lífeyrissjóðum verði óheimilt að íþyngja eða leggja sérstakan kostnað á sjóðfélaga ef hann kýs að iðgjaldi til lífeyrissparnaðar sé ráðstafað til annars samningsaðila. Þetta er til þess að koma í veg fyrir að sjóðfélögum sé mismunað velji þeir þessa leið.
    Lögð er til breyting á 9. gr. sem leiðir af breytingunum hér á undan og felst í því að leyfa lífeyrissjóðum að taka við iðgjöldum með lífeyrissparnaðarsamningum. Gert er ráð fyrir að í þeim tilvikum þegar lífeyrissjóður tekur við iðgjaldi sem aðeins er ætlað að fara til lífeyrissparnaðar verði hann að ganga úr skugga um að samtryggingarhlutinn hafi verið greiddur til annars lífeyrissjóðs. Þetta á einkum við þegar viðkomandi einstaklingur skilar sjálfur iðgjaldinu en í þeim tilvikum þegar lífeyrissjóður eða samningsbundinn atvinnurekandi skilar því, sbr. breytingu á 8. gr., yrði það að sjálfsögðu óþarft. Í því skyni að tryggja að tiltekið lágmark sé ávallt greitt til samtryggingar þykir nauðsynlegt að gera ríkari kröfur til lífeyrissjóðanna en annarra sem bjóða upp á lífeyrissparnaðarsamninga þar sem starfsemi þessara lífeyrissjóða er blönduð og því mikilvægt fyrir eftirlitsaðila að geta staðreynt að lágmarksupphæð hafi verið greidd til samtryggingar.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 10. gr., annars vegar að lífeyrissjóðum verði bætt við upptalninguna í greininni, sbr. þær breytingar sem lagðar eru til á 7. og 8. gr., og hins vegar að lögfestur verði þriggja mánaða frestur fyrir ráðherra til að taka afstöðu til reglna um samninga um lífeyrissparnað. Eðlilegt er að ráðherra séu sett ákveðin tímamörk í því efni.
    Lagðar eru til breytingar á 11. gr. sem fela í sér að útborgunartími samninga um lífeyrissparnað verði styttur úr 15 árum í sjö ár þannig að hægt verði að taka sparnaðinn út áður en almennar greiðslur úr lífeyrissjóðum hefjast. Þetta ætti að gera þeim sem gert hafa slíka samninga um lífeyrissparnað kleift að minnka við sig vinnu eftir 60 ára aldur.
    Lögð er til breyting á 13. gr. þannig að tekin séu af öll tvímæli um að ávinnsla lífeyrisréttinda vegna viðbótariðgjalds og lágmarksiðgjalds þurfi ekki að fara saman.
    Lögð er til breyting á heiti III. kafla til samræmis við breytingartillögur um að lífeyrissjóðir geti verið með séreignadeildir.
    Lagt er til að almennt ákvæði 1. mgr. 20. gr. um starfsemi lífeyrissjóða verði gert skýrara og tekið verði mið af þeirri staðreynd að innlán í bönkum og sparisjóðum teljast ekki til verðbréfa.
    Eins og segir í 2. mgr. 21. gr. skulu 800 sjóðfélagar að jafnaði vera í lífeyrissjóði nema sjóðurinn tryggi áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna með öðrum hætti. Lagt er til að slík áhættudreifing þurfi að fara fram í samræmi við tryggingfræðilega athugun ef sjóðfélagar eru færri en 800 þannig að þeir séu ekki lakar tryggðir en sjóðfélagar í stærri sjóðum. Gert er ráð fyrir að ráðherra kveði nánar á um þetta í reglugerð.
    Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 24. gr. að tryggingafræðileg athugun verði gerð á fjárhag lífeyrissjóða árlega en ekki þriðja hvert ár til þess að tryggja enn frekar það markmið frumvarpsins að lífeyrissjóður eigi jafnan fyrir skuldbindingum sínum. Breytingartillögu við 3. mgr. leiðir af framangreindu.
    Lagt er til að orðalagi 5. tölul. 2. mgr. 29. gr. verði breytt þannig að stjórn lífeyrissjóðs tilnefni fulltrúa í stjórnir félaga sem sjóður á aðild að í stað þess að hún ákveði hver taki þar sæti. Eðlilega er það aðalfundur hlutaðeigandi félags sem formlega ákveður hver taki sæti í stjórn þess.
    Bent hefur verið á að kostnaðarsamt geti verið að senda öllum sjóðfélögum lífeyrissjóðs skriflega tilkynningu um fundarboðun á ársfund eins og 2. mgr. 30. gr. gerir ráð fyrir. Því er lagt til að skilyrði um skriflega boðun sé fellt brott. Boðun með tryggilegum hætti ætti þannig að vera fullnægt með tilkynningu í fjölmiðlum.
    Lögð er til sú breyting á 5. tölul. 1. mgr. 35. gr. að í stað þess að tala um „tekjur“ lífeyrissjóðs verði notuð orðin „iðgjöld og annað ráðstöfunarfé“. Breytingin er lögð til þar sem fjármunir þeir, sem lífeyrissjóðir veita viðtöku í formi iðgjalda og vaxta til greiðslu lífeyris vegna elli, örorku eða andláts samkvæmt lögum þessum, teljast ekki til „tekna“ í eiginlegum skilningi þess orðs.
    Lagt er til að í 36. gr. verði talað um „bankaeftirlit Seðlabanka Íslands“ í stað þess að tala um „bankaeftirlitið“. Í frumvarpinu er ýmist vísað til bankaeftirlitsins eða bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Til þess að gæta innbyrðis samræmis er lagt til að það verði tilgreint sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands í fyrsta sinn sem til þess er vitnað í hverjum kafla.
    Lögð er til breyting á 37. gr. um að orðin „jafnskjótt og það er talið hagkvæmt“ falli brott þar sem þau hafi ekki sjálfstæða þýðingu með tilliti til málsliðarins sem á eftir kemur.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 39. gr. 1. mgr. ákvæðisins fjallar um hreina eign til greiðslu lífeyris. Í því sambandi er átt við hreina eign til greiðslu lífeyris eftir endurmat vegna núvirðingar eigna, sbr. niðurlag 1. mgr. 24. gr., en ekki hreina eign til greiðslu lífeyris samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi. Lagt er til að við bætist nýr málsliður þar sem tekin verði af öll tvímæli um þetta atriði. Þá er lagt til að við bætist ný málsgrein um sérstök hæfisskilyrði tryggingafræðinga lífeyrissjóða. Sambærilegt ákvæði er í 42. gr. hvað varðar endurskoðendur lífeyrissjóða.
    Lögð er til smávægileg orðalagsbreyting á 45. gr.
    Lögð er til orðalagsbreyting á 51. gr. þannig að talað verði um „banka“ en ekki „ríkisbanka“. Breytingin lýtur bæði að því að ákvæðinu er jafnframt ætlað að ná til Seðlabanka Íslands, en einnig að stefnt er að því að breyta ríkisbönkunum svokölluðu, þ.e. Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands, í hlutafélög um næstu áramót.
    Af breytingartillögum við 7. og 8. gr. frumvarpsins leiðir að lagt er til að 55. gr. falli brott.
    Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 56. gr.
    Lagt er til að gildistöku frumvarpsins verði frestað um sex mánuði, þ.e. til næstu áramóta, enda þarf mikil undirbúningsvinna að fara fram áður en lögin geta tekið gildi.
    Þrír nefndarmenn rita undir álit þetta með fyrirvara. Pétur H. Blöndal ritar undir með fyrirvara þar sem hann hyggst leggja fram sérstakar breytingartillögur við tvö atriði. Annars vegar um að lífeyrissjóðirnir og inneign á grundvelli samninga um lífeyrissparnað teljist eign sjóðfélaga. Hins vegar að félagsfundur fari með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðs og að sjóðfélagar kjósi stjórn sjóðsins beinni kosningu. Fyrirvari Einars Odds Kristjánssonar varðar 2. gr. frumvarpsins og þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á henni. Hann telur nauðsynlegt að aðilar vinnumarkaðarins og Samtök áhugafólks um lífeyrissparnað í samvinnu við efnahags- og viðskiptanefnd reyni að ná saman um orðalag þess ákvæðis í sumar. Sátt um þetta atriði sé grundvallarforsenda fyrir farsælli lausn málsins. Ólafur Þ. Þórðarson er með almennan fyrirvara við málið.

Alþingi, 12. maí 1997.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Pétur H. Blöndal,


form., frsm.

með fyrirvara.



Sólveig Pétursdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson,

Ólafur Þ. Þórðarson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.